Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 502 . mál.


842. Frumvarp til laga



um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur þessara laga er að tryggja sem best varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar. Lögin kveða á um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna, fjalla um fornminjar, kirkjugripi og minningarmörk, auk friðunar húsa og annarra mannvirkja.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Það er miðstöð þjóðminjavörslu í landinu.
    Um skipulag safnsins skal mælt fyrir í reglugerð að fengnum tillögum þjóðminjaráðs. Sérsöfn geta haft stöðu deilda í Þjóðminjasafni.
    Þjóðminjavörður ræður yfirmenn stjórnunareininga safnsins og aðra sérfræðinga með samþykki þjóðminjaráðs. Skulu þeir að öðru jöfnu hafa sérfræðimenntun á starfssviði sínu. Þjóðminjavörður annast ráðningu annarra starfsmanna Þjóðminjasafns.

3. gr.

    Síðasti málsliður 22. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Í stað ártalsins „1900“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur ártalið: 1918.

5. gr.

    5. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Varsla og reikningshald sjóðsins skal falið bankastofnun nema húsafriðunarnefnd ákveði aðra tilhögun að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis.

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:
    Ráðið skal í allar stöður minjavarða, sbr. 4. gr., fyrir árslok 2000.

    

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er tvíþætt og lýtur annars vegar að stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands en hins vegar að húsafriðunarákvæðum þjóðminjalaga.
    Á vegum þjóðminjaráðs hefur verið gerð úttekt á starfsemi Þjóðminjasafns Íslands, hlutverki þess og þeim vaxandi kröfum sem gerðar eru til safnsins. Í framhaldi af því var á vegum ráðsins gerð tillaga að nýju stjórnskipulagi fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Í tillögunni felst m.a. að starfsemi safnsins verði skipað á svokölluð svið sem aftur geta skipst í deildir eða aðrar starfseiningar.
    Þegar skipulagstillögurnar voru bornar undir menntamálaráðuneytið var það niðurstaða ráðuneytisins að til þess að unnt væri að koma á því stjórnskipulagi Þjóðminjasafnsins sem tillögurnar miðast við þyrfti að breyta gildandi þjóðminjalögum. Eftir breytingu á lögunum árið 1994 kveða þau að vísu ekki á um lögbindingu einstakra deilda safnsins en gera ráð fyrir að um deildarskiptingu þess sé mælt í reglugerð. Ekki verður þó talið að lögin í núverandi mynd geri ráð fyrir þess háttar skipulagi sem tillögur þjóðminjaráðs lúta að, enda fela tillögurnar í sér að sett verði á laggirnar nýtt stjórnunarstig í safninu.
    Æskilegt er að þjóðminjaráð, sem lögum samkvæmt er jafnframt stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands, hafi rúmar heimildir til að móta starfsskipulag safnsins á þann hátt sem best er talið samrýmast verkefnum þjóðminjavörslunnar og skilvirkum starfsháttum. Eðlilegt er þó að meginatriði skipulagsins á hverjum tíma séu fest í reglugerð. Frumvarpið miðar að þeirri tilhögun.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að eigendum húsa sem reist eru fyrir 1918 verði gert skylt að gera minjavörðum og húsafriðunarnefnd ríkisins viðvart ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Samkvæmt núgildandi lögum er slík tilkynningarskylda miðuð við árið 1900. Tillaga um þessa breytingu er gerð að tilmælum húsafriðunarnefndar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að orðið „skipulag“ í 2. málsl. 1. gr. þjóðminjalaga falli brott í samræmi við það sem segir í almennum athugasemdum hér að framan um að ekki sé heppilegt að innra starfsskipulag Þjóðminjasafns Íslands sé bundið í lögum.

Um 2. gr.


    Með þeim breytingum á 5. gr. núgildandi laga sem hér er gerð tillaga um er veitt heimild til þess að kveða á um stjórnskipulag Þjóðminjasafns Íslands í reglugerð. Ákvæði um safnstjóra er sé staðgengill þjóðminjavarðar eru felld brott. Er þá miðað við að starfi staðgengils verði skipað í tengslum við ákvörðun um innra skipulag safnsins að öðru leyti. Breytingar á 4. mgr. miða að því að samræma þjóðminjalögin lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Um 3. gr.


    Gerð er tillaga um að síðasti málsliður 22. gr. um rannsóknir útlendinga falli niður enda er ákvæðið óþarft eftir setningu laga nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, sbr. 8. tölul. 2. gr. þeirra laga um að ráðið skuli greiða fyrir rannsóknum erlendra vísindamanna hér á landi og stuðla að samvinnu íslenskra og erlendra vísindamanna. Erlendir vísindamenn þurfa að sjálfsögðu eftir sem áður leyfi fornleifanefndar til fornleifarannsókna, sbr. ákvæði 3. gr. þjóðminjalaga.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að eigendur húsa tilkynni húsafriðunarnefnd um breytingar, flutning eða niðurrif húsa sem byggð eru fyrir 1918 en samkvæmt núgildandi lögum er slík tilkynningarskylda miðuð við árið 1900. Þessi tillaga er gerð að ósk húsafriðunarnefndar, sem hefur bent á að síðasti hluti timburhúsabygginga Íslendinga sé reistur milli 1900 og 1910 og á því tímabili séu flest stærri timburhús reist. Eftir miðbæjarbrunann í Reykjavík 1915 hafi tekið fyrir byggingu timburhúsa og bygging steypuhúsa hafist.

Um 5. gr.


    Í þjóðminjalögum er í 46. gr. kveðið á um að varsla og reikningshald húsafriðunarsjóðs skuli falin ríkisbanka. Þykir óeðlilegt er að lögbinda hvaða bankastofnun fari með vörslu og reikningshald húsafriðunarsjóðs. Með breytingu ríkisbanka í hlutafélög verður og erfitt að framfylgja þessu ákvæði.

Um 6. gr.


    Í ákvæði til bráðabirgða í núgildandi þjóðminjalögum er gert ráð fyrir að ráðið skuli í allar stöður minjavarða skv. 4. gr. laganna fyrir árslok 1997. Fyrirsjáanlegt er að því verður ekki við komið. Er því lagt til að tímamörkin verði rýmkuð.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á þjóðminjalögum,


nr. 88/1989, með síðari breytingum.


    Tilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að fella úr lögum ákvæði um innra skipulag Þjóðminjasafns Íslands, í öðru lagi að breyta húsafriðunarákvæðum hvað varðar tilkynningarskyldu eigenda gamalla húsa og að lokum að færa tímamörk til að ráða í allar stöður minjavarða frá árslokum 1997 til ársloka 2000.
    Áætlað er að afnám lögbindingar á innra skipulagi leiði að öðru óbreyttu ekki til aukins kostnaðar og að breytt tilkynningarskylda fækki eitthvað erindum sem berast til húsafriðunarnefndar. Samkvæmt reglugerð nr. 323/1990 er gert ráð fyrir sex minjavörðum sem ráðnir eru af Þjóðminjasafni auk minjavarðar í Reykjavík sem ráðinn er af borgarsjóði. Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir launakostnaði tveggja minjavarða. Frumvarpið felur í sér frestun á kostnaði ríkissjóðs af fjölgun um fjóra minjaverði til að uppfylla markmið reglugerðarinnar. Árlegur sparnaður ríkissjóðs af frestun á ráðningu fjögurra minjavarða er 7–8 m.kr.