Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 480 . mál.


809. Tillaga til þingsályktunar



um samþykkt á breytingum og viðbótum við I. viðauka við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að samþykkja fyrir Íslands hönd breytingar og viðbætur við I. viðauka við samning frá 2. maí 1992 um Evrópska efnahagssvæðið, eins og þær liggja fyrir sameiginlegu EES-nefndinni.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Samræmdar heilbrigðisreglur í viðskiptum með dýr og dýraafurðir, þar með taldar fiskafurðir, voru teknar upp innan EB þann 1. janúar 1997. Þær fela í sér að í viðskiptum milli aðildarríkja EB með umrædd dýr og afurðir þeirra er meginreglan sú að heilbrigðiseftirlit fer einungis fram á sendingarstað. Heilbrigðiseftirlit og gjaldtaka við innflutning frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hér eftir verða nefnd þriðju ríki, eru samræmd og fela í sér ítarlegri skoðun, aukið eftirlit og hærri gjaldtöku en tíðkaðist áður í aðildarríkjum EB.
    Þar sem 60–70% íslenskra fiskafurða hafa á síðustu árum verið flutt út til EB var ljóst að ef ekkert yrði að gert mundu samræmdar heilbrigðisreglur EB gagnvart þriðju ríkjum hafa miklar breytingar í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg. Eftirlit með íslenskum fiskafurðum hefði aukist úr litlu sem engu upp í 20–50%. Það hefði leitt til tímafrekara eftirlits á landamærum, auk þess sem einungis hefði verið heimilt að flytja fisk og fiskafurðir út til tiltekinna hafna eða flugvalla innan EB. Enn fremur hefðu umræddar breytingar haft aukinn kostnað í för með sér.
    Samningaviðræðum milli EES-ríkjanna um að samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir verði hluti EES-samningsins lauk með samkomulagi sérfræðinga í nóvember 1996. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að samræmdar heilbrigðisreglur verði hluti EES-samningsins liggja fyrir og fyrirhugað er að sú ákvörðun verði samþykkt á fundi hennar í apríl eða maí nk. Það felur í sér miklar breytingar á 1. kafla I. viðauka við EES-samninginn, sem fjallar um heilbrigði dýra. Ísland tekur einungis upp þær gerðir sem varða fisk og fiskafurðir en undanþága varðandi lifandi dýr og dýraafurðir helst óbreytt. Noregur tekur hins vegar upp allan I. viðauka.
    Með þeirri ákvörðun bætast 168 nýjar gerðir við þann hluta 1. kafla I. viðauka sem Ísland hefur tekið upp. Fimm gerðir, af 34 í 1. kafla eins og hann er nú, verða felldar brott. Annar kafli, um fóður, og þriðji kafli, um heilbrigði plantna, standa óbreyttir.
    Af þeim 197 nýju og eldri gerðum, sem samþykktar verða með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, eru fjórar þýðingamestar og leggja grunninn að hinum hvað varðar viðskipti með fisk og fiskafurðir. Þær skiptast í tvo flokka. Annars vegar fjalla tilskipanir nr. 89/662/EBE og 90/425/EBE um heilbrigðiseftirlit með dýrum og dýraafurðum í viðskiptum milli EES-ríkja. Hins vegar fjalla tilskipanir nr. 90/675/EBE og 91/496/EBE um heilbrigðiseftirlit með dýrum og dýraafurðum sem flutt eru inn frá þriðju ríkjum.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir framangreindum gerðum og öðrum helstu þáttum ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem varða Ísland.

2. Viðskipti milli EES-ríkjanna.
2.1 Almennt.

    Tilskipanir nr. 89/662/EBE og 90/425/EBE gilda í viðskiptum milli EES-ríkjanna. Fyrri tilskipunin fjallar um dýraafurðir og tekur Ísland hana upp varðandi fiskafurðir. Sú síðari fjallar um viðskipti með lifandi dýr og tekur Ísland hana upp hvað varðar humar og hrogn, svil og seiði nokkurra fisktegunda. Tilskipanirnar eru byggðar upp á sams konar hátt og verður látið nægja að vísa til tilskipunar nr. 89/662/EBE í eftirfarandi umfjöllun.

2.2 Uppbygging heilbrigðiseftirlitsins.
    Í I. kafla tilskipunar nr. 89/662/EBE kemur fram að heilbrigðiseftirlitið er að meginstefnu í höndum útflutningsríkisins og ber það ábyrgð á því. Þeir aðilar í útflutningsríkinu sem vilja markaðssetja fiskafurðir á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa að uppfylla þær heilbrigðiskröfur sem þar gilda. Samræmdum heilbrigðisreglum um meðferð fisks og fiskafurða var komið á hér á landi við gildistöku EES-samningsins. Þá voru lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, sett til samræmis við I. kafla tilskipunar nr. 91/493/EBE og tilskipanir nr. 91/492/EBE og 91/67/EBE, sem fjalla um heilbrigðiskröfur Evrópska efnahagssvæðisins. Öllum aðilum sem uppfylla umræddar kröfur er úthlutað svokölluðu vinnsluleyfi af Fiskistofu og slíkt leyfi hafa allir íslenskir framleiðendur fiskafurða sem selja afurðir innan EES.
    Þó heilbrigðiseftirlitið sé að meginstefnu í höndum útflutningsríkisins fjallar II. kafli tilskipunar nr. 89/662/EBE um heimildir sem móttökuríkið hefur til þess að gera svokallaða skyndiskoðun. Slík skoðun er þó einungis heimil innan þröngra marka. Samkvæmt 16. gr. tilskipunar nr. 89/662/EBE, sbr. tilskipun nr. 92/67/EBE, ber móttökuríkinu að senda framkvæmdastjórn EB eða eftirlitsstofnun EFTA, í tilviki Íslands og Noregs, áætlun um hvernig það hyggist beita fyrrgreindum skyndiskoðunum og er áætlunin háð samþykki fyrrgreindra aðila. Móttökuríkinu ber enn fremur að beita þessum skyndiskoðunum án mismununar.

2.3 Öryggisráðstafanir.
    Í inngangskafla að nýjum I. viðauka við EES-samninginn er svokallað öryggisákvæði sem samningsaðilar geta gripið til í sérstökum tilfellum. Komi upp innan aðildarríkja EB eða EFTA/EES-ríkja, annarra en Íslands, tilteknir dýrasjúkdómar eða annað sem kann að stofna heilbrigði dýra eða almennings í alvarlega hættu geta íslensk stjórnvöld gripið til öryggisráðstafana gagnvart því ríki sem sjúkdómur kemur upp í. Framkvæmdastjórn EB og hin EFTA/EES-ríkin geta gripið til sams konar aðgerða gagnvart Íslandi að sömu skilyrðum uppfylltum. Hér er um sjálfstæða heimild samningsaðila að ræða, sem er óháð aðgerðum annarra og taka öryggisráðstafanirnar gildi um leið og aðrir samningsaðilar hafa verið upplýstir um beitingu þeirra. Ráðstafanirnar geta ýmist falist í algjöru innflutningsbanni eða setningu sérstakra skilyrða um innflutning frá því ríki sem sjúkdómur kemur upp í. Viðræður milli aðila skulu þó hefjast án tafar og ef lausn finnst ekki er heimilt að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

2.4 Gjaldtaka vegna heilbrigðiseftirlitsins.
2.4.1 Gjaldtaka vegna heilbrigðiseftirlits samkvæmt tilskipun nr. 96/43/EB.
    Til þess að tryggja að eftirlitskerfið sé rekið af hagkvæmni og til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni milli fiskframleiðenda í einstökum EES-ríkjum, er talið nauðsynlegt að gjaldtaka á svæðinu sé samræmd. Tilskipun nr. 96/43/EB fjallar um fjármögnun heilbrigðiseftirlitsins og ákvæði um fjármögnun heilbrigðiseftirlits með fiski og fiskafurðum er að finna í III. kafla hennar.
    Í þeim kafla er annars vegar mælt fyrir um gjald fyrir almennt eftirlit með þeim sem hafa fengið leyfi frá lögbæru yfirvaldi til vinnslu, meðferðar, pökkunar eða geymslu fiskafurða til staðfestingar á því að skilyrðum leyfisins sé fullnægt. Gjaldið er 82 kr. (1 ECU) á hvert veitt tonn, eftir atvikum innvegið, en heimilt er að lækka það um 55%.
    Hins vegar er mælt fyrir um gjald fyrir svokallað sérstakt eftirlit (ferskfiskeftirlit). Það felst í eftirliti með skynmatseinkennum, eftirliti með sníkjudýrum, efnafræðilegu eftirliti og örverufræðilegu eftirliti. Gjaldið leggst á vinnsluhús og verksmiðjuskip (frystiskip). Gjaldið er innheimt við löndun eða fyrstu markaðssetningu og er 82 kr. (1 ECU) á hvert tonn að 50 tonnum en 41 kr. (0,5 ECU) á hvert tonn eftir það. Gjald vegna eftirlits með síld,
loðnu og makríl fer þó aldrei yfir 4.100 kr. (50 ECU) fyrir hvern landaðan farm.

2.4.2    Gjaldtaka vegna heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum nr. 93/1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
    Fyrirkomulag almenns eftirlits með vinnsluleyfishöfum hér á landi er þríþætt. Það felst í innra eftirliti vinnsluleyfishafans sjálfs, eftirliti skoðunarstofa og eftirliti Fiskistofu. Fiskistofa innheimtir gjöld af vinnsluleyfishöfum vegna þjónustu stofnunarinnar. Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins er verið að athuga hvort gjaldtaka vegna opinbers eftirlits með vinnsluleyfishöfum sé sambærileg við tilskipun nr. 96/43/EB sem fjallar um fjármögnun heilbrigðiseftirlitsins.
    Ferskeftirlit hér á landi er með þeim hætti að framleiðendur meta sjálfir innveginn afla og er það í langflestum tilvikum hluti af innra eftirliti framleiðandans undir yfirumsjón Fiskistofu. Þannig hafa eftirlitsmenn Fiskistofu heimild til að taka sýni af metnum fiski til skoðunar, eftirlits með örverum og sníkjudýrum og efnafræðilegra athugana, hvar og hvenær sem er. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag og talið að það væri ekki í fullu samræmi við það eftirlit sem kveðið er á um í tilskipun nr. 91/493/EBE.
    Hér er um að ræða ágreining um túlkun á tilskipun nr. 91/493/EBE sem ekki er enn til lykta leiddur. Þar sem beint opinbert ferskfiskeftirlit er ekki til staðar hér á landi er augljóslega ekki fært að innheimta gjald vegna þess. Því er ekki gert ráð fyrir að sérstakt gjald fyrir ferskfiskeftirlit verði lagt á framleiðendur að svo stöddu. Í Noregi er heldur ekki til staðar beint ferskfiskmat og í viðræðum við norsk stjórnvöld hefur komið fram að eftirlitsstofnun EFTA hefur gert svipaðar athugasemdir við ferskfiskmat í Noregi og hún hefur gert við ferskfiskmat hér á landi. Byggja norsk stjórnvöld á sömu túlkun og íslensk að þessu leyti.

3. Viðskipti við þriðju ríki.
3.1 Almennt.
    Tilskipanir nr. 90/675/EBE og 91/496/EBE gilda um heilbrigðiseftirlit með dýrum og dýraafurðum sem flutt eru inn frá þriðju ríkjum. Fyrri tilskipunin fjallar um dýraafurðir og tekur Ísland hana upp varðandi fiskafurðir. Sú síðarnefnda fjallar um viðskipti með lifandi dýr og tekur Ísland hana upp hvað varðar humar og hrogn, svil og seiði nokkurra fisktegunda. Tilskipanirnar eru byggðar upp á sams konar hátt og verður látið nægja að vísa til tilskipunar nr. 90/675/EBE í eftirfarandi umfjöllun.

3.2 Uppbygging heilbrigðiseftirlitsins.
3.2.1 Almennt.
    Samkvæmt II. kafla tilskipunar nr. 91/493/EBE mega einungis aðilar sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES flytja inn fiskafurðir og lifandi sjávardýr til Evrópska efnahagssvæðisins. Gefnar eru út skrár yfir þær starfsstöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip sem uppfylla umræddar heilbrigðiskröfur og öðrum er óheimill innflutningur á Evrópska efnahagssvæðið.

3.2.2    Skrár yfir starfsstöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip sem uppfylla heilbrigðiskröfur Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ákvörðun ráðherraráðs EB nr. 95/408/EBE, sem er hluti af þeirri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fyrirhugað er að samþykkja í apríl eða maí nk., fjallar um útgáfu skráa yfir þær starfsstöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip í þriðju ríkjum sem er heimill innflutningur á Evrópska efnahagssvæðið.
    Vilji aðili í þriðja ríki flytja inn fisk eða fiskafurðir til Evrópska efnahagssvæðisins óskar hann eftir því við stjórnvöld í sínu ríki að þau beri upp beiðni þess efnis við framkvæmdastjórn EB. Almennt heilbrigðisástand í ríkinu sem beiðni berst frá, heilbrigðislöggjöf þess og löggjöf sem tryggja skal hlutleysi þarlendra eftirlitsaðila er kannað af framkvæmdastjórninni og EFTA/EES-ríkjunum, óski þau þess. Ef niðurstaðan úr könnuninni er sú að ríkið uppfyllir heilbrigðiskröfur EES er þarlendum stjórnvöldum falið að gera úttekt á þeim aðilum sem það telur uppfylla heilbrigðiskröfurnar. Að lokinni þeirri úttekt senda stjórnvöld þriðja ríkis skrá yfir þarlendar starfsstöðvar, verksmiðjutogara og frystiskip sem uppfylla umræddar heilbrigðiskröfur. Í framhaldi af því gefur framkvæmdastjórnin út skrá, í ákvörðunarformi, yfir þá aðila þriðja ríkisins sem uppfylla heilbrigðiskröfurnar. Er sú ákvörðun tekin á grundvelli úttektar stjórnvalda þess þriðja ríkis sem í hlut á hverju sinni. Til þess að ákvörðunin öðlist gildi í EFTA/EES-ríkjunum þarf að samþykkja hana í sameiginlegu EES-nefndinni. Sjávarútvegsráðuneytið mun halda skrá yfir þá aðila sem er heimilt að flytja fisk og fiskafurðir inn til Evrópska efnahagssvæðisins.
    Eftirlit EES-ríkjanna með því að úttekt stjórnvalda þriðja ríkis sé framkvæmd á réttan hátt er í höndum eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB. Þessar stofnanir hafa víðtækar heimildir til að gera skyndikannanir hjá þeim aðilum í þriðja ríki sem þarlend stjórnvöld hafa veitt viðurkenningu.
    
3.2.3 Landamærastöðvar.
    Til þess að Ísland geti haft eftirlit með fiskinnflutningi frá þriðju ríkjum er nauðsynlegt að koma á fót sérstökum skoðunarstöðvum, sem hér eftir verða nefndar landamærastöðvar. Fiskistofa mun annast þetta eftirlit og munu starfsmenn hennar skoða fisk sem landað er úr skipum þriðju ríkja, til að mynda Rússlandi. Landamærastöðvarnar skiptast í varanlegar stöðvar og stöðvar sem hafa heimild til að skoða frystan fisk fram til 31. desember 1998. Gert er ráð fyrir að settar verði upp sjö stöðvar sem falla í fyrrgreindan flokk og tólf sem falla í þann síðarnefnda. Enn fremur er gert ráð fyrir að þær verði á eftirtöldum stöðum:
         Landamærastöðvar:     Stöðvar með tímabundið leyfi:
         Reykjavík,     Keflavík (höfn),
         Hafnarfjörður,     Grundarfjörður,
         Ísafjörður,     Patreksfjörður,
         Akureyri,          Þingeyri,
         Eskifjörður,     Sauðárkrókur,
         Vestmannaeyjar,     Húsavík,
         Keflavík (flugvöllur).     Þórshöfn,
                                       Vopnafjörður,
                                       Seyðisfjörður,
                                       Höfn,
                                       Þorlákshöfn,
                                       Dalvík.
    Eftir 31. desember 1998 fellur tímabundna leyfið niður. Þá verða íslensk stjórnvöld að vera búin að ákveða hvort þau sækja um að breyta stöðvum með tímabundið leyfi í varanlegar stöðvar.
    Við val á ofangreindum stöðum var m.a. reynt að hafa hliðsjón af því hvar fiskinnflutningur frá þriðju ríkjum (einkum Rússlandi) hefur verið mestur undanfarin ár. Enn fremur var þess gætt að a.m.k. ein landamærastöð væri í hverjum landsfjórðungi og að lokum var tekið mið af því á hvaða stöðum Fiskistofa hefur ákveðið að setja upp útibú. Mikið hagræði næst fram með því að nýta starfskrafta starfsmanna Fiskistofu við heilbrigðiseftirlit með fiskinnflutningi.

3.2.4 Heilbrigðiseftirlitið.
    Grundvallarþáttunum í eftirlitinu má lýsa á eftirfarandi hátt:
    Hver sending sem kemur inn á Evrópska efnahagssvæðið frá þriðja ríki skal sæta heilbrigðiseftirliti, án tillits til hvort notkun innihalds hennar hefur verið heimiluð af tollayfirvöldum.
    Heilbrigðiseftirlitið skal fara fram um leið og sendingin kemur inn á Evrópska efnahagssvæðið.
    Heilbrigðiseftirlitið má eingöngu fara fram í landamærastöðvunum. Þær þurfa að vera tilgreindar í reglum Evrópska efnahagssvæðisins og vera sérstaklega búnar til að annast eftirlitið.
    Heilbrigðiseftirlitið er þríþætt:
         i)      Eftirlit með skjölum. Það felur í sér eftirlit á heilbrigðisvottorðum og skjölum sem fylgja afurðunum.
         ii)     Eftirlit með auðkenningu. Það felur í sér eftirlit með því hvort afurðirnar í sendingunni séu hinar sömu og fram koma í heilbrigðisvottorðum eða öðrum skjölum sem fylgja afurðunum.
          iii)    Eftirlit með heilnæmi. Það felst í því að kanna hvort afurðirnar uppfylli heilbrigðiskröfur EES.
    Allur innflutningur á fiski og fiskafurðum til Evrópska efnahagssvæðisins frá þriðju ríkjum skal sæta eftirliti með skjölum og auðkenningu (liðum i og ii). Fimmta hver sending fiskafurða annarra en skelfiskafurða skal sæta eftirliti með heilnæmi en 50% sendinga skelfiskafurða (iii).

3.3 Öryggisráðstafanir.

    Í inngangskafla að nýjum I. viðauka við EES-samninginn er svokallað öryggisákvæði, sem samningsaðilar geta í sérstökum tilfellum gripið til gagnvart þriðju ríkjum. Komi upp innan þriðja ríkis tilteknir dýrasjúkdómar eða annað sem kann að stofna heilbrigði dýra eða almennings í alvarlega hættu geta íslensk stjórnvöld gripið til öryggisráðstafana gagnvart hlutaðeigandi þriðja ríki. Þær taka gildi um leið og íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt öðrum samningsaðilum um ráðstafanirnar. Framkvæmdastjórn EB getur tekið ákvörðun um að beita öryggisráðstöfunum gagnvart þriðja ríki. Framkvæmdastjórninni ber í slíkum tilfellum að upplýsa EFTA/EES-ríkin um slíkar aðgerðir. Þeim ber að beita samsvarandi öryggisráðstöfunum, nema þau álíti að aðgerðir þessar séu ekki réttlætanlegar. Komi upp ágreiningur um beitingu öryggisráðstafana gagnvart þriðja ríki er heimilt að vísa honum til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Öryggisráðstafanirnar eru ýmist fólgnar í algjöru innflutningsbanni eða setningu sérstakra skilyrða um innflutning frá því þriðja ríki sem sjúkdómur kemur upp í.

3.4 Gjaldtaka vegna heilbrigðiseftirlitsins.
    Til þess að tryggja að landamæraeftirlitið sé rekið af hagkvæmni og til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni milli einstakra EES-ríkja við kaup á fiski og fiskafurðum frá þriðju ríkjum er nauðsynlegt að gjaldtaka á svæðinu sé samræmd. Tilskipun nr. 96/43/EB, sem fjallar m.a. um fjármögnun landamæraeftirlitsins, er ætlað að tryggja samræmda gjaldtöku á svæðinu.
    Kostnaður vegna eftirlits með fiskafurðum, sem landað er úr skipum þriðja ríkis, er 410 kr. (5 ECU) á hvert tonn og greiðist af innflytjanda. Lækka skal þá upphæð niður í 205 kr. (2,5 ECU) fyrir hvert tonn umfram 100 tonn.

4.    Frumvarp sem lagt verður fram á 121. löggjafarþingi vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fyrirhugað er að samþykkja í apríl eða maí nk.
    Vegna breytinga á 1. kafla I. viðauka við EES-samninginn, sem lýst hefur verið hér að framan, verður frumvarp um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, lagt fram á 121. löggjafarþingi.
    Helstu breytingar sem frumvarpið kveður á um eru eftirfarandi:
    Einungis þeim aðilum sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES er heimilt að flytja fisk og fiskafurðir inn til Íslands.
    Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir þær starfsstöðvar, verksmiðjuskip og frystitogara í þriðju ríkjum sem uppfylla heilbrigðiskröfur EES.
    Komi upp, í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða þriðja ríki, aðstæður sem kunna að stofna heilbrigði dýra eða almannaheilbrigði í alvarlega hættu getur sjávarútvegsráðuneytið gripið til öryggisráðstafana gagnvart viðkomandi ríki. Þær eru ýmist fólgnar í algjöru innflutningsbanni eða setningu sérstakra skilyrða fyrir innflutningi á fiski og fiskafurðum frá ríkinu.
    Settar verða á stofn landamærastöðvar víðs vegar um landið. Í þeim fer fram eftirlit með innflutningi á fiski og fiskafurðum frá þriðju ríkjum.
    Gjaldtaka fyrir eftirlit með fiskinnflutningi frá þriðju ríkjum verður heimiluð.

Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar og viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn sem fyrirhugað er að hún samþykki á fundi sínum í apríl eða maí nk.; einungis er vísað til þeirra gerða sem fyrirhugað er að Ísland taki upp:


(40 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Fylgiskjal II.


Þýðingarmestu gerðir vegna fyrirhugaðra breytinga og viðbóta


við I. viðauka við EES-samninginn.





(63 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)