Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 453 . mál.


767. Frumvarp til laga



um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97.)



I. KAFLI


Breytingar á lögum um fæðingarorlof,


nr. 57/1987, með síðari breytingu.


1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Fæðingarorlof samkvæmt lögum þessum merkir leyfi frá launuðum störfum vegna:
    meðgöngu og fæðingar,
    frumættleiðingar barns yngra en fimm ára eða
    töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur.

2. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Skipti foreldrar með sér þessu fæðingarorlofi verður samanlagt orlof þeirra aldrei lengra en en sex mánuðir.

3. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er konu að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs telst fæðingarorlofið hafið á fæðingardegi.
    Upphaf sex mánaða fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 2. gr., miðast við þann tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi móður þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að hún fái barn til ættleiðingar.

4. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Tilkynna skal atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs með 21 dags fyrirvara, nema sérstakar aðstæður geri það ókleift. Vilji móðir hefja störf að nýju áður en lokið er fæðingarorlofi skal hún á sama hátt tilkynna það atvinnurekanda með 21 dags fyrirvara. Faðir, sem ætlar að taka hluta fæðingarorlofs, skal tilkynna atvinnurekanda það með sama fyrirvara og jafnframt hve lengi hann verður frá störfum.

5. gr.


    5. gr. laganna fellur brott.

6. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Um greiðslur í fæðingarorlofi fer samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar.

II. KAFLI


Breytingar á lögum um almannatryggingar,


nr. 117/1993, með síðari breytingum.


7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Fæðingarstyrkur skal vera 27.758 kr. á mánuði í sex mánuði og greiðast móður við hverja fæðingu barns, sbr. þó 2. mgr. og ákvæði þessarar greinar um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Hefja má greiðslu fæðingarstyrks einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Að jafnaði skal móðir eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð.
    3. mgr. orðast svo:
                  Greiða skal fæðingarstyrk í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu greiðist fæðingarstyrkur í tvo mánuði.
    5. mgr. orðast svo:
                  Framlengja skal greiðslu fæðingarstyrks um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt. Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingarstyrks um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Heimilt er að framlengja greiðslu fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Þörf fyrir framlengingu vegna dvalar barns á sjúkrahúsi, sbr. 2. málsl., alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður skal rökstudd með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði.
    6. mgr. orðast svo:
                  Fæðingarstyrkur skal greiddur foreldri vegna frumættleiðingar og fósturforeldri vegna töku barns yngra en fimm ára í fóstur í sex mánuði frá þeim tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi móður þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að hún fái barn til ættleiðingar. Nú eru fleiri börn en eitt ættleidd eða tekin í fóstur í einu og skal þá framlengja greiðslu fæðingarstyrks um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.

8. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 16. gr. laganna:
    Í stað 1. málsl. a-liðar koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt grein þessari, enda hafi þeir að jafnaði átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna og eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð.
    G-liður orðast svo: Taki foreldrar samanlagt ekki allt það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á, sbr. ákvæði laga um fæðingarorlof, fellur greiðsla fæðingardagpeninga niður fyrir þann tíma sem ekki er nýttur.
    Í stað orðanna „einn mánuð“ í h-lið kemur: þrjá mánuði.
    I-liður orðast svo: Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingardagpeninga um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingardagpeninga um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Hvort foreldri sem er getur að ósk móður dvalið hjá barni þennan tíma. Heimilt er að framlengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Þörf fyrir framlengingu vegna dvalar barns á sjúkrahúsi, sbr. 1. málsl., alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður skal rökstudd með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði.
    3. og 4. málsl. l-liðar orðast svo: Greiða skal fæðingardagpeninga í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngutíma. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu greiðast fæðingardagpeningar í tvo mánuði.
    M-liður orðast svo: Ættleiðandi foreldrar vegna frumættleiðingar og fósturforeldrar eiga rétt til greiðslu fæðingardagpeninga í fæðingarorlofi vegna töku barns yngra en fimm ára í fóstur, sbr. og 6. mgr. 15. gr.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði laga þessara um frekari framlengingu fæðingarorlofs skulu gilda um foreldra sem voru í fæðingarorlofi 1. janúar 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi ákvæðum um fæðingarorlof. Breytingarnar miða allar að því að rýmka rétt til fæðingarorlofs frá því sem nú er.
    Nýmæli frumvarpsins eru:
    Fæðingarorlof vegna töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur er lengt um einn mánuð úr fimm mánuðum í sex. Með lögum nr. 129/1995, um réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra, var fæðingarorlof vegna frumættleiðingar barns lengt með sama hætti.
    Lenging fæðingarorlofs vegna fjölburafæðinga verður þrír mánuðir fyrir hvert barn umfram eitt í stað eins mánuðar samkvæmt gildandi lögum. Þetta þýðir að kona sem fæðir tvíbura á rétt á níu mánaða fæðingarorlofi og kona sem fæðir þríbura á rétt á eins árs fæðingarorlofi. Foreldrar, sem ættleiða eða taka í fóstur fleiri en eitt barn, njóta sömu lengingar.
    Fæðingarorlof lengist um þann tíma umfram sjö daga sem barn dvelur á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu, allt að fjóra mánuði.
    Heimild til lengingar fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns er lengd úr einum mánuði í allt að þrjá mánuði.
    Heimilt verður að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu.
    Skilgreining á andvanafæðingu er færð til samræmis við skilgreiningu Ríkisspítala og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Hér er því um að ræða talsverðar réttarbætur í fæðingarorlofsmálum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 129/1995.

Um 1. gr.


    Lagt er til nýtt orðalag á 1. gr. laganna og fæðingarorlof þar skilgreint. Fæðingarorlof merkir leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar, ættleiðingar barns yngra en fimm ára eða töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur. Meginreglan verður því sú að fæðingarorlof reiknast frá þeim tíma sem barn fæðist eða kemur á heimili. Samkvæmt gildandi lögum er fæðingarorlof vegna fósturs miðað við að barn sé yngra en fimm ára. Ekkert slíkt ákvæði er um aldur barna við ættleiðingu. Eðlilegt þykir að samræma þetta þannig að í báðum tilfellum sé miðað við börn yngri en fimm ára.

Um 2. gr.


    Ekki er um að ræða efnisbreytingu heldur eru ákvæði um fjögurra og fimm mánaða fæðingarorlof, sem fallin eru úr gildi samkvæmt ákvæðinu, felld út úr textanum. Þá er bætt inn tilvísun í 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar varðandi lengingu fæðingarorlofs í sérstökum tilvikum.

Um 3. gr.


    Hér er gerð tillaga um nánari ákvæði um sex mánaða fæðingarorlof, sbr. 2. gr.
    Í 2. mgr. 3. gr. er fjallað um sex mánaða fæðingarorlof vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Í báðum tilvikum er fæðingarorlofsrétturinn bundinn því skilyrði að barnið sé yngra en fimm ára. Hér miðast upphaf fæðingarorlofs við komu barnsins á heimilið, sbr. þó ákvæði um heimild til að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar ef barn sem ættleiða á er sótt til útlanda.

Um 4. gr.


    Hér er ekki um að ræða efnisbreytingu, en ákvæði um tilkynningu til atvinnurekanda, sem nú eru í 5. gr. eru flutt í 4. gr.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að 5. gr. núgildandi laga um fæðingarorlof falli brott, enda ekki lengur þörf á sérákvæðum um rétt fósturforeldra.

Um 6. gr.


    Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða, en tilvísun í númer almannatryggingalaga fellt brott.

Um II. kafla.


    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum almannatryggingalaga um fæðingarorlof. Ákvæði almannatryggingalaga um greiðslur í fæðingarorlofi byggjast aðallega á lögum um fæðingarorlof. Þar til viðbótar eru ákvæði í almannatryggingalögum um margvíslegar heimildir til lengingar fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum.
    Samkvæmt lögum um almannatryggingar eru greiðslur í fæðingarorlofi tvískiptar, fæðingarstyrkur sem greiddur er öllum konum sem fæða barn hér á landi og átt hafa lögheimili hér síðustu 12 mánuði á undan og fæðingardagpeningar sem greiddir eru í hlutfalli við atvinnuþátttöku fyrir fæðingu. Fæðingarstyrkur er nú 27.758 kr. á mánuði og fæðingardagpeningar eru 1.164 kr. á dag.
    Heimavinnandi konur fá greiddan fæðingarstyrkinn en konur sem starfað hafa á vinnumarkaði fyrir fæðingu fá fullan fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga, annaðhvort að hálfu eða fullu, eftir atvinnuþátttöku. Greiðsla í fæðingarorlofi til konu sem á fullan rétt er rúmlega 63 þús. kr. á mánuði.

Um 7. gr.


    Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á 15. gr. laga um almannatryggingar sem fela fyrst og fremst í sér aukinn rétt til lengingar á fæðingarorlofi við sérstakar aðstæður, svo sem vegna fjölburafæðinga, fyrirbura, sjúkra barna og veikinda móður.
    Skal nú vikið að einstökum breytingum á ákvæðinu.
    Í a-lið er gerð tillaga að breytingu á 1. mgr. Hér er fyrst og fremst um orðalagsbreytingar að ræða. Þá er lögð til sú breyting að kona skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna í stað fortakslauss ákvæðis í greininni. Samkvæmt ákvæðum 18. gr. reglugerðar EBE nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og Norðurlandasamnings um almannatryggingar eru í gildi ýmis frávik frá fyrrgreindum skilyrðum, sbr. reglugerð nr. 655/1994 um framkvæmd almannatryggingalaga. Því þykir rétt að heimilt verði að setja nánari reglur um lögheimilisskilyrði í reglugerð.
    Í b-lið er gerð tillaga um breytingu á skilgreiningu andvanafæðingar og fósturláts í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð er á Ríkisspítölum, en hún er byggð á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þar er miðað við að eftir fullar 22 vikur meðgöngu sé um að ræða andvanafæðingu, en fyrir þann tíma fósturlát.
                  Samkvæmt lögum um almannatryggingar er andvanafæðing skilgreind eftir 28 vikna meðgöngu, en þegar þau mörk voru sett var talið að börn gætu almennt ekki lifað utan móðurkviðar ef þau fæddust fyrr. Þetta misræmi í skilgreiningu hefur valdið vandræðum þegar foreldrar, sem sagt hefur verið á sjúkrastofnun að barn hafi verið andvana fætt, hafa sótt um greiðslur í fæðingarorlofi og þá verið sagt að aðeins hafi verið um fósturlát að ræða. Þetta hefur skapað foreldrum óþarfa sárindi og óþægindi sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að samræma skilgreiningu laganna skilgreiningu sjúkrahúsa og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Um er að ræða 5–6 börn á ári sem fæðast andvana eftir 22–27 vikna meðgöngu.
                  Þá er lagt til að greiddur sé fæðingarstyrkur vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu í stað 20 í gildandi lögum. Við ómskoðun á 18.–20. viku meðgöngu koma stöku sinnum í ljós alvarlegir fósturgallar sem leiða til fóstureyðingar. Langan tíma tekur fyrir konur að ná sér líkamlega og andlega eftir aðgerð til að framkalla fósturlát eftir svo langa meðgöngu. Sé fósturlát framkallað á 19.–20. viku meðgöngu skapar það engan rétt til greiðslna samkvæmt gildandi lögum. Hér er aðeins um að ræða örfáar konur á ári, en breyting sú, sem lögð er til, mundi tryggja betur rétt þeirra.
    Í c-lið er gert ráð fyrir breytingu á 5. mgr. og fæðingarorlof lengt vegna fjölburafæðinga, alvarlegra veikinda barns og alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu.
                  Ef fyrst er vikið að fjölburafæðingum hefur það lengi verið ósk foreldra sem eignast fjölbura að fæðingarorlof lengist meir en gildandi ákvæði gera ráð fyrir, þ.e. um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt. Ýmislegt mælir með því að koma frekar til móts við þá foreldra sem eiga fjölbura en nú er gert. Því er lagt til að fæðingarorlof lengist um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt. Þetta þýðir að tvíburamóðir á rétt á níu mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu og þríburamóðir á 12 mánaða fæðingarorlofi. Tvíburafæðingum og þríburafæðingum hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum og er það helst rakið til starfsemi glasafrjóvgunardeildar. Hér á eftir fer tafla um fjölda fjölburafæðinga á síðustu árum.


Tvíburafæðingar

Þríburafæðingar



1985          
47
3
1986          
35
0
1987          
31
0
1988          
40
1
1989          
41
1
1990          
48
1
1991          
67
0
1992          
71
4
1993          
62
4
1994          
79
6
1995          
82
2
Samtals     
603
22

    Heimild: Hagstofa Íslands.

                  Í c-lið er einnig gert ráð fyrir því nýmæli að fæðingarorlof lengist um þann tíma, umfram sjö daga, sem barn þarf að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu. Þessi lenging getur þó aldrei orðið meiri en fjórir mánuðir. Hér eru fyrst og fremst hafðir í huga fyrirburar, en ákvæðið tekur þó einnig til annarra barna sem þurfa að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu. Hér er um að ræða sjálfstæðan rétt sem skerðir ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkdóms skv. 3. málsl. 5. mgr. greinarinnar. Samkvæmt upplýsingum fæðingardeildar Ríkisspítala má gera ráð fyrir að börn sem fæðast fyrir lok 34 vikna meðgöngu séu um 4% af heildarfjölda fæddra barna. Afleiðingar fyrirburafæðingar eru misalvarlegar. Fjöldi fæðinga á síðustu árum hefur verið á bilinu 4.731 árið 1990 niður í 4.202 árið 1995. Hér er um að ræða verulega réttarbót fyrir foreldra fyrirbura og sjúkra barna.
                  Þá er gert ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns verði allt að þrír mánuðir í stað eins áður. Hér getur bæði verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma, svo og alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann.
                  Loks er gert ráð fyrir að framlengja megi fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Þetta er nýmæli sem ekki hefur áður verið í lögum um almannatryggingar. Samkvæmt upplýsingum fæðingardeildar Ríkisspítala eru alvarleg veikindi móður eftir fæðingu tiltölulega sjaldgæf en gera má ráð fyrir að 15–20 konur á ári verði alvarlega veikar eftir fæðingu.
    Í d-lið er fjallað um breytingu á 6. mgr. sem segir til um greiðslu fæðingarstyrks til ættleiðandi foreldra vegna frumættleiðingar og fósturforeldra vegna töku barns yngra en fimm ára í fóstur. Þessar greiðslur skulu vara í sex mánuði eftir að barn kemur á heimili. Þó er heimilað að hefja greiðslu frá þeim tíma sem ættleiðandi móðir fer til útlanda að sækja barn til ættleiðingar. Nýmæli er að fæðingarorlof lengist um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem ættleitt er eða tekið í fóstur samtímis.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er fjallað um breytingar á 16. gr. laga um almannatryggingar en í greininni eru ákvæði um greiðslu fæðingardagpeninga. Breytingarnar eru allar sambærilegar við þær sem þegar hefur verið vikið að varðandi 15. gr. laganna.
    Í a-lið er lögð til breyting á 1. málsl. a-liðar greinarinnar þess efnis að foreldrar skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins til að eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga. Er þessi breyting til samræmis við ákvæði 1. mgr. 15. gr., en lögheimili hér á landi við fæðingu barns hefur verið skilyrði greiðslu fæðingarstyrks og í framkvæmd einnig skilyrði greiðslu fæðingardagpeninga. Þá er lagt til að sömu breytingar verði gerðar á lögheimilisskilyrðum og lagðar eru til í 7. gr. frumvarpsins og vísast til umfjöllunar um hana. Loks er tilvísun til frumættleiðingar felld brott en ákvæði um hana flutt í m-lið.
    Í b-lið er gerð sú breyting á g-lið greinarinnar að vísað er til laga um fæðingarorlof varðandi rétt til fæðingarorlofs. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega óbreytt.
    Í c-lið er gerð breyting á h-lið greinarinnar til að lengja greiðslu fæðingardagpeninga vegna fjölburafæðinga.
    Í d-lið er gerð breyting á i-lið varðandi framlengingu fæðingarorlofs vegna dvalar barns á sjúkrahúsi í framhaldi af fæðingu, alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður.
    Í e-lið er gerð sú breyting á 3. og 4. málsl. l-liðar að skilgreiningu andvanafæðingar og fósturláts er breytt til samræmis við þá skilgreiningu sem notuð er á Ríkisspítölum, þ.e. að um sé að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngutíma í stað 28 í núgildandi ákvæði. Jafnframt er lagt til að fæðingardagpeningar séu greiddir konu vegna fósturláts eftir 28 vikna meðgöngu í stað 20 í gildandi ákvæði.
    Í f-lið er bætt við m-lið tilvísun í 6. mgr. 15. gr. til að tryggja að ættleiðandi foreldrar og fósturforeldrar njóti sömu lengingar á greiðslu fæðingardagpeninga og sú málsgrein tryggir varðandi greiðslu fæðingarstyrks.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er gert ráð fyrir að foreldrar sem voru í fæðingarorlofi 1. janúar 1997 geti fengið framlengingu fæðingarorlofs ef skilyrði til lengingar samkvæmt ákvæðum 15. og 16. gr. almannatryggingalaga, með þeim breytingum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, eru fyrir hendi. Þannig gæti t.d. kona sem fæddi tvíbura á síðasta ári og hafði ekki lokið fæðingarorlofi samkvæmt núgildandi ákvæðum 1. janúar 1997 fengið lengingu fæðingarstyrks um tvo mánuði. Á sama hátt gæti hún fengið lengingu fæðingardagpeninga um tvo mánuði, enda hafi hún lagt niður launuð störf og launagreiðslur fallið niður þann tíma.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lagaákvæðum um fæðingarorlof.


    Samkvæmt frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga nr. 57/1987, um fæðingarorlof, og laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ákvæði laga um fæðingarorlof eiga við um alla þá sem eiga lögheimili á Íslandi og gegna launuðu starfi, en ákvæði laga um almannatryggingar eiga við um greiðslur fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga til annarra en þeirra sem samið hafa um greiðslur í kjarasamningum. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að fæðingarorlof vegna töku barns í fóstur er lengt til samræmis við almennt fæðingarorlof, þá er fæðingarorlof vegna fjölburafæðinga lengt og loks er heimilt að lengja fæðingarorlof vegna veikinda móður eða barns.
    Í eftirfarandi kostnaðarumsögn er eingöngu metinn kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna þeirra sem lögin ná til og áætluð áhrif á útgjöld ríkissjóðs sem launagreiðanda, en ekki hugsanleg áhrif á kostnað annarra.
    Samanlagt má gera ráð fyrir að árlegur kostnaðarauki Tryggingastofnunar ríkisins af frumvarpinu verði 35 m.kr. Kostnað af lengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns má áætla um 20 m.kr. og af lengingu fæðingarorlofs vegna fjölburafæðinga og fæðingarorlofs vegna varanlegs fósturs um 10 m.kr. Loks er áætlað að lenging fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður og sjúkrahúslegu kosti 4–5 m.kr. árlega.
    Beinn kostnaður ríkissjóðs sem launagreiðanda er áætlaður um 5–10 m.kr. árlega vegna alvarlegs sjúkleika barns eða móður og vegna fjölburafæðinga.
    Samtals má gera ráð fyrir að frumvarpið valdi 40–45 m.kr. árlegum kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það að lögum.