Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 385 . mál.


677. Tillaga til þingsályktunar



um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga að auðvelda sveitarfélögum landsins að hefja skipulega vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun með hliðsjón af „Dagskrá 21“.
    Stefnt verði að því að sveitarfélög sem ekki hafa þegar byrjað slíkt starf hefji það sem fyrst og ekki síðar en í ársbyrjun 1998. Miðað verði við að slíkar áætlanir geti legið fyrir hjá sem flestum sveitarfélögum landsins á árinu 2000.

Greinargerð.


    Framkvæmdaáætlunin um umhverfi og þróun sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992 gengur undir nafninu „Dagskrá 21“ og höfðar heitið til næstu aldar. Áætlunin byggir á hugmyndunum um sjálfbæra þróun og þar er m.a. fjallað um æskilegt frumkvæði héraðs- og sveitarstjórna til stuðnings víðtæku starfi að umhverfisvernd. Var gert ráð fyrir því að ekki seinna en árið 1996 hefðu sem flestar sveitarstjórnir í hverju landi náð sammæli um það hver á sínu svæði hvernig staðið yrði að „staðbundinni dagskrá 21“. Undirbúningur að þessu ferli átti raunar að hefjast þegar á árinu 1993, m.a. með alþjóðlegu samráði og síðan samvinnu og skiptum á upplýsingum milli sveitarstjórna í aðdraganda stefnumótunar.

Leiðsögnin frá Ríó fyrir sveitarstjórnir.


    Fjöldi vandamála sem fjallað er um í Dagskrá 21 á rætur í staðbundinni starfsemi og því er samvinna við heimastjórnvöld og þátttaka þeirra talin mikilvæg fyrir lausn þeirra. Sveitarstjórnir standa að uppbyggingu og rekstri á mörgum sviðum heima fyrir, móta skipulag og staðbundnar umhverfisreglur og aðstoða við framkvæmd umhverfisstefnu í hverju landi og svæðisbundið. Sveitarstjórnir eru það stjórnsýslustig sem næst stendur almenningi og gegna því lykilhlutverki í að fræða fólk um sjálfbæra þróun og hvetja til aðgerða.
    Samkvæmt leiðsögn Dagskrár 21 er gert ráð fyrir að hver sveitarstjórn hafi forustu um samstarf við íbúa sveitarfélagsins, félagasamtök og fyrirtæki um sjálfbæra þróun í byggðarlaginu. Áhersla er lögð á þátttöku sem flestra og m.a. að tryggja þátttöku kvenna og æskufólks í ákvörðunum, skipulagi og við framkvæmd þessara mála heima fyrir. Auk stuðnings viðkomandi ríkisstjórna er gert ráð fyrir aðstoð ýmissa alþjóðastofnana og samtaka við þessa vinnu að sjálfbærri þróun, m.a. frá Habitat-verkefni Sameinuðu þjóðanna. Áhersla er lögð á að byggja upp þekkingu og þjálfa fólk til starfa til stuðnings sjálfbærri þróun.

Skilgreining á sjálfbærri þróun.


    Hugtakið sjálfbær þróun var fyrst sett fram opinberlega á vegum Sameinuðu þjóðanna í skýrslu Brundtland-nefndarinnar árið 1987 undir heitinu Sameiginleg framtíð okkar. Með því er átt við samfélagsþróun á heimsvísu af nýrri gerð þar sem tryggt sé gott og heilbrigt umhverfi samhliða því sem frumþörfum manna sé fullnægt. Framsetningin „maðurinn í sátt við umhverfi sitt til lengri tíma litið“ lýsir kannski best viðfangsefninu. Hugmyndin um sjálfbæra þróun gerir ráð fyrir að framleiðslu- og neysluhættir einstaklinga og þjóða virði þau takmörk sem umhverfi jarðar og einstakra vistkerfa setur. Líta ber á málin heildstætt og í samhengi til að tryggja verndun og viðhald umhverfisgæða. Lögð er jafnframt áhersla á lýðræðislega þátttöku og áhrif almennings á ákvarðanir á öllum stigum. — Þess ber að geta að hugtakið sjálfbær þróun er enn ekki fastmótað þar eð ekki hefur verið samþykkt skýrt afmörkuð skilgreining þess á alþjóðavettvangi. Inntak þess getur því breyst og dýpkað með vaxandi skilningi og sammæli þjóða um forsendur umhverfisverndar.
    Brundtland-nefndin lagði til við Sameinuðu þjóðirnar að hafin yrði á þeirra vegum vinna að ýmsum alþjóðasáttmálum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og um hættuleg efni og úrgang. Í samræmi við tilmæli nefndarinnar ákvað síðan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að kalla saman ráðstefnu um umhverfi og þróun í Ríó í júní 1992. Í yfirlýsingu hennar eru settar fram 27 meginreglur sem þjóðir heims beri að hafa í heiðri í umhverfis- og þróunarmálum. Í yfirlýsingunni er m.a. að finna nokkrar grundvallarreglur, svo sem greiðsluskyldu þess sem veldur mengun, varúðarreglu til verndar umhverfinu og um mat á umhverfisáhrifum.
    Framkvæmdaáætlunin Dagskrá 21 er ein helsta afurð Ríó-ráðstefnunnar og tekur til flestra þátta umhverfis- og þróunarmála. Hún skiptist í fjóra hluta: 1. Félagsmála- og efnahagssvið. 2. Verndun og stjórnun auðlinda til þróunar. 3. Aukið hlutverk helstu þjóðfélagshópa. 4. Tæki til framkvæmdar áætluninni. Kaflar dagskrárinnar eru síðan alls 40. Um þátt héraðs- og sveitarstjórna er fjallað í þriðja hluta, 28. kafla.

Hvernig geta sveitarfélögin nálgast viðfangsefnið?


    Með þingsályktunartillögunni er ekki hugmyndin að gefa neina bindandi forskrift um það hvernig sveitarfélög hér á landi eigi að móta sínar áætlanir um sjálfbæra þróun. Hér verður aðeins bent á reynslu sem fengin er í nágrannalöndum okkar þar sem unnið hefur verið markvisst í þessum málum í hartnær áratug, t.d. í Noregi. Þar hófst tilraunaverkefnið „Umhverfisvernd í sveitarfélögunum“ árið 1987, stutt af umhverfisráðuneytinu og fjárhagslega af norska ríkinu. Þessu verkefni lauk árið 1991 og upp frá því tryggði ríkið endurgreiðslu launa fyrir umhverfisráðgjafa í hverju sveitarfélagi. Höfðu 415 sveitarstjórnir notfært sér þá heimild haustið 1993. Þá hafði norska umhverfisráðuneytið þegar gefið út leiðbeiningarrit fyrir sveitarstjórnir um áherslusvið í umhverfisvernd undir heitinu „Tenke globalt — Handle lokalt“ (Hugsaðu á heimsvísu — Breyttu rétt heima fyrir). Þar er kveðið á um áherslur þjóðþings og ríkisstjórnar og stuðning ríkisstofnana við fylki og sveitarfélög í umhverfismálum, en einnig ábyrgð hinna síðarnefndu í umhverfisvernd. Fimm áherslusvið er varða sveitarfélögin eru tiltekin fyrir níunda áratuginn: 1. Umhverfisvænt skipulag. 2. Sorphirða og endurvinnsla. 3. Varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni. 4. Ferskvatn og strandsvæði. 5. Verndun menningarminja og landslags. Gefnar eru ábendingar og góð ráð á hverju þessara sviða, en áhersla lögð á frumkvæði og sjálfstæða ábyrgð sveitarfélaganna.
    Svipaðar áherslur hafa verið ríkjandi í Svíþjóð og Danmörku þar sem sveitarfélög og þriðja stjórnsýslustig (lén og ömt) hafa gegnt miklu og vaxandi hlutverki í framkvæmd og þróun umhverfismála.

Góð fordæmi vísa veginn.


    Hér á landi hefur ráðleggingum Dagskrár 21 lítið verið sinnt að því er varðar þátt sveitarfélaga og stuðning af hálfu ríkisins við þau í umhverfismálum. Á einstökum sviðum hefur vissulega náðst umtalsverður árangur og átak er í undirbúningi hjá einstökum sveitarfélögum eða á vegum byggðasamlaga þeirra. Þar má nefna úrbætur í meðferð sorps og frárennslis, gatnagerð og margháttaða viðleitni til fegrunar umhverfis. Það sem hins vegar skortir á víðast hvar er að sveitarstjórnir setji umhverfismálin í þann forgang sem æskilegt væri og samþætti þau vinnu að vistvænu skipulagi og atvinnuþróun.
    Svo virðist sem umhverfisráðuneytið hafi ekki megnað að veita þá leiðsögn og hvatningu sem eðlilegt væri, m.a. með hliðsjón af því sem gert hefur verið í grannlöndum okkar. Þau fáu dæmi sem hægt er að benda á hér á landi þar sem sveitarfélög hafa sinnt kvaðningu Dagskrár 21 sýna þetta betur en mörg orð.
    Egilsstaðir á Fljótsdalshéraði hafa frá því í maí 1996 verið þátttakandi í verkefni norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfisáætlanir í sveitarfélögum í samvinnu við Færeyinga. Í Færeyjum hafa 17 sveitarfélög samvinnu um þetta verkefni og er Egilsstaðabær fulltrúi Íslands í verkefninu og nýtur til þess fjárhagsstuðnings frá umhverfisráðuneytinu og hefur jafnframt haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það var hins vegar nánast fyrir tilviljun að Egilsstaðabær frétti af þessu verkefni og náði að tengjast því. Á þessu stigi felst í verkefninu að gerð sé úttekt á stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu að því er varðar rekstur og fjárfestingar sem tengjast umhverfismálum. Úttektin á síðan að mynda grunn að umhverfisáætlun með forgangsröðun til fimm ára. Sigurborg Kr. Hannesdóttir hefur verið stjórnandi þessa verkefnis á vegum Egilsstaða. Þessu norræna verkefni lýkur bráðlega (mars 1997) og verður því fylgt eftir með tveimur ráðstefnum, annarri í Færeyjun í lok maí og hinni á Egilsstöðum 9.–10. júní 1997. Sú reynsla sem fæst á Egilsstöðum getur nýst öðrum sveitarfélögum í þeirri vinnu að staðbundinni sjálfbærri þróunaráætlun sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.
    Rétt er og að geta þess að Reykjavík er nú í marsbyrjun 1997 að gerast þátttakandi í svonefndu Álaborgarsamstarfi sem er átak með samvinnu 240 borga og héraða í Evrópu til að stuðla staðbundið að sjálfbærri þróun. Samstarfinu var komið á eftir ráðstefnu í Álaborg vorið 1994. Borgarráð Reykjavíkur hefur nýlega skipað nefnd sem á í senn að vera verkefnisstjórn fyrir Álaborgarsamstarfið og undirbúa jafnframt stefnumótun Reykjavíkur í umhverfismálum samkvæmt forskriftinni frá Ríó.
    Á Stokkseyri hefur þegar verið unnið gott starf að umhverfisáætlun í anda Dagskrár 21.
    Vafalaust er svipuð viðleitni víðar í gangi í einstökum sveitarfélögum en samræmt átak og nauðsynlegur stuðningur þarf að koma til svo að sem flest sveitarfélög hefji vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun, hvert á sínum vettvangi. Tillagan gerir ráð fyrir að áætlanir sveitarfélaganna í anda Dagskrár 21 liggi fyrir frá sem flestum þeirra á árinu 2000. Það væri góð viðspyrna á tímamótum til að hefja göngu inn í næstu öld.