Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 476 . mál.


803. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 93, 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Við útflutning sjávarafurða sem fluttar hafa verið inn til landsins til vinnslu eða umpökkunar skal upprunalands hráefnis getið í fylgiskjölum.
    2. mgr. fellur brott.
    

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    2. málsl. orðast svo: Á umbúðum skal koma fram leyfisnúmer vinnslustöðva þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans.
    Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður er orðast svo: Sé afurðin send ópökkuð skulu sömu upplýsingar koma fram í fylgiskjölum.
    

3. gr.

    Á eftir III. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IV. kafli, Innflutningur sjávarafurða, með fjórum nýjum greinum, 19.—22. gr., og V. kafli, Landamærastöðvar, með fimm nýjum greinum, 23.—27. gr., og breytist töluröð annarra kafla og greina samkvæmt því. Þessar nýju greinar orðast svo:
    
    A. (IV. kafli.)
    a. (19. gr.)

Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.


    Innflytjandi sjávarafurða, sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal tilkynna Fiskistofu um komu sendinga með hæfilegum fyrirvara.
    Vinnsluleyfishafi, sbr. 12. gr., eða annar viðtakandi þessara sjávarafurða skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu eftirlitsaðila.
    Fiskistofu er heimil skyndiskoðun á þessum sjávarafurðum og sýnataka til rannsókna.
    Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi ef hún óskar eftir að skoða vöruna eða taka sýni af henni til rannsókna. Berist viðtakanda ekki slík tilkynning áður en losun hefst er honum heimilt að ráðstafa sendingunni til vinnslu eða umpökkunar hjá viðurkenndum vinnsluleyfishafa. Afla fiskiskipa frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem landað er hér á landi, skal skoða á sama hátt og afla íslenskra skipa.
    Fiskistofa skal leggja áætlun um fjölda skyndiskoðana og nánari tilhögun þeirra fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.
    
    b. (20. gr.)

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.


    Allur innflutningur lifandi fisks og fiskafurða að meðtöldu fiskmjöli frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal fara um landamærastöðvar eða hafnir sem heimild hafa fyrir innflutningi, sbr. V. kafla þessara laga. Heimilt er að landa afla fiskiskipa utan landamærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.
    Sjávarútvegsráðuneytið getur veitt undanþágu frá 1. mgr. ef sérstakar ástæður réttlæta slíkt eða ef fram kemur rökstudd beiðni þar að lútandi frá yfirvöldum í ríkjum innan EES.
    Innflutningur á sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með sjávarafurðum uppfylli kröfur Evrópska efnahagssvæðisins.
    
    c. (21. gr.)
    Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 20. gr. Birta skal þessa skrá í Stjórnartíðindum. Einnig skal birta mánaðarlega þær breytingar sem verða á henni.
    
    d. (22. gr.)

Öryggisákvæði.


    Í þeim tilfellum sem sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði almennings eða heilbrigði dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna og dýra réttlætir slíkt getur ráðuneytið án fyrirvara stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.
    
    B. (V. kafli.)
    a. (23. gr.)
    Eftirlitsmenn Fiskistofu eða aðrir þar til bærir eftirlitsaðilar annast eftirlit með innflutningi sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni skal setja á fót landamærastöðvar þar sem starfi eftirlitsmenn sem eru sérþjálfaðir til þessara starfa og séu ábyrgir fyrir nauðsynlegum skoðunum á sjávarafurðum sem um stöðvarnar fara. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
    
    b. (24. gr.)
    Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum, sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað og að sendingin sé frá vinnslustöð, vinnsluskipi eða frystiskipi sem er á skrá ráðuneytisins yfir viðurkennda aðila, sbr. 21. gr. þessara laga.
    Eftirlitsmaður skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal hann í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og um sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða að nýta hana í fiskmjöl enda sé hún laus við eiturefni. Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
    Í tollvörugeymslu skal aðeins fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu.
    
    c. (25. gr.)
    Innflytjandi eða annar viðtakandi sjávarafurða sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Fiskistofu með hæfilegum fyrirvara hvert afurðirnar verða sendar og tilgreina magn, tegund og hvenær áætlað er að þær berist.
    
    d. (26. gr.)

Um gjaldtöku fyrir landamæraeftirlit.


    Fiskistofa skal innheimta gjald til að bera uppi kostnað af eftirliti með sjávarafurðum frá viðurkenndum framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Fyrir hvert tonn af fyrstu 100 tonnum af innfluttum sjávarafurðum úr sömu sendingu skal greiða 405 kr. Fyrir hvert tonn þar umfram skal lækka gjaldið í 202 kr. Þó skal gjald af heilfrystum fiski sem aðeins hefur verið slægður lækka í 121 kr. fyrir hvert tonn. Fyrir hverja sendingu skal þó aldrei greiða minna en 2.460 kr.
    Heimilt er að breyta framangreindum gjöldum með tilliti til breytinga á meðalgengi Evrópumyntar (ECU). Grunngjaldið er miðað við gengi Evrópumyntar í mars 1997 eða 81 kr. Gjaldið greiðist af innflytjanda afurðanna og greiðist þar sem eftirlitið fer fram eða á landamærastöð.
    Sjávarútvegsráðuneytinu er heimilt að hækka gjöld skv. 2. mgr. ef í ljós kemur að kostnaður Fiskistofu af eftirliti með innfluttum sjávarafurðum er meiri en nemur þessum gjöldum. Gjaldið skal þá miðast við raunverulegan kostnað við eftirlitið.
    Innflytjanda sjávarafurða eða öðrum aðila sem óskar eftir aðgangi að tollvörugeymslu ber að greiða fyrir eftirlit þar. Heimilt er að innheimta gjaldið áður en afurðir eru fluttar í tollvörugeymslu.
    
    e. (27. gr.)
    Sjávarútvegsráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um fjölda landamærastöðva, staðsetningu þeirra, rekstur, búnað, útgáfu vottorða, tíðni skoðana, sýnatökur og rannsóknir. Með reglugerð skal einnig kveðið á um hvaða sendingar séu undanþegnar skoðunum og um nánara fyrirkomulag við gjaldtöku, þar á meðal um lækkunarheimildir og innheimtu.
    

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Samningaviðræðum sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar EB um að fella inn í EES-samninginn samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir lauk með samkomulagi í nóvember 1996. Er gert ráð fyrir að þetta samkomulag verði lagt fyrir sameiginlegu EES-nefndina til ákvörðunar í lok apríl eða maí nk. Ísland yfirtekur þær gerðir er varða fisk, fiskafurðir, fiskmjöl, lifandi humar, lúðuseiði, barrahrogn og hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Ísland heldur undanþágu sinni varðandi lifandi dýr og dýraafurðir. Noregur yfirtekur hins vegar þær gerðir er varða fisk, fiskafurðir, fiskmjöl, lifandi dýr og afurðir dýra.
    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1992 gengust EFTA-ríkin, þar með talið Ísland, undir þá skyldu að taka upp í löggjöf sína I. kafla tilskipunar 91/493/EBE, um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu fiskafurða, tilskipun 91/492/EBE, um framleiðslu á lifandi skelfiski og tilskipun 91/67/EBE um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu eldisfisks og eldisafurða. Ákvæði þessara tilskipana eru meginefni laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, ásamt reglugerð nr. 684/1995, um meðferð og vinnslu sjávarafurða og reglugerð nr. 163/1996, um meðferð, vinnslu og sölu skelfisks.
    

II.


    Samningaviðræður milli EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar EB um einfaldað landamæraeftirlit hófust í ársbyrjun 1994. Ástæður fyrir viðræðunum voru þær að framkvæmdastjórnin vann þá að samræmingu reglna um landamæraeftirlit gagnvart ríkjum utan Evrópusambandsins. Þá lá fyrir að framkvæmdastjórn EB mundi gefa út ákvörðun þess efnis m.a. að sýni yrðu tekin úr 20–50% sendinga sjávarafurða sem fluttar yrðu inn til sambandsins. Enda þótt EFTA-ríkin hefðu yfirtekið meginreglur sambandsins um framleiðslu sjávarafurða var ljóst að afurðir þeirra þyrftu að sæta þessari skoðun á landamærum með tilheyrandi kostnaði, töfum og takmörkunum á innflutningshöfnum og flugvöllum. Ákvörðun framkvæmdastjórnar EB átti að taka gildi á árinu 1995 en var oft frestað. Þessar samræmdu heilbrigðisreglur í viðskiptum með dýr og afurðir dýra, þar með taldar fiskafurðir, tóku gildi 1. janúar 1997.
    Í viðræðunum voru rök EFTA-ríkjanna gagnvart framkvæmdastjórn EB þau að með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins hefðu ríkin tekið yfir samræmdar reglur ESB það er varðar meðferð, framleiðslu og dreifingu fisks og fiskafurða. Hins vegar hefðu reglur um landamæraeftirlit ekki verið yfirteknar vegna undanþágna sem veittar voru fyrir landbúnaðarafurðir. Efnisleg ástæða til heilbrigðisskoðana á sjávarafurðum á landamærum ESB væri ekki fyrir hendi þar sem sömu reglur giltu um meðferð og framleiðslu sjávarafurða t.d. á Íslandi og innan ESB.
    Í fyrstu stóðu öll EFTA-ríki, sem þá áttu aðild að samtökunum, að viðræðunum. Afar erfitt var að samræma ólíka hagsmuni Austurríkis, Svíþjóðar og Finnlands gagnvart hagsmunum Íslands og Noregs vegna sérstöðu þeirra með sjávarafurðir. Þetta tafði viðræðurnar. Þá lágu viðræður að mestu niðri meðan aðildarviðræður annarra EFTA-ríkja, þó ekki Íslands, stóðu yfir. Lengstur tími fór þó í að samræma sjónarmið í Noregi eftir að Norðmenn höfnuðu inngöngu í Evrópusambandið enda tókust þar á ólíkir hagsmunir landbúnaðar og sjávarútvegs. ESB var ekki reiðubúið að ganga skemmra gagnvart Noregi en samið hafði verið um í aðildarviðræðunum, þ.e. að reglur næðu til lifandi dýra, afurða dýra og sjávarafurða.
    Skriður komst á viðræðurnar þegar að gildistöku ákvörðunar um samræmt landamæraeftirlit var komið sl. sumar. Þá lögðu Svíar og Finnar þunga áherslu á að samið yrði við EFTA-ríkin sem eftir voru. Ástæða þess var sú að Svíar og Finnar sáu fram á að ríkin þyrftu að leggja út í mjög miklar fjárfestingar við skoðunarstöðvar á landamærum ríkjanna við Noreg.
    Ákvörðun ESB um samræmingu reglna um heilbrigðisskoðanir á landamærum Evrópusambandsins lýtur einnig að samræmdri gjaldtöku fyrir eftirlitið. Fyrir lá tillaga um helmingi hærri gjaldtöku fyrir hverja vörusendingu en gert er ráð fyrir í dag og að aðildarríki sambandsins gætu heimilað enn hærra gjald. Var það áhyggjuefni að gjaldtakan mátti nema raunverulegum kostnaði við eftirlitið. Fyrirkomulag við eftirlitið þótti óljóst og báru flestir kvíðboga fyrir töfum flutningabíla og aukinni gjaldtöku til að standa undir fjárfestingum við byggingu nýrra skoðunarstöðva. Því til viðbótar var bent á að tilviljun réði hver lenti í úrtaki vegna skoðana og ógerningur væri að fylgjast með því að rétt væri að úrtaki staðið. Þannig yrði mun hærra hlutfall en 20% sendinga í raun skoðað.

III.


    Í I. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var ákvæði um að endurskoðun á undanþágum ríkja skyldi fara fram árið 1995. Viðræðurnar snerust þannig annars vegar samningsbundna endurskoðun á I. viðauka við EES-samninginn og hins vegar um afnám landamæraeftirlits á EES-svæðinu.
     Verði samkomulag, sem náðist í nóvember sl. meðal sérfræðinga EFTA og framkvæmdastjórnar EB, staðfest verða Ísland og Noregur að taka að sér heilbrigðiseftirlit með vörum frá ríkjum utan Efnahagssvæðisins, Ísland aðeins með sjávarafurðum en Noregur með sjávarafurðum, landbúnaðarafurðum og lifandi dýrum.
    Samkomulag þetta þykir afar hagstætt Íslandi þar sem það tekur einungis til sjávarafurða. Þetta þýðir að mun minni kostnaður fellur á íslenskar sjávarafurðir sem fluttar eru á okkar stærsta markað. Erfitt er að reikna nákvæmlega í krónum þennan ávinning enda enn óljóst hvernig framkvæmd eftirlitsins verður í raun hjá ESB og hvernig ákvörðunin verður túlkuð. Þá ræðst fjárhæðin eðlilega af samsetningu útflutningsins á hverjum tíma. Í Noregi var reynt að leggja mat á þennan kostnað og var talið að hann yrði ekki undir 50 milljónum norskra króna (um 500 milljónum íslenskra króna). Það er því líklegt miðað við sömu forsendur að kostnaður af íslenskum afurðum gæti numið a.m.k. 250 milljónum króna árlega, auk fyrirhafnar, tímataps og seinkunar á afhendingu vörunnar.
    

IV.


    Ávinningur af þessu samkomulagi er ekki eingöngu fólginn í minni kostnaði, tímasparnaði við flutning vörunnar og auknu hagræði. Má nefna að eftirleiðis er unnt að flytja sjávarafurðir frá Íslandi til hvaða hafnar eða flugvallar sem er innan ESB. Ella hefðu aðeins tilteknar hafnir og einstakir flugvellir verið heimilaðir til innflutnings til ESB.
    Á grundvelli samkomulagsins hefur Ísland þegar fengið áheyrnaraðild að fastanefnd um dýraheilbrigði (Standing Veterinary Committee) en sú nefnd er framkvæmdastjórn EB til aðstoðar við mótun og framkvæmd löggjafar á þessu sviði. Þessi nefnd er sá vettvangur þar sem fjallað verður um þau vandamál sem upp kunna að koma varðandi löggjöf ESB/EES á sviði meðferðar og eftirlits með sjávarafurðum og mótaðar þær breytingar sem gera þarf á þeim reglum. Það er því mjög mikilvægt fyrir Ísland að geta tekið þátt í umfjöllun um þær reglur sem yfirtaka þarf hér á landi frá byrjun. Einnig hefur Ísland fengið aðild að undirnefndum sem gera tillögur að reglum um fisk, fiskafurðir og fiskmjöl.
    Á hinn bóginn kemur til kostnaður vegna eftirlits með sjávarafurðum frá skipum sem landa hér og sigla undir fánum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, svonefndra þriðju ríkja. Hér er einkum um að ræða frystar afurðir því að afli fiskiskips sem ísaður er um borð er aðeins háður skynmatsskoðun og innflutningur á sjávarafurðum til beinnar neyslu er eðlilega mjög lítill. Lagt er til að innflytjendur greiði gjald fyrir þetta eftirlit en stofnkostnaður falli á ríkissjóð.

V.


    Meginatriði þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á lögum nr. 93/1992 eru eftirfarandi:
    Innflutningur á fiski og fiskafurðum til Íslands verði óheimill öðrum en þeim sem uppfylla heilbrigðiskröfur ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Sjávarútvegsráðuneytið haldi skrá yfir þær vinnslustöðvar og þau verksmiðjuskip og frystiskip í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES-ríkja.
    Sérstökum landamærastöðvum verði komið á fót þar sem opinberum eftirlitsmönnum verði falið að annast eftirlit með innflutningi á fiski og fiskafurðum frá ríkjum utan EES.
    Komi upp, í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða þriðja ríki, sjúkdómur eða aðstæður, sem kunna að stofna heilbrigði almennings eða heilbrigði dýra í alvarlega hættu, geti sjávarútvegsráðuneytið gripið til öryggisráðstafana gagnvart viðkomandi ríki. Þær aðgerðir geti ýmist verið fólgnar í algjöru innflutningsbanni eða setningu sérstakra skilyrða fyrir innflutningi á fiski og fiskafurðum frá viðkomandi ríki.
    Gerð er tillaga um gjaldtöku fyrir eftirlit með fiski og fiskafurðum frá þriðju ríkjum þar sem til þess er ætlast að hún sé samræmd á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna og í 2. mgr. eru ákvæði um innflutning sjávarafurða. Í 3. gr. þessa frumvarps er gerð tillaga um að nýjum kafla verði bætt við lögin er fjalli um innflutning sjávarafurða. Því er þessum ákvæðum ofaukið. Núverandi 1. málsl. frumvarpsins er ekki nýmæli heldur er aðeins að finna í honum orðalagsbreytingu sem nauðsynlegt þykir að gera til samræmis við breytingar á 6. gr.
    

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að breyting verði gerð á merkingum sjávarafurða. Breytingin felur í sér að eftirleiðis verður gerður greinarmunur á merkingum pakkaðra og ópakkaðra afurða. Ópakkaðar afurðir (búlkaðar) eru t.d. laust fiskmjöl, fiskmjöl í sekkjum eða saltfiskur á brettum. Leyfisnúmer vinnslustöðvar skal koma fram bæði á umbúðum og í fylgiskjölum með pökkuðum afurðum þannig að unnt sé að rekja uppruna þeirra til framleiðandans. Þessar upplýsingar þurfa, eðli málsins samkvæmt, einungis að koma fram í fylgiskjölum ópakkaðra afurða. Breyting þessi er gerð til samræmis við tilskipun 95/71/EBE, 7. tölul. 1. gr.
    

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að við lögin bætist tveir nýir kaflar er verði IV. og V. kafli.
    Um A (IV. kafla).
    Kaflinn fjallar um innflutning sjávarafurða. Gerður er greinarmunur á innflutningi frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og innflutningi frá ríkjum utan EES eða svonefndum þriðju ríkjum. Fjallar 19. gr. um viðskipti með sjávarafurðir milli EES-ríkjanna en 20. gr. um viðskipti við þriðju ríki. Þessi kafli byggir á tilskipunum 89/662/EBE og 90/425/EBE. Tilskipun 89/662 fjallar um eftirlit með dýraafurðum sem Ísland yfirtekur eingöngu að því er varðar sjávarafurðir. Seinni tilskipunin fjallar um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og afurða. Ísland yfirtekur þessa tilskipun, eins og áður hefur komið fram, að því er varðar humar og lúðuseiði, barrahrogn, hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju.
    Heilbrigðiseftirlit með sjávarafurðum á EES er að meginstefnu til í höndum útflutningsríkisins og ber það ábyrgð á því. Þeir aðilar í útflutningsríkinu, sem vilja dreifa fiskafurðum á Evrópska efnahagssvæðinu, þurfa að uppfylla þær heilbrigðiskröfur sem þar gilda. Þetta hefur í för með sér að sjávarafurðir, sem fluttar eru milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, þurfa ekki að sæta heilbrigðisskoðun og landamæri eru í því tilliti afnumin. Þannig eiga íslenskar sjávarafurðir greiðari aðgang að Evrópumarkaði en áður og að sjálfsögðu gilda þá sömu reglur um innflutning til Íslands frá öðrum ríkjum EES. Það skal tekið fram að Ísland er ekki aðili að sameiginlegu tollabandalagi ESB og því er hér ávallt talað um innflutning til Íslands.
    Samræmdum heilbrigðisreglum við meðferð fisks og fiskafurða var komið á hér á landi við gildistöku EES-samningsins. Þá voru lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, sett til samræmis við heilbrigðisreglur EES. Öllum aðilum, sem uppfylla umræddar kröfur, er úthlutað vinnsluleyfi af Fiskistofu og slíkt leyfi þurfa allir íslenskir framleiðendur fiskafurða að hafa sem selja afurðir innan EES.
    Um a-lið (19. gr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um tilkynningarskyldu til Fiskistofu um innflutning sjávarafurða. Nauðsynlegt þykir að Fiskistofa hafi yfirlit yfir magn innflutts hráefnis sem fer til frekari vinnslu eða umpökkunar hjá vinnsluleyfishöfum sem og vegna gjaldskyldu kaupanda. Fiskistofa þarf einnig að hafa möguleika á að kanna uppruna afurða og viðurkenningu framleiðanda eða skips. Þá er áríðandi að Fiskistofa hafi upplýsingar um komu sendinga til að geta beitt skyndiskoðunum, sbr. 3. mgr., eða ef rökstuddur grunur er fyrir hendi um að heilbrigðiskröfum hafi ekki verið fullnægt.
    Í 2. mgr. er vinnsluleyfishafa gert að halda skrá yfir mótteknar sendingar og að sannreyna að ekki sé misræmi milli sendinga og skilríkja sem vörunni fylgja. Eðlilegt þykir að skráningar séu hluti af innra eftirliti viðkomandi fyrirtækis sem er undir yfirumsjón Fiskistofu. Einnig er talið nauðsynlegt að slíkar skráningar séu fyrir hendi til þess að unnt sé að ganga úr skugga um að upprunareglum og reglum um aðgreiningu innflutts hráefnis frá innlendu séu virtar.
    Eins og fram hefur komið í almennum athugasemdum er meginreglan sú að sýnatökur og eftirlit með fiskafurðum frá ríkjum innan EES falla niður. Fiskistofu er þó heimilt að gera skyndiskoðun telji hún ástæðu til þess. Þessum skoðunum eru þó takmörk sett. Þær verða að vera í samræmi við ákveðna áætlun sem háð er samþykki ESA. Fiskistofu ber að beita þessum skyndiskoðunum án mismununar og er óheimilt að innheimta gjöld vegna þeirra.
    Í 4. mgr. i.f. er tekið fram að afla skipa frá ríkjum innan EES skuli skoða með sama hætti og afla íslenskra skipa. Þykir ástæða til að kveða skýrt á um að ekki megi mismuna íslenskum skipum og skipum frá öðrum ríkjum innan EES hvað varðar eftirlit. Fyrirkomulag við ferskfiskeftirlit hér á landi er ekki í hvívetna eftir reglum Evrópusambandsins en tryggja verður að sambærilegt eftirlit sé haft með öllum skipum frá EES-svæðinu.
    Um b-lið (20. gr.).
    Í þessari grein er fjallað um skilyrði fyrir innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við tilskipanir 90/675/EBE og 91/496/EBE sem fjalla um heilbrigðiseftirlit með dýrum og afurðum þeirra sem flutt eru inn frá þriðju ríkjum. Tilskipun 90/675/EBE fjallar um eftirlit með dýraafurðum sem Ísland yfirtekur eingöngu að því er varðar sjávarafurðir. Tilskipun 91/496/EBE fjallar um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og afurða. Ísland yfirtekur þessa tilskipun að því er varðar humar, lúðuseiði, barrahrogn og hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju.
    Meginreglan er sú að allan lifandi fisk og fiskafurðir, þar með talið fiskmjöl, skal skoða á landamærastöð. Hins vegar er fiskiskipum heimilt að landa afla sínum í öðrum höfnum að því tilskildu að hann sé óunninn.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir undanþágum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Hér getur verið um einstök tilvik að ræða þar sem heppilegra eða nauðsynlegt þykir að skoða vöruna utan landamærastöðva. Þá er gert ráð fyrir því í 27. gr. að ráðherra setji m.a. reglugerð um hvaða sendingar séu undanþegnar skoðunum. Má sem dæmi nefna afurðir sem ferðamenn flytja inn í persónulegum farangri sínum, litlar pakkningar til einstaklinga sem ætlaðar eru til neyslu og afurðir sem ætlaðar eru áhöfn eða farþegum til neyslu um borð í flugvélum eða skipum.
    Í 3. mgr. er tiltekið að þeir aðilar einir sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES megi flytja inn fisk og fiskafurðir á Evrópska efnahagssvæðið. Er þetta til samræmis við II. kafla tilskipunar 91/493/EBE. Gefnar verða út skrár yfir þær vinnslustöðvar, verksmiðjuskip og frystiskip sem uppfylla umræddar heilbrigðiskröfur en öðrum er óheimill innflutningur inn á Evrópska efnahagssvæðið.
     Um c-lið (21. gr.).
    Ákvörðun ráðherraráðs ESB nr. 95/408/EBE, sem er hluti þeirrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fyrirhugað er að samþykkja í apríl eða maí nk., gerir ráð fyrir að gefin sé út sérstök skrá yfir þær vinnslustöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip í þriðju ríkjum sem heimill er innflutningur inn á Evrópska efnahagssvæðið.
    Hér er því lagt til að sjávarútvegsráðuneytið haldi skrá yfir þá aðila sem heimilt er að flytja fisk og fiskafurðir inn til Evrópska efnahagssvæðisins. Vilji aðili í þriðja ríki flytja þessar afurðir inn til EES óskar viðkomandi eftir því við stjórnvöld í sínu ríki að þau beri upp beiðni þess efnis við framkvæmdastjórn EB. Almennt heilbrigðisástand í ríkinu sem beiðni berst frá, heilbrigðislöggjöf þess og löggjöf, sem tryggja skal hlutleysi þarlendra eftirlitsaðila, er kannað af framkvæmdastjórn EB og EFTA/EES-ríkjunum óski þau þess. Verði niðurstaða könnunarinnar sú að ríkið uppfylli heilbrigðiskröfur EES er þarlendum stjórnvöldum falið að gera úttekt á þeim aðilum sem það telur uppfylla heilbrigðiskröfurnar. Að lokinni þeirri úttekt senda stjórnvöld viðkomandi ríkis skrá yfir þarlendar starfsstöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip sem uppfylla umræddar heilbrigðiskröfur. Í framhaldi af því gefur framkvæmdastjórn EB út skrá, í formi ákvörðunar, yfir þá framleiðendur í þriðja ríkinu sem uppfylla heilbrigðiskröfurnar. Er sú ákvörðun tekin á grundvelli úttektar stjórnvalda þess ríkis sem í hlut á hverju sinni. Til þess að ákvörðunin öðlist gildi í EFTA/EES-ríkjunum þarf að samþykkja hana í sameiginlegu EES-nefndinni.
     Um d-lið (22. gr.).
    Í inngangskafla að nýjum viðauka I við EES-samninginn er svokallað öryggisákvæði sem samningsaðilar geta gripið til í sérstökum tilfellum. Komi upp innan aðildarríkja EB eða EFTA/EES-ríkja, annarra en Íslands, tilteknir dýrasjúkdómar eða annað sem stofna kann heilbrigði dýra eða almennings í alvarlega hættu, getur sjávarútvegsráðuneytið gripið til öryggisráðstafana gagnvart ríki því sem sjúkdómur kemur upp í. Framkvæmdastjórn EB og önnur EFTA/EES-ríki geta gripið til sams konar aðgerða gagnvart Íslandi að sömu skilyrðum uppfylltum. Öryggisráðstafanirnar taka gildi um leið og aðrir samningsaðilar hafa verið upplýstir um að þeim hafi verið beitt. Ráðstafanirnar geta ýmist falist í algjöru innflutningsbanni eða að sett hafi verið sérstök skilyrði um innflutning frá því ríki sem sjúkdómur kom upp í. Viðræður milli aðila skulu þó hefjast án tafar og ef lausn finnst ekki er heimilt að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     Um B (V. kafla).
    Þessi nýi V. kafli fjallar um landamærastöðvar, fyrirkomulag eftirlits og sýnatökur til rannsókna. Enn fremur er gerð tillaga um álagningu gjalda til að standa undir kostnaði við rekstur landamærastöðva og eftirlits í höfnum þar sem heimilt er að landa frystum fiski.
     Um a-lið (23. gr.).
    Í 1. kafla viðauka I við EES-samninginn er gert ráð fyrir að á Íslandi verði tekið upp eftirlit með sjávarafurðum, þar með töldu fiskmjöli og nokkrum lifandi fisktegundum sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni þykir nauðsynlegt að koma á fót landamærastöðvum þar sem skoðun afurða getur farið fram með fullnægjandi hætti, í höfnum og á Keflavíkurflugvelli.
    Gert er ráð fyrir að Fiskistofa annist rekstur landamærastöðva þessara. Starfsmenn Fiskistofu munu að öllu jöfnu annast eftirlitið og munu þeir þannig skoða fisk sem landað er úr skipum þriðju ríkja. Í greininni er þó gert ráð fyrir, að aðrir þar til bærir eftirlitsaðilar, geti annast eftirlitið. Má t.d. nefna að í vissum tilfellum er gerð krafa um ríkari sérfræðiþekkingu en eftirlitsmenn Fiskistofu hafa yfir að ráða. Hér má nefna skoðanir á fiskmjöli og lifandi fiski sem ætlaður er til eldis og krafist er að yfirdýralæknir hafi með höndum.
    Í lögum nr. 93/1995, um matvæli, er gert ráð fyrir að matvælaeftirlit skiptist á milli þriggja eftirlitsaðila, þ.e. Hollustuverndar, yfirdýralæknis og Fiskistofu. Hvað sjávarafurðir varðar hefur Hollustuvernd haft eftirlit með þeim sjávarafurðum sem ætlaðar eru til neyslu hér á landi en eftirlit með sjávarafurðum, sem fluttar eru inn til umpökkunar eða frekari vinnslu hér á landi, er á hendi Fiskistofu eins og eftirlit með meðferð og framleiðslu sjávarafurða til útflutnings, sbr. lög nr. 93/1992. Yfirdýralæknir hefur haft eftirlit með innflutningi lifandi fiska sem geta lifað í fersku vatni ásamt og hrognum og svilum þeirra og verið umsagnaraðili um innflutning á sjávarfiskum. Hér er ekki gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á þessu fyrirkomulagi.
    Eðlilegt þykir að Fiskistofa hafi með höndum eftirlit með innflutningi á fiski og fiskafurðum sem ætlað er til umpökkunar eða vinnslu hér á landi, ásamt lifandi fiski, skrápdýrum, liðdýrum og lindýrum sem ætluð eru til neyslu hér á landi. Yfirdýralækni er ætlað að hafa eftirlit með lifandi fiski, skrápdýrum, liðdýrum og lindýrum sem ætlað er til eldis hér á landi. Einnig er ætlast til þess að yfirdýralæknir annist eftirlit með innfluttu fiskmjöli. Er hvort tveggja gert með tilliti til sjúkdómavarna. Fiskistofa og Hollustuvernd þurfa að koma sér saman um hver annist eftirlit með öðrum fiskafurðum en hér er getið að framan og ætlaðar eru til neyslu innan lands. Sem dæmi um innfluttar afurðir má nefna frystan fisk í neytendaumbúðum, niðursoðnar og niðurlagðar fiskafurðir.
    Í 8. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, eru fyrirmæli um samstarfsráð þessara þriggja eftirlitsaðila, í daglegu tali nefnt Matvælaráð. Er kveðið á um að ráðið geri tillögu um úrlausn álitamála að því er varðar framkvæmd eftirlits með matvælum. Ákvæði 23. gr. koma því ekki í veg fyrir að þessir eftirlitsaðilar skipti með sér eftirliti á landamærastöðvum. Verður að telja eðlilegt að sá eftirlitsaðili annist það eftirlit eftir því sem hagkvæmast þykir á hverjum tíma. Það skal ítrekað að Fiskistofa annast rekstur landamærastöðvanna og tilkynningar um innflutning skulu í öllum tilvikum sendar til hennar sem ber ábyrgð á því að kalla til viðeigandi eftirlitsaðila. Efnisatriði þessa frumvarps voru kynnt fyrir Matvælaráði á fundi ráðsins 12. mars sl.
    Landamærastöðvarnar skiptast í varanlegar stöðvar og stöðvar sem hafa heimild til að skoða frystan fisk fram til 31. desember 1998. Í 27. gr. er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra ákveði með reglugerð fjölda landamærastöðva og staðsetningu. Nú er fyrirhugað að settar verði upp sjö landamærastöðvar og valdar hafa verið tólf stöðvar sem fá tímabundið leyfi. Er gert ráð fyrir að þær verði á eftirtöldum stöðum:
    
     Landamærastöðvar     Stöðvar með tímabundið leyfi
    Reykjavík          Keflavík
    Hafnarfjörður     Grundarfjörður
    Ísafjörður          Patreksfjörður
    Akureyri          Þingeyri
    Eskifjörður          Sauðárkrókur
    Vestmannaeyjar     Húsavík
    Keflavíkurflugvöllur     Þórshöfn
    Vopnafjörður
    Seyðisfjörður
    Höfn
    Þorlákshöfn
    Dalvík

    Þegar framangreindar landamærastöðvar voru valdar var höfð hliðsjón af því hvar innflutningur frá þriðju ríkjum hefur verið mestur undanfarin ár. Þá var ákveðið að a.m.k. ein landamærastöð væri í hverjum landsfjórðungi og sem næst útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Að lokum var tekið tillit til þess hvar Fiskistofa hafi ákveðið að setja eftirlitsmann með fasta búsetu. Augljóst hagræði næst fram með því að nýta eftirlitsmenn Fiskistofu bæði við heilbrigðiseftirlit og annað eftirlit sem stofunni er falið með lögum.
     Um b-lið (24. gr.).
    Hér er kveðið á um fyrirkomulag eftirlits með innflutningi sjávarafurða. Eftirlit á landamærastöð verður í meginatriðum þríþætt:
    Eftirlit með skjölum. Með því er átt við athugun á heilbrigðisvottorðum, vinnsluleyfisnúmerum og öðrum skjölum sem fylgja afurðunum.
    Eftirlit með auðkenningu. Með því er átt við að fram fari samanburður á skjölum og afurðum og sannreynt að samræmi sé þar á milli.
    Eftirlit með heilnæmi. Í því felst að með skynmati er kannað hvort afurðirnar uppfylli heilbrigðiskröfur EES. Sé eftirlitsmaður í vafa um niðurstöðu er honum heimilt að taka sýni til efna- eða örverugreininga.
    Allar sjávarafurðir, sem heimilt er að flytja inn á EES-svæðið frá þriðju ríkjum, skulu sæta eftirliti með skjölum og auðkenningu. Fimmta hver sending skal skoðuð með tilliti til heilnæmis afurðanna. Þá skal skoða aðra hvora sendingu af skelfiski. Því er brýnt að við eftirlit sé farið eftir fyrir fram ákveðnum reglum um tíðni skoðana, umfang þeirra og sýnatökur til þess að koma í veg fyrir að framleiðendum sé mismunað.
     Um c-lið (25. gr.).
    Hér er lagt til að innflytjanda eða, eftir atvikum, öðrum viðtakanda sjávarafurða sé skylt að tilkynna Fiskistofu um komu sendinga, ákvörðunarstað o.fl. Augljóst er að fyrir starfsmenn Fiskistofu er mikið hagræði af því að vita um komu sendinga með góðum fyrirvara til að geta skipulagt nauðsynlegt eftirlit. Með þessu ákvæði ætti einnig að vera tryggt að eftirlitsmaður sé kominn tímanlega á ákvörðunarstað svo að komist verði hjá óþarfa töfum við losun.
     Um d-lið (26. gr.).
    Með þessari grein er lagt til að Fiskistofa innheimti gjald af innflytjendum sjávarafurða frá ríkjum utan EES til að standa undir kostnaði við eftirlit með afurðunum. Til þess að koma í veg fyrir röskun á samkeppni milli einstakra EES-ríkja við kaup á fiski og fiskafurðum frá þriðju ríkjum þykir nauðsynlegt að gjaldtaka á svæðinu sé samræmd. Tilskipun 96/43/EBE fjallar m.a. um fjármögnun landamæraeftirlitsins. Í II. hluta III. kafla tilskipunarinnar eru ákvæði um gjaldtöku fyrir fisk og fiskafurðir sem koma frá þriðju ríkjum.
    Í 2. mgr. er getið um fjárhæðir gjalda fyrir eftirlitið. Um er að ræða samræmt gjald á öllu EES-svæðinu og skal gjaldið miðast við meðalgengi Evrópumyntar (ECU). Gjaldið er 405 kr. fyrir hvert tonn af innfluttum fiskafurðum. Fyrir hvert tonn umfram 100 tonn, úr sömu sendingu, skal lækka gjaldið í 202 kr. Gert er ráð fyrir enn frekari lækkun eða 121 kr. fyrir hvert tonn umfram 100 tonn fyrir heilfrystan fisk sem aðeins hefur verið slægður.
    Stærsti hluti innfluttra sjávarafurða er hausaður og slægður heilfrystur fiskur af rússneskum togurum. Samkvæmt orðanna hljóðan ætti því að greiða 202 kr. fyrir hvert tonn af þeim umfram 100 tonn úr sömu sendingu. Hins vegar er álitamál hvort ekki rétt sé að miða lækkunina við slægðan fisk óháð því hvort hann sé hausaður. Þetta sjónarmið hefur verið nefnt við embættismenn framkvæmdastjórnar EB en endanlegt svar ekki fengist.
    Í 4. mgr. er sjávarútvegsráðuneytinu heimilt að hækka gjöld vegna eftirlitsins ef sannað þykir að samræmd gjöld standi ekki undir kostnaði Fiskistofu af því. Fiskistofa verður í því tilfelli að sýna fram á með nákvæmum útreikningi að svo sé. Meðal annars er heimilt að taka tillit til eftirfarandi þátta:
    Launagreiðslna og kostnaðar við tryggingar starfsmanna í tengslum við eftirlitið.
    Kostnaðar við stjórnun vegna eftirlits og skoðana.
    Kostnaðar vegna nauðsynlegrar þjálfunar starfsmanna til að annast tilgreindar skoðanir og eftirlit.
    Ferðakostnaðar eftirlitsmanna.
    Fiskistofa hefur áætlað kostnað vegna eftirlits með innfluttum sjávarafurðum frá þriðju ríkjum. Stofnkostnaður vegna landamærastöðva er talinn nema 16,3 milljónum kr. Þá hefur stofnunin einnig áætlað rekstrarkostnað fyrir síðari hluta ársins 1997 sem talin er nema 3,6 milljónum kr. en tekjur á móti eru taldar nema 1,5 milljónum kr. Áætlun um rekstrarkostnað fyrir allt árið 1998 nemur 7,3 milljónum kr. Tekjur eru taldar muni nema 3 milljónum kr.
    Á landamærastöðvum utan Stór-Reykjavíkursvæðisins munu eftirlitsmenn veiðieftirlits Fiskistofu sinna þessu landamæraeftirliti. Erfitt er að áætla nákvæmlega skiptingu kostnaðar milli veiðieftirlits og landamæraeftirlits og verður reynslan að leiða það í ljós. Í rekstraráætlun beggja áranna er launa- og ferðakostnaður eftirlitsmanna ekki færður til útgjalda vegna landamæraeftirlits.
    Áðurnefnd tilskipun 96/43/EBE fjallar einnig um samræmda gjaldtöku fyrir heilbrigðiseftirlit innan Evrópska efnahagssvæðisins sem byggir á eftirliti samkvæmt ákvæðum tilskipunar 91/493/EBE. Sú tilskipun var lögleidd á Íslandi vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið árið 1992 með lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, og reglugerð nr. 684/1995, um meðferð og vinnslu sjávarafurða.
    Í tilskipun 96/43/EBE er gert ráð fyrir gjaldi vegna sérstaks ferskfiskeftirlits. Í því felst leit að skemmdum og sníkjudýrum, ásamt efna- og örverurannsóknum. Gjaldið á að innheimta við fyrstu sölu nema það hafi verið innheimt við löndun. Gjaldið skal í öllum tilvikum innheimt hjá fyrsta kaupanda. Innheimta skal 81 kr. (1 ECU) á hvert tonn að 50 tonnum en 40 kr. (0,5 ECU) fyrir hvert tonn umfram 50.
    Tilskipun 91/493/EBE gerir ráð fyrir þrenns konar eftirliti:
    Ferskfiskeftirliti, þ.e. skynmati á gæðum og stærðarflokkun og eftir atvikum eftirlit vegna sníkjudýra, örverufræðilegu eftirliti og efnafræðilegu eftirliti, svo sem með niðurbrotsefnum, þungmálmum og fleiri mengandi efnum.
    Innra eftirliti framleiðenda með eigin framleiðslu.
    Eftirliti opinbers aðila með hollustuháttum, merkingum og aðstæðum við framleiðslu til að tryggja að farið sé eftir ákvæðum tilskipunarinnar.
    Í meginatriðum hafa verið uppfylltar kröfur í 2. og 3. lið, þ.e. innra eftirlit framleiðenda og eftirlit opinbers aðila með framleiðslu. Fyrirkomulag við ferskfiskmat á Íslandi er með þeim hætti að framleiðendur láta starfsmenn sína meta afla sem hæfan eða óhæfan til manneldis og er það jafnan hluti af innra eftirliti fyrirtækisins en eftirlitsmenn Fiskistofu hafa heimild til að taka sýni af metnum fiski til skoðunar hvar og hvenær sem er. Gæða- og stærðarflokkunar er ekki krafist þar sem reglur ESB þykja engan veginn eiga við hér á landi.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert endurteknar athugasemdir við þessa tilhögun og talið að ekki sé fyrir hendi fullnægjandi eftirlit með ferskum fiski við löndun. ESA hefur lagt þann skilning í ákvæði tilskipunarinnar um skynmat að opinber aðili skuli skoða hvern farm af fiski sem landað er til vinnslu eða áður en fyrsta sala fer fram til að ganga úr skugga um að fiskurinn sé hæfur til manneldis.
    Hér er um að ræða ágreining um túlkun sem ekki er enn til lykta leiddur. Þar sem beint opinbert ferskfiskeftirlit er ekki fyrir hendi er augljóslega ekki fært að innheimta gjald fyrir það. Því er ekki gert ráð fyrir að slík gjaldtaka verði lögfest að svo stöddu.
    Einnig er í tilskipun 96/43/EB gert ráð fyrir innheimtu gjalds til að standa undir kostnaði við almennt eftirlit með vinnsluleyfishöfum, þar með töldum veiði- og vinnsluskipum sem leyfi hafa til að senda afurðir á markað á EES-svæðinu. Gjaldið er 81 kr. (1 ECU) á hvert veitt eða innvegið tonn en heimilt er að lækka gjaldið að hámarki um 55% að uppfylltum nánari skilyrðum. Gjaldið á að leggja á allar vinnslustöðvar og vinnsluskip sem leyfi hafa fengið frá Fiskistofu á grundvelli 12. gr. laga nr. 93/1992.
    Fyrirkomulag almenns eftirlits með vinnsluleyfishöfum hér á landi er þríþætt. Það felst í innra eftirliti vinnsluleyfishafans sjálfs, eftirliti skoðunarstofa og eftirliti Fiskistofu. Fiskistofa innheimtir gjöld af vinnsluleyfishöfum vegna þjónustu stofnunarinnar. Auk þess greiða vinnsluleyfishafar skoðunarstofum gjald fyrir þjónustu þeirra. Þau gjöld sem vinnsluleyfishafar greiða til Fiskistofu og annarra opinberra eftirlitsaðila þykja við fyrstu sýn sambærileg við þessa gjaldtöku og því þykir ekki nauðsynlegt að innheimta nýtt gjald fyrir almennt eftirlit með vinnsluleyfishöfum fyrr en nákvæmur samanburður hefur farið fram. Slíkt fyrirkomulag er þó háð samþykki eftirlitsstofnunar EFTA. Með frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir gjaldtöku vegna þessa almenna eftirlits. Eðlilegt þykir að fá fyrst úr því skorið hvort ESA samþykkir þessa tilhögun.
     Um e-lið (27. gr.).
    Með þessari grein er sjávarútvegsráðherra veitt heimild til að setja nánari ákvæði með reglugerð um framkvæmd tiltekinna þátta. Óhjákvæmilegt þykir að setja með reglugerð ákvæði um flókin tæknileg atriði eins og efnamælingar, gerlamælingar og aðrar rannsóknir, sem og atriði sem líklegt er að breytist milli ára, svo sem sýnatökur og búnað landamærastöðva. Að öðru leyti þarfnast grein þessi ekki skýringa.
    

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1997. Sú dagsetning er við það miðuð að sameiginlega EES-nefndin samþykki ákvörðun um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn á fundi sínum í lok apríl nk.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1992,


um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.


    Frumvarp þetta fjallar um stofnun heilbrigðiseftirlits með sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem koma á land á Íslandi. Það eftirlit er liður í samvinnu Íslands við önnur aðildarríki svæðisins um ytra landamæraeftirlit á EES-svæðinu. Í því skyni er áformað að koma upp sjö landamærastöðvum hringinn í kringum landið, þar sem slíkt eftirlit mun fara fram, auk þess sem ætlað er að 12 hafnir fái tímabundið leyfi fyrir innflutningi frystra sjávarafurða.
    Áformað er að flytja veiðieftirlitsmenn frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar, Eskifjarðar og Vestmannaeyja og verða þeir framvegis búsettir þar. Munu þeir sinna verkefnum landamærastöðvanna ásamt venjubundnum eftirlitsstörfum. Þannig mun samnýting í rekstri landamærastöðvanna og veiðieftirlits verða til aukinnar hagkvæmni og kostnaði við rekstur stöðvanna verði þannig haldið í lágmarki.
    Gerð hefur verið kostnaðaráætlun yfir stofnun og rekstur stöðvanna. Þar kemur fram að stofnkostnaður er talinn nema 16,3 m.kr. Reksturskostnaður á árinu 1997 er áætlaður 3,6 m.kr. en tekjur 1,5 m.kr. og er þá miðað við að starfsemi hefjist þann 1. júlí nk. Á árinu 1998 er rekstur talinn kosta 7,3 m.kr. og tekjur áætlaðar 3 m.kr. Í fjárlögum 1997 er fjárveiting til Fiskistofu til reksturs landamærastöðva 22,7 m.kr., þannig að sú fjárveiting á vel að duga til að standa undir stofnkostnaði og rekstri á því ári.
    Af þessu má ætla að á þessu ári þurfi ekki neina fjárveitingu til að standa undir kostnaði sem af frumvarpi þessu leiðir, en á næsta ári verði áætlaður reksturskostnaður 4,3 m.kr. Eftir því sem sértekjur aukast má gera ráð fyrir að draga megi úr framlagi ríkissjóðs til þessa verkefnis.