Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 386 . mál.


678. Frumvarp til lagaum breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Árni R. Árnason,


Guðjón Guðmundsson, Kristján Pálsson.1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að fella niður stimpilgjöld af kaupsamningum, veðböndum og afsölum kaupskipa á árinu 1997.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 6. gr. fjárlaga hefur lengi tíðkast að veita fjármálaráðherra heimild til að fella niður stimpilgjöld sem stofnað er til í tengslum við kaup eða leigu á flugvélum. Sambærilegar heimildir hafa ekki verið til staðar varðandi kaupskip. Skipa- og flugfélög eiga í sívaxandi samkeppni og hlýtur því slík mismunun milli atvinnugreina að teljast vafasöm og í andstöðu við almenn jafnræðissjónarmið. Hér er lagt til að þessi mismunun verði leiðrétt þannig að við stimpilgjaldslögin bætist sérstakt ákvæði til bráðabirgða með heimild til að fella niður stimpilgjald í tengslum við kaup slíkra skipa á árinu 1997. Flutningsmenn telja eðlilegt að slíkt ákvæði verði síðan tekið inn í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1998.
    26 kaupskip eru nú í rekstri íslenskra útgerða, aðeins fjögur undir íslenskum fána og eru tvö þeirra í eigu olíufélaganna. 18 skip eru í eigu íslenskra kaupskipaútgerða en átta skip eru í leigu hjá útgerðunum.
    Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kaupskipaútgerða hefur lýst því yfir að ástæða þess að svo fá skip séu skráð undir íslenskum fána sé fyrst og fremst óeðlilega há skráningargjöld hér á landi sem nemi milljónum króna á meðan kaupskipaútgerðir í Noregi greiði aðeins um sex þúsund íslenskra króna í gjald á hvert skip. Nauðsynlegt er að grípa í taumana og lækka stimpilgjöld hér á landi svo að um ókomin ár megi kaupskip undir íslenskum fána sjást sem víðast. Öflugur íslenskur kaupskipafloti er einn þáttur í sjálfstæði þjóðarinnar og því er rétt að stuðla að því að sem flest kaupskip í eigu íslenskra útgerða sigli undir íslenskum fána. Sem fyrr kemur fram eru 18 kaupskip í eigu íslenskrar kaupskipaútgerðar skráð erlendis. Nái þetta frumvarp fram að ganga má ætla að þau skip verði skráð á Íslandi. Í engu mundi ríkissjóður verða af tekjum við samþykkt þessa frumvarps nema síður yrði, enda nánast engar skráningar á kaupskipum hér á landi hin síðari ár.
    Með kaupskipum er hér átt við skip sem notuð eru til flutnings á farmi gegn endurgjaldi en geta jafnframt flutt 12 farþega eða færri í samræmi við alþjóðlegar reglur, sbr. skilgreiningu í 2. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum.