Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 437 . mál.


746. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    10. tölul. 3. mgr. orðast svo: Þjónusta banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja og annarra lánastofnana sem falla undir lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Innheimta krafna í eigu annarra er þó skattskyld, svo og fjármálaráðgjöf, bókhaldsþjónusta og önnur þjónusta sem innt er af hendi í samkeppni við skattskylda aðila.
    5. mgr. orðast svo:
                  Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála. Skilyrði fyrir undanþágu er að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslega áhættu aðila og hann hafi fengið staðfestingu skattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Eftirtalin starfsemi telst góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu:
        1.    basarsala, merkjasala og önnur hliðstæð sala góðgerðarfélaga, enda vari starfsemin ekki lengur en í þrjá daga í hverjum mánuði eða í fimmtán daga sé um árlegan atburð að ræða,
        2.    söfnun og sala verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila,
        3.    sala nytjamarkaða á notuðum munum sem söluaðili hefur fengið afhenta án endurgjalds.

2. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir 3. og 5. mgr. 2. gr., skulu greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila skv. 1. mgr. Jafnframt skulu aðilar sem stunda byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á eigin kostnað, þar með talið viðhald og endurbætur, greiða virðisaukaskatt af eigin vinnu, vinnu starfsmanna og efnis- og tækjanotkun, hvort sem byggt er til sölu, leigu eða til eigin nota. Eigin vinna byggingaraðila er þó ekki skattskyld þegar aðili byggir eingöngu til eigin nota, enda noti hann ekki vinnuafl launþega við hönnun eða framkvæmdir og vinnan er ekki í iðn- eða sérfræðigrein hans eða sambærilegri grein. Þá skulu ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu vegna eigin nota, enda sé ekki um að ræða vinnu eða þjónustu skv. 3. mgr. 42. gr. sem innt er af hendi utan sérstaks fyrirtækis eða þjónustudeildar. Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, þar með talið um það hvenær starfsemi geti verið í samkeppni við atvinnufyrirtæki, skattverð, bókhald o.fl.

3. gr.

    Í stað orðanna „framleiðslu vöru til sölu í atvinnuskyni á síðari rekstrarárum“ í 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
    Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjarskiptaþjónusta telst ekki vera veitt erlendis ef kaupandi hefur annaðhvort búsetu eða starfsstöð hér á landi.
    Við bætast nýir töluliðir sem orðast svo:
         
9.
    Þjónusta sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi.
         
10.
    Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé hún að öllu leyti nýtt erlendis.
    2. málsl. 2. mgr. fellur brott.


5. gr.

    Á eftir orðunum „villandi gögn,“ í 4. málsl. 4. mgr. 25. gr. laganna kemur: eða tilkynnt skattrannsóknarstjóra ríkisins grun um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga skv. 6. mgr. 26. gr.

6. gr.

    Við 1. mgr. 27. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá skal aðili sæta álagi ef endurgreiðsla skv. 1., 2. og 4. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr. hefur verið of há.


7. gr.

    Í stað tölunnar „45“ í 5. mgr. 28. gr. laganna kemur: 15.


8. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Aðili, sem kaupir skattskylda þjónustu erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, skal greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Sama gildir um þjónustu erlends aðila sem veitt er hér á landi, enda hafi hinn erlendi aðili hvorki starfsstöð né umboðsmann hér á landi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðili sem skráður er skv. 5. gr. undanþeginn skyldu til greiðslu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. ef hann gæti að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. Þetta gildir þó ekki þegar þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning á vöru.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
    3. mgr. orðast svo:
                  Innflutningur á rituðu máli, sem sent er til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana án endurgjalds, er undanþeginn greiðslu virðisaukaskatts, án tillits til í hvaða formi efnið er, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni. Sama gildir um ritað mál sem öðrum aðilum er sent án endurgjalds, enda fari fob-verð sendingar ekki yfir 5.000 kr. og innflutningurinn sé ekki í viðskiptaskyni.
    Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Vörur, sem fluttar eru til landsins af aðilum sem skráðir eru skv. 5. gr., eru undanþegnar virðisaukaskatti ef fob-verð sendingar nemur ekki hærri fjárhæð en 1.500 kr. Áfengir drykkir og tóbak eru þó ekki undanþegin virðisaukaskatti. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um undanþágu virðisaukaskatts samkvæmt þessu ákvæði.

10. gr.

         Í stað „5. mgr.“ í 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: 7. mgr.


11. gr.

    3. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
    Endurgreiða skal ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á eftirtalinni þjónustu eða vöru:
    Sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þar með talið brotamálma. Ákvæði þetta tekur einnig til leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar sorphirðu.
    Ræstingu.
    Snjómokstri og snjó- og hálkueyðingu með salti eða sandi.
    Björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna.
    Þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi, sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.
    Þjónustu vaktstöðva vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar.


12. gr.

    Í stað orðanna „og 1. mgr. 24. gr.“ í 45. gr. kemur: 1. mgr. 24. gr. og 3. og 4. mgr. 36. gr.


13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum virðisaukaskattslaganna. Breytingar þær sem lagðar eru til miða fyrst og fremst að því að kveða með skýrari hætti en nú um afmörkun skattskyldu í lögunum í einstökum tilvikum. Lagt er til að ákvæði laganna verði gerð ítarlegri og að kveðið verði á um ýmis atriði í þeim sem hingað til hefur verið fjallað um í reglugerðum. Telja verður að lögin verði heildstæðari við þessar breytingar en þau eru nú og jafnframt verði framkvæmd laganna styrkt og réttaröryggi borgaranna betur tryggt en áður.
    Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að skattskylda verði afmörkuð skýrar en nú. Í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í ýmsum ákvæðum virðisaukaskattslaganna er skattskylda ekki skýrt afmörkuð. Í slíkum tilvikum hafa stjórnvöld síðan afmarkað skattskylduna nánar í reglugerðum. Til þess að gera virðisaukaskattslögin heildstæðari er í frumvarpi þessu lagt til að skattskyldan verði afmörkuð í lögunum með því að gera heimildarákvæði varðandi skattskyldu, undanþágur og endurgreiðslur skýrari. Dæmi um framangreint er að lagt er til að heimild fjármálaráðherra til að ákveða með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum hvort eigin þjónusta fyrirtækja og opinberra aðila sé skattskyld verði felld niður. Í stað þess verði tekið á því í lögunum að eigin þjónusta, að því leyti sem um er að ræða að skattskyld vara eða þjónusta er innt af hendi til eigin nota, sé skattskyld.
    Í öðru lagi er lagt til að undanþáguákvæði laganna er snýr að bankastarfsemi verði gert skýrara með það að markmiði að styrkja gildandi framkvæmd. Leitast er við að skilgreina hvaða þjónusta er skattskyld í starfsemi banka og sparisjóða.
    Í þriðja lagi er lagt til að vörur sem skattskyldur aðili flytur til landsins, séu undanþegnar virðisaukaskatti ef heildarverðmæti þeirra nemur ekki meira en 1.500 kr. Þessi undanþága nær þó hvorki til áfengis né tóbaks. Þessari reglu er ætlað að einfalda innflutning á ýmsum smávörum sem fluttar eru til landsins en hafa lítið verðgildi og heimilt er að innskatta. Auk þess miðar reglan að því að tryggja að gjaldtaka af smásendingum verði ætíð hin sama, óháð því með hvaða hætti hún er flutt til landsins.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem lúta að því að styrkja þau málsmeðferðarákvæði sem nú eru fyrir hendi í lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er annars vegar lagt til að 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna verði gerður skýrari og afdráttarlausari. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að góðgerðarstarfsemi sé undanþegin skattskyldu í stað þess að fjármálaráðherra hafi ákvörðunarvald um það.
    Undanþágur banka og annarra fjármálastofnana er gerð skýrari og ítarlegri en í núgildandi ákvæði. Í gildandi ákvæði er kveðið á um að þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlunar, sé undanþegin virðisaukaskatti. Við túlkun ákvæðisins hefur aðallega verið horft til þess hvaða þjónusta teljist bankastarfsemi, enda ekki tilgangur þess að undanþiggja starfsemi innan fjármálastofnana sem er skattskyld hjá öðrum aðilum. Þess ber að geta að bankastarfsemi er almennt undanþegin virðisaukaskatti í löndum þar sem virðisaukaskattur er lagður á og stafar það af tæknilegum örðugleikum við að ákvarða skattstofninn, en megintekjustofn banka ræðst af vaxtamun útlána og innlána. Sala fjármálastofnana á ýmissi annarri þjónustu en þeirri sem háð er starfsleyfi þeirra er hins vegar sem fyrr segir skattskyld að því leyti sem hún er í samkeppni við aðra aðila. Þannig er til dæmis ýmis innheimtustarfsemi skattskyld, önnur en innheimta á eigin kröfum, þar með talin útgáfa og dreifing á reikningum fyrir aðra aðila.
    Í 2. tölul. er gerð tillaga um breytingu á ákvæði 5. mgr. varðandi undanþágu vegna góðgerðarstarfsemi. Þessi breyting lýtur að því að kveða með skýrum hætti á um skattskyldu í lögunum en núgildandi ákvæði felur fjármálaráðherra í hendur vald til þess að ákveða hvort um sé að ræða skattskylda starfsemi eða ekki. Efnislega er ekki um að ræða breytingu frá gildandi framkvæmd, enda miðast orðalag ákvæðisins við reglugerð fjármálaráðherra nr. 564/1989, um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi.


Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að afnumin verði heimild fjármálaráðherra til að ákveða hvenær um sé að ræða skattskyldu vegna eigin þjónustu og hún ákveðin skýrt í lögunum sjálfum. Svo sem fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta miðar það m.a. að því að festa í lögum helstu ákvæði reglugerða sem ráðherra hefur gefið út á grundvelli lagaákvæðisins.
    Í 2. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga er ráðherra heimilað að ákveða með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum að atvinnufyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota. Slík skattlagning er nauðsynleg til að koma í veg fyrir að innheimta virðisaukaskatts af atvinnufyrirtækjum og öðrum skattskyldum aðilum verði til þess að óskráðir aðilar leggi óeðlilega áherslu á að vera sjálfum sér nógir um rekstraraðföng sem að öðrum kosti væri hagkvæmara að kaupa af öðrum. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. gildandi laga hefur þann tilgang að tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem selja sambærilega vöru og þjónustu og eigin not óskráðra aðila lúta að.
    Fjármálaráðherra hefur gefið út þrjár reglugerðir um þetta efni, reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Ekki hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á þessum reglugerðum frá því þær voru gefnar út og má ætla að framkvæmd þeirra sé í nokkuð föstum skorðum. Í meginatriðum gerir tillagan ráð fyrir óbreyttri framkvæmd. Leitast er við að orða megininntak þessara reglugerða, þó er gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði með reglugerð bæði um eigin framleiðslu og þjónustu sem skattskyld telst samkvæmt ákvæðinu og um stofn til virðisaukaskatts (skattverð), bókhald og önnur atriði sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar þess. Ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á skattskyldu vegna eigin starfsemi frá því sem gilt hefur samkvæmt fyrrgreindum reglugerðum.
    Í 1. málsl. er kveðið á um skyldu þeirra sem hafa með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti til að reikna og standa skil á virðisaukaskatti af eigin þjónustu og framleiðslu. Með þessum ákvæðum er mælt fyrir um almenna skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti af eigin þjónustu og framleiðslu í öðrum tilvikum en þegar um er að ræða almenna skrifstofuvinnu og hliðstæða starfsemi sem ekki verður talin vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki á viðkomandi sviði. Líta ber svo á að skattskylda þessara aðila taki m.a. til sömu þátta og getið er í reglugerð nr. 562/1989, en þar eru sérstaklega nefnd m.a. smíði, viðhald og viðgerðir véla, rekstur þvottahúss, rekstur prentstofu, rekstur mötuneytis, ræsting, þjónusta þar sem krafist er iðnmenntunar, sérfræðiþjónusta og öryggisgæsla. Önnur sambærileg starfsemi er jafnframt skattskyld.
    Við mat á því hvenær eigin þjónusta er í samkeppni við atvinnufyrirtæki ber að líta til þess að skattskyldan taki ekki til almennrar skrifstofuþjónustu og hliðstæðrar starfsemi sem ekki verður almennt talin vera í samkeppni við skattskylda aðila. Til að mynda má nefna að ekki ber að reikna virðisaukaskatt af eigin tölvu- og bókhaldsþjónustu af því tagi sem almenn er og venjuleg í fyrirtækjum og stofnunum, en öðru gegnir um forritun. Sama gildir um ræstingu innan tiltekinna marka sem ekki hefur verið talin skattskyld eigin þjónusta samkvæmt reglugerð nr. 562/1989, enda sé ræstingin nauðsynlegur og óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi og um að ræða tiltölulega lítið húsnæði og umfangslitla ræstingarvinnu. Áhersluatriðið í þessu sambandi er það hvort samkeppnisaðstæður raskist með almennum hætti sökum virðisaukaskatts, enda er reglan miðuð við það að vernda samkeppnisstöðu fyrirtækja sem láta í té hliðstæða vöru og þjónustu sem skattskyld er.
    Í 2. og 3. málsl. er að finna reglur um skyldu þeirra sem byggja eða reisa hús eða önnur mannvirki fyrir eigin reikning til að reikna virðisaukaskatt af byggingarstarfseminni. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð er skattskyld samkvæmt almennum ákvæðum laganna, en nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um skattgreiðslur byggingaraðila sem byggja á eigin kostnað þar sem hvorki er um það að ræða að virðisaukaskattur sé innheimtur af sölu fasteigna né er fasteignaleiga skattskyld starfsemi. Skattskyldan gildir bæði í þeim tilvikum þegar aðili byggir á eigin kostnað til leigu eða sölu og þegar hann byggir til eigin nota eða nota fyrirtækis síns. Andstætt því sem gildir almennt varðandi skattlagningu á þjónustu til eigin nota, sbr. að framan, tekur skattskylda vegna byggingarstarfsemi á eigin kostnað bæði til þeirra sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi sem ekki er skattskyld. Er því skráðum aðila, sem byggir fasteign til nota fyrir virðisaukaskattsskylda starfsemi sína, skylt að reikna virðisaukaskatt af byggingarvinnunni þó sá skattur teljist jafnframt til innskatts. Stafar þetta af reglum um skyldu til leiðréttingar innskatts verði breyting á notkun varanlegra rekstrarfjármuna, þar á meðal fasteigna, sbr. 2. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til smávægileg orðalagsbreyting til samræmis við gildandi framkvæmd. Þegar 5. gr. laganna var breytt með lögum nr. 40/1995 láðist að gera ráð fyrir að aðilar ættu þess kost á að fá svokallaða fyrirfram skráningu vegna þjónustustarfsemi. Aðeins var gert ráð fyrir að aðilar gætu fengið fyrirfram skráningu vegna framleiðslu á vöru til sölu á síðari rekstrarárum. Með þessari breytingu er tryggt að aðilar sem fjárfesta í þjónustugreinum eigi jafnan rétt og aðilar sem fjárfesta í framleiðslugreinum til að fá skráningu þrátt fyrir að tekjur verði ekki af starfseminni strax í upphafi.

Um 4. gr.

    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna varðandi undanþegna veltu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að fjarskiptaþjónusta teljist ekki veitt erlendis ef kaupandi hennar er annaðhvort með búsetu eða fasta starfsstöð hér á landi. Þykir óeðlilegt að innlendir aðilar, sem kaupa þessa þjónustu af íslensku fyrirtæki, greiði ekki virðisaukaskatt af henni einungis vegna þess að þeir eru staddir í öðru landi þegar þeir þiggja þjónustuna, en dæmi um slíkt er þegar aðili búsettur hér á landi notar GSM-síma erlendis. Sér í lagi er litið til þess að íslenska fyrirtækið, sem kaupir fjarskiptaþjónustu erlendis til endursölu gagnvart innlendum aðilum, getur í flestum tilvikum fengið erlendan virðisaukaskatt endurgreiddan þannig að enginn virðisaukaskattur hvíli á þessari þjónustu sem íslenskir neytendur kaupa af innlenda fyrirtækinu. Er tillagan sett fram í þeim tilgangi að ekki eigi að skipta máli með tilliti til virðisaukaskatts hvar innlendur aðili fær slíka þjónustu.
    Í öðru lagi er lagt til að fellt verði brott heimildarákvæði fjármálaráðherra til að ákveða undanþágur vegna þjónustu sem veitt er hér á landi til aðila sem hafa heimilisfesti erlendis. Í staðinn verði lögákveðið að sala á þjónustu til erlendra aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin skattskyldri veltu í þeim tilvikum sem þjónustan er að öllu leyti nýtt erlendis. Í þessu felst sú efnisbreyting að horfið er frá heimild til undanþágu í tilvikum þar sem erlendur rekstraraðili gæti, ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi, talið greiddan virðisaukaskatt til innskatts. Þess í stað geta erlendir rekstraraðilar sem kaupa viðkomandi þjónustu hér á landi fengið virðisaukaskatt af henni endurgreiddan samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Þetta er þó með þeirri undantekningu að lagt er til að undanþága vegna þjónustu sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi verði áfram í gildi. Rökin fyrir þessu eru þau að oftast nær væri örðugt fyrir þessa aðila að sækja um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 288/1995 þar sem fiskiskip staldra stutt við í landi.
    Þegar virðisaukaskattslög voru sett var heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra aðila takmörkuð við virðisaukskatt sem þeir höfðu greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi. Síðan var ákvæðið rýmkað lítillega með 7. gr. laga nr. 106/1990 á þann veg að endurgreiðsluheimildin tók jafnframt til þess tilviks þegar erlend fyrirtæki höfðu selt vöru hingað til lands og átti breytingin þá að ná til greiðslu virðisaukaskatts þessara aðila vegna ábyrgðarviðgerða sem framkvæmdar voru hér á landi. Með 8. gr. laga nr. 40/1995 var ákvæðið rýmkað þannig að nú tekur heimild ráðherra til þess að endurgreiða allan virðisaukaskatt af þjónustu og vöru sem erlent fyrirtæki greiðir hér á landi, enda sé um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum sem heimilt er að telja til innskatts skv. 15. og 16. gr. laganna. Þessi heimild var nýtt með útgáfu reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Því er tryggt samkvæmt núgildandi endurgreiðslureglum að erlendir aðilar, sem uppfylla framangreind skilyrði, geta sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts þó svo að þjónusta sem þeir kaupa með virðisaukaskatti af innlendum aðilum teljist vera nýtt hér á landi.
    

Um 5. gr.

    Lagt er til í þessari grein að lögfest verði heimild fyrir skattstjóra til að fresta endurgreiðslu virðisaukaskatts í þeim tilvikum sem skattstjóri telur að um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga sé að ræða. Heimild þessi er bundin því skilyrði að skattstjóri hafi tilkynnt skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann telji að um skattsvik eða refsivert brot sé að ræða, sbr. 6. mgr. 26. gr. laganna. Með þessu er verið að tryggja að skattstjóri geti stöðvað útgreiðslur úr ríkissjóði á meðan mál eru í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er lagt til að lögbundið verði að aðilar, sem fá of háa endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli 1., 3. og 4. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr. laganna skuli sæta álagi. Þar sem beiting álags er íþyngjandi er lagt til að skýr heimild til álagsbeitingar verði lögfest.

Um 7. gr.

    Lagt er til í þessari grein að styttur verði sá frestur sem skattskyldur aðili fær til að að ráða bót á tekjuskráningarkerfi sínu og bókhaldi þegar skattrannsóknarstjóri ríkissins beinir fyrirmælum til hans um úrbætur. Í dag er þessi frestur of langur og samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra ríkisins hefur ákvæðið nánast verið gagnslaust af þeim sökum. Lagt er til að fresturinn verði styttur úr 45 dögum í 15 daga.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að greiða skuli virðisaukaskatt af þjónustu sem keypt er erlendis frá og nýtt hér á landi. Í gildandi lögum er það lagt í vald ráðherra að kveða á um greiðsluskylduna í reglugerð. Í reglugerð nr. 194/1990, sem fjallar um þetta efni, er talin upp sú þjónusta sem skylt er að greiða virðisaukaskatt af við þessar aðstæður. Hér er lagt til að greiða skuli virðisaukaskatt af allri erlendri þjónustu sem nýtt er hér á landi, enda sé hún skattskyld hérlendis. Til viðbótar þessu þykir rétt að kveða á um það að ef erlendir aðilar veita skattskylda þjónustu hér á landi beri kaupanda að greiða virðisaukaskatt af henni, enda hafi hinn erlendi aðili hvorki starfsstöð né umboðsmann hérlendis. Ákvæði 8. gr. umræddrar reglugerðar er sama efnis og við setningu þess ákvæðis var litið til ákvæða laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, um ábyrgð á skattgreiðslum en í 3. mgr. 114. gr. þeirra kemur fram að þeir sem greiða erlendum aðilum gjald fyrir þjónustu bera ábyrgð á sköttum viðtakenda.
    Jafnframt er tekið fram í 2. mgr. að ef kaupandi þjónustunnar er skráður aðili og getur talið virðisaukaskatt af þjónustunni til innskatts fellur greiðsluskyldan niður. Í síðasta lagi er svo tekið fram að niðurfelling greiðsluskyldu hjá skráðum aðilum eigi ekki við ef þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning vöru, enda beri þá að greiða virðisaukaskatt af slíkum innflutningi við tollafgreiðslu. Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og 2. mgr. 4. gr. umræddrar reglugerðar.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er í fyrsta lagi lagt til að lögákveðið verði að ritað mál sem berst til landsins án endurgjalds sé undanþegið greiðslu virðisaukaskatts, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni. Í því sambandi er gert ráð fyrir að regla þessi gildi án tillts til þess í hvaða formi efnið berst til landsins. Tillaga þessi er í samræmi við gildandi framkvæmd, sbr. reglugerð nr. 71/1993. Efni sem einkum er átt við er skýrslur, upplýsingarit og annað ritað mál sem berst til landsins endurgjaldslaust til vísindastofnana, bókasafna og annarra aðila.
    Í öðru lagi er lagt til að vörur, sem fluttar eru til landsins af virðisaukaskattsskyldum aðilum verði undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning, sé tollverð þeirra 1.500 kr. eða lægra. Reglan nær þó ekki til tóbaks og áfengra drykkja. Nokkuð er um að ýmiss konar smávarningur, t.d. bæklingar og sýnishorn, sé fluttur til landsins. Unnt er að einfalda tollmeðferð slíks smávarnings með því að undanþiggja hann virðisaukaskatti við innflutning.
    Telja verður að síðarnefnd breyting hefði ein og sér óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs, þar sem innflytjanda væri ella heimilt að draga greiddan virðisaukaskatt af vörunum frá sem innskatt í virðisaukaskattsuppgjöri sínu. Hins vegar skal bent á að samkvæmt reglugerð nr. 327/1990, um tollafgreiðslu hraðsendinga, er í dag innheimt sérstakt gjald af slíkum sendingum ef verðmæti þeirra er undir 20 SDR, þ.e. 2.000 kr. Gjald þetta kemur í stað aðflutningsgjalda á vörurnar, en þar væri að öðrum kosti oftast einungis um virðisaukaskatt að ræða. Ekki er hægt að draga gjaldið frá sem innskatt, á sama hátt og virðisaukaskatt. Tekjur ríkissjóðs af þessu gjaldi námu tæpum 9 millj. kr. á síðasta ári. Því má telja að ríkissjóður verði í framtíðinni af þeim tekjum sem hann hefur haft af gjaldi af verðlitlum hraðsendingum. Á móti kæmu einhverjar tekjur af tollum og vörugjaldi af slíkum sendingum, svo og af virðisaukaskatti af vörum sem sendar eru einstaklingum.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.

    Í þessari grein er lagt til að felld verði brott heimild fjármálaráðherra skv. 3. mgr. 42. gr. laganna til að endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á skattskyldri vöru eða þjónustu. Í stað heimildarákvæðisins er lagt til að sú þjónusta og vara, sem er endurgreiðsluhæf skv. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, verði talin upp með tæmandi hætti í ákvæðinu. Tillagan er í samræmi við aðrar breytingar í frumvarpinu þar sem leitast er við að gera lögin heildstæðari og afdráttarlausari, en tillagan tengist einnig breytingu á 2. mgr. 3. gr. laganna og vísast til athugasemda við hana um frekari skýringar. Ekki er gert ráð fyrir efnislegri breytingu á framkvæmd utan þess að lagt er til að endurgreiðslan nái ekki til vinnu við sérstök verkefni sveitarfélaga, eða á ábyrgð þeirra, sem efnt er til með styrk Atvinnuleysistryggingasjóðs, til að fjölga atvinnutækifærum.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988 um


virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu eru einkum lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum virðisaukaskattslaganna, sem miða fyrst og fremst að því að kveða með skýrari hætti en nú er á um afmörkun skattskyldu í lögunum í einstökum tilvikum. Einnig er lagt til að undanþáguákvæði laganna er snýr að bankastarfsemi verði gert skýrara. Þá er lagt til að heimild fjármálaráðherra til að ákveða með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum hvort eigin þjónusta fyrirtækja og opinberra aðila sé skattskyld verði felld niður og þess í stað kveðið á um að skattskyld vara eða þjónusta sem innt er af hendi til eigin nota sé skattskyld. Enn fremur er lagt til að virðisaukaskattur af vörum, öðrum en áfengi og tóbaki sem skattskyldur aðili flytur til landsins séu undanþegnar virðisaukaskatti ef heildarverðmæti þeirra nemur ekki meira en 1.500 kr.
    Fjármálaráðuneytið fyrirhugar að framangreindum breytingum verði komið við innan óbreyttts fjárlagaramma.