Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 478 . mál.


805. Frumvarp til laga



um búnaðargjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Innheimta skal 2,65% búnaðargjald af búvöruframleiðendum eins og þeir eru skilgreindir í lögum þessum. Búnaðargjald er rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og frádráttarbært frá tekjum þess árs sem það reiknast af.

2. gr.

    Gjaldskyldir búvöruframleiðendur eru þeir sem stunda rekstur sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum, 01.4, 01.5 og 02.02. Undanþegnir gjaldskyldu eru þeir sem falla undir 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

3. gr.

    Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum, sbr. 2. gr. Til gjaldskyldrar veltu telst öll sala eða afhending vöru og þjónustu sem skattskyld er skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og enn fremur sú sala eða afhending sem undanþegin er skattskyldu skv. 12. gr. sömu laga.     Heimilt er gjaldskyldum aðilum að draga frá gjaldskyldri veltu sannanlegt útlánatap sem áður hefur verið talið til gjaldstofns. Einnig er heimilt að draga frá gjaldskyldri veltu andvirði seldra rekstrarfjármuna sem talið hefur verið með í gjaldstofni til virðisaukaskatts.
    Reki framleiðandi búvöru aðra starfsemi en gjaldskyld er skv. 2. gr. ber honum að halda þeirri starfsemi aðskildri í bókhaldi sínu eða færa hana á sérstakan rekstrarreikning utan landbúnaðarframtals.
    Á framtali til búnaðargjalds ber gjaldskyldum aðilum að sundurliða gjaldstofn sinn eftir búgreinum, samkvæmt skilgreiningu í reglugerð sem ráðherra setur.

4. gr.

    Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu á gjalddögum virðisaukaskatts greiða í staðgreiðslu til innheimtumanna ríkissjóðs búnaðargjald af gjaldskyldri veltu. Staðgreiðsla búnaðargjalds samkvæmt þessari grein er fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sem framkvæmd er af skattstjórum. Gjalddagar staðgreiðslunnar skulu vera hinir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts hjá viðkomandi gjaldanda, sbr. 24. gr. og 31. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Greiði gjaldskyldur aðili ekki staðgreiðslu á tilskildum tíma skal innheimtumaður ríkissjóðs reikna hæstu leyfilega dráttarvexti samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er.

5. gr.

    Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu innan þess framtalsfrests sem kveðið er á um í 93. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skila framtali til skattstjóra eða umboðsmanns hans þar sem gjaldskyldar fjárhæðir eru tilgreindar eftir búgreinum á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Að loknum framtalsfresti skal skattstjóri leggja á búnaðargjald í samræmi við lög þessi og skulu um þá álagningu gilda sömu ákvæði og er að finna í X. kafla um álagningu, kærur o.fl. í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Ef greiðandi búnaðargjalds telur að álagning hafi ekki verið rétt ákvörðuð getur hann kært álagninguna til skattstjóra, sbr. X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Frá álögðu búnaðargjaldi skal draga þá fjárhæð sem gjaldskyldur aðili hefur greitt í staðgreiðslu upp í álagninguna á gjalddögum virðisaukaskatts. Álagt búnaðargjald, að frádregnu því sem greiða bar fyrir álagningu, skal greiða með sem næst jöfnum greiðslum á þeim gjalddögum þinggjalda sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram. Um þann mismun sem fram kann að koma milli álagningar og staðgreiðslu skulu að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla um innheimtu og ábyrgð í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Um upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir, viðurlög og málsmeðferð skulu gilda ákvæði laga nr. 75/1981.

6. gr.

    Tekjum af búnaðargjaldi skal skipt þannig:
    Til Búnaðarsjóðs     
1,275% af stofni

    Til Lánasjóðs landbúnaðarins     
1,100% af stofni

    Til Framleiðsluráðs landbúnaðarins     
0,275% af stofni

    Hluti Búnaðarsjóðs skiptist síðan á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasamtaka samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands. Af hluta búgreinasamtaka skal greiða til Bjargráðasjóðs fjárhæð sem getur mest verið 1% af gjaldstofni búnaðargjalds samkvæmt nánari ákvörðun félagsmálaráðherra að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.
    Fjármálaráðherra stendur skil á gjaldinu mánaðarlega, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur 6,67% af álagningu næstliðins árs.
    Af óskiptum tekjum búnaðargjalds skulu 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998 og koma til framkvæmda við innheimtu búnaðargjalds í staðgreiðslu á því ári og álagningu þess á árinu 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð, og 25. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Vegna birgða innheimtir Framleiðsluráð landbúnaðarins 1,25% gjald af heildsöluverðmæti kindakjöts sem selt er frá afurðastöðvum mánuðina janúar til og með ágúst 1998 og af mjólkurafurðum sem seldar eru frá afurðastöðvum mánuðina janúar og febrúar 1998. Um hlutfallslega skiptingu gjaldsins fer eftir ákvæðum 1. mgr. 6. gr.

II.


    Þar til álagning skv. 2. mgr. 5. gr. hefur farið fram skal fjármálaráðherra standa skil á búnaðargjaldi eins og nánar er kveðið á um í 6. gr., með hliðsjón af áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um væntanlega álagningu gjaldsins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í júlí 1996 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að endurskoða innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði og gera tillögur um leiðir til einföldunar frá núverandi skipulagi.
    Nefndina skipa þeir Ólafur Friðriksson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Þá starfaði Aðalsteinn Hákonarson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun hf., einnig með nefndinni.
    Tilgangurinn með endurskoðun á innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði var að leita leiða til að einfalda fyrirkomulag innheimtu og gera hana öruggari. Þá er talið nauðsynlegt að beina innheimtunni á eitt stig í stað tveggja eins og nú er háttað, þ.e. annaðhvort á framleiðenda- eða heildsölustig. Athugaðar voru ýmsar leiðir í þessu sambandi, en niðurstaðan var sú að tengja innheimtu sjóðagjalda við hina almennu skattheimtu.
    Rétt er að gera grein fyrir núverandi fyrirkomulagi í innheimtu sjóðagjalda og þeim gjöldum sem um er að ræða.
    Búnaðarmálasjóðsgjald er innheimt samkvæmt lögum nr. 41/1990. Það er innheimt af afurðum nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla, garð- og gróðurhúsa hvers konar, auk loðdýraafurða og æðardúns. Gjaldið dregst frá verði til framleiðenda og álagningarstofn er verð til þeirra. Afurðastöðvar sjá um innheimtu þess og standa skil á því til Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem síðan greiðir það til viðkomandi aðila. Álagningarprósenta gjaldsins er nokkuð mismunandi eftir afurðartegundum. Á nautgripa-, sauðfjár- og skógarafurðum og æðardúni er gjaldið 1,4%, á alifuglakjöti 1,75%, á afurðum svína 1,775%, afurðum hrossa og loðdýra 2,025%, á kartöflum og gulrófum 1,825% og á öðru grænmeti og blómum er gjaldið 1,525%. Á eggjum er gjaldið 0,85%.
    Neytenda- og jöfnunargjald, 2% af heildsöluverði, er lagt á samkvæmt lögum nr. 45/1971 um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Heildsöluaðilum ber að standa skil á gjaldinu og sér Framleiðsluráð landbúnaðarins um innheimtu þess. Gjaldið er hluti af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og er forsenda lágra vaxta af útlánum deildarinnar. Gjaldið er innheimt af heildsöluverðmæti sömu afurða og búnaðarmálasjóðsgjald, en þó hvorki af loðdýraafurðum né öðrum útfluttum afurðum. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Í því frumvarpi er m.a. ákvæði um að tekjur til Lánasjóðsins séu 1,1% af stofni búnaðargjalds samkvæmt þessu frumvarpi.
    Framleiðsluráðsgjald, 0,25%, er samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er innheimt af heildsöluverðmæti landbúnaðarafurða með neytenda- og jöfnunargjaldi. Gjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við Framleiðsluráð landbúnaðarins.
    Innheimtuferli ofangreindra gjalda er flókið og gjaldstofnar mismunandi. Greiðendur eru framleiðendur, afurðastöðvar og sölusamtök. Eftirlit með álagningu og innheimtu gjaldanna er erfitt og hætta á að gjaldstofnar skili sér ekki að fullu. Þá eru innheimtuúrræði veik. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir einum gjaldstofni og að innheimta sjóðagjalda færist alfarið yfir á framleiðendastigið undir heitinu búnaðargjald.
    Til að gera innheimtuna einfalda, örugga og ódýra er með frumvarpi þessu lagt til að búnaðargjald verði lagt á með almennum þinggjöldum eins og markaðsgjald og iðnaðargjöld. Gjaldskyldum aðila, sem stundar landbúnað eða skógrækt í atvinnuskyni, ber að fylla út sérstakt framtalsblað á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gert er ráð fyrir að gjaldstofn fyrir álagningu búnaðargjalds verði hinn sami og gjaldstofn fyrir markaðsgjald að því undanskildu að eignasala myndi ekki stofn fyrir álagningu búnaðargjalds og að heimilt verði að færa sannanlegt útlánatap til frádráttar stofni.
    Lagt er til að búnaðargjald verði innheimt í staðgreiðslu samhliða virðisaukaskatti og álagning og afstemming fari síðan fram árið eftir þegar framleiðandi hefur talið fram til skatts og álagning þinggjalda fer fram. Þegar búvöruframleiðandi skilar virðisaukaskatti fyllir hann út tvo reiti til viðbótar þeim sem fyrir eru á virðisaukaskattsskýrslunni eða skilar þeim upplýsingum á sjálfstæðri skýrslu eftir því sem ríkisskattstjóri ákveður. Annars vegar þarf hann að tilgreina gjaldskylda heildarveltu sína í landbúnaði á tímabilinu og hins vegar að tilgreina búnaðargjald sem honum ber að skila af þeim stofni. Hjá flestum yrði um að ræða sömu heildarveltu og fram kemur á virðisaukaskattsskýrslu. Þeir sem stunda aðra starfsemi samhliða landbúnaði og skógrækt verða að halda þeirri veltu aðgreindri.
    Helstu kostir þessa nýja fyrirkomulags samkvæmt frumvarpinu eru að innheimtan verður einföld, fellur inn í hið opinbera skattkerfi og snertir eingöngu hagsmunaaðila. Gjaldstofninn liggur þegar fyrir hjá greiðendum og kostnaður þeirra er óverulegur. Leiða má að því rök að innheimtan verði skilvirkari og víst er að hún nær til fleiri aðila en í núverandi kerfi. Innheimtuúrræði verða þau sömu og gilda um opinber gjöld. Þá er ljóst að hagræðing verður hjá afurðastöðvum og sambærilegum aðilum við þessa breytingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og fram hefur komið hér að framan eru sjóðagjöld innheimt með mismunandi hætti, ýmist á heildsöluverð eða framleiðendaverð. Sjóðagjöld landbúnaðarins eru því í raun mörg ólík gjöld, undir mismunandi nöfnum og hafa verið lögð á samkvæmt heimild í fernum lögum. Í þessari grein frumvarpsins hafa gjöldin verið sameinuð undir heitinu búnaðargjald sem skilgreint er sem rekstrarkostnaður í skilningi skattalaga nr. 75/1981.

Um 2. gr.


    Gjaldskyldir aðilar eru allir þeir sem stunda landbúnað og skógrækt og falla undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, ÍSAT 95.
    Þær undanþágur sem er að finna í þessari grein eru ýmiss konar þjónusta við jarðyrkju og búfjárrækt. Undir þetta fellur t.d. starfsemi verktaka við jarðvinnslu, meðferð uppskeru, pökkun og hreinsun grænmetis, rúningur, klaufsnyrting og hundahreinsun. Einnig er undanþegin gjaldinu velta er lýtur að dýraveiðum og tengdri þjónustu, svo sem selveiðar, hreindýraveiðar og rjúpnaveiði í atvinnuskyni, svo eitthvað sé nefnt. Þá er undanþegin búnaðargjaldi þjónusta tengd skógrækt og skógarhöggi, t.d. flutningur trjábola innan skógar og eldvarnir. Ekkert af þessu er gjaldskylt samkvæmt núgildandi lögum.
    Eins og í lögunum um virðisaukaskatt eru undanþegnir gjaldskyldu þeir búvöruframleiðendur er hafa minni veltu en 212.900 kr. á ári og breytist sú upphæð árlega með hliðsjón af almennum verðlagsbreytingum í landinu.

Um 3. gr.


    Til einföldunar þykir eðlilegt að gjaldstofn búnaðargjalds verði tengdur öðrum gjaldstofnum sem gjaldskyldir aðilar þurfa að gera skattyfirvöldum grein fyrir. Heppilegast þykir í því sambandi að miða stofninn í meginatriðum við skattskylda veltu samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt að viðbættri undanþeginni veltu samkvæmt 12. gr. sömu laga. Þannig mynduðu bæði útflutningur og beingreiðslur stofn fyrir álagningu búnaðargjalds, en stefnt var að því að hafa stofninn sem breiðastan. Engu að síður þykir eðlilegt að heimila að útlánatap, sem áður hefur verið talið til gjaldstofns, mætti bakreikna út úr gjaldstofni þegar tapið er sannanlegt eins og kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Enn fremur er talið að heimila beri að sölu á rekstrarfjármunum sem mynda stofn til virðisaukaskatts mætti halda utan gjaldstofnsins. Var í því sambandi bent á að sala á einni dráttarvél gæti jafnvel numið ársveltu lítils sauðfjárbús.
    Ljóst er að búvöruframleiðendur, eins og þeir eru skilgreindir í frumvarpinu, geta bæði verið lögaðilar og einstaklingar, einn eða fleiri saman, og starfsemi þeirra getur verið margþætt og blönduð þannig að hún sé bæði á sviði landbúnaðar og utan hans. Til þess að geta undanþegið gjaldskyldu þá veltu sem fellur utan landbúnaðar er gjaldskyldum aðilum gert að halda henni aðgreindri frá þeirri veltu sem búnaðargjald reiknast af. Bókhaldsskyldum aðilum er gert að skilja á milli gjaldskyldrar og undanþeginnar veltu í bókhaldi sínu en þeim sem ekki eru bókhaldsskyldir er gert að skila þeirri starfsemi sem undanþegin er á sjálfstæðum rekstrarreikningi með skattframtali sínu. Dæmi um starfsemi af þessu tagi á íslenskum lögbýlum getur verið ferðaþjónusta, vinnuvéla- og verktakastarfsemi, handverksiðnaður o.fl.
    Bændasamtök Íslands hafa lagt á það áherslu að hægt sé að flokka gjaldstofn búnaðargjalds eftir búgreinum og sveitarfélögum til þess að hægt sé að viðhalda skiptingu tekna milli búnaðarsambanda sem eru landshlutabundin og einstakra búgreinasamtaka. Skipting eftir sveitarfélögum kemur sjálfkrafa fram við álagningu, en til þess að hægt sé að skipta gjaldstofninum eftir búgreinum verða gjaldskyldir aðilar sjálfir að annast þá skiptingu við framtalsgerð sína. Ríkisskattstjóri ákveður framtalsformið en landbúnaðarráðherra skilgreinir í reglugerð búgreinar og afurðir tengdar þeim að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands. Þannig má gera ráð fyrir að venjulegur framteljandi í landbúnaði þurfi að skipta gjaldstofni til búnaðargjalds í nokkra liði, t.d. 1. sölu mjólkurafurða, 2. sölu annarra nautgripaafurða, 3. sölu sauðfjárafurða o.s.frv. Á framtalseyðublaði verða að vera skýr fyrirmæli um þessa skiptingu eða sérmerktir reitir fyrir hvern afurðaflokk.

Um 4. gr.


    Eitt af grundvallaratriðum frumvarpsins er að gera ráð fyrir innheimtu búnaðargjalds í staðgreiðslu en endanlegri álagningu og afstemmingu eftir á. Þannig er ætíð um samtímagreiðslu að ræða. Virðisaukaskattsskyldum aðilum ber að gera upp skatt sinn á ákveðnum gjalddögum og þar sem nánast er um sama gjaldstofn að ræða við innheimtu búnaðargjalds þótti hagkvæmt og eðlilegt að hafa gjalddaga staðgreiðslunnar þá sömu. Almenna reglan er sú að gjalddagar virðisaukaskatts eru sex á ári, í síðasta lagi 5. apríl fyrir mánuðina janúar og febrúar og í síðasta lagi 5. júní fyrir mánuðina mars og apríl o.s.frv. Í landbúnaði er þessu öðruvísi farið og aðalreglan sú að gjalddagar eru tveir á ári, í síðasta lagi 1. september vegna fyrri árshelmings og í síðasta lagi 1. mars vegna síðari árshelmings. Þrátt fyrir þessa sérreglu í landbúnaði skila margir lögaðilar og einhverjir einstaklingar skattinum eftir almennu reglunni. Þessi sérregla í landbúnaði gerir það þó að verkum að greiðslustreymi búnaðargjaldsins verður ójafnt yfir árið. Engu að síður var þessi leið talin heppilegasti kosturinn við innheimtu búnaðargjaldsins.
    Ekki þykir rétt að beita viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt á gjaldfallin ógreidd búnaðargjöld í staðgreiðslu. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir að innheimtumenn reikni hæstu lögleyfðu dráttarvexti á vangoldið búnaðargjald.

Um 5. gr.


    Lagt er til að búnaðargjald verði lagt á með almennum þinggjöldum eftir á og að til frádráttar álagningu komi innborgað búnaðargjald í staðgreiðslu. Gjaldskyldum aðila ber að fylla út sérstakt framtalsblað á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skila því til skattstjóra innan lögboðins framtalsfrests. Mismunur sem kann að koma fram við álagningu á álögðu og áður greiddu búnaðargjaldi verði síðan greiddur eða endurgreiddur með sama hætti og á sömu gjalddögum og gildir um álagningu tekjuskatts og eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981. Einnig er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir, viðurlög og málsmeðferð og er að finna í þeim lögum.

Um 6. gr.


    Búnaðargjald er samheiti fleiri gjalda sem greinast í þrjá meginflokka, búnaðarsjóðsgjald, lánajöfnunargjald og framleiðsluráðsgjald. Miðað við veltu ársins 1995 er áætlað að heildarupphæð gjaldsins verði 370–380 millj. kr.
    Búnaðarsjóður skiptist síðan milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasamtaka og er gert ráð fyrir að sú skipting geti verið breytileg og sé ákveðin af landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands. Inni í hlut búgreinasamtaka er framlag hverrar greinar til Bjargráðasjóðs. Það er síðan á valdi félagsmálaráðherra að ákveða hversu hátt bjargráðasjóðsgjaldið er að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.
    Samkvæmt núgildandi lögum greiða búgreinarnar mismikið til Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambandanna. Gjaldflokkarnir eru tveir og eru greidd 0,375% af afurðum svína og alifugla en 0,825% af öðrum afurðum. Þá er heimiluð mismunandi innheimta til búgreinasamtakanna og er hún nú allt frá 0,075% og upp í 1,0%. Loks getur gjald til Bjargráðasjóðs verið allt frá 0% og upp í 1%.
    Hið nýja kerfi setur þessum breytileika nokkrar skorður og þrengir innheimtumöguleika nokkurra búgreina frá því sem nú er. Sé ekki unnt að mæta því með breyttri verkaskipan og minni útgjöldum geta viðkomandi búgreinasamtök orðið að huga að öðrum tekjuöflunarleiðum.
    Lánajöfnunargjald, 1,1%, kemur í stað neytenda- og jöfnunargjalds sem er 2% af heildsöluverði og einnig Stofnlánadeildarhluta búnaðarmálasjóðsgjaldsins sem er 0,1–0,2% af framleiðendaverði. Samanlögð gjöld til Stofnlánadeildar voru rúmar 392 millj. kr. árið 1996. Lánajöfnunargjald er áætlað 165–170 millj. kr. miðað við veltu ársins 1995. Þannig er dregið úr innheimtu til Stofnlánadeildar/Lánasjóðs landbúnaðarins um u.þ.b. 225 millj. kr. á ári en samkvæmt frumvarpi til laga um Lánasjóð landbúnaðarins skal miða vexti af útlánum við að eigið fé sjóðsins haldist að raungildi.
    Framleiðsluráðsgjald verður 0,275% en var áður 0,25% af heildsöluverði. Álögð prósenta hækkar lítillega þar sem nú er miðað við lægri gjaldstofn en áður var. Miðað er við að svipuð krónutala haldi sér. Heildarupphæð framleiðsluráðsgjalds er áætluð rúmar 42 millj. kr. miðað við veltu ársins 1995.
    Gengið er út frá því að fjármálaráðherra standi skil á gjaldinu mánaðarlega til viðkomandi aðila, þó aldrei lægri fjárhæð í senn en 6,67% af álagningu síðasta árs. Ekki er nákvæmlega þekkt hvernig greiðsluflæði búnaðargjaldsins muni verða innan ársins og því hugsanlegt að um einhverja greiðslumiðlun verði að ræða.

Um 7. gr.


    Í þessari grein eru felld úr gildi lög nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð, og ákvæði laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, um innheimtu gjalds til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Til þess að jafna kostnaðarstöðu í upphafi breytts fyrirkomulags á innheimtu sjóðagjalda er talið eðlilegt að innheimta áfram samsvarandi gjald á heildsölustigi við sölu birgða frá fyrra ári. Þetta nær þó fyrst og fremst til kindakjöts og í minna mæli til mjólkurafurða. Birgðir annarra afurða eru annaðhvort mjög litlar við áramót eða þá í eigu framleiðenda sjálfra sem greiða af þeim við sölu hið nýja búnaðargjald.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Hér er gert ráð fyrir því að greiðslustreymi til viðkomandi sjóða miðist í upphafi við tekjuáætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins á meðan álagning samkvæmt nýju fyrirkomulagi hefur enn ekki farið fram.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um búnaðargjald.


    Frumvarp þetta felur í sér víðtækar breytingar á innheimtu gjalda í landbúnaði en efni frumvarpsins tekur að hluta mið af þeim breytingum sem boðaðar eru í frumvarpi til laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Í frumvarpinu er lagt til að innheimt verði eitt gjald, 2,65% búnaðargjald, af búvöruframleiðendum.
    Búnaðargjaldinu er ætlað að leysa af hólmi þrjú önnur gjöld: Í fyrsta lagi búnaðarmálasjóðsgjald, samkvæmt lögum nr. 41/1990, sem er á bilinu 0,85%–2,025% af verði til framleiðenda og fer það eftir afurðartegundum. Í öðru lagi neytenda- og jöfnunargjald samkvæmt lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, en það nemur 2% af heildsöluverði sömu afurða og búnaðarmálasjóðsgjald, utan útfluttra afurða. Gjaldið er hluti af tekjum Stofnlánadeildar og grundvöllur lágra vaxta af útlánum deildarinnar. Í þriðja lagi framleiðsluráðsgjald samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem nemur 0,25% af heildsöluverðmæti og er því ætlað að standa undir rekstri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Tilgangurinn með hinu nýja búnaðargjaldi er að einfalda álagningu gjalda í landbúnaði, bæta innheimtu þeirra og styrkja innheimtuúrræði. Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum. Við þessa breytingu má gera ráð fyrir því að árleg innheimta sjóðagjalda lækki úr um 610 m.kr. í um 390 m.kr. miðað við núverandi veltu. Búnaðargjaldinu verður ráðstafað til Búnaðarsjóðs, Lánasjóðs landbúnaðarins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins í hlutföllum sem tilgreind eru í 6. gr. frumvarpsins. Þó munu 0,5% af óskiptum tekjum búnaðargjalds renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara eða um 2 m.kr. Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi í för með sér annan kostnað fyrir ríkisssjóð.