Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 490 . mál.


825. Tillaga til þingsályktunar



um stöðvun hraðfara jarðvegsrofs.

Flm.: Egill Jónsson.



    Alþingi ályktar, með vísan til samþykktar frá Alþingi árið 1990 um stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar fyrir árið 2000, að verja fram til ársins 2005 samtals 1,5 milljörðum kr. til Landgræðslu ríkisins til stöðvunar hraðfara jarðvegsrofs á helstu uppblásturssvæðum landsins.
    Fjárveiting þessi rýri ekki árlegar fjárveitingar til Landgræðslu ríkisins frá því sem nú er.
    Skipting þessarar fjárveitingar verði eftirfarandi: 50 millj. kr. árið 1997, 100 millj. kr. árið 1998, 150 millj. kr. árið 1999 og 200 millj. kr. árið 2000.
    Árleg fjárveiting næstu fimm ára, 2001–2005, verði 200 millj. kr.
    Áætlunin verði endurskoðuð innan fjögurra ára.
    Árlegar fjárveitingar til áætlunar þessarar haldi verðgildi sínu.

Greinargerð.


Þrjár landgræðsluáætlanir.
    Upphaf landgræðsluáætlana má rekja aftur til ársins 1971 er þáverandi landbúnaðarráðherra skipaði nefnd til að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. Niðurstaða nefndarinnar var samþykkt á Þingvöllum 28. júlí 1974 sem þingsályktun um Landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu, almennt kölluð Þjóðargjöfin (fskj. I).
    Þessi áætlun var byggð á mikilli bjartsýni enda tengd sögulegum atburði. Í hinni almennu umræðu var jafnan tekið svo til orða að með þeirri fyrirætlan skyldi íslenska þjóðin greiða landinu 11 alda fósturlaun.
    Sú starfsemi í landgræðslu og gróðurvernd, sem af landgræðsluáætlun 1974 leiddi, var afar mikilvæg og gætir áhrifa hennar í sívaxandi mæli. Hins vegar var markmiðið um greiðslu fósturlaunanna víðs fjarri. Því var það að Alþingi samþykkti tvær landgræðsluáætlanir hvora á eftir annarri, 20. apríl 1982 (fskj. II) og 5. mars 1987 (fskj. III). Nefnd skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna undir forustu ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins fylgdist með framkvæmd þessara áætlana.
    Þessar þrjár áætlanir áttu það sameiginlegt að þær byggðust ekki á kostnaðarmati með skilgreindum landgræðsluverkefnum, heldur var ákveðið að tilteknu fjárframlagi yrði á hverju fimm ára tímabili varið til þeirra verkefna sem tilgreind voru í áætlununum þrátt fyrir að kostnaður einstakra verkefna lægi ekki fyrir.
    Samþykktir fyrrgreindra landgræðsluáætlana hafa skipt sköpum um framkvæmdir á sviði uppgræðslu og gróðurverndar.

Prentað upp.

Þingsályktun frá 1990 um stöðvun jarðvegseyðingar.
    Þann 19. mars 1990 var samþykkt þingsályktun á Alþingi sem miðaði að því að uppblástur á helstu sandfokssvæðum yrði stöðvaður um aldamótin 2000 (fskj. IV).
    Í ljós kom að forsenda fyrir því að hægt væri að vinna samkvæmt þingsályktuninni var að kortleggja uppblásturssvæðin og skilgreina þau. Því var á Alþingi 13. mars 1991 samþykkt tillaga um kortlagningu gróðurlendis Íslands (fskj. V). Þar var m.a. ákveðið að tilgreina hver væri stærð þeirra landa sem þingsályktunin frá 1990 tók mið af.
    Þann 29. október 1992 skipaði þáverandi landbúnaðarráðherra fagráð í landgræðslu. Í skipunarbréfinu er m.a. tekið fram að verkefni á sviði landgræðslumála falli undir verksvið fagráðs í landgræðslu. Á grundvelli þess hefur fagráðið í samvinnu við Landgræðslu ríkisins unnið að gerð þessarar landgræðsluáætlunar. Á fundi sínum, sem haldinn var á Grímstöðum á Fjöllum 25. ágúst 1993, samþykkti fagráðið eftirfarandi ályktun:
    „Fagráð í Landgræðslu ríkisins beinir þeim eindregnu tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann hlutist til um að á næstu fjárlögum verði fjárveiting að upphæð kr. fimm milljónir til að gera heildarúttekt á viðfangsefnum Landgræðslu ríkisins og skipa þeim í forgangsröð eftir umfangi þeirra og þýðingu.“
    Landbúnaðarráðuneytið hefur síðan varið 3 millj. kr. árlega til þessa verkefnis. Segja má að með þessari fjárveitingu hafi verið lagður grundvöllur að þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir um mat á umfangi landgræðsluverkefna.
    Áður er frá því sagt að nefnd sú, sem falið var að gera áætlun um landgræðsluverkefni til aldamóta, hafi ekki haft forsendur til slíkrar áætlunargerðar. Af þeirri ástæðu og að teknu tilliti til ályktunar Alþingis 1991 var leitað til Landmælinga Íslands um gerð myndkorta af gróðurfari á Íslandi. Með þeirri nýju tækni í myndkortagerð sem stofnunin réð yfir var með skjótum hætti fenginn grundvöllur fyrir mati á gróðurfari landsins. Auk Landmælinganna greiddu Landgræðsla ríkisins og Framleiðnisjóður landbúnaðarins kostnað við það verkefni.
    Síðari þáttur þessa mikilvæga verkefnis, vettvangsgreining gróðurlenda Íslands, hefur verið unnin af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Segja má að þar með sé fengin úttekt sérfræðinga á jarðvegsrofi landsins.

Markvisst landgræðslustarf.
    Sú þingsályktunartillaga, sem hér er lögð fram, tekur einkum á einum þætti þessa verkefnis, stöðvun jarðvegsrofs með uppgræðsluaðgerðum á helstu rofsvæðum landsins, enda sérstaklega tekið fram að fjárveiting til þessara verkefna skuli ekki skerða hefðbundin fjárframlög til Landgræðslu ríkisins. Stærsti hluti fjárveitingar Landgræðslunnar hefur hingað til farið í uppgræðslu lands og stöðvun jarðvegseyðingar. Gengið er út frá að svo verði áfram þar sem fjöldi annarra landgræðslusvæða en þeirra sem getið er um í tillögunni þarfnast gróðurbóta í einni eða annarri mynd. Hér má nefna Bændur græða landið, landgræðslufélög og græðslu rofabarða, að ógleymdum þeim mikilvæga þætti sem áhugamannafélög og einstaklingar víðs vegar af landinu leggja til þessa máls. Jafnframt því verði rannsóknastarf hvers konar í samvinnu við aðrar stofnanir að skipa drjúgan sess í störfum Landgræðslu ríkisins.
    Ályktun Alþingis árið 1990 um stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar gerði ráð fyrir að því verki yrði lokið fyrir árið 2000. Síðan þá eru liðin tæp sex ár. Eins og fram kemur hér að framan hefur á þeim árum verið unnið mikið starf við rannsóknir, kortagerð og annað sem viðkemur nauðsynlegri úttekt á gróðurfari landsins. Það er hins vegar ljóst að því markmiði, sem þingsályktunin frá 1990 kveður á um, verður ekki náð innan fjögurra ára. Mun það verkefni því færast að einhverju leyti fram yfir aldamót. Jafnframt ber að hafa í huga að þótt lokið sé sáningu og öðrum verkum tilheyrandi uppgræðslunni tekur einhvern tíma að árangur landgræðslustarfsins verði áþreifanlegur.

Röðun verkefna.
    Forgangsröðun landgræðsluverkefna byggir á úttekt á jarðvegsrofi á öllu landinu. Helstu niðurstöður um jarðvegsrof koma fram í töflu I.

Tafla I. Niðurstöður kortlagningar á jarðvegsrofi.

(Rannsóknastofnun landbúnaðarins/Landgræðsla ríkisins.)

% km²
Rofflokkar 0–2 (ekkert – lítið rof) 37 38.501
Rofflokkur 3 (talsvert rof) 23 23.669
Rofflokkur 4 (mikið rof) 11 10.872
Rofflokkur 5 (mjög mikið rof) 6 6.641
Jöklar, vötn og hæstu fjöll 22 22.210
Ókortlagt 1 1.129
Samtals 100 103.022

(Niðurstöðutölur eru birtar með fyrirvara því úrvinnslu er ekki endanlega lokið.)



    Almennt má segja að á svæðum sem lenda í rofflokkum 4 og 5 þurfi miklar landgræðsluaðgerðir og á heildina litið eru þau jafnframt óhæf til beitar. Vinna þarf því að friðun þeirra eða grípa til annarra aðgerða til að bæta ástandið. Á svæðum í rofflokki 3 er nauðsynlegt að skipuleggja vel landnýtingu auk þess sem landgræðsluframkvæmda er oft þörf. Land í rofflokkum 0 til 2 er hins vegar í ásættanlegu eða góðu ástandi.

Forgangsverkefni.
    a. Rofsvæði í flokkum 4 og 5 neðan 500 m yfir sjávarmáli en þó sérstaklega þar sem rof er í grónu landi og þar sem sandur ógnar mannvirkjum eða öðrum verðmætum.
    b. Rofsvæði í flokki 3 eru í áhættuflokki en misjafnt er eftir aðstæðum hvort grípa þarf til aðgerða.
    Eins og hér kemur fram er lögð aðaláhersla á landgræðsluaðgerðir miðað við 500 m hæðarmörk. Af því leiðir að nauðsynlegt er að byggja landgræðsluaðgerðir á greiningu rofsvæða undir 500 m hæðarmörkum svo að unnt sé að meta landgræðsluverkefnin með tilliti til stærðar og kostnaðar.
    Með tilliti til þessa hefur Landgræðsla ríkisins gefið upplýsingar um hvernig landið greinist eftir gróðurflokkum neðan 500 m hæðarmarka (tafla II).

Tafla II. Roftölur fyrir hæðarbelti <200 m, 200–500 m, >500 m.


Hæð
Ekki rof
1

2

3

4

5

Vötn

Fjöll

Jöklar

Alls
<200 3819 4750 8785 3211 1180 2147 831 80 43 24846
200– 500
482

2051

12227

7611

2870

1358

322

1418

335

28774
>500 50 560 6059 13083 6763 3209 335 7984 10982 49025
Alls 4351 7361 27071 23905 10913 6714 1488 9482 11360 102645

Tafla III. Nánari greining landsins við 500 m hæðarlínur.

0–2 3 4–5 Annað Alls
Undir 500 m stærð % stærð % stærð % % %
32.011 60 10.820 20 7.660 14 3.030 6 53.620 52
Yfir 500 m 6.670 13 13.080 27 9.970 20 19.310 40 49.030 48

    Eins og fram kemur í töflu III er rofflokkur 3 10.820 km2 og rofflokkur 4 og 5 samtals 7.660 km2.
    Í þessari niðurstöðu felst m.a. svar við ályktun Alþingis frá 13. mars 1991, um kortlagningu gróðurlendis Íslands. Auk þess er nú fengin staðfesting á að unnt er að meta ástand gróðurs og jarðvegs í landinu með skjótum hætti og hóflegum kostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá Landmælingum Íslands eru miklar framfarir í notkun gervihnatta við loftmyndagerð sem styrkja enn betur grundvöll að sem nákvæmustum vinnubrögðum við gerð myndkorta í framtíðinni. Með tilliti til þeirrar þróunar sem vænta má er m.a. lagt til að áætlunin verði endurskoðuð innan fjögurra ára.
    Fyrir liggur að landsvæði innan einstakra rofflokka eru í afar misjöfnu ástandi. Landgræðsla ríkisins hefur unnið mikilvægt starf við skilgreiningu þeirra landsvæða þar sem gróður og jarðvegur eiga í vök að verjast. Nú liggur því fyrir umfang þessara verkefna sem miðast við landgræðsluaðgerðir á þeim landsvæðum þar sem gróðurtengt rof verður.
    Samkvæmt niðurstöðum Landgræðslu ríkisins nær landsvæði af rofflokki 3 yfir 7.700 km2 og landsvæði af rofflokkum 4 og 5 ná yfir 1.680 km2 samtals. Alls gerir þetta 9.380 km2.
    Eins og að framan er greint hefur Landgræðsla ríkisins gert áætlun um verklag við aðgerðir til að stöðva eyðingu þessara landsvæða og kostnað af þeim. Tillagan miðast við þessa áætlun hvað varðar tímasetningar og fjárhæðir sem verja skal til framkvæmda.


Helstu verkefni.
    Eins og fram kemur í tillögunni er lagt til að varið verði 1,5 milljörðum kr. á næstu tíu árum til stöðvunar hraðfara jarðvegsrofs á helstu rofsvæðum landsins. Jafnframt er lagt til að fjármagninu verði deilt niður á verkefni og ár eftir tillögu Landgræðslu ríkisins sem annast framkvæmd þeirra. Tillaga Landgræðslunnar er eftirfarandi:

1. Krísuvík – Kleifarvatn.
    Meginrofsvæðið er um 3.600 ha og er mjög illa farið af gróðureyðingu. Áhersla verður lögð á þau svæði þar sem gróður er enn að eyðast og einnig þarf að sporna við frekara jarðvegsrofi á svæðinu. Friða verður svæðið fyrir beit og hefjast handa við að loka rofabörðum og planta víði og birki í og við gróðureyjar.

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 2 4 6 9 10 10 10 10 10 70

2. Skútustaðahreppur.
    Nær allt land í hreppnum er mjög illa farið af landeyðingu en vel gróin svæði eru inn á milli. Í samvinnu við heimamenn þarf að vinna að landnýtingaráætlunum og að friðun og uppgræðslu þeirra svæða sem illa eru farin. Niðurstöður landgræðslu- og landnýtingarnefndar Skútustaðahrepps – la-la-nefndarinnar eru eftirfarandi:

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 20 45 70 90 90 100 100 90 90 695

3. Hólsfjöll.
    Samið var við heimaaðila um friðun svæðisins árið 1991 og var það girt 1991–92. Svæðið var að stærstum hluta mjög illa farið en gróðureyjar sýna hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi. Miklu hefur verið sáð þar, aðallega melfræi en einnig grasfræi og lúpínu. Aðgerðum verður haldið áfram í samræmi við Hólssandsáætlun Landgræðslunnar.

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 5 8 10 25 20 25 20 20 20 153

4. Skaftárhreppur.
    Þrátt fyrir að land hreppsins sé gróðurfarslega séð víða í ágætu ástandi leggja heimamenn áherslu á að gripið verði til aðgerða á þeim svæðum sem ekki eru í ásættanlegu ásigkomulagi. Stofnað var Landgræðslufélag Skaftárhrepps og hefur það haft forustu um áætlanagerð og aðgerðir á uppgræðslusvæðum. Heildarstærð þeirra svæða þar sem jarðvegseyðing á sér stað er um 197 þús. ha, en hún er að nokkru tilkomin vegna áfoks út frá Skaftá. Áætlað er að heimamenn hafi áfram frumkvæði að aðgerðum og verkefnum en Landgræðslan muni koma þar að sem ráðgefandi og styrktaraðili. Unnið verður eftir þeirri áætlun sem gerð var af Landgræðslunni í samvinnu við heimamenn haustið 1995.
Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 5 10 10 20 30 30 35 35 35 210

5. Haukadalsheiði.
    Gífurleg jarðvegseyðing hefur átt sér stað á Haukadalsheiði sem hefur verið eitt mesta uppblásturssvæði landsins á þessari öld. Áður fyrr var byggð víða þar sem nú er auðnin ein eftir. Heiðin er um 7.000 ha að stærð og öll friðuð. Miklar landgræðsluframkvæmdir hafa verið á Haukadalsheiði og verður þeim haldið áfram í samræmi við áætlun sem unnin var í samvinnu við Landgræðslufélag Biskupstungna árið 1995.

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 5 7 10 8 8 5 5 5 5 58

6. Hagavatnssvæðið.
    Þar sem jöklar hafa hopað hefur útfall Hagavatns færst til og er útfallið nú allnokkru lægra en það var um aldamót. Vatnið er því minna að flatarmáli og mikið sandfok er úr eldri vatnsbotni. Verulegt jarðvegsrof er á öllu svæðinu sunnan og suðvestan jökulsins og gengur ört á þær gróðurleifar sem enn eru eftir. Gerð verður stífla í núverandi útfall til að hækka yfirborð vatnsins og samhliða því verður farið út í mikla melsáningu sunnan vatnsins.

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 3 6 24 28 23 10 10 10 10 124

7. Þorlákshöfn.
    Fyrirbyggja verður sandfok inn yfir byggðina. Það verður ekki gert nema helstu sandfokssvæðin verði fullgrædd. Heildarstærð svæðisins er um 8.000 ha og hefur verið gerð ítarleg landgræðsluáætlun fyrir það.

Ár: 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
M.kr.: 10 20 20 20 20 20 20 30 30 190




Fylgiskjal I.


Þingsályktun um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar


um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu.


(Samþykkt 28. júlí 1974.)



    Alþingi ályktar, að á árunum 1975–79, að báðum árum meðtöldum, skuli framkvæma eftirfarandi áætlun um landgræðslu og gróðurvernd til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu og verja til þess ríkisfé í samræmi við hana:

     Landgræðsla ríkisins: Stöðvun sandfoks, jarðvegs- og gróður-
         eyðingar. Gróðurvernd og landgræðsla
 700 millj. kr.

     Skógrækt ríkisins: Skóggræðslukönnun, skógvernd og skógrækt
 170 millj. kr.
     Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Rannsóknir á nýtingu beitar-
         gróðurs, aðrar tilraunir og gróðurkortagerð
  80 millj. kr.

     Annað: Ráðstafanir til bættrar landnýtingar og stuðningur við
         fræðslustarf samtaka áhugamanna
  50 millj. kr.

..........

1000 millj. kr.


    Árlegar fjárveitingar af ríkisfé til áætlunar þessarar miðist við, að hún haldi núverandi framkvæmdagildi sínu hliðstætt því, sem gildir um jarðræktarframlög samkvæmt 12. gr. jarðræktarlaga, og að áætlunin komi til framkvæmda í jöfnum árlegum áföngum á árunum 1975–79. Fjárveitingar til áætlunarinnar skulu ekki blandast saman við venjulegar fjárveitingar til þeirra málaflokka, sem áætlunin tekur til, og ekki rýra þær.
    Landbúnaðarráðherra setur á fót samstarfsnefnd til þess að efla samvinnu þeirra stofnana, sem hafa með höndum framkvæmd áætlunar þessarar. Ráðherra skipar formann nefndarinnar að eigin vali, en aðrir nefndarmenn verði þessir: landgræðslustjóri, búnaðarmálastjóri, skógræktarstjóri og framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.





Fylgiskjal II.


Þingsályktun um landgræðslu- og landverndaráætlun


fyrir árin 1982–86.


(Samþykkt 20. apríl 1982.)



    Alþingi ályktar, að á árunum 1982–1986, að báðum meðtöldum, skuli auk árlegra fjárveitinga til viðkomandi stofnana á fjárlögum unnið að landgræðslu- og landverndarmálum samkvæmt eftirfarandi áætlun:

     Verkefni framkvæmd af Landgræðslu ríkisins:
        Stöðvun sandfoks, jarðvegs- og gróðureyðingar; gróðureftirlit,
        gróðurvernd og gróðuraukning     
40 400 000

     Verkefni framkvæmd af Skógrækt ríkisins:
         
Friðun lands til skógræktar, héraðsskógræktaráætlanir, rannsóknir
         í skógrækt, útivistarsvæði við þéttbýli, skógvernd og skógrækt     
9 500 000

     Verkefni framkvæmd af Rannsóknastofnun landbúnaðarins:
         Rannsóknir á nýtingu beitilanda, gróður- og jarðvegseyðingu og
         aðferðum til landgræðslu; gróðurkortagerð og vistfræðirannsóknir,
         frærannsóknir og rannsóknir á plöntum, þ. á m. vetrarþoli þeirra     
5 150 000

     Ýmislegt:
         Samvinnuverkefni stofnana, sem aðild eiga að landgræðsluáætlun;
         frærækt, skjólbelti, úttekt á árangri.
         
Stuðningur við fræðslustarf og þátttöku samtaka áhugamanna um
         skógrækt og landgræðslu     
1 675 000

    Framkvæmdir til að verjast landbroti og landskemmdum vegna ágangs
         vatna eða sjávar, í umsjá Landgræðslu ríkisins      14 500 000
.........................

Samtals á 5 árum, m.kr. 71 225 000


     Á framlög áranna 1983–86 greiðast verðbætur, er miðast við framlög ársins 1982.






Fylgiskjal III.


Þingsályktun um landgræðslu- og landverndaráætlun


fyrir árin 1987–1991.


(Samþykkt 5. mars 1987.)



    Alþingi ályktar að á árunum 1987–1991, að báðum meðtöldum, skuli, auk árlegra fjárveitinga til viðkomandi stofnana á fjárlögum, unnið að landgræðslu- og landverndarmálum samkvæmt eftirfarandi áætlun:

                                       Fjárveit.
% af

                                       þús. kr.
fjárv.
    Verkefni framkvæmd af Landgræðslu ríkisins:
         
    
    Stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar og sandfoks,
             gróðureftirlit, gróðurvernd og gróðuraukning
              
    Landgræðsla í samvinnu við bæjar- og sveitarfélög      150.353
56,5

    Verkefni framkvæmd af Skógrækt ríkisins:
         
    
    Verndun birkiskóga
         
    
    Skógrækt á útivistarsvæðum
              
    Skógræktaráætlanir og rannsóknir      34.313
12,90

     Verkefni framkvæmd af Rannsóknastofnun landbún-
        aðarins (RALA):
         
    
    Frærannsóknir
         
    
    Nýting beitilanda
              
    Gróður- og jarðakort      16.736
6,30

     Samvinnuverkefni stofnana, sem aðild eiga að land-
         græðsluáætlun:
         
    
    Fræðslustarf, kynbætur melgresis, birkis og niturbind-
                 andi plantna
         
    
    Rannsóknir á jarðvegseyðingu og ástandi gróðurs
         
    
    Lúpínurannsóknir
              
    Til ýmissa starfa í þágu gróðurverndar og landgræðslu      8.661
3,30

     Varnir gegn landbroti af völdum vatna eða sjávar,
         í umsjá Landgræðslu ríkisins      55.937
21,00
                                       
.......

                                   Samtals á 5 árum
266.000

     Fjárhæðin er miðuð við verðlag í desember 1986.
     Á framlög áranna 1988–1991 greiðist verðbætur er miðist við framlög ársins 1987.


Fylgiskjal IV.


Þingsályktun um landgræðslu.


(Samþykkt 19. mars 1990.)



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um aðgerðir til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi þar sem þess er kostur.
    Sérstök áhersla verði lögð á að afmarka þau landsvæði þar sem sandfok á sér enn stað svo að unnt sé að hefja þar skipulagt ræktunarstarf.
    Kannað verði hvort Áburðarverksmiðju ríkisins muni fært að lækka verð á áburði til landgræðslustarfa sem einkum væri ráðstafað til brýnna verkefna.
    Miðað verði við að um næstu aldamót verði uppblástur þessara svæða stöðvaður.



Fylgiskjal V.


Þingsályktun


um kortlagningu gróðurlendis Íslands.


(Samþykkt 13. mars 1991.)


    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að gróðurlendi Íslands verði kortlagt.
     Lögð verði áhersla á að upplýsa:
    heildarstærð gróinna landsvæða svo að staðfest verði hve mikill hluti landsins er hulinn gróðri,
    stærð og mörk þeirra landsvæða þar sem gróðureyðing er ör til að auðvelda markvissar aðgerðir í gróðurvernd og uppgræðslu þeirra,
    stærð þeirra landsvæða þar sem gróður á í vök að verjast og friðun telst árangursrík til styrkingar,
    stærð ógróinna landsvæða sem hæf eru til landgræðslu en gróa ekki sjálfkrafa.
    Að öðru leyti byggist nánari greining landsins eftir jarðvegi og gróðri á þeim möguleikum sem sú tækni í myndagerð, sem notuð verði við þetta verkefni, framast leyfir.