Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 364 . mál.


641. Frumvarp til lagaum Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.


    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
    Stofnunin er samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi og er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði.
    Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri.

2. gr.


    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar skal leitast við að ná markmiðum sínum með því að:
    safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða,
    stuðla að því að umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gera tillögur um forgangsröð þeirra,
    miðla fræðslu um málefni norðurslóða til skóla og almennings,
    vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun,
    annast samstarf við sambærilegar stofnanir erlendis, t.d. um rekstur fjölþjóðlegra verkefna,
    skapa aðstöðu fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknarstörf á fræðasviði stofnunarinnar og
    sinna öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun ráðherra.

3. gr.


    Umhverfisráðherra skipar Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn.
    Formaður samvinnunefndar um málefni norðurslóða, sbr. 5. gr., skal vera formaður stjórnar, en hinir tveir skulu tilnefndir af samvinnunefndinni. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin hefur í umboði ráðherra æðsta vald í málefnum stofnunarinnar. Hún fjallar um starfs- og fjárhagsáætlanir hennar og hefur eftirlit með fjárreiðum og ráðstöfun fjár.

4. gr.


    Umhverfisráðherra skipar forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstöðumaður skal hafa lokið framhaldsnámi og stundað rannsóknir sem tengjast fræðisviði stofnunarinnar.


Prentað upp.

    Forstöðumaður fer í umboði stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar með daglega stjórn stofnunarinnar og hefur umsjón með rekstri hennar. Hann skal í samráði við stjórn annast stenumótun og áætlanagerð og hafa umsjón með fjáröflun.
    Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórn stofnunarinnar.

5. gr.


    Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um málefni norðurslóða til fjögurra ára í senn. Í stjórninni skulu eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum sem hafa með höndum verkefni er tengjast norðurslóðarannsóknum. Um fjölda nefndarmanna og
samsetningu fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Umhverfisráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar.
    Hlutverk nefndarinnar er að leitast við að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

6. gr.


    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum samvinnunefndar um málefni norðurslóða, reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Í september 1995 skipaði Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra samvinnunefnd um norðurmálefni í samræmi við ályktun Alþingis um stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri frá 25. febrúar 1995. Eins og kemur fram í erindisbréfi nefndarinnar er hlutverk samvinnunefndar um norðurmálefni „að tengja saman og treysta samstarf hlutaðeigandi stofnana sem annast hafa og annast munu rannsóknir á norðurslóðum, svo og tengsl og samstarf um málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar“. Nefndinni var jafnframt falið í samráði við ráðuneytið að vinna að undirbúningi Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem ætlað er að hefja starfsemi í ársbyrjun 1997, og útbúa frumvarp þar að lútandi. Í nefndinni eiga sæti eftirfarandi:
    Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri, formaður, skipaður án tilnefningar, Davíð Egilson, forstöðumaður, tilnefndur af Hollustuvernd ríkisins, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristján Kristjánsson, forstöðumaður, tilnefndur af Rannsóknarráði Íslands, Steingrímur Jónsson útibússtjóri, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun, Þorsteinn Gunnarsson rektor, tilnefndur af Háskólanum á Akureyri, Þorsteinn Tómasson forstjóri, tilnefndur af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Þór Jakobsson verkefnisstjóri, tilnefndur af Veðurstofu Íslands, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, tilnefnd af Háskóla Íslands.
    Sigurður Snorrason, dósent við Háskóla Íslands, tók sæti Þóru Ellenar Þórhallsdóttur í nefndinni í janúar 1996. Starfsmaður nefndarinnar var Níels Einarsson mannfræðingur, sérfræðingur við Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands. Honum var falið að vera ritari nefndarinnar auk þess að afla upplýsinga um norðurslóðastofnanir erlendis og norðurslóðarannsóknir hérlendis og tengsl innlendra rannsókna við alþjóðlega rannsóknastarfsemi. Frumvarpið eins og það liggur hér fyrir er að meginefni til í samræmi við tillögur samvinnunefndarinnar frá 22. ágúst sl. sem fjallaði um frumvarpið á nokkrum fundum auk þess sem nefndin hélt nokkra fundi með umhverfisráðuneytinu um frumvarpið.

Helstu atriði frumvarpsins.


    Helstu atriði frumvarpsins eru þessi:
    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verður í lögunum skilgreind sem samstarfsvettvangur innan lands um málefni norðurslóða. Stofnuninni skal skipuð sérstök stjórn og forstöðumaður með þekkingu á þeim málefnum sem stofnuninni er ætlað að sinna.
    Ráðherra skipar samvinnunefnd um málefni norðurslóða sem hefur það hlutverk að efla samstarf um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, treysta samstarf innan lands og vera ráðherra til ráðgjafar.
    Stofnunin skal efla rannsóknir, fræðslu og samstarf innan lands um málefni norðurslóða.
    Stofnunin skal vinna að aukinni hlutdeild Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi um norðurslóðamálefni.
    Stofnunin mun heyra undir umhverfisráðherra og hafa aðsetur á Akureyri.

Breytingar á norðurslóðum.


    Á síðustu árum hefur mönnun orðið ljóst að mannlíf og náttúra á norðurslóðum á undir högg að sækja. Eðli þeirra vandamála sem er við að etja er slíkt að þau verða ekki leyst nema með þverfaglegu og fjölþjóðlegu samstarfi. Vandamálin eru í senn af vistrænum og félagslegum toga spunnin, flókin og ofvaxin einstökum vísindagreinum. Menn gera sér sífellt skýrari grein fyrir mikilvægi þverfaglegs samstarfs vísindagreina í fjölþjóðlegri samvinnu og nauðsyn samráðs við íbúa norðurslóða.
    Á skömmum tíma hafa þjóðfélög á heimskautaslóðum þurft að aðlagast gjörbreyttum aðstæðum þegar veiðimannasamfélög hafa, nauðug eða viljug, tekið upp menningu og lifnaðarhætti vesturlandabúa. Þessi aðlögun hefur ekki verið sársaukalaus og leitt til alvarlegra þjóðfélagsvandamála, en einnig til aukinnar vitundar heimamanna um nauðsyn pólítískrar þátttöku á alþjóðavettvangi. Meginviðfangsefni slíkrar viðleitni hefur verið rétturinn til eigin menningar og viðhalds hennar, eigin lands og að fá að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt í samræmi við eigin þarfir og gildismat.
    Í umfjöllun um málefni norður- og norðurskautsslóða verður vart komist hjá því að fjalla um skilgreiningu þessara hugtaka eða hvers vegna þröng skilgreining eigi hugsanlega ekki við, enda slíkt verulegu bundið fræðigreinum og viðfangsefnum. Við fyrstu sýn mætti halda því fram að norðurheimskautsbaugur, sem liggur samsíða miðbaug á 66. gráðu og 33. mínútu norðlægrar breiddar, sé augljóslega til þess fallinn að skilgreina heimskautasvæði og norðurslóðir. Þetta er þó of handahófskennd skilgreining sem tekur lítið tillit til þeirra náttúrulegu og félagslegu þátta sem auðkenna norðurslóðir. Heimskautsbaugur vísar einungis til þess staðar á hnettinum þar sem sólin er sýnileg yfir sjóndeildarhring í 24 tíma lengstu daga ársins og undir sjóndeildarhring 24 tíma þá stystu. Þessi skilgreining hefur takmarkað gildi fyrir flesta þá sem fást við heimskautasvæði. Náttúruvísindamenn miða gjarnan við fyrirbæri sem tengjast eðlisvísindalegum og líffræðilegum einkennum norðurslóða. Ein viðmiðun er þannig að hitastig við yfirborð jarðar sé mest 10 gráður að meðaltali heitasta mánuð ársins, önnur miðar við trjábeltið sem skilur lífbelti freðmýranna frá lífbelti gresjanna, enn önnur miðar við suðurmörk sífrera og að lokum má nefna staðsetningu ísrandar yfir vetrarmánuði. Slík viðmið hafa ýmislegt til síns ágætis, sérstaklega fyrir einstakar fræðigreinar, en munurinn milli þeirra er þó mikill varðandi syðri mörk heimskautasvæðisins. Fyrir félagsvísindamenn, sem beina augum sínum að samfélögum manna á norðurslóðum, gagnast þannig skilgreiningar alls ekki enda skera slíkar landfræðilegar og aðrar línur þvert á þau svæði sem hópar fólks byggja. Þó er rétt að taka það fram að Ísland er nær undantekningarlaust talið til heimskautasvæðisins þegar fjallað er um samfélög á norðurslóðum. Hér er farin sú leið að forðast samræmandi skilgreiningu á hugtakinu norðurslóðir eða norðurslóðamálefni í landfræðilegum skilningi. Ein ástæðan er sú að slík tilraun mundi til dæmis ekki taka nægilegt tillit til orsakaþátta sem eiga að mestu upptök sín neðar á hnettinum og má þar til dæmis nefna þynningu ózonlagsins, gróðurhúsaáhrif, þrávirk lífræn efni, geislavirkan úrgang og starfsemi umhverfisverndarhreyfinga sem áhrif hafa á norðurslóðum.
    Norðurheimskautssvæðið tilheyrir þeim svæðum á jörðu sem enn eru tiltölulega óspillt af manna völdum. Á þessu eru að verða hraðfara breytingar með aukinni mengun af ýmsu tagi og sýna niðurstöður mælinga að mengun, sem á sér upptök í iðnaðarþjóðfélögum sunnar á hnettinum, berst til Norðurskautssvæðisins í andrúmslofti og með sjávarstraumum og ám. Efni á borð við DDT og PCB hlaðast upp í vistkerfinu og er þegar að finna í talsverðu magni í fólki, spendýrum í sjó og á landi, fuglum og fiski. Losun þungmálma og eitraðra lofttegunda á suðlægum breiddargráðum, sem og á heimskautasvæðunum sjálfum, hefur skaðvænleg áhrif á dýralíf og gróður. Geislavirkur úrgangur hefur auk þess borist til norðurskautssvæða í kjölfar tilraunasprenginga, kjarnorkuslysa og hernaðarumsvifa. Einnig má nefna að geislavirkur úrgangur er geymdur á landi eða hefur verið losaður í höf á norðurslóðum.
    Til viðbótar mengun á norðurslóðum hafa menn vaxandi áhyggjur af þeirri hættu sem gróðri, dýrum og mönnum stafar af aukinni útfjólublárri geislun vegna þynningar ósonlagsins yfir norðurskautssvæðinu. Lítið er þó enn vitað um það hversu langvarandi áhrif allt þetta kemur til með að hafa á norðurslóðum en rannsóknir eru taldar ákaflega brýnar.
    Hnattrænar veðurfarsbreytingar auka enn þann vanda sem blasir við framtíð mannlífs og náttúru á norðurslóðum. Sum reiknilíkön gefa til kynna að hækkun hitastigs af völdum gróðurhúsaáhrifa geti orðið þrisvar til fimm sinnum meiri á norðurheimskautssvæðinu en annars staðar. Ísland mun hugsanlega ekki verða fyrir sömu hitabreytingum vegna áhrifa sem breytingar á hafstraumum gætu haft í för með sér. Slíkar breytingar eru þó áhyggjuefni fyrir Íslendinga þar sem lífríki sjávar, og þar með gjöful fiskimið, er að miklu leyti undir hafstraumum komið. Veðurfar á Íslandi og skilyrði í hafi mótast mjög af því að eyjan er á mótum ólíkra hafstrauma og loftstrauma sem koma að norðan og sunnan. Loftslag hér geldur nálægðar við Austur-Grænlandsstrauminn og sjálft Grænland sem hvort tveggja er eins konar framlenging af norðurheimskauti.
    Ofnýting náttúruauðlinda og álag á vistkerfi heimskautasvæða er einnig mikið áhyggjuefni. Þá er hætta á að fágætar og viðkvæmar dýra- og jurtategundir líði undir lok ef ekki er brugðist við á einhvern hátt, t.d. með sérstakri verndun svæða. Unnið er að slíkum aðgerðum vegna líffræðilegs fjölbreytileika innan CAFF-þáttar umhverfisáætlunar Rovaniemi-samstarfsins. Þar er einnig stefnt að víðtækri vöktun gróður- og dýralífs, í samvinnu við heimamenn á norðursvæðum.
    Þessar breytingar, sem geta til lengri tíma stofnað mannlífi og náttúru í hættu, eru að mestu af manna völdum. Sama gildir um þá erfiðleika sem nýtendur villtra spendýra á norðurslóðum hafa þurft að horfast í augu við talsvert á annan áratug. Þegar Vilhjálmur Stefánsson talaði um norðurslóðir Kanada sem heimskautalöndin unaðslegu kom skýrt fram sú afstaða hans að heimskautalöndin væru vel byggileg og engan veginn dæmd til að vera eyðilegt jaðarsvæði. Hann hélt því fram að í norðri væri gnótt náttúrulegra gæða ef menn lærðu að nýta sér þau og færu þangað á sömu forsendum og það fólk sem þar hefur búið í árþúsundir. Mikilvægasti þátturinn væri hins vegar að nýta alla náttúruna eins og hún kemur fyrir, en reyna ekki að velja úr einstakar dýrategundir og auðlindir. Þetta lífsviðhorf og boðskapur Vilhjálms Stefánssonar er enn í fullu gildi fyrir frumbyggja heimskautaslóða og aðra sem lifa að mestu af veiðum villtra dýra þótt utanaðkomandi áhrif hafi gert það æ erfiðara að lifa samkvæmt þessum grundvallarreglum mannvistar á norðursvæðum.
    Hagsmunir Íslendinga felast ekki síst í því að vinna gegn umhverfismengun og rányrkju auðlinda sem til lengri tíma litið ógnar allri lífsafkomu í norðri og að vinna að því að skapa skilning og viðurkenningu á rétti norðurslóðabúa til að nýta lífríkið á sjálfbæran hátt. Möguleikar smáþjóða á borð við Íslendinga til að hafa áhrif á alþjóðavettvangi eru einna helst fólgnir í virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Dæmi um slíkt samstarf er t.d. í umhverfisáætlun Rovaniemi-samstarfsins sem er víðtæk samvinna norðurskautsríkjanna átta um vöktun og rannsóknir á lífríki og umhverfi norðurslóða í samvinnu við heimamenn, enn fremur starf nýstofnaðs norðurskautsráðs (Arctic Council) sem mun beita sér sérstaklega í sameiginlegum hagsmunamálum sem varða sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda, umhverfismál og félagsleg málefni frumbyggja og annarra sem búa á norðurslóðum.
    Nokkrar íslenskar stofnanir koma að málefnum norðurslóða og hafa tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi vegna rannsóknarverkefna, hver á sínu sviði. Þótt ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða má nefna stofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun, Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Hollustuvernd Ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknarráð Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Veðurstofu Íslands. Þessar stofnanir starfa þegar saman að undirbúningi að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og aðild að samvinnunefnd um norðurmálefni. Innan þessara stofnana er að finna mikla þekkingu og reynslu í rannsóknum og alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.
    Íslendingar hafa verið aðilar að Rovaniemi-samstarfi norðurskautsríkjanna átta, Bandaríkjanna, Danmerkur f.h. Grænlands, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, frá 1989 og samþykktu umhverfisáætlun þess, AEPS (Arctic Environmental Protection Strategy), árið 1991. AEPS gerir ráð fyrir víðtækri samvinnu norðurskautsríkjanna um vöktun og rannsóknir á lífríki og umhverfi norðurslóða í samvinnu við heimamenn. Verksvið AEPS greinist í fjóra meginþætti:
    CAFF — Conservation of Arctic Flora and Fauna.
    AMAP — Arctic Monitoring and Assessment Program.
    PAME — Protection of the Arctic Marine Environment.
    EPPR — Emergency Prevention Preparedness and Response.
    Fyrir Íslands hönd hefur Hollustuvernd ríkisins haft umsjón með þremur þessara verkþátta, þ.e. AMAP, PAME og EPPR. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið þátt í starfi CAFF-nefndarinnar sem sinnir sérstaklega verkefnum sem lúta að vernd og vöktun lífríkis og náttúru, fánu og flóru á norðurskautsslóðum.
    Rannsóknarráð Íslands tekur fyrir Íslands hönd þátt í starfi alþjóðaráðs norðurvísinda, IASC. IASC eru alþjóðleg samtök um rannsóknir á norðurslóðum sem stofnuð voru í ágúst 1990 og að stóðu háskóla- og vísindaráð í heimskautalöndunum átta. Síðan hafa bæst við Bretland, Þýskaland, Frakkland, Pólland, Japan og Sviss. Fyrir liggja umsóknir frá Kína og Ítalíu um inngöngu í ráðið. Aðalmarkmið ráðsins er að setja saman rannsóknaráætlanir sem byggjast á þverfræðilegum grunni og beinast að knýjandi og lítt rannsökuðum vandamálum á heimskautaslóðum, aðallega í norðri og að greiða fyrir alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi.
    Þáttur norðurskautsráðsins ætti að geta orðið stór í samstarfi norðurskautsríkjanna átta, sérstaklega á sviði sameiginlegra hagsmunamála sem varða sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda, umhverfismál og félagsleg málefni frumbyggja og annarra heimskautabúa. Norðurlöndin hafa lýst yfir þeim vilja sínum, sbr. tillögu norrænu ráðherranefndarinnar í nóvember 1995 sem lögð var fyrir fund Norðurlandaráðs í Kuopio, að norðurskautsráðið verði framtíðarsamstarfsvettvangur norðurskautsríkjanna og frumbyggja norðurslóða. Norðurskautsráðið muni þannig taka yfir og þróa AEPS-samstarfið í umhverfismálum. Önnur meginstoð samstarfsins verður á sviði sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Það starf, ASDI (Arctic Sustainable Development Initiative), verður á sviði félags-, efnahags- og menningarmála og mun hafa sem sérstakt markmið að stuðla að sjálfbærri þróun í sátt við umhverfið og eflingu rannsókna á því sviði.
    Norrænt samstarf um málefni norðurskautssvæðisins er fjölþætt og hefur verið að aukast síðastliðin ár, ekki síst um umhverfismál. Frá 1985 hefur verið í gangi innan Norðurlandaráðs vestnorrænt samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands. Nordkalotten-nefndin hefur verið starfandi frá 1971. Norræna ráðherranefndin lagði nýlega fram áðurnefnda tillögu um samstarf varðandi norðurskautssvæðið fyrir 47. þing Norðurlandaráðs í Kuopio. Þar er lagt til að samstarf Norðurlanda verði stóraukið og sameiginleg stefna mótuð í veigamiklum málaflokkum. Í tillögunni er bent á að þörf sé fyrir aukna samræmingu í norrænu samstarfi til að minnka tvíverknað og að koma þurfi á samstarfsvettvangi fyrir slíka samræmingu. Lagt er til að Norðurlöndin sameinist í mun meira mæli um verkefni á vegum landanna og í alþjóðlegu samstarfi. Einnig er undirstrikuð nauðsyn þess að norðurskautsráðið verði að veruleika og að þar verði unnið að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd á norðurskautssvæðinu með þátttöku heimamanna og með velferð þeirra að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að samstarf norðurslóðastofnana á Norðurlöndum verði styrkt. Tillaga ráðherranefndarinnar er í beinu framhaldi af þeirri stefnu sem Norðurlöndin hafa markað og er að finna í ráðleggingum Norðurlandaráðs (31/1992 og 4/1994), ályktun frá norðurskautsráðsstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík 1993 og skýrslu um norðurmálefni sem ráðherranefndin kynnti á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 1995 (NORD 1995:11).
    Hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar yrði m.a. að stuðla að því að Íslendingar geti í sameiningu lagt sitt af mörkum til þessara mikilvægu málaflokka. Rovaniemi-samstarfið, alþjóðaráð norðurvísinda, norðurskautsráðið og átak í samvinnu Norðurlandanna um málefni norðurskautsins eru dæmi um stóraukna fjölþjóðlega og þverfaglega samvinnu á norðurslóðum. Vegna þessa ber brýna nauðsyn til að íslensk stofnun hafi yfirsýn og hvetji til verkefna í anda þeirrar þróunar sem á sér stað í hliðstæðum stofnunum í nágrannalöndunum. Vekja skal athygli á að hér er um að ræða stofnun með nýtt hlutverk sem ekki er sinnt af þeim stofnunum sem fyrir eru og hafa með höndum rannsóknir og aðra starfsemi sem tengist norðurslóðum.

Nafn stofnunarinnar.


    Nafn Vilhjálms Stefánssonar (1879–1962) er órofa tengt norðurskautsslóðum og könnun þeirra. Hann er þekktastur fyrir að ferðast í fimm ár óslitið (1913–1918) og stunda mannfræðirannsóknir og landkönnun á heimskautasvæðum Kanada en alls dvaldi hann um 12 ár á þeim slóðum. Hann lærði tungumál og kynntist menningu Inúíta og tileinkaði sér lifnaðarhætti þeirra. Síðar varð hann kunnur sem boðberi þess að Evrópubúar gætu, líkt og Inúítar, lifað á heimskautaslóðum og nýtt sér gæði þeirra, að því tilskildu að þeir lærðu að umgangast náttúruöflin að hætti heimamanna.
    Í starfi sínu varð nefndin vör við mikinn áhuga og velvilja gagnvart Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og því hlutverki sem henni er ætlað að gegna. Þetta má að verulegu leyti þakka þeirri hugmynd að láta stofnunina bera nafn þessa mikilhæfa vísindamanns og fræðara um málefni norðurslóða sem Halldór Laxness lét svo um mælt í ritsmíð árið 1927 að þar væri „sá sem hefur einna víðast sjónarsvið allra manna sem rita bækur nú á tímum og auðugasta útsýn yfir víðerni mannlífsins  . . . “ Vilhjálmur var fjölhæfur fræðimaður og það á því sérlega vel við að kenna við hann stofnun sem hafa skal þverfaglegt starf að leiðarljósi.

Verkefni og umfang Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.


    Fram kemur í lagafrumvarpinu um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar að tilgangur hinnar nýju stofnunar sé að auka og efla samstarf þeirra innlendu stofnana sem hafa sinnt rannsóknum á málefnum norðurslóða. Stofnunin mun einnig gegna því hlutverki að samhæfa yfirlit um innlendar rannsóknir og stuðla að aukinni þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi sem verður sífellt meira með auknu mikilvægi norðurslóða, ekki síst hvað umhverfismál varðar. Stofnuninni er ætlað að hafa þverfaglegt svipmót og vinna að heildarsýn á málefni norðurslóða. Slík áhersla er mjög í anda þess starfs sem er verið að vinna að í alþjóðaráði norðurvísinda, í framkvæmdaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautsins og ekki síst í umræðum um stofnun norðurskautsráðs. Skortur á heildarsýn er einmitt kjarninn í gagnrýni frumbyggja og annarra heimamanna á vísindarannsóknir á norðurslóðum, þ.e. að einstakar vísindagreinar hafi gjarnan þröngt sjónarhorn í leit sinni að þekkingu, horfi í rangan enda sjónaukans og vanti samtvinnun náttúru, mannlífs og menningar. Eitt af hlutverkum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gæti verið, í samstarfi við aðrar norðurslóðastofnanir og aðila innan lands, að stuðla að faglegri umræðu um umhverfismál og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Forsenda slíkrar umræðu er hins vegar skilningur á þeim hnattrænu umhverfisbreytingum, félagslegu og efnislegu, sem hafa orðið og halda áfram að verða í heiminum öllum. Þó svo að meginhlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sé í því fólgið að vera samstarfsvettvangur um málefni norðurslóða og upplýsingamiðlunar um þau útilokar það ekki að þeir sem við stofnunina vinna geti átt aðild að sjálfstæðum rannsóknum, ekki síst ef þær rannsóknir fela í sér ný verkefni á sviðum sem hafa verið vanrækt. Slík verkefni gætu t.d. varðað þverfaglegar og altækar (holistic) rannsóknir á umhverfismálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda á norðurslóðum.
    Stofn- og rekstrarkostnaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar fer eftir umfangi starfseminnar en gert er ráð fyrir að um sé að ræða tvö og hálft stöðugildi. Þar er um að ræða stöðu háskólamenntaðs forstöðumanns og stöðu sérfræðings auk hálfrar stöðu skrifstofumanns. Húsrýmisþörf er áætluð u.þ.b. 80 fermetrar og er þá allt meðtalið. Kostnaður við stofnunina verður að mestu leyti vegna launa, en einnig af rannsóknarverkefnum, styrkjum, ferðum, búnaði og störfum stjórnar. Nokkuð snemmt er að tala um sértekjur, t.d. vegna þátttöku í innlendum og erlendum verkefnum, eða vegna gjafa sem stofnuninni kunna að berast, en slíkt er ekki óraunhæfur möguleiki þegar fram í sækir. Slíkar tekjur eru drjúgur tekjuliður hliðstæðra stofnana erlendis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin kveður á um hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Með samráði stofnunarinnar við samvinnunefnd um málefni norðurslóða á að tryggja samvinnu innlendra stofnana og efla íslenskar rannsóknir á norðurslóðum.
    Í greininni er kveðið á um að stofnunin skuli vera sjálfstæð og hafa aðsetur á Akureyri.

Um 2. gr.


    Í greininni er að finna skilgreiningar á helstu verkefnum sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ætlað að sinna. Henni er ætlað, í samstarfi við samvinnunefnd um málefni norðurslóða, að vera miðstöð innan lands fyrir málefni norðurslóða og rannsóknir á því sviði. Gert er ráð fyrir að stofnunin hafi með höndum öflun upplýsinga og miðlun þeirra og að stofnunin hafi náið samstarf við hliðstæðar stofnanir erlendis. Einnig er kveðið á um að eitt aðalverkefna hennar sé á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Kveðið er á um að stofnunin samræmi og hafi yfirlit yfir þátttöku Íslendinga í alþjóðlegum verkefnum sem tengjast norðurslóðum. Tekið er fram að stofnunin geti rækt hlutverk sitt með því að taka að sér alþjóðleg verkefni, t.d. á vegum umhverfisáætlunar Rovaniemi-samstarfsins. Gert er ráð fyrir að stofnunin veiti styrki til rannsókna á sviði stofnunarinnar og að styrkirnir skuli kenndir við Vilhjálm Stefánsson.

Um 3. gr.


    Hér er fjallað um stjórn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, skipan hennar og verksvið. Til að tryggja megi samfellu í starfi stofnunarinnar og tengsl hennar við aðrar stofnanir sem sinna norðurslóðamálefnum er gert ráð fyrir að formaður samvinnunefndar um málefni norðurslóða sé jafnframt formaður stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Af sömu ástæðu er gert ráð fyrir að samvinnunefnd um málefni norðurslóða tilnefni tvo fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Stjórninni er ætlað að hafa yfirumsjón með rekstri stofnunarinnar.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um að forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sé framkvæmdastjóri stjórnar stofnunarinnar. Kveðið er á um að ráðherra skipi forstöðumann til fimm ára. Gert er ráð fyrir að hann hafi lokið framhaldsnámi og hafi stundað rannsóknir á fræðasviði stofnunarinnar. Nauðsynlegt er að forstöðumaður hafi skilning á eðli rannsókna og því er kveðið á um að hann skuli hafa stundað sjálfstæðar vísindarannsóknir. Kveðið er á um að forstöðumaður í samráði við stjórn annist áætlanagerð, samræmi fjáröflunarleiðir og ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um skipun samvinnunefndar um málefni norðurslóða. Meginhlutverk hennar er að treysta samstarf hlutaðeigandi stofnana. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji reglugerð um hvaða stofnanir tilnefni í nefndina, um fjölda nefndarmanna og þess háttar og að ráðherra skipi formann án tilnefningar.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Stofnun Vilhjálms


Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða.


    Á 118. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Í framhaldi af þeirri samþykkt skipaði umhverfisráðherra samvinnunefnd um norðurmálefni. Frumvarpið er byggt á tillögum nefndarinnar.
    Helstu þættir, er munu leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, eru að mati fjármálaráðuneytis eftirfarandi:
1.    Samkvæmt frumvarpinu skal Stofnun Vilhjálms Stefánssonar vera sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað– um umfang stofnunarinnar. Er þar miðað við að tvö og hálft starf verði við stofnunina. Húsrýmisþörf er áætluð um 80 m 2. Ætla má að árlegur rekstrarkostnaður stofnunarinnar nemi 10,5–11 m.kr. Þar af eru laun áætluð 6,5 m.kr. og önnur rekstrargjöld um 4–4,5 m.kr.
2.    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar skal skipuð þriggja manna stjórn. Ætla má að kostnaður verði 0,5 m.kr. á ári og er þá miðað við stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Stjórnarmenn þar eru þrír og hlutverk stjórnar svipað og fyrirhugaðrar stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
3.    Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Um fjölda nefndarmanna og samsetningu skal fara samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Nefndin hefur þegar verið skipuð og eru nefndarmenn níu auk starfsmanns en hann var einungis ráðinn tímabundið og er ekki fyrirhugað að nefndin hafi starfsmann framvegis. Að mati umhverfisráðuneytis er ekki talið að nefndin muni hittast oft á ári en hins vegar má gera ráð fyrir nokkrum ferðakostnaði. Það er mat fjármálaráðuneytis að árlegur kostnaður af nefndinni verði 1–1,5 m.kr.
    Að öllu samanlögðu telur fjármálaráðuneytið að árlegur rekstrarkostnaður geti orðið 12–13 m.kr. verði frumvarpið óbreytt að lögum. Til viðbótar við rekstrarframlag verður að gera ráð fyrir tækja- og búnaðarkaupum og hugsanlegum innréttingarkostnaði í nýju húsnæði. Kostnaður þessi er metinn á um 2 m.kr. Heildarkostnaður nemur þannig 14–15 m.kr. Framlag í frumvarpi til fjárlaga 1997 til stofnunarinnar er 3,1 m.kr.