Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 477 . mál.


804. Frumvarp til lagaum eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)I. KAFLI


Tilgangur, gildissvið o.fl.


1. gr.


    Tilgangur laga þessara er að tryggja svo sem kostur er gæði, heilnæmi og hollustu sláturafurða, að þær séu ómengaðar og framleiddar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður, að þær séu metnar og flokkaðar eftir tegundum og gæðum og að merkingar og upplýsingar séu réttar.

2. gr.


    Lög þessi ná yfir:
    eldi og heilbrigði sláturdýra,
    slátrun, hlutun, úrbeiningu og vinnslu sláturafurða í sláturhúsum,
    framleiðslu á kjötvörum í sláturhúsum og vinnslustöðvum sem vinna sláturafurðir á erlendan markað,
    geymslu og flutning sláturafurða og aðstöðu og meðferð þeirra á útflutningsstað,
    heilbrigðisskoðun og rannsóknir á sláturdýrum og sláturafurðum,
    gæðamat, flokkun og merkingu á kjöti,
    heimaslátraðar afurðir,
    villibráð sem fer til frekari vinnslu í kjötvinnslustöðvum.

3. gr.


    Merking orða er í lögum þessum sem hér segir:
     Sláturfénaður: Sauðfé, nautgripir, hross, svín, geitfé, hreindýr, alifuglar og önnur dýr sem slátrað er til manneldis.
     Sláturafurðir: Kjöt og slátur af öllum sláturfénaði.
     Sláturhús: Aðstaða sem löggilt hefur verið til slátrunar á sláturfénaði.
     Sláturúrgangur: Afurðir sem falla til við slátrun sláturfénaðar og ekki eru nýttar til manneldis.
     Kjötvinnslustöð: Hver sú aðstaða, tengd sláturhúsi, sem hefur verið löggilt til vinnslu sláturafurða eða til útflutnings afurða á erlendan markað.
     Kjötskoðunarlæknir: Dýralæknir sem annast kjötskoðun og heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum.
     Kjötmatsmaður: Hver sá kjötmatsmaður sem hefur fengið viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins.
     Slátrari: Hver sá aðili sem hefur hlotið viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins til að starfa sem slátrari.
     Villibráð: Villt dýr sem ætluð eru til manneldis.

4. gr.


    Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Yfirdýralæknir skal vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að framkvæmd laganna.

II. KAFLI


Útbúnaður sláturhúsa og kjötvinnslustöðva.


5. gr.


    Sláturfénaði, sem slátra á til að flytja afurðirnar á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innan lands, skal slátra í löggiltum sláturhúsum. Kæling og frysting afurðanna skal fara fram í viðurkenndum kælum og frystum og geymsla þeirra í viðurkenndum kæligeymslum og frystigeymslum.
    Landbúnaðarráðherra löggildir sláturhús, kæligeymslur, frystihús og kjötvinnslustöðvar, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, ef húsin eru að þeirra dómi svo fullkomin að gerð og öllum útbúnaði að hægt sé þess vegna að fullnægja öllum kröfum um gæði, heilnæmi og hollustu afurðanna. Í löggildingu sláturhúss skal tilgreina hámarksdagsslátrun.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um gerð og búnað sláturhúsa og kjötvinnslustöðva, lágmarkskröfur varðandi fyrirkomulag, hreinlæti og útbúnað þeirra, rekstur rannsóknastofa, reglur um notkun hreinsi- og sótthreinsiefna og eftirlit með heilsufari starfsfólks.
    Eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu. Landbúnaðarráðherra getur sett reglur um töku og sendingu sýna til rannsókna úr þessum sláturfénaði og afurðum samkvæmt tillögum yfirdýralæknis.

6. gr.


    Hver sá sem hyggst slátra fénaði sem lög þessi taka til í þeim tilgangi að dreifa afurðum skal senda landbúnaðarráðuneyti umsókn um löggildingu aðstöðu til slátrunar, kælingar, frystingar, vinnslu og geymslu sláturafurða. Hver sá sem hyggst byggja hús til slátrunar og til úrvinnslu og geymslu sláturafurða eða gera meiri háttar breytingar og endurbætur á slíkum húsum skal senda landbúnaðarráðuneytinu teikningar af húsunum og fá samþykki þess á þeim áður en framkvæmdir hefjast. Leita skal umsagnar yfirdýralæknis um teikningarnar og fyrirhugaðar breytingar og endurbætur. Eftir löggildingu skulu héraðsdýralæknar annast árlega skoðun á sláturhúsum, kjötgeymslum og kjötvinnslustöðvum undir stjórn yfirdýralæknis og samkvæmt reglum sem hann setur.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ákvæði um þekkingu og verkkunnáttu sláturhússtjóra, verkstjóra og slátrara, en í hverju sláturhúsi skal starfa maður með slátraramenntun.

7. gr.


    Nú fullnægir sláturhús, kjötgeymsla eða kjötvinnslustöð eigi lengur skilyrðum þeim sem sett voru fyrir löggildingu, og ber þá héraðsdýralækni sem eftirlitið hefur annast að skýra þeim sem sláturleyfi hefur og yfirdýralækni samstundis frá því. Yfirdýralæknir setur umráðamönnum hússins hæfilegan frest til að lagfæra það sem ábótavant er. Löggildingin fellur niður um stundarsakir ef eigi er bætt úr göllum innan frestsins. Yfirdýralæknir tilkynnir þá jafnframt ráðherra að slátrun á þeim stað skuli þá þegar stöðvuð uns úr hefur verið bætt.

8. gr.


    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ákvæði um flutning kjöts og sláturafurða á markað, útbúnað flutningatækja og meðferð afurðanna í flutningi.

9. gr.


    Slösuðum dýrum má slátra utan sláturhúsa í samræmi við nánari reglur sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum yfirdýralæknis og í samráði við umhverfisráðherra.
    Ekki má koma með sýnilega sjúkan fénað í sláturhús til förgunar, nema sérstakur klefi sé til þeirra nota einna í sláturhúsinu.
    Sjálfdauðar skepnur eða afurðir af þeim má aldrei flytja í sláturhús eða frystihús.
    Sláturfénað, sem kominn er í sláturhúsrétt, má eigi flytja þaðan til lífs heldur skal honum slátrað, nema til komi leyfi yfirdýralæknis.

III. KAFLI


Eftirlit.


10. gr.


    Sláturfénaður má ekki vera haldinn sjúkdómi né bera leifar lyfja eða annarra aðskotaefna sem geta verið hættuleg heilsu neytenda.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ákvæði um:
    rannsóknir og eftirlit sláturfénaðar til að tryggja heilbrigði og heilnæmi afurðanna,
    söfnun gagna og nauðsynlega sýnatöku úr búfé heima á lögbýlum til að kanna útbreiðslu sjúkdóma, smitefna og aðskotaefna, þar með talin vaxtaraukandi efni,
    hvernig hátta skal sýnatöku úr sláturafurðum varðandi gerlamengun, lyfjaleifar, aðskotaefni og vaxtaraukandi efni,
    heilbrigðisskoðun og merkingar á sláturfénaði, kjöti og sláturafurðum og um meðferð afurðanna,
    geymslu, meðferð og ráðstöfun á sýktum afurðum og úrgangi,
    lágmarksreglur varðandi innra eftirlit sláturhúsa.

11. gr.


    Heilbrigðisskoðun skal fara fram á öllum sláturfénaði sem um getur í lögum þessum áður en slátrun fer fram og mega ekki líða meira en 12 klukkustundir frá þeirri skoðun og til slátrunar. Þó þarf slík skoðun ekki að fara fram ef upplýsingar um eldi, heilbrigði og lyfjagjöf fylgja sláturgrip í sláturhús samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur. Enn fremur skal heilbrigðisskoðun á öllu kjöti og slátri af þeim sláturfénaði sem um getur í lögum þessum fara fram í sláturhúsinu áður en frysting, söltun eða önnur vinnsla fer fram og það er boðið til sölu. Að skoðun lokinni skal kjötskoðunarlæknir merkja sláturafurðirnar samkvæmt reglugerð er landbúnaðarráðherra setur um heilbrigðisskoðun og merkingu á kjöti og slátri að fengnum tillögum yfirdýralæknis.
    Til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum skal landbúnaðarráðherra innheimta gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Eftirlitsgjald þetta miðast við raunkostnað og skal vera 2,50 kr. á hvert kíló kjöts miðað við vísitölu framfærslukostnaðar í janúar 1997. Ráðherra setur nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, áætlun, lögvernd og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldsins.

12. gr.


    Kjötskoðunarlæknir annast heilbrigðisskoðun og sér um að fram fari merking á kjöti og öðrum sláturafurðum. Ef nauðsyn krefur má fela heilbrigðisskoðun þessa öðrum sem í því skyni hafa næga þekkingu og þjálfun að mati yfirdýralæknis, enda starfi þeir eingöngu undir stjórn kjötskoðunarlæknis.
    Kjötskoðunarlæknir skal hafa eftirlit með því að fyllsta hreinlætis sé gætt í sláturhúsi, umgengni sé þrifaleg og afurðirnar óhreinkist ekki eða sóttmengist. Hann skal hafa eftirlit með þrifum og sótthreinsun á byggingum og búnaði í sláturhúsum og í kjötvinnslustöðvum sem lög þessi ná til. Þá skal hann hafa eftirlit með meðferð afurða, svo sem kælingu, frystingu, hlutun, brytjun, pökkun, merkingu og hleðslu flutningatækja.
    Kjötskoðunarlæknir skal fylgjast reglulega með innra eftirliti sláturhúsa og kjötvinnslustöðva.

13. gr.


    Yfirdýralæknir getur fyrirskipað sérstaka heilbrigðisskoðun á kjöti og slátri, enda þótt það hafi áður hlotið lögboðna heilbrigðisskoðun og merkingu.

IV. KAFLI


Meðhöndlun og heilbrigði afurða.


14. gr.


    Kjöt, sláturafurðir og unnar kjötvörur má ekki framleiða, selja eða afhenda ef afurðirnar eru óhreinar, mengaðar, skemmdar eða með annarlegri lykt eða útliti og hætta er á sýkingum eða eitrunum við venjulega neyslu afurðanna.
    Sláturafurðum, sem reynast spilltar eða sýktar svo að hætta getur stafað af til manneldis eða fóðurgerðar samkvæmt ákvörðun kjötskoðunarlæknis, skal þegar í stað eytt samkvæmt reglum sem landbúnaðarráðherra setur.
    Landbúnaðarráðherra getur fyrirskipað dreifingarbann, upptöku og eyðingu á vörum sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögunum eða reglum, settum samkvæmt þeim.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um slátrun, kælingu, frystingu, hlutun, brytjun, pökkun, flutning og aðra meðferð kjöts og sláturafurða.

V. KAFLI


Gæðamat sláturafurða.


15. gr.


    Kjötmatsmenn skulu meta allt kjöt og slátur af sláturfénaði er um getur í lögum þessum og flutt er á erlendan markað eða til sölu innan lands og flokka og merkja eftir tegundum og gæðum. Þá gæta kjötmatsmenn þess, í samvinnu við kjötskoðunarlækni, að reglum um slátrun og sláturhús sé fylgt, einkum að því er varðar hreinlega og góða meðferð sláturafurða. Um störf og skyldur kjötmatsmanna skal ákveðið með reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur. Sláturleyfishafar greiða allan kostnað af starfi kjötmatsmanna.
    Heimilt er að óska eftir endurmati á kjöti og slátri og skal rökstudd beiðni þar um send kjötmatsformanni.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu á kjöti og sláturafurðum að fengnum tillögum kjötmatsformanns og yfirdýralæknis er hafi samráð við helstu hagsmunaaðila.

16. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar kjötmatsformann til fimm ára í senn. Kjötmatsformaður samræmir mat og flokkun á kjöti og innyflum af sláturfénaði samkvæmt reglugerðum sem settar eru um þau efni. Einnig skal hann, eftir því sem við verður komið, gera athugun á kjöti og öðrum sláturafurðum, sem fluttar eru á erlendan markað og til helstu sölustaða innan lands, og framkvæma yfirmat ef þurfa þykir.
    Til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum þessum skal innheimta sérstakt gjald. Gjald þetta skal vera 0,55 kr./kg kjöts sem innvegið er í afurðastöð. Landbúnaðarráðherra er heimilt að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.

17. gr.


    Nú vanrækir kjötmatsmaður starf sitt að dómi kjötmatsformanns, beitir hlutdrægni við matið eða leysir það illa af hendi á einhvern hátt, og er þá kjötmatsformanni heimilt að víkja honum frá um stundarsakir og endanlega ef um alvarlegt brot er að ræða. Heimilt er kjötmatsmanni að skjóta ákvörðun kjötmatsformanns til landbúnaðarráðherra til endanlegrar afgreiðslu.

VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


18. gr.


    Ráðherra setur gjaldskrá þar sem kveðið er á um leyfisgjöld fyrir kjötvinnslustöðvar og heilbrigðisvottorð sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Við ákvörðun um gjaldskrá skal miða við að tekjur standi undir útgjöldum vegna eftirlits og rannsókna.

19. gr.


    Yfirdýralækni, héraðsdýralæknum eða fulltrúum þeirra skal hvenær sem er vera heimill aðgangur að húsnæði og fyrirtækjum þar sem sláturdýr eða afurðir þeirra eru geymd og skulu þeim veittar allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits og rannsókna sem óskað er á grundvelli laga þessara.

20. gr.


    Hlíti eigandi eða umráðaaðili fyrirtækis eða sláturdýra ekki ákvörðun ráðherra samkvæmt lögum þessum er lögreglustjóra skylt að hlutast til um framkvæmd fyrirmæla ráðherra.

21. gr.


    Óheimilt er að flytja úr landi afurðir sem ekki uppfylla kröfur innflutningslandsins um heilbrigði, gæði, umbúðir og merkingar.

VII. KAFLI


Refsiákvæði og gildistaka.


22. gr.


    Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum, settum samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar.
    Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

23. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 30/1966, með síðari breytingum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta byggist á tillögum nefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði á árinu 1994 til þess að endurskoða lög nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Lögin hafa að mestu staðið óbreytt síðan þau voru sett árið 1966 og staðist nokkuð vel breytta tíma. Sambærileg löggjöf nágrannalandanna hefur nýlega verið endurskoðuð og nú hafa þau hvert af öðru, á síðustu 3–4 árum, sett sér ný lög um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.
    Með þeirri endurskoðun sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst verið að aðlaga löggjöf um þetta efni að breyttum tímum og nýjum viðhorfum í þessum efnum með hliðsjón af reglum á helstu markaðssvæðum fyrir kjöt og sláturafurðir. Voru nýju lögin í Danmörku og Svíþjóð, svo og reglur ESB, höfð til hliðsjónar við samningu þessa frumvarps.
    Viðhorf varðandi eftirlit með matvælum hafa talsvert breyst á undanförnum árum. Nú er lögð sífellt meiri áhersla á að færa eftirlitið framar í framleiðslukeðjuna og skoðun á tilbúinni vöru hefur fengið minna vægi. Ekki er sama áhersla lögð á auðsæjar breytingar á afurðunum, heldur hreinleg vinnubrögð og að komið sé í veg fyrir að örverur, sem valdið geta matarsýkingum, geti borist með hráefninu. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að á síðustu áratugum hafa matarvenjur breyst, t.d. hefur matreiðsla flust í meiri eða minni mæli frá heimilunum í stóreldhús eða vinnslustaði sem búa út hálftilbúna rétti til sölu í verslunum og stórmörkuðum. Einnig er mikilvægt að samfella sé í eftirliti með afurðunum. Hugtakið „frá bónda til borðs“ er sprottið af þeirri hugsun. Í samræmi við þetta er gildissvið laganna víkkað þannig að einnig sé unnt að hafa eftirlit með eldi og heilbrigði sláturdýra. Í eldri lögum voru ákvæði um skoðun á lifandi búfé í sláturhúsrétt, en nú er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji reglur um skoðun, rannsóknir og sýnatökur í hjörðum sláturfjár á framleiðslustöðunum hjá bændunum. Í raun hefur þetta þegar hafist með sýnatöku vegna salmonellu í alifuglabúum.
    Önnur viðhorfsbreyting, sem lögin taka einnig til, er aukin krafa um innra eftirlit fyrirtækjanna sjálfra. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að settar verði reglur um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötvinnslu þeirra. Það samræmist ákvæðum í 23. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.
    Þá verður að telja tímabært að gera breytingar á skipulagi á gæðamati kjöts, einkum að því er varðar yfirstjórn þess, til þess einkanlega að gera það skilvirkara og sveigjanlegra. Lagt er til að stöður yfirkjötmatsmanna í hverjum fjórðungi verði lagðar niður.
    Nefndin, sem vann að undirbúningi þessa frumvarps, sendi spurningalista til helstu hagsmunaaðila varðandi það hvort áfram ætti að gæðameta kjöt og hvort viðhalda ætti núverandi fyrirkomulagi í sambandi við gæðamatið. Mjög skýrt kom fram í svörunum að hagsmunaðilar telja núverandi fyrirkomulag gott og að ekki sé ástæða til að breyta því.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin fjallar um tilgang laganna, en slíkt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Tilgangur laganna er:
—    að tryggja eins og kostur er gæði, heilnæmi og hollustu sláturafurða,
—    að tryggja að sláturafurðir séu ómengaðar og framleiddar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður,
—    að tryggja að sláturafurðir séu metnar og flokkaðar eftir tegundum og gæðum og að merkingar og upplýsingar séu metnar.

Um 2. gr.

    Gildissviði laganna er lýst í þessari grein, en það er mun rýmra en í núgildandi lögum. Eins og áður er fram komið er það nýmæli að lögunum sé einnig ætlað að gilda um ákveðna þætti í eldi sláturdýra. Sú rýmkun miðar að því að færa eftirlitið framar í framleiðslukeðjunni í stað þess að beina því, eins og verið hefur, að lokaafurðinni. Nokkur reynsla er af slíkum vinnubrögðum hér á landi þar sem þeim hefur verið beitt við slátrun alifugla.
    Þá er gert ráð fyrir að settar verði reglur um innra eftirlit í sláturhúsum og er það í samræmi við löggjöf nágrannaþjóða okkar og nýlega samþykkt lög sem fjalla um aðra matvælavinnslu og fiskvinnslu. Þá er það nýmæli að lög nái til eftirlits með afurðum af heimaslátruðu búfé og villibráð sem fer til vinnslu og manneldis.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er að finna skýringar á ýmsum orðum og hugtökum sem koma fyrir í textanum. Fleiri heiti eru nú skýrð en gert er í gildandi lögum.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um yfirstjórn samkvæmt lögunum. Gert er ráð fyrir að yfirdýralæknir sé landbúnaðarráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að framkvæmd laganna þar á meðal um gæðamat á kjöti sem er nýmæli. Hér er um að ræða nokkra einföldun og hagræðingu að því leyti að ekki er lengur gert ráð fyrir að kjötmatsformaður eða yfirkjötmatsmenn, en þeir störfuðu hver í sínum landsfjórðungi, vinni að samræmingu á kjötmati eða taki við kvörtunum vegna kjötmats, heldur verður slíkt starf hér eftir á vegum embættis yfirdýralæknis.

Um 5. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi laga, en síðasta málsgreinin er þó nýmæli og fjallar um heimaslátrun til eigin neyslu. Gert er ráð fyrir að heimaslátrun sé bundin við lögbýli og er slík takmörkun til þess fallin að draga úr hættu á útbreiðslu smitefna. Greinin heimilar ráðherra að setja reglur um sýnatöku af heimaslátruðu búfé, en það er nauðsynlegt til að unnt sé að fylgjast með dýrasjúkdómum og hugsanlegri útbreiðslu þeirra.

Um 6. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. gr. núgildandi laga. Í síðari málsgreininni kemur þó fram það nýmæli að sett verði í reglugerð ákvæði um að í sérhverju sláturhúsi starfi slátraramenntaður starfsmaður. Nauðsynlegt er að auka verkkunnáttu við slátrun og meðferð afurða í sláturhúsum. Ákvæði um að skylt sé að hafa slátraramenntaðan starfsmann í hverju sláturhúsi mundi stuðla að því að festa í sessi unga stétt slátrara, en ráðgert er að skipulagt slátraranám hefjist við Matvælaskólann í Kópavogi haustið 1997. Þótt hér hafi lengi verið þörf fyrir slíka starfsmenntun varð fyrst grundvöllur fyrir hana þegar slátrun á nautgripum, hrossum og svínum fór að dreifast nokkuð jafnt yfir allt árið. Haldin hafa verið tvö sex vikna námskeið fyrir þá starfsmenn í sláturhúsum sem hafa mikla alhliða reynslu í slátrun.

Um 7. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 4. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu ráðherra til að setja sérstaka reglugerð um flutning á kjöti og sláturafurðum á markað, útbúnað flutningatækja og meðferð á afurðunum í flutningum. Ástæða þykir til að kveða sérstaklega á um þetta atriði þar sem meðferð sláturafurða í flutningum hefur oft verið afar ábótavant og mikil þörf er á að bæta þar úr. Ekki hefur til þessa verið kveðið á um svo víðtæka heimild sem þessa, en slíkt er nauðsynlegt vegna tíðari flutninga á ferskum afurðum en áður hefur tíðkast.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um undanþágu frá hinni almennu skyldu að dýrum skuli slátrað í sláturhúsi ef selja á afurðirnar á markaði. Nauðsynlegt er vegna dýraverndunar-sjónarmiða að veita slíka heimild. Þetta ákvæði er í samræmi við reglur nágrannalandanna og er gert ráð fyrir að settar verði reglur um slíka slátrun að höfðu samráði við umhverfisráðherra, en dýravernd heyrir undir ráðuneyti hans. Önnur ákvæði þessarar greinar er að finna í 6. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.


    Greinin hefur að hluta til að geyma nýmæli sem eiga sér hliðstæðu í löggjöf nágrannalandanna. Þau endurspegla ný viðhorf sem vikið er að í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Er þar átt við ákvæðin um rannsóknir og eftirlit í hjörðum sláturfénaðar og ákvæðið um innra eftirlit í sláturhúsum.

Um 11. gr.

    1. mgr. greinarinnar er samhljóða 1. mgr. 5. gr. gildandi laga. 2. mgr. er samhljóða efni laga nr. 160/1994, um breytingu á lögum nr. 30/1966, sem lögfest var til að uppfylla kröfur ESB og USA um að eftirlitsaðili fái ekki greiðslu fyrir þjónustu sína beint frá þeim aðila sem eftirlitið beinist að.

Um 12. gr.


    Hér er kveðið á um að dýralæknar skuli annast heilbrigðisskoðun á sláturdýrum og sláturafurðum. Fellt er brott ákvæði í gildandi lögum um að náist ekki til dýralæknis skipi ráðherra lækni til þessa starfs. Ekki er lengur talin þörf á slíku ákvæði, þar sem dýralæknum hefur fjölgað og sláturhúsum fækkað frá því sem var við gildistöku laga nr. 30/1966. Í greininni eru einnig ákvæði um að kjötskoðunarlæknar skuli annast og/eða bera ábyrgð á eftirliti með meðferð og vinnslu afurða, þrifum og sótthreinsun á húsum og búnaði og fylgjast reglulega og skipulega með innra eftirliti sláturhúsa og kjötvinnslustöðva. Í núgildandi lögum er í raun bæði kjötmatsmönnum og dýralæknum falið eftirlit með hreinlæti við slátrun. Áfram er ætlast til þess að dýralæknar og kjötmatsmenn hafi samvinnu um þetta eftirlit, en eðlilegast þykir að einn aðili beri ábyrgð á eftirlitinu.

Um 13. gr.


    Sambærileg ákvæði eru í 12. gr. gildandi laga og þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Í 1. mgr., sem er efnislega samhljóða 1. mgr. 6. gr. gildandi laga, er lagt bann við framleiðslu, sölu eða afhendingu á sláturafurðum, kjöti og unnum kjötvörum ef um óhreinar afurðir er að ræða, mengaðar, skemmdar eða með annarlegri lykt o.s.frv. Slík ákvæði er jafnframt að finna í reglugerð nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum, sbr. breytingu með rg. nr. 630/1982. Ástæða þykir til að auka við efni núgildandi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1966 og er bætt við ákvæði um bann við notkun spilltra eða sýktra afurða til fóðurgerðar vegna hættu á smitdreifingu.
    Þá þykir ástæða til, sbr. 3. mgr. greinarinnar, að hafa í lögum skýr ákvæði um heimild landbúnaðarráðherra til að fyrirskipa dreifingarbann, upptöku og eyðingu á vörum sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögunum eða reglugerðum, settum samkvæmt þeim. Gildir það m.a. um mengun á sláturafurðum með salmonellusýklum eða öðrum sýklum og lyfja- og efnamengun.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 15. gr.


    Greinin er hliðstæð 1. mgr. 8. gr. gildandi laga. Nýmæli er að haft sé samráð við helstu hagsmunaaðila áður en mótaðar eru tillögur um gæðamat, flokkun og merkingu á kjöti og öðrum sláturafurðum, sbr. 3. mgr. greinarinnar.

Um 16. gr.


    Greinin fjallar um skipan og hlutverk kjötmatsformanns og greiðslu kostnaðar af yfirmati samkvæmt lögunum. 2. mgr. er samhljóða 6. gr. laga nr. 140/1996, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997.

Um 17. gr.


    Greinin er hliðstæð 11. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að sett verði gjaldskrá um leyfisgjöld fyrir kjötvinnslustöðvar og heilbrigðisvottorð sem gefin eru út samkvæmt lögunum. Ekki er óeðlilegt að greitt sé fyrir þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna, þ.e. heilbrigðiseftirlit hjá vinnsluaðilum og rannsóknir sem þeim tengjast. Skýrt er kveðið á um að tekjur af leyfisgjöldum standi undir kostnaði við eftirlit og rannsóknir þannig að hér er ekki um skatt eða sambærilegar álögur að ræða.

Um 19. gr.


    Greinin er nýmæli. Til að eftirlit verði virkt er nauðsynlegt að eftirlitsaðilar séu ekki hindraðir í störfum sínum og er ákvæðinu ætlað að tryggja óheftan aðgang eftirlitsaðila að húsnæði og fyrirtækjum sem geyma sláturdýr og afurðir þeirra, svo og að tryggja nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits og rannsókna sem framkvæma þarf á grundvelli laganna.

Um 20. gr.


    Greinin er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.


    Greinin er nýmæli. Mikilvægt er að tryggja að útflutningur kjöts og sláturafurða uppfylli kröfur sem settar eru af yfirvöldum innflutningslands þannig að þær verði ekki stöðvaðar og gerð krafa um að þeim sé eytt eða þær endursendar til upprunalands eða tilraun gerð til að selja þær þannig að til skaða verði fyrir útflutningsaðila og hagsmuni útflutningslandsins.

Um 22. og 23. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun,


vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.


    Í frumvarpinu felst endurskoðun á lögum nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Endurskoðunin er gerð með hliðsjón af sambærilegri löggjöf í Danmörku og Svíðjóð ásamt reglum ESB. Helstu nýmæli frumvarpsins eru þau að gildissvið laganna er rýmkað þannig að þau taki til ákveðinna þátta í eldi sláturdýra. Rýmkunin miðast að því að færa eftirlitið framar í framleiðslukeðjuna, en hingað til hefur það beinst að lokaafurðunum. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um að settar verði reglur um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötvinnslu þeirra. Þá er það nýmæli að lög nái til eftirlits með afurðum af heimaslátruðum skepnum og villibráð sem unnar eru til manneldis.
    Í 4. gr. er kveðið á um að yfirdýralæknir taki að sér allt er lýtur að framkvæmd laganna. Ekki er þó ætlunin að færa verkefni frá kjötmatsformanni, yfirkjötmatsmönnum og kjötmatsmönnum til yfirdýralæknis. Í 9. gr. laga nr. 30/1966 er ákvæði um að ríkissjóður beri hluta af þeim kostnaði sem hlýst af yfirmati. Í 6. gr. laga nr. 140/1997, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997, er ráðherra heimilað að taka gjald af sláturleyfishöfum til greiðslu kostnaðar ríkissjóðs af yfirmati sem leiðir af lögunum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, nr. 30/1966, með síðari breytingum. Þetta ákvæði er nú efni 16. gr. þessa frumvarps og þar með gert varanlegt.
    Í 10. gr. er kveðið á um nokkra víkkun á rannsóknar- og eftirlitshlutverki yfirdýralæknis. Til að mæta kostnaði af þessu er í 2. mgr. 11. gr. kveðið á um að landbúnaðarráðherra skuli innheimta gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit dýralækna með sláturafurðum. Ekki er því um kostnaðaraukningu að ræða fyrir ríkissjóð. Þá er í 16. gr. ákvæði um að kjötmatsformaður skuli skipaður til fimm ára í senn.
    Í 8. og 9. gr. er kveðið á um setningu reglugerða um flutning kjöts og sláturafurða á markað, útbúnað flutningatækja, meðferð afurðanna í flutningi og slátrun sjúkra og slasaðra dýra utan sláturhúsa. Gert er ráð fyrir að þessar reglur komi til með að byggjast á eldri reglum og útheimti ekki þá vinnu af ráðuneytinu að viðbótarkostnaður hljótist af.
    Ekki verður séð að lögfestingu frumvarpsins fylgi kostnaðarauki fyrir ríkissjóð.