Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 172 . mál.


655. Nefndarálit



um frv. til l. um vinnumarkaðsaðgerðir.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



         Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins Gissur Pétursson, Margréti Tómasdóttur, Gunnar E. Sigurðsson og Ingvar Sverrisson. Þá komu til fundar Birgir Ármannsson frá Verslunarráði, Oddrún Kristjánsdóttir frá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar, Þórður Skúlason og Sigríður Stefánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Martha Hjálmarsdóttir og Birgir Björn Sigurjónsson frá BHM, Sigríður Kristjánsdóttir og Sjöfn Ingólfsdóttir frá BSRB, Jón H. Magnússon frá VSÍ, Þórir Þorvarðarsson frá Hagvangi, Hervar Guðmundsson frá ASÍ, Ásmundur Hilmarsson frá MFA, Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, Ellert Eiríksson frá Reykjanesbæ, Oddur Albertsson frá Lýðskólanum, Ólafur M. Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri blaðsins Gegn atvinnuleysi, Logi Sigurfinnsson frá Hinu húsinu, Anna Kristín Halldórsdóttir og Kristín Ingunnardóttir frá Vinnuklúbbnum, Jón Erlendsson frá upplýsingaþjónustu Háskóla Íslands og Rögnvaldur Sigurjónsson frá atvinnudeild Akureyrarbæjar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi háskólamanna, Félagi framhaldsskólanema, Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Akraneskaupstað, upplýsingaþjónustu Háskólans, Verslunarráði Íslands, Akureyrarbæ, Mosfellsbæ, Selfosskaupstað, Landssambandi íslenskra verslunarmanna, Læknafélagi Íslands, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Vinnumálasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vesturbyggð, vinnumálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstað og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í 8. gr. verði sérstaklega kveðið á um að Vinnumálastofnun verði heimilt, að fenginni umsögn svæðisráðs og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að semja við sveitarfélög eða aðra aðila um að annast verkefni svæðisvinnumiðlunar og skulu slíkir samningar staðfestir af félagsmálaráðherra.
    Þá eru lagðar til breytingar á 15. gr. sem lúta að gerð starfsleitaráætlana hjá svæðisvinnumiðlunum með samkomulagi við hvern einstakan atvinnuleitanda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skylt sé að gera slíkar áætlanir við hvern einstakan atvinnuleitanda. Meiri hlutinn telur, m.a. með hliðsjón af athugasemdum sem fram hafa komið um ákvæði 15. gr., að rétt sé að miða við að slíkt sé skylt innan tíu vikna frá skráningu. Komið hefur í ljós að mikill fjöldi atvinnuleitenda fær vinnu á fyrstu vikunum eftir skráningu og því þykir óraunhæft að skylda svæðismiðlanir til að gera slíkar áætlanir fyrir hvern einstakan atvinnuleitanda þegar í stað. Slíkt er þó heimilt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að haft verði til hliðsjónar að sami starfsmaður svæðismiðlunar og gerir starfsleitaráætlun með atvinnuleitanda sinni honum að jafnaði áfram.
    Loks er gert ráð fyrir að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um að ákvæði frumvarpsins haggi ekki samþykktum reynslusveitarfélaga um framkvæmd vinnumiðlunar. Slíkar samþykktir munu hafa verið staðfestar af félagsmálaráðherra fyrir tvö sveitarfélög, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarkaupstað. Gert er ráð fyrir að ákvæðið gildi til 31. desember 1999. Það er til samræmis við gildistíma fyrrnefndra tveggja samþykkta.

Alþingi, 24. febr. 1997.



Siv Friðleifsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.

Magnús Stefánsson.


varaform., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Kristján Pálsson.