Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 408 . mál.


705. Frumvarp til laga



um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun lánastofnunar samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, er nefnist Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. Ákvæði laga nr. 123/1993 og laga nr. 2/1995, um hlutafélög, taka til fjárfestingarbankans ef annað leiðir ekki af lögum þessum.
    Viðskiptaráðherra annast undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fer með framkvæmd laga þessara.

2. gr.


    Hlutverk Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. er að veita íslensku atvinnulífi fjármálaþjónustu. Fjárfestingarbankinn hefur með höndum hverja þá starfsemi sem lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil að lögum eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum hans.

3. gr.


    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. tekur 1. janúar 1998 við sem greiðslu á hlutafé skv. 4. gr. öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, öðrum en þeim sem ráðstafað er með öðrum hætti samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

4. gr.


    Ríkissjóður er eigandi alls hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. við stofnun hans.
    Viðskiptaráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í fjárfestingarbankanum við stofnun hans. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár við stofnun fjárfestingarbankans sé eigi hærri en sem nemur 75% af því eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem rennur til fjárfestingarbankans skv. 3. gr. eins og það er samkvæmt endurskoðuðum ársreikningum sjóðanna fyrir árið 1996.
    Hlutabréf í fjárfestingarbankanum, sem gefin eru út í tengslum við stofnun hans, skulu undanþegin stimpilgjöldum.

5. gr.


    Sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi og öðrum hluthafafundum í fjárfestingarbankanum fer fimm manna nefnd. Þar af skulu tveir menn skipaðir af iðnaðarráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, og tveir skulu skipaðir af sjávarútvegsráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skipa einn mann sameiginlega.

6. gr.


    Heimilt er að selja allt að 49% hlutafjár ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Skulu iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra þegar eftir gildistöku laga þessara hefja undirbúning að sölu hlutafjár.

7. gr.


    Ákvæði 6. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 6. gr. laga nr. 123/1993, og ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995 eiga ekki við um greiðslu hlutafjár skv. 4. og 5. gr. laga þessara.
    Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995 gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

8. gr.


    Óheimilt er að ákveða að hluthafar í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. njóti hagstæðari kjara en aðrir viðskiptamenn hans eða annarra sérstakra hlunninda í viðskiptum við hann vegna eignarhlutar síns.

9. gr.


    Ríkissjóður ber ábyrgð á þeim skuldbindingum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem ríkisábyrgð er á við stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Ábyrgð ríkissjóðs er með sama hætti og til hennar er stofnað og gildir uns viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd.
    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. umfram það sem kveðið er á um í þessari grein og í hlutafélagalögum.

10. gr.


    Allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs , sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga og ekki er boðið starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, skulu eiga kost á starfi hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Nú tekur maður, sem áður gegndi starfi hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði , við starfi hjá fjárfestingarbankanum, og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði fellur niður er hann tekur við starfinu.

11. gr.


    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

12. gr.


    Greiðslu- og vistunarstaður skuldaskjala, sem eru í eigu eða til innheimtu hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Útflutningslánasjóði eða Iðnþróunarsjóði, verður hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. þegar hann tekur til starfa sem lánastofnun skv. 19. gr. laga þessara. Fjárfestingarbankinn tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu þeirra eða aðild að dómsmálum sem þeir reka eða rekin eru gegn þeim. Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu. Skulu þær birtar með u.þ.b. tveggja vikna millibili, hin fyrri a.m.k. 30 dögum áður en Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. tekur til starfa sem lánastofnun.

13. gr.


    Nú er stjórnum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs heimilt samkvæmt ákvæðum skuldabréfa að taka ákvarðanir um vaxtakjör þeirra, og er stjórn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. þá heimilt að taka slíkar ákvarðanir eftir það tímamark sem greinir í 1. mgr. 19. gr. laganna.

14. gr.


    Reikningseining Fiskveiðasjóðs Íslands (RFÍ), sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 277/1991, með síðari breytingum, skal frá og með 1. janúar 1998 vera samsett úr þeim gjaldmiðlum og í sömu hlutföllum innbyrðis og liggja til grundvallar skráningu Fiskveiðasjóðs Íslands á verðgildi reikningseiningarinnar 31. desember 1997. Skal frá þeim tíma beita reikningseiningunni svo samsettri við útreikning þeirra útlána sjóðsins sem tengd eru viðmiðun við reikningseininguna. Verðgildi erlendra gjaldmiðla skal vera samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands.
    Stjórn fjárfestingarbankans skal í janúarmánuði 1998 auglýsa úr hvaða gjaldmiðlum reikningseiningin er samsett og í hvaða innbyrðis hlutföllum. Í sömu auglýsingu skal þeim lánþegum sem hlut eiga að máli gefinn kostur á uppgreiðslu lána eða endursamningum um viðmiðunargengi skulda sinna og má setja þeim frest í því skyni, eigi skemmri en átta vikur. Skilmálabreyting skal háð samþykki síðari veðhafa samkvæmt almennum reglum. Af skjölum sem varða slíka endursamninga skal ekki greiða stimpilgjald.
    Seðlabanki Íslands skráir verðgildi reikningseiningarinnar. Jafnframt skal bankinn ákvarða dráttarvexti af vanskilum lána sem tengd eru viðmiðun við gengi hennar, út frá vægi einstakra gjaldmiðla, sbr. 10. gr. og 11. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum, og birta þær ákvarðanir.

15. gr.


    Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.

16. gr.


    Innköllun til lánardrottna Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs skal eigi gefin út.

17. gr.


    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Um skattskyldu fjárfestingarbankans fer að öðru leyti eftir lögum um skattskyldu lánastofnana.

18. gr.


    Þar sem Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Útflutningslánasjóði og Iðnþróunarsjóði er falið í lögum, sem í gildi verða eftir að fjárfestingarbankinn tekur til starfa sem lánastofnun, að sinna sérstökum verkefnum tekur Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. við þeim verkefnum eftir því sem við á.

19. gr.


    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. skal taka til starfa sem lánastofnun 1. janúar 1998 er fjárfestingarbankinn tekur við eignum, skuldum og skuldbindingum skv. 3. gr. laga þessara. Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður skulu lagðir niður frá og með sama tímamarki og falla þá eftirtalin lög úr gildi:
    Lög nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 10/1984, um viðauka við lög nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Lög nr. 72/1985, um viðauka við lög nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Lög nr. 135/1989, um viðauka við lög nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Lög nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 47/1970, um Útflutningslánasjóð, með áorðnum breytingum.
    Lög nr. 93/1986, um Stofnfjársjóð fiskiskipa.
    Umboð stjórna sem skipaðar eru samkvæmt núgildandi lögum um Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð fellur niður á því tímamarki sem greinir í 1. mgr. þessarar greinar.

20. gr.


    Stofna skal hlutafélagið Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júlí 1997. Á fundinum skal kjósa stjórn fjárfestingarbankans og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að hann hefur tekið til starfa sem lánastofnun, skv. 19. gr. laga þessara. Fram að því tímamarki sem tilgreint er í 1. mgr 19. gr. skal Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. hafa það verkefni að undirbúa starfsemi sína sem lánastofnun. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. skal hafa samráð við stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um samninga við starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs.
    Stofnhlutafé Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. verður ekki greitt til hans fyrr en 1. janúar 1998, sbr. 3. gr. laga þessara.
    Frá stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og þar til hann tekur til starfa skv. 1. mgr. 19. gr. skal hann, þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu, hafa fullan aðgang að gögnum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Stjórnendur og starfsmenn sjóðanna skulu veita stjórnendum og starfsmönnum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. nauðsynlega aðstoð. Stjórnendur og starfsmenn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. eru bundnir af þagnarskyldu með sama hætti og stjórnendur og starfsmenn umræddra sjóða.
    Allur kostnaður af stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. greiðist af honum.

21. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kemur fram að eitt af markmiðum hennar sé að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða og annarra fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Jafnframt skuli unnið að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Þá er í stefnu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á að stuðla að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um allt land, tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.
    Endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna hefur hin síðari ár verið til umræðu af hálfu stjórnvalda og hagsmunasamtaka atvinnulífsins og hefur sú umfjöllun einkum varðað fjárfestingarlánasjóði í iðnaði og sjávarútvegi, þ.e. Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Fiskveiðasjóð Íslands. Í byrjun kjörtímabilsins ákváðu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra að fela ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta að vinna að endurskoðun á núverandi sjóðakerfi að því er varðar starfsemi þessara sjóða.
    Markmið endurskoðunarinnar var að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Skilyrði var að öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem var, ættu jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna. Með því væri afnumin sú atvinnugreinaskipting sem verið hefur í sjóðakerfinu.
    Fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna voru upphaflega stofnaðir til að tryggja aðgang einstakra atvinnugreina að lánsfé á tímum lánsfjárskorts. Allir stærstu sjóðirnir eru í eigu ríkisins en atvinnugreinarnar hafa lagt sjóðunum til fé með ýmsum hætti, einkum í formi skattlagningar á viðkomandi atvinnugreinar. Má þar sérstaklega nefna iðnlánasjóðsgjald sem rennur til Iðnlánasjóðs og útflutningsgjald sem rann til Fiskveiðasjóðs. Ákvarðanir um þessa skattlagningu voru jafnan teknar í samráði við helstu hagsmunasamtök í viðkomandi atvinnugreinum. Fulltrúar greinanna hafa einnig haft áhrif á stefnu og starfsemi sjóðanna með setu í stjórnum þeirra. Í ljósi þessa hefur við undirbúning breytinga á sjóðakerfinu verið haft náið samráð við forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði. Stjórnendur og starfsmenn sjóðanna þriggja og innlendir og erlendir sérfræðingar hafa aðstoðað við undirbúning málsins.
    Frumvarpið sem hér er lagt fram gerir ráð fyrir að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. verði stofnaður á grunni Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs auk Útflutningslánasjóðs. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem einnig er reistur á grunni þessara sjóða. Til greina kemur að fleiri fjárfestingarlánasjóðir sameinist hinum nýju fjárfestingarbanka fljótlega eftir stofnun hans.

2. Breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Aukin samkeppni við erlenda lánveitendur, verðbréfamarkaði, banka og sparisjóði kallar á endurskoðun á fjárfestingarlánasjóðakerfinu. Löggjöf um fjármálastofnanir og fjármálastarfsemi hefur verið aðlöguð reglum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Þátttaka ríkisins á íslenskum fjármagnsmarkaði er áberandi og mun meiri en í öðrum iðnríkjum. Starfandi eru fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins auk þess sem tveir af þremur starfandi viðskiptabönkum eru ríkisstofnanir. Starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna er yfirleitt bundin við afmörkuð svið eða atvinnugreinar og þeim settar sérreglur í lögum.
    Fyrrgreindar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði hafa beint athyglinni að aðstöðumun fjármálastofnana í ríkiseigu og annarra aðila á fjármagnsmarkaði. Sá munur er fjármálastofnunum í ríkiseigu bæði í hag og óhag. Kostir geta verið því samfara að njóta verndar ríkisins, ýmissa sérreglna sem gilda um einstaka fjárfestingarlánasjóði og í sumum tilvikum ríkisábyrgðar. Á hinn bóginn hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að svigrúm stofnana í eigu ríkisins til að bregðast við aukinni samkeppni er oft á tíðum lítið. Gott dæmi um þetta eru hinir atvinnugreinaskiptu fjárfestingarlánasjóðir.
    Með hliðsjón af framangreindu er nauðsynlegt að skilgreina að nýju hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði. Meginhlutverk þess verður jafnan að tryggja að til séu reglur um starfsemi á þessu sviði og að reglunum sé fylgt. Jafnframt kann á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um fjármálastarfsemi sem nauðsynleg er til að efla atvinnulíf. Hins vegar ber að láta öðrum eftir að stunda þá starfsemi sem einkaaðilar eru tilbúnir að annast með eðlilegum hætti. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna viðskiptabankastarfsemi, verðbréfaþjónustu ýmiss konar, hefðbundna fjárfestingarlánastarfsemi og fleira. Sem dæmi um svið þar sem ríkið hefur enn hlutverki að gegna samkvæmt þessu má nefna áhættusama fjárfestingarþjónustu eins og verkefnafjármögnun og beina áhættufjármögnun.
    Með frumvarpinu sem hér er lagt fram og frumvarpi til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífins eru stigin skref í þá átt sem hér var lýst. Samhliða frumvarpinu leggur viðskiptaráðherra fram frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Í því er gert ráð fyrir að hlutafélögin Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. taki við rekstri ríkisviðskiptabanknna 1. janúar 1998.
    Með þessu hyggst ríkisstjórnin stuðla að umfangsmikilli hagræðingu á fjármagnsmarkaði. Megintilgangur aðgerðanna er að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á hagstæðum kjörum.

3. Helstu leiðir við endurskipulagningu á sjóðakerfi atvinnuveganna.
    Á síðustu missirum hefur einkum verið fjallað um tvær meginhugmyndir við endurskoðun á starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Annars vegar hafa á stundum verið uppi áform um að breyta Fiskveiðasjóði í hlutafélag og sameina Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð í annað hlutafélag en láta ráðast hver yrðu afdrif þeirra að því loknu og starfseminnar sem þeir hafa stundað. Hins vegar hefur sú hugmynd verið til umfjöllunar að sameina þessa þrjá sjóði í eitt hlutafélag, lánastofnun sem hafi möguleika á að verða öflugur bakhjarl atvinnulífsins. Báðum þessum leiðum hafa fylgt hugmyndir um stofnun sérstaks nýsköpunarsjóðs sem einkum hefur verið ætlað það hlutverk að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og þróunar og styrkja þannig og ýta undir starfsemi sem þarfnast áhættufjármagns.
    Umfjöllun um þessar leiðir er nátengd umræðu um aðild starfandi viðskiptabanka að þeirri þjónustu sem fjárfestingarlánasjóðirnir hafa hingað til boðið.
    Helstu rök með fyrrgreindu leiðinni, þ.e. að breyta Fiskveiðasjóði og iðnaðarsjóðunum í tvo fjárfestingarlánasjóði í formi hlutafélaga, eru að þannig fái markaðurinn í raun að ráða því hvað verði um þessa starfsemi og ríkisvaldið geti losað sig úr þessari starfsemi með sölu hlutafélaganna. Bent hefur verið á að starfsemin geti einnig fallið að starfandi viðskiptabönkum. Þannig bjóði starfandi viðskiptabankar langtímalán auk þess sem viðskiptamenn þeirra séu í stórum dráttum hinir sömu. Þá geti viðskiptabankarnir nýtt sér fyrirliggjandi þekkingu og aðstöðu.
    Rök með síðargreindu leiðinni, þ.e. að á grunni sjóðanna þriggja verði stofnaður einn sameinaður fjárfestingarbanki, eru að atvinnufyrirtækjum sé nauðsynlegt að eiga slíka stofnun að bakhjarli sem bjóði raunhæfan valkost við fjármögnun. Fjárfestingarbanki af þessu tagi geti náð hagstæðum samningum við lánveitendur og með því, ásamt lágum rekstrarkostnaði, veitt fyrirtækjum hagstæð lán og skapað starfandi viðskiptabönkum heilbrigða samkeppni. Einnig verði með þessari skipan varðveitt og nýtt mikil fyrirliggjandi þekking núverandi sjóða á atvinnulífinu og náin tengsl þeirra við viðskiptafyrirtæki sín. Þá yrði atvinnugreinaskipting í starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna afnumin, en slík skipting er úrelt og stendur raunar starfsemi þessara sjóða fyrir þrifum í mörgum tilvikum. Í heild gæti því þessi leið leitt til hagræðingar á fjármagnsmarkaði.

4. Mat á valkostum.
    Leitað hefur verið til ýmissa aðila um mat á helstu leiðum við endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna. Nefna má að leitað var til fjármálafyrirtækisins JP-Morgan í London, og óskað eftir að sérfræðingar legðu mat á mismunandi viðhorf og leiðir sem um hefur verið fjallað á undanförnum missirum, með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar og líklegri þróun til framtíðar. Í þessu skyni kannaði JP-Morgan starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna þriggja með hliðsjón af starfsemi viðskiptabanka á Íslandi, tók til skoðunar hvernig háttað væri sambærilegri starfsemi annars staðar á Norðurlöndum, Bretlandi og Hollandi og athugaði samspil viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarlánastarfsemi. Þá var lagt mat á kosti þeirrar leiðar sem farin er í frumvarpi þessu, frá alþjóðlegu sjónarhorni.
    Það er niðurstaða JP-Morgan að viðskiptabankar í Evrópu bjóði svipaða þjónustu og fjárfestingarlánasjóðirnir þrír, en sú þróun sé þó ný af nálinni á Norðurlöndunum. Fjárfestingarlánasjóðir, sem reistir voru á svipuðum forsendum og hérlendir sjóðir, hafi þróast í mismunandi áttir og brugðist með mismunandi hætti við breytingum á starfsumhverfi sínu. Þær breytingar felast m.a. í aukinni samkeppni þar sem fleiri aðilar, svo sem viðskiptabankar, hafa sótt á þennan markað. Finna má dæmi um starfandi fjárfestingarlánasjóði eins og danska iðnlánasjóðinn, FIH, sem veitir langtímalán til atvinnulífsins og hefur styrkt stöðu sína á samkeppnismarkaði með því að leggja áherslu á þjónustu sem tengist veitingu hagkvæmra langtímalána og að byggja upp sérþekkingu og náin tengsl við fyrirtæki. Aðrir sambærilegir sjóðir, t.d. hollenski fjárfestingarbankinn, NIB, hafa brugðist við aukinni samkeppni með því að færa út starfsemi sína, t.d. með því að hefja fjárfestingu í hlutafé fyrirtækja.
    Það er mat JP-Morgan að með tilliti til líklegrar þróunar næstu ára megi ætla að starfsemi fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka verði samþætt. Viðskiptamenn þessara stofnana séu hinir sömu og þekking á starfseminni til staðar. Engu að síður er það niðurstaða athugunarinnar að fjárfestingarlánasjóðir muni áfram hafa hlutverki að gegna. Bent er einkum á tvö atriði sem marka fjárfestingarlánasjóðunum sérstöðu sem geti nýst íslensku atvinnulífi. Annars vegar eru möguleikar sjóðanna til að viðhalda og þróa áfram náin tengsl sín við atvinnulífið sem leiði til bættrar þjónustu á þessu sviði. Þannig geti slíkir sjóðir veitt þjónustu til hliðar við þjónustu viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja og verið valkostur við aðra starfsemi á fjármagnsmarkaði. Hins vegar geta fjárfestingarlánasjóðirnir áfram veitt langtímalán á mjög hagstæðum kjörum vegna góðrar stöðu á lánamarkaði og lágs rekstrarkostnaðar.
    Þá er það mat JP-Morgan að sameining sjóðanna í einn fjárfestingarbanka og stofnun nýsköpunarsjóðs hafi marga kosti. Með sameiningu megi ná fram hagræðingu í rekstri. Einnig gefi þessi nýskipan færi á að aðgreina hefðbundna fjárfestingarlánastarfsemi frá áhættufjármögnun. Stofnun fjárfestingarbanka gæti ýtt undir samkeppni á fjármagnsmarkaði, auðveldað einkavæðingu og leitt til sérhæfðari fjármálaþjónustu. Þá gæti nýr fjárfestingarbanki orðið álitlegur kostur fyrir erlenda lánveitendur og fjárfesta. Að mati JP-Morgan ætti nýr fjárfestingarbanki að starfa á sama grunni og Iðnlánasjóður og Fiskveiðasjóður, þ.e að veita langtímalán og tengda fjármálaþjónustu, en hann gæti einnig aukið sérhæfingu á fjármagnsmarkaði.
    Eins og bent er á má með sameiningu sjóðanna ná fram verulegri hagræðingu í rekstri sem mun skila sér í betri kjörum á lánum til fyrirtækja. Ekki liggja fyrir nákvæmar rekstraráætlanir fyrir bankann enda verður það hlutverk stjórnar hans að taka endanlegar ákvarðanir um rekstur og mannahald. Fullri hagræðingu verður þó ekki náð í fyrstu. Þannig er gert ráð fyrir að starfsfólki sjóðanna þriggja verði tryggt starf í fjárfestingarbankanum eða Nýsköpunarsjóði, enda má ætla að uppbygging starfseminnar krefjist í fyrstu mikillar vinnu. Reynslan sýnir hins vegar að náðst hefur hagræðing í starfsmannamálum þar sem svipuð leið hefur verið farin.

5. Eignarhald.
    Í gegnum árin hafa verið skiptar skoðanir um eignarhald þeirra sjóða sem til umfjöllunar eru, einkum Fiskveiðasjóðs Íslands og Iðnlánasjóðs. Af hálfu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og iðnaði hefur verið lögð áhersla á að atvinnuvegirnir og jafnvel fyrirtæki hafi með viðskiptum sínum við sjóðina og greiðslum til þeirra öðlast eignarrétt eða hlutdeild í sjóðunum. Lögum samkvæmt er hins vegar ótvírætt að sjóðirnir eru í eigu ríkisins. Í umræðum um breytingar á sjóðunum hafa þó á liðnum árum komið fram hugmyndir að leiðum til að taka tillit til þessara sjónarmiða.
    Við undirbúning þeirrar endurskipulagningar sem nú er á döfinni hefur verið miðað við að veita samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði aðild að stjórnun fjárfestingarbankans við stofnun hans. Lagt er til að atvinnuvegirnir eigi aðild að meðferð atkvæða fyrir hönd ríkissjóðs. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði, ásamt Alþýðusambandi Íslands, eigi þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

6. Skipting eigna, sala hlutabréfa og staða á erlendum lánamarkaði.
    Sameiginlegt eigið fé Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs nam í árslok 1995 10.615 millj. kr. samkvæmt endurskoðuðum ársreikningum fyrir árið 1995. Eiginfjárhlutfall sjóðanna þriggja sameiginlega var 25,65% í árslok 1995. Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður juku við eigið fé sitt á árinu 1996 og má því ætla að sameiginlegt eigið fé sjóðanna hafi aukist um 800–1.000 millj. kr. á árinu.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fjárfestingarbankinn taki við eignum, skuldum og skuldbindingum umræddra sjóða, að frádregnum 3.000 millj. kr. sem lagðar verði til Nýsköpunarsjóðsins og u.þ.b. 650 millj. kr. eigin fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs sem gert er ráð fyrir að flytjist til Nýsköpunarsjóðs. Umrædd deild hefur afmarkaðan tilgang á sviði iðnþróunar og er fjárhagur hennar aðskilinn frá annarri starfsemi. Til hennar rennur meginhluti svokallaðs iðnlánasjóðsgjalds sem innheimt er af iðnaðinum í landinu.
    Svo kann að virðast að með þessu sé verið að rýra verulega eigið fé hins nýja fjárfestingarbanka. Hins vegar verður að líta til þess að eigið fé Iðnþróunarsjóðs, sem á síðustu árum hefur verið beint inn á fjármögnun áhættuverkefna í takt við þá starfsemi sem Nýsköpunarsjóði er ætlað að stunda, nam 2.329 millj. kr. í árslok 1995. Líta má svo á að fjárhæð samsvarandi eigin fé Iðnþróunarsjóðs falli með réttu til Nýsköpunarsjóðs, að viðbættum tæpum 700 millj. kr. Sé litið til afkomu Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs undanfarin ár, og þess að ekki hefur verið greiddur arður af eigin fé þeirra, má benda á að 700 millj. kr. samsvara útgreiðslu á innan við 50% arði af hagnaði þeirra tveggja síðastliðin þrjú ár. Með tilliti til þeirrar sérstöðu vöruþróunar- og markaðsdeildar sem fyrr er lýst má rökstyðja að eigið fé hennar falli í raun ekki til sameiginlegs eigin fjár sjóðanna.
    Í þessu felst að eigið fé fjárfestingarbankans yrði 6.965 millj. kr. ef miðað er við ársreikning fyrir árið 1995 en talsvert hærra ef miðað er við eigið fé sjóðanna nú. Eiginfjárhlutfall sjóðsins miðað við sama tímamark yrði 15,17%. Hafa verður í huga nýlegar breytingar á reglum um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. lög nr. 113/1996 og reglur Seðlabanka Íslands nr. 348/1996, sem hafa leitt til lækkunar á eiginfjárhlutfalli sjóðanna. Munar þar mestu um breytingar á flokkun eigna eftir áhættu.
    Lagt er til að þær 3.000 millj. kr., sem ætlunin er að leggja til Nýsköpunarsjóðs af eigin fé sjóðanna, verði greiddar honum með markaðshæfum hlutabréfum sem nú eru í eigu sjóðanna, auk skuldabréfs sem gefið yrði út af fjárfestingarbankanum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gildistöku laganna verði hafinn undirbúningur að sölu á allt að 49% hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Það mun ráðast af aðstæðum á markaði og hagsmunum fjárfestingarbankans að öðru leyti hversu hratt hlutabréf verða seld. Hins vegar er lögð áhersla á að hin heimilaða sala fari fram strax og aðstæður leyfa.
    Það er mat ríkisstjórnarinnar og þeirra sérfræðinga sem leitað hefur verið til að staða fjárfestingarbankans á erlendum lánamarkaði verði sterk strax frá upphafi. Þannig hefur þess verið gætt í frumvarpinu að tryggja stöðu erlendra lánveitenda núverandi sjóða eftir því sem kostur er. Verður þar fyrst og fremst að hafa í huga lánveitendur Fiskveiðasjóðs, en skuldbindingar Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs njóta ríkisábyrgðar sem haldast mun vegna eldri skuldbindinga. Þá er það mat sérfræðinga að fjárfestingarbankinn muni allt frá upphafi eiga kost á hagstæðum lánakjörum.
    Við undirbúning málsins hefur verið miðað við ársreikninga fjárfestingarlánasjóðanna árið 1995. Til upplýsingar eru birtir í fylgiskjölum síðustu ársreikningar sem lokið hefur verið við.

7. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
—    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. taki til starfa sem lánastofnun 1. janúar 1998.
—    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. verði stofnaður eigi síðar en 1. júlí 1997. Fram til 1. janúar 1998 verði unnið að undirbúningi þess að hann hefji starfsemi sem lánastofnun.
—    Ríkissjóður verði einn eigandi hlutafjár í fjárfestingarbankanum við stofnun hans. Heimilt sé að selja 49% hlutafjár ríkisjóðs. Undirbúningur að sölu verði þegar hafinn.
—    Samtökum fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi verði tryggð aðild að meðferð atkvæða ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum.
—    Ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem stofnað var til í starfstíð þeirra.
—    Fjárfestingarbankinn taki við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem ekki er ráðstafað til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Fjárfestingarbankinn taki jafnframt við öllum skattalegum réttindum og skyldum sjóðanna.
—    Starfsmönnum núverandi sjóða verði tryggð störf í fjárfestingarbankanum eða Nýsköpunarsjóði.
    Síðustu ársreikningar Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs eru birtir sem fylgiskjöl með frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að ríkisstjórnin skuli beita sér fyrir stofnun lánastofnunar samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Lánastofnunin nefnist Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., en skv. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga er lánastofnunum heimilt að nota hugtakið fjárfestingarbanki í heiti sínu þrátt fyrir einkarétt viðskiptabanka á notkun á hugtakinu banki.
    Í frumvarpi þessu er einungis kveðið á um þau atriði sem nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um vegna stofnunar fjárfestingarbankans, að öðru leyti en því að í 2. gr. er honum markað sérstakt hlutverk. Lög nr. 123/1993 og lög nr. 2/1995, um hlutafélög, munu hins vegar gilda um alla starfsemi bankans þegar honum hefur verið komið á fót.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að viðskiptaráðherra annist undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fari með framkvæmd laganna. Lög nr. 123/1993 heyra undir viðskiptaráðherra og er því eðlilegt að slík almenn lánastofnun heyri undir hann þó að þeir fjárfestingarlánasjóðir sem fjárfestingarbankinn er reistur á heyri undir sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er fjárfestingarbankanum markað rúmt hlutverk. Þannig er gert ráð fyrir að hann veiti öllu íslensku atvinnulífi fjármálaþjónustu sem lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil að lögum. Skv. 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, felst starfsemi lánastofnana í því að veita lán í eigin nafni og afla sér í því sambandi fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Í ákvæðinu er talin upp sú starfsemi sem lánastofnun er heimilt að stunda, en þar er um sömu starfsemi að ræða og viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil skv. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, að öðru leyti en því að lánastofnunum er óheimilt að taka við innlánum og öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi.
    Gert er ráð fyrir að fjárfestingarbankinn byggist á þeirri starfsemi sem Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður stunda og Iðnþróunarsjóður stundaði áður og þeirri þekkingu og þeim tengslum við atvinnulífið sem sjóðirnir hafa nú. Í þessu felst að fjárfestingarbankanum er ætlað að veita þjónustu sem tengist veitingu hagkvæmra langtímalána og þróa áfram náin tengsl við atvinnulífið. Þannig geti fjárfestingarbankinn sinnt sérhæfðri þjónustu og bætt framboð á fjármálaþjónustu hér á landi.
    Með hliðsjón af þeim áherslum sem hér var lýst verður að ætla að fjárfestingarbankinn muni, auk hefðbundinnar starfsemi sem tengist veitingu langtímaveðlána, sinna fjármögnun skilgreindra og afmarkaðra verkefna. Þá er ljóst að fjárfestingarbankanum verða sett ströng markmið um hagkvæmni og ódýra þjónustu. Af þessu leiðir að öllum líkindum að áhersla verður lögð á þjónustu yfir tilteknum fjárhæðamörkum.
    Benda má á í þessu sambandi að Norræna fjárfestingarbankanum, NIB, og Evrópubankanum var í upphafi ætlað að starfa á þessum forsendum, þ.e. fjármögnun skilgreindra og afmarkaðra verkefna yfir tilteknum fjárhæðamörkum.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að fjárfestingarbankinn taki 1. janúar 1998 við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, öðrum en þeim sem ráðstafað er með öðrum hætti samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Með þessu er einkum vísað til 7. gr. frumvarps til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins en samkvæmt þeirri grein er gert ráð fyrir að Nýsköpunarsjóði verði lagðar til 3.000 millj. kr. af sameiginlegu eigin fé umræddra sjóða. Gert er ráð fyrir Nýsköpunarsjóðnum verði lagður til verulegur hluti upphæðarinnar með skuldabréfi útgefnu af fjárfestingarbankanum.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er skýrt kveðið á um að ríkissjóður sé eigandi alls hlutafjár í fjárfestingarbankanum við stofnun hans. Í almennum athugasemdum var greint frá andstæðum sjónarmiðum sem uppi hafa verið um raunverulegt eignarhald Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs. Eins og þar kemur fram er með frumvarpi þessu talið eðlilegt að tryggja samtökum fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi rétt til þátttöku í stjórnun fjárfestingarbankans við stofnun hans.
    Í 2. mgr. er lagt til að viðskiptaráðherra ákveði upphaflegt hlutafé í fjárfestingarbankanum. Við það er miðað að heildarfjárhæð hlutafjár á stofnfundi hans sé eigi hærri en sem nemur þremur fjórðu hlutum eigin fjár Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem lagt er til fjárfestingarbankans skv. 3. gr. frumvarpsins. Miðað er við endurskoðaða ársreikninga sjóðanna fyrir árið 1996. Ákvörðun um hvert vera skuli hlutfall milli hlutafjár og annars eiginfjár ræðst m.a. af því með hvaða hætti ríkissjóður hyggst taka arð af þessari eign sinni. Það er því er lagt í mat ráðherra hvert sé heppilegasta viðmiðunarmarkið. Mismunurinn á hlutafé og eigin fé telst til óráðstafaðs eigin fjár hins nýja fjárfestingarbanka og myndar ekki stofn til greiðslu arðs.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fari saman með eignarhlut ríkisins í fjárfestingarbankanum. Þetta þykir eðlilegt í ljósi þess að þeir sjóðir sem fjárfestingarbankinn er reistur á heyra undir þessa ráðherra.
    Til þess að tryggja áhrif fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi á stjórnun fjárfestingarbankans er í 2. mgr. gert ráð fyrir að sérstök fimm manna nefnd fari með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi og öðrum hluthafafundum í fjárfestingarbankanum. Um ástæður þess vísast til almennra athugasemda. Gert er ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra tilnefni tvo menn hvor og einn sameiginlega. Þar af tilnefnir iðnaðarráðherra einn eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, en með því er átt við Samtök iðnaðarins. Þá tilnefnir sjávarútvegsráðherra annan fulltrúa sinn eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi, en með því er vísað til Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva.
    Ætla má að öðru leyti að nefndin velji á framboðslista til stjórnarkjörs með hlutfallskosningu í sínum hópi. Þar sem nefndin sjálf fer með atkvæði ríkissjóðs samkvæmt ákvæðinu mun nefndin koma fram á aðalfundum og hluthafafundum sem ein heild og tala einum rómi. Hver hinna fimm nefndarmanna fer því ekki með fimmtung atkvæða ríkissjóðs.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um sölu á hlutafé ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að selja allt að 49% hlutafjár þegar í upphafi og er iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem fara saman með eignarhlutinn, ætlað að undirbúa söluna. Nánari ákvarðanir um söluna munu fara eftir markaðsaðstæðum og aðstæðum fjárfestingarbankans á þeim tíma.
    Í ákvæðinu felst að ekki verður heimilt að selja meiri hluta ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum nema með heimild Alþingis. Í þessu sambandi verður að hafa í huga stöðu fjárfestingarbankans á erlendum lánamarkaði. Það er samdóma álit þeirra sérfræðinga sem leitað hefur verið til að mikilvægt sé að meiri hluti ríkissjóðs verði ekki seldur fyrst um sinn, þannig að hinum nýja fjárfestingarbanka verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaði við öflun lánsfjár og afla sér trausts á erlendum lánamarkaði. Hafa verður og í huga stöðu núverandi lánardrottna sjóðanna, einkum með tilliti til þeirra skuldbindinga sem Fiskveiðasjóður Íslands er nú í, en hann nýtur ekki ríkisábyrgðar.
    Skv. 7. gr. frumvarps til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins skal ríkissjóður greiða Nýsköpunarsjóði 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Nauðsynlegt er með vísan til þessa að flýta fyrstu sölu hlutafjár í fjárfestingarbankanum. Gengið er út frá því að Nýsköpunarsjóði verði lagt til fyrsta söluandvirði bréfanna.

Um 7. gr.


    Þar sem fjárfestingarbankinn er stofnaður með sérlögum og þar sérstaklega kveðið á um nokkur atriði er talið nauðsynlegt að kveða á um að tiltekin ákvæði laga um lánastofnanir viðskiptabanka og sparisjóði og hlutafélagalaga gildi ekki um stofnun fjárfestingarbankans. Skv. 6. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 6. gr. laga nr. 123/1993, og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, er kveðið á um innborgun hlutafjár við stofnun lánastofnunar og hlutafélags fyrr og í öðru formi en frumvarp þetta gerir ráð fyrir. Þá geyma 6.–7. gr. hlutafélagalaga ákvæði um það hvernig með skuli fara ef hluthafa er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé, en þau eiga ekki við í tilviki fjárfestingarbankans. Með hliðsjón af því að ríkissjóður er einn eigandi hlutafjár í upphafi er og eðlilegt að undanskilja 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga um hlutafélög þar sem kveðið er á um að stofnendur og hluthafar skuli vera tveir hið fæsta.

Um 8. gr.


    Eðlilegt þykir að kveða skýrt á um að hluthafar í fjárfestingarbankanum njóti ekki sérréttinda með þeim hætti að þeir fái sérmeðferð í fyrirgreiðslu fjárfestingarbankans.

Um 9. gr.


    Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Hins vegar hefur ríkissjóður ekki um langt skeið borið ábyrgð á erlendum skuldbindingum Fiskveiðasjóðs Íslands og ríkisábyrgð á innlendum skuldbindingum hans var felld niður með 6. gr. laga nr. 2/1992. Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Útflutningslánasjóðs. Með þessari grein er gert ráð fyrir að ríkissjóður beri áfram ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðanna sem stofnað er til með ríkisábyrgð í starfstíð þeirra. Hins vegar beri ríkissjóður ekki ábyrgð á skuldbindingum fjárfestingarbankans umfram það sem kveðið er á um í frumvarpinu og hlutafélagalögum.
    Ákvæðið tekur einnig til þeirra skuldbindinga sem flytjast til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Um 10. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að starfsmenn umræddra sjóða, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, eigi kost á starfi hjá fjárfestingarbankanum, nema þeim sem boðið er starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Í því felst að öllum verði tryggt starf. Eðli málsins samkvæmt er þó ekki hægt að tryggja öllum starfsmönnum sambærilegt starf. Skv. 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpi til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er kveðið á um að fjárfestingarbankinn og Nýsköpunarsjóður skuli hafa samstarf um samninga við starfsmenn.
    Að því er lífeyrisréttindi varðar felst það í 9. gr. frumvarpsins að ríkissjóður muni bera ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum sjóðanna vegna starfsmanna að því marki sem þær njóta ríkisábyrgðar nú. Um starfskjör, lífeyrisréttindi og þess háttar fer eftir samningum við fjárfestingarbankann og eftir atvikum eftirlaunasjóði eða lífeyrissjóði um vistun réttinda.

Um 11. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um hvernig fara skuli með biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í fjárfestingarlánasjóðunum. Ekki hefur verið staðfest fyrir dómstólum að starfsmenn fjárfestingarlánasjóðanna eða bankastarfsmenn eigi rétt á biðlaunum eins og almennir ríkisstarfsmenn. Í frumvarpinu er ekki skorið úr um þetta.
    Í greininni er vísað til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða þeirra laga er kveðið á um að sé starf lagt niður eigi starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku þeirra laga og fallið hefur undir lög nr. 38/1954 en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laganna, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði. Hins vegar gildi ákvæði 34. gr. laganna um bótarétt og bótafjárhæð að öðru leyti. Af henni leiðir meðal annars að ef starfsmaður hafnar öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkis eða annars aðila, fellur niður réttur til biðlauna. Þá er mælt fyrir um það í ákvæðinu að ef starfsmaður tekur við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en liðinn er biðlaunaréttartíminn skuli launagreiðslur samkvæmt greininni, þ.e. biðlaunagreiðslur, falla niður ef laun er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrra embætti. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins.
    Hin nýju lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins byggjast á stefnu ríkisstjórnarinnar í starfsmannamálum ríkisins sem m.a. miðar að því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Þau ákvæði sem hér var lýst eru liður í því og gera stjórnvöldum kleift að minnka ríkisumsvif.

Um 12. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um greiðslustað skuldaskjala sem eru í eigu Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs eða Iðnþróunarsjóðs og vistunarstað skjala sem eru í innheimtu þeirra fyrir yfirtökuna. Ákvæðið er í samræmi við þá meginhugsun frumvarpsins að fjárfestingarbankinn taki við réttindum og skuldbindingum sjóðanna. Nauðsynlegt þykir að kveða ítarlega á um þessi atriði til þess að koma í veg fyrir réttaróvissu.

Um 13. gr.


    Mörg skuldabréf sjóðanna eru með breytilegum vöxtum þar sem stjórnum sjóðanna er heimilt að breyta vaxtakjörum. Nauðsynlegt er að yfirfæra þennan rétt til stjórnar fjárfestingarbankans og er það tilgangur þessarar greinar.

Um 14. gr.


    Skv. 6. gr. reglugerðar nr. 277/1991 er Fiskveiðasjóði heimilt að veita lán í sérstökum reikningseiningum sem breytast í samræmi við breytingar á vegnu meðaltali erlendra gjaldmiðla, erlendra reikningseininga og vísitölu, allt eftir samsetningu höfuðstóls langtímaskulda og útlána Fiskveiðasjóðs. Til grundvallar skráningu á verðgildi reikningseiningarinnar liggur tiltekið vægi gjaldmiðla, erlendra reikningseininga og skulda sem tengdar eru vísitölu. Reikningseiningin breytist daglega í sama hlutfalli til hækkunar eða lækkunar og verðgildi vogarinnar breytist. Þá er Fiskveiðasjóði heimilt að endurreikna verðvægi eininga í voginni eins oft og þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.
    Sameining sjóðanna og stofnun hins nýja fjárfestingarbanka gerir það ókleift að viðhalda reikningseiningunni eins og henni er lýst í reglugerð nr. 277/1991. Því er í þessari grein lagt til að frá og með 1. janúar 1998 verði hún fryst og frá og með þeim degi samsett af þeim gjaldmiðlum og í sömu hlutföllum innbyrðis og liggja til grundvallar skráningu Fiskveiðasjóðs á verðgildi reikningseiningarinnar 31. desember 1997. Frá þeim tíma skal birta þessa reikningseiningu við útreikning þeirra útlána sjóðsins sem tengd eru við reikningseininguna. Verðgildi erlendra gjaldmiðla í reikningseiningunni skal miðast við skráningu Seðlabankans.
    Í 2. mgr. er boðið að kynna skuli breytinguna. Þar sem ekki er að finna heimild í eldri veðbréfum Fiskveiðasjóðs til uppgreiðslu RFÍ-lána þykir rétt í ljósi sérstakra kringumstæðna að leggja til að slíkt verði heimilt. Enn fremur er lagt til að lánþegum sem skulda lán í RFÍ verði gefinn kostur á að semja um skilmálabreytingu þeirra þannig að endurgreiðsla lánanna miðist við einhvern tiltekinn gjaldmiðil eða gjaldmiðla sem samningar kunna að nást um við bankann. Slíkar skilmálabreytingar eru þó háðar samþykki síðari veðhafa samkvæmt almennum reglum.
    Lagt er til að ekki þurfi að greiða stimpilgjald vegna slíkra endursamninga.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands skrái verðgildi reikningseiningarinnar og ákvarði dráttarvexti af vanskilum lána sem tengd eru viðmiðum hennar, en til þessa hefur stjórn Fiskveiðasjóðs ákvarðað dráttarvexti af reikningseiningunni að höfðu samráði við sjávarútvegsráðherra og Seðlabankann, sbr. 15. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.

Um 15. og 16. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Í þessari grein er lagt til að fjárfestingarbankinn taki við öllum skattalegum réttindum og skyldum fjárfestingarlánasjóðanna og að um það fari eftir almennum lögum um skattskyldu lánastofnana. Rétt er að vekja athygli á að Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður eiga yfirfæranlegt rekstrartap frá fyrri árum.

Um 18. gr.


    Hlutaðeigandi sjóðum er víða falið í lögum að sinna tilteknum verkefnum. Ekki þykir ástæða til að breyta ákvæðum allra laga sem fela þeim verkefni af þessu tagi. Þessi verkefni munu hins vegar falla niður smátt og smátt.

Um 19. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um upphaf starfsemi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem lánastofnunar 1. janúar 1998. Nauðsynlegt þykir að hraða aðgerðum þeim sem lagðar eru til í frumvarpi þessu til að eyða sem fyrst þeirri óvissu sem ríkt hefur um framtíð sjóðanna og óvissu sem óhjákvæmilega fylgja breytingum af þessu tagi. Á sama tíma skulu Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður lagðir niður og lög sem um þá gilda felld úr gildi. Rétt er að benda sérstaklega á að lög nr. 93/1986, um Stofnfjársjóð fiskiskipa, falla niður og með þeim sá greiðslumáti lána hjá Fiskveiðasjóði sem þar er gert ráð fyrir. Jafnframt er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, og er samhliða frumvarpi þessu lagt fram sérstakt frumvarp þar að lútandi.
    Gert er ráð fyrir að umboð stjórna sem skipaðar eru samkvæmt núgildandi lögum falli niður 1. janúar 1998 en þá tekur stjórn fjárfestingarbankans við.

Um 20. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um stofnun hlutafélagsins Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Lagt er til að hlutafélagið verði stofnað eigi síðar en 1. júlí 1997 og hafi það verkefni til 1. janúar 1998 að undirbúa starfsemi sína sem lánastofnun. Gert er ráð fyrir að þegar við stofnun liggi fyrir samþykktir fjárfestingarbankans sem lánastofnunar og stofnefnahagsreikningur, en í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um að stofnhlutafé verði ekki greitt til fjárfestingarbankans fyrr en 1. janúar 1998, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Ekki er kveðið sérstaklega á um í hverju starfsemi fjárfestingarbankans felist fram til 1. janúar 1998 að öðru leyti en því að honum er heimilt að semja við starfsmenn fjárfestingarlánasjóðanna og lánardrottna. Nauðsynlegt er að kveða á um samstarf hlutafélagsins og Nýsköpunarsjóðs um starfsmannamál þar sem réttur hvers starfsmanns tekur til beggja stofnananna. Þá er kveðið á um aðgang að gögnum sjóðanna frá stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og þar til hann tekur til starfa sem lánastofnun.
    Rétt er að leggja áherslu á að starfsemi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins fyrir 1. janúar 1998 er ekki ætlað að skerða lögbundið starfssvið framkvæmdastjóra og stjórna umræddra sjóða.

Um 21. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Ársreikningar Fiskveiðasjóðs Íslands (1995).



(Repró, 3 síður.)






Fylgiskjal II.


Ársreikningar Iðnlánasjóðs (1996).



(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal III.


Ársreikningar Iðnþróunarsjóðs (1996).



(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,

fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um


Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði nýr banki að meiri hluta í eigu ríkisins og verði Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður sameinaðir í hinum nýja banka, þó þannig að umræddir sjóðir afhendi Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins 3 milljarða króna af sameiginlegu eigin fé sínu. Frumvarp um sjóðinn er flutt samhliða frumvarpi þessu.
    Í 9. gr. er lagt til að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum sjóðanna fjögurra sem stofnað hefur verið til í starfstíð þeirra. Hér er um einfalda ábyrgð að ræða og á ekki að valda kostnaði nema til greiðslufalls komi hjá hinum nýja banka.
    Í 10. gr. er kveðið svo á að allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs skuli eiga kost á starfi hjá fjárfestingarbankanum eða Nýsköpunarsjóði. Í greinargerð kemur fram að ekki kann að verða unnt að bjóða öllum starfsmönnum sambærilegt starf því er þeir höfðu fyrir. Þar með kann að myndast starfslokakostnaður, þar með talin biðlaun. Litið er svo á að sá kostnaður, sem kann að hljótast af starfslokum einstakra starfsmanna, falli á fjárfestingarbankann eða Nýsköpunarsjóð en ekki á ríkissjóð.
    Á heildina litið verður ekki séð að komi til kostnaðar ríkissjóðs verði frumvarp þetta að lögum nema svo fari að það reyni á ábyrgð ríkissjóðs vegna innlendra og erlendra skuldbindinga og hinn nýi sjóður nái ekki að efna áhvílandi skuldbindingar sem eru yfirteknar frá sjóðunum fjórum.