Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 388 . mál.


680. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson,


Össur Skarphéðinsson, Ágúst Einarsson.



1. gr.


    Á eftir 6. mgr. 5. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Ráðherra er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. og 6. mgr., að bjóða árlega út veiðiheimildir á norsk-íslenska síldarstofninum. Er þá útgerðum fiskiskipa sem hæf eru til þess að stunda síldveiðar heimilt að gera tilboð í tiltekið aflamark af síld. Ráðherra skal ákveða útboðsskilmála og skal þar kveðið á um hámark og lágmark þess aflamarks sem heimilt er að bjóða í vegna einstaks fiskiskips, skilafrest á tilboðum og önnur atriði er máli skipta vegna útboðsins. Þá er ráðherra heimilt að ákveða í útboðslýsingu að ekki verði tekið tilboðum undir tilteknu lágmarksverði.
    Hæstu tilboðum skal jafnan tekið meðan aflaheimildir hrökkva til. Séu tvö eða fleiri tilboð jafnhá en heildaraflamark ekki nægjanlegt til þess að taka þeim að fullu skal tilboðunum tekið með hlutfallslegri skerðingu. Tilboðsgjafi er bundinn af tilboði sínu en á þó rétt á að falla frá því sé um slíka skerðingu að ræða. Tilboðsgjafi skal staðgreiða aflamark og skal aflamarkið skráð á viðkomandi fiskiskip þegar það hefur verið greitt að fullu. Tekjum af útboði aflaheimilda skal varið til haf- og fiskirannsókna og til slysavarna sjómanna, þar á meðal til rannsókna sjóslysa samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Greinargerð.


    Eins og alkunna er hafa veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki verið stundaðar svo neinu nemi í yfir 30 ár. Á allra síðustu árum hefur orðið þar breyting á. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í mikilli framför eftir langvarandi lægð og eru nú merki um að hann sé að ganga á gamlar slóðir. Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna á norðanverðu Atlantshafi, sem gerður var á sl. ári og Íslendingar eru aðilar að, tryggðu Íslendingar sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðunum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar, og á vertíðinni, sem hefst í vor, hafa Íslendingar öðlast rétt til veiða á 230 þúsund tonnum af síld úr stofninum. Á þessu og síðasta ári hófust því á ný síldveiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum — veiðar sem miklar vonir eru bundnar við og þá ekki síst ef stofninn hefur göngu sína á fornar veiðislóðir innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.
    Vegna þess hve langur tími er liðinn frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á neinni veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem nú hyggst stunda þær veiðar. Síldveiðiskipin, sem þessar veiðar stunduðu fyrir þrjátíu árum, eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum, þegar veiðarnar hefjast aftur, sem eru alls ólíkar því sem átt hefur við um veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem byggt var á margra ára veiðireynslu skipa sem í útgerð voru þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.
    Á komandi síldarvertíð er gert ráð fyrir frjálsum veiðum með þeim einu takmörkunum að þau skip ein fái veiðiheimildir sem sérútbúin eru til síldveiða. Þar sem líklegt er talið að árið 1997 kunni að vera fyrsta ár af 3–6 árum þar sem síldveiðiútgerðir afla sér veiðireynslu er verði grundvöllur að aflamarksúthlutunum síðar óttast margir að mikið kapphlaup verði meðal síldarútgerða um að hefja veiðar sem allra fyrst og veiða strax sem allra mest til þess að tryggja sér sem hæsta hlutdeild úr heildarkvótanum, 230 þús. tonnum, sem ákveðinn hefur verið. Rökin eru ekki síst þau að með því væru útgerðarmenn síldarskipa að tryggja sem best stöðu sína hvað aflahlutdeild varðar í þeim tilgangi að standa sem best að vígi þegar að því kæmi að aflakvóta yrði úthlutað í samræmi við veiðireynslu. Fari svo óttast menn m.a. að manneldismarkmið í síldveiðum verði víkjandi og verðmæti síldveiðanna fyrir þjóðarbúið verði mun minna en vera ætti og verið gæti. Þá er einnig á það bent að sé stefnt að úthlutun aflamarks á skip með slíkum aðdraganda sé ráðgert að ganga enn lengra á þeirri braut að úthluta ókeypis verðmætum til tiltekinna einstaklinga og útgerða — ókeypis aflakvótum í síldveiðum — sem að þessu sinni hafi ekki verið undirbyggð á grundvelli veiða skipa heldur fyrir tilstilli samninga sem handhafar almannavalds hafa gert við aðrar þjóðir. Því er óeðlilegt með öllu að gera ráð fyrir að slíkum verðmætum verði innan fárra ára skipt upp á milli nokkurra aðila án þess að gjald komi fyrir.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sú stefna verði mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að sá kostur verði gefinn í lögum að í stað veiða með ókeypis aðgangi tiltekinna veiðiskipa og með úthlutun ókeypis aflakvóta í framtíðinni séu veiðiheimildir seldar á frjálsum markaði til útgerða þeirra skipa sem búin eru til síldveiða. Verði frumvarpið að lögum á sjávarútvegsráðherra þann kost að velja slíka leið, en það á hann ekki í gildandi lögum. Í frumvarpinu eru jafnframt ákvæði um hvernig að slíku útboði á aflaheimildum skuli staðið verði sú leið valin.
    Í umræðum um veiðileyfagjald, þ.e. sölu aflaheimilda, hafa komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um útfærslu, en með veiðileyfafjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda. Nokkur dæmi um slíka útfærslu eru nefnd í þingsályktunartillögu þingmanna jafnaðarmanna um veiðileyfagjald (3. máli 121. löggjafarþings). Í frumvarpinu er sú útfærsluleið valin hvað varðar sölu veiðileyfa á norsk-íslenska síldarstofninum að selja veiðileyfi í almennu útboði þar sem útgerðir allra íslenskra skipa, sem stundað geta síldveiðar, hafa sama rétt til þátttöku. Þótt sú útfærsluaðferð sé valin hér ber ekki að hafa það til marks um að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að hana beri að velja öðrum fremur hvað varðar framkvæmd veiðileyfagjalds í öðrum fiskveiðum. Þar koma aðrar aðferðir ekki síður til greina eins og rakið er í tillögu jafnaðarmanna sem vikið var að hér að framan.
    Litlar upplýsingar eru tiltækar um markaðsverð á aflaheimildum vegna síldveiða í frjálsum viðskiptum og engar um slík viðskipti með aflaheimildir í norsk-íslenska síldarstofninum því að engin slík viðskipti hafa orðið. Ógerningur er því með öllu að spá fyrir um hvert gæti orðið markaðsverðmæti þeirra aflaheimilda í útboði sem hér er gerð tillaga um. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að allar tekjur, sem ríkið kynni að hafa af útboðinu, renni til þess að greiða kostnað í þágu sjávarútvegsins sjálfs og sjómanna, þ.e. til haf- og fiskirannsókna og slysavarna sjómanna, þar á meðal til rannsókna sjóslysa. Fyrir það fé, sem fengist með útboðinu, ætti að vera unnt að efla mjög þá starfsemi sem hér um ræðir sjávarútveginum og sjómönnum til velfarnaðar.
    Með útboði á aflaheimildum er einnig komið í veg fyrir að manneldismarkmiðum í síldveiðum verði vikið til hliðar eins og margir óttast að verða muni við núverandi aðstæður. Séu veiðiheimildir keyptar gegn gjaldi í stað ókeypis aðgangs verður ríkari nauðsyn til þess að verðmæti aflans verði sem allra mest. Munu útgerðarmenn og sjómenn þá huga að því að skipuleggja veiðar sínar með þeim hætti í stað þess að ná sem mestu magni án tillits til verðmætis.
    Umræður um sölu aflaheimilda í hefðbundnum veiðum hafa verið vaxandi á Íslandi og samkvæmt nýrri skoðanakönnun á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa rösklega 75% landsmanna lýst sig fylgjandi því grundvallarsjónarmiði. Tímabært er því orðið að lögð sé fram á Alþingi tillaga í mynd lagafrumvarps um hvernig af slíku geti orðið og vegna þeirrar sérstöðu, sem veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hafa, er tilvalið að beita þar slíkri aðferð. Með samþykkt frumvarpsins gefst einstakt tækifæri til þess að framkvæma þá stefnu sem mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst fylgi við og verða sér úti um mjög dýrmæta reynslu af slíkri framkvæmd sem gæti nýst við endurskoðun á fyrirkomulagi aflamarkskerfisins í öðrum veiðum sem stundaðar eru frá Íslandi.
    Öfugt við flestar aðrar fiskveiðar miðast síldveiðiárið við almanaksár og er því lagt til að frumvarp þetta, ef að lögum verður, öðlist gildi 1. janúar 1998. Eru þá a.m.k. fjórir mánuðir þar til síldarvertíð getur hafist og er það góður tími til þess að undirbúa þá nýju framkvæmd, sölu aflaheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.