Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 464 . mál.


781. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson,


Margrét Frímannsdóttir, Hjálmar Jónsson.

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Legstaður horfins manns er hluti af lögmætum kirkjugarði og fer eftir ákvæðum 4. gr. um hver sá kirkjugarður er. Óheimilt er að færa lík úr þeim legstað nema innan kirkjugarðs og þá til greftrunar eða brennslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði er varða lík týndra eða horfinna manna. Þau teljast utan kirkjugarðs og þar með ekki í vígðum reit. Með frumvarpi þessu er lagt til að úr þessu verði bætt og á þann hátt að legstaður horfinna manna teljist hluti af lögmætum kirkjugarði. Aðstandendum er þá sú huggun harmi gegn að líkin hvíla í vígðum reit og unnt verður að koma upp minnismerki um hinn látna innan kirkjugarðs. Finnist lík verður heimilt að færa það til greftrunar eða brennslu innan þess kirkjugarðs sem það liggur í.
    Gert er ráð fyrir því að finnist lík horfins manns á landi verði það undantekningarlaust fær til greftrunar, en sé það á hafsbotni verði ekki skylt heldur fari eftir aðstæðum hvort svo verði gert og geti þá legstaður verið áfram vígður reitur þótt fundinn sé.