Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 506 . mál.


849. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Viðskiptaráðherra fer með mál er varða samvinnufélög samkvæmt lögum þessum, önnur en þau sem varða skráningu samvinnufélaga en með þau fer ráðherra Hagstofu Íslands. Með ráðherra er í lögum þessum átt við viðskiptaráðherra nema ráðherra Hagstofu Íslands sé tilgreindur sérstaklega.

2. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Hagstofa Íslands annast skráningu samvinnufélaga og starfrækir samvinnufélagaskrá í því skyni.
    Ráðherra Hagstofu Íslands er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag samvinnufélagaskráningar, rekstur samvinnufélagaskrár og aðgang að skránni. Má þar m.a. kveða á um gjaldtöku vegna útgáfu vottorða og afnota af tölvuskrá samvinnufélaga. Slík gjaldtaka skal miðast við að fá hluta af rekstrarkostnaði samvinnufélagaskrár upp borinn.

3. gr.

    Í stað orðanna „samvinnufélagaskrá í umboði viðskiptaráðherra“ í 13. gr. laganna kemur: samvinnufélagaskrá.

4. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Samvinnufélagaskrá skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um skrásetningu samvinnufélags á kostnað tilkynnanda. Ráðherra Hagstofu Íslands setur nánari reglur um efni tilkynningar.

5. gr.

    Í stað 3. málsl. 3. mgr. 19. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir sem orðast svo: Ríkissjóður greiðir til bráðabirgða kostnað vegna fundarins. Heimilt er þó að setja það skilyrði að sá er biður um boðun til fundar setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Félagið ber kostnaðinn endanlega. Greiði félagið ekki reikning innan þriggja mánaða frá dagsetningu hans glatar fundarbeiðandi þó tryggingarfé sínu en á í þess stað kröfu á félagið.

6. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 57. gr. laganna orðast svo: Rísi ágreiningur milli félags og lánardrottna, sem kröfum hafa lýst, um það hvort framboðin trygging sé nægileg geta báðir aðilar innan tveggja vikna frá kröfulýsingu lagt málið fyrir héraðsdóm á heimilisvarnarþingi félagsins.

7. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 5.–8. mgr. 62. gr., 6. mgr. 64. gr. og 1. mgr. 66. gr. laganna kemur, í viðeigandi föllum: samvinnufélagaskrá.

8. gr.

    Í stað orðsins „skiptaráðanda“ í 2. mgr. 69. gr. laganna kemur: héraðsdómara.

9. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 77. gr. laganna kemur: samvinnufélagaskrá.

10. gr.

    83. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 10. gr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem flutt er samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, er lagt fram vegna fyrirhugaðs flutnings samvinnufélagaskrár til Hagstofu Íslands. Um ástæður þess vísast til athugasemda með hlutafélagafrumvarpinu.
    Í frumvarpi þessu er að finna nokkrar tillögur um breytingar á lögunum um samvinnufélög sem viðskiptaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa komið sér saman um vegna framangreinds flutnings samvinnufélagaskrárinnar. Eins og í hlutafélaga- og einkahlutafélagafrumvörpunum snerta tillögurnar valdsvið ráðherra, hinn nýja skráningaraðila og reglugerðarheimild vegna skipulags skrárinnar, reksturs hennar og aðgangs að henni, svo og gjaldtökuheimild. Jafnframt stefna vissar breytingar að því að skapa meira samræmi milli reglna samvinnufélagalaganna og hlutafélagalöggjafarinnar. Í þessu sambandi má nefna 5. gr. frumvarpsins um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar vegna funda sem ráðherra beitir sér fyrir að haldnir séu, 6. gr. um að héraðsdómur úrskurði um það hvort framboðin trygging sé nægileg í tengslum við yfirtöku samvinnufélags, 7. gr. um hlutverk samvinnufélagaskrár að því er snertir skilanefndir og 9. gr. um heimild til samvinnufélagaskrár til að leggja á févíti. Sú heimild er nú hjá ráðherra. Þá leiðir af 4. gr. að ráðherra Hagstofu Íslands setur nánari reglur um efni tilkynningar um skrásetningu samvinnufélags í stað viðskiptaráðherra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni kemur fram að viðskiptaráðherra fari með mál er varða samvinnufélög samkvæmt lögunum, önnur en þau sem varða skráningu félaganna. Með skráningarmálin fer ráðherra Hagstofu Íslands. Jafnframt er tekið fram í greininni að með ráðherra í lögunum sé átt við viðskiptaráðherra nema ráðherra Hagstofu Íslands sé tilgreindur sérstaklega. Gert er ráð fyrir að hann sé tilgreindur sérstaklega í 1., 10. og 14. gr. laganna, sbr. athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að í 1. mgr. 10. gr. laganna sé kveðið á um að Hagstofa Íslands annist skráningu samvinnufélaga og starfræki samvinnufélagaskrá í því skyni. Samvinnufélagaskráin hefur verið rekin af hálfu viðskiptaráðuneytisins með starfsliði hlutafélagaskrár að undanförnu en hér yrði samvinnufélagaskráin flutt til Hagstofunnar.
    Gert er ráð fyrir að í 2. mgr. 10. gr. laganna sé heimild til handa ráðherra Hagstofu Íslands til að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag samvinnufélagaskráningar, rekstur samvinnufélagaskrár og aðgang að skránni. Nánar vísast til athugasemda við 9. gr. hlutafélagafrumvarpsins sem flutt er samhliða frumvarpi þessu.

Um 3. gr.


    Í 13. gr. laganna er getið um skort á upplýsingum við skráningu samvinnufélaga. Er gerð tillaga um breytingu á orðalagi með hliðsjón af því að skráning félaganna mun heyra undir ráðherra Hagstofu Íslands samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 4. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að í 1. mgr. 14. gr. laganna sé orðalagi breytt þar eð ráðherra Hagstofu Íslands, en ekki viðskiptaráðherra, hefði heimild til að setja nánari reglur um efni tilkynningar um skrásetningu samvinnufélags en greinir frá í lögunum.

Um 5. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að í 19. gr. laganna verði veitt heimild til handa ráðherra til að fara fram á tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar ef hann þarf að láta boða til fundar í samvinnufélagi. Sams konar heimild er nú að finna í 3. mgr. 87. gr. hlutafélagalaga og 3. mgr. 62. gr. einkahlutafélagalaga.

Um 6. gr.


    Til samræmis við fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum í hlutafélagalöggjöfinni er gert ráð fyrir að það heyri undir héraðsdóm að meta hvort framboðin trygging af hálfu félags til handa lánardrottni sé nægileg þegar samvinnufélög eru sameinuð. Breytingartillagan er nánar tiltekið gerð með hliðsjón af 4. mgr. 126. gr. hlutafélagalaga og 4. mgr. 101. gr. einkahlutafélagalaga, svo og 3. gr. í hlutafélagafrumvarpi og 2. gr. í einkahlutafélagafrumvarpi sem flutt eru samhliða frumvarpi þessu.

Um 7. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir þeim breytingum á lögunum um samvinnufélög að samvinnufélagaskrá, en ekki ráðherra, hafi afskipti af skilanefndum og sjái t.d. um löggildingu nefndanna. Þetta er til samræmis við hlutafélagalöggjöfina.

Um 8. gr.


    Í greininni kemur orðið „héraðsdómari“ í stað orðsins „skiptaráðandi“ vegna breytinga á réttarfarslöggjöfinni.

Um 9. gr.


    Til samræmis við hlutafélagalöggjöfina er gert ráð fyrir að samvinnufélagaskrá, ekki ráðherra, hafi heimild til að leggja á févíti, m.a. dagsektir, sem lið í eftirliti með framkvæmd laganna.

Um 10. gr.


    Í gildandi lögum er í 83. gr. kveðið á um heimild ráðherra til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Vegna tillagna frumvarps þessa um flutning samvinnufélagaskrár til Hagstofu Íslands er hér með tilvísun til 2. mgr. 10. gr. gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra hafi heimild til setningar reglugerðar um öll efnisatriði samvinnufélagalaga, önnur en þau er lúta að skráningu samvinnufélaga.

Um 11. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september 1997 svo að ráðrúm gefist til þess að undirbúa flutning samvinnufélagaskrár til Hagstofu Íslands og samræma skráningu í hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá og fyrirtækjaskrá.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Er hér lagt til að samvinnufélagskrá flytjist með hlutafélagaskrá til Hagstofu Íslands. Í umsögn um fyrrgreinda frumvarpið kemur fram að verulegt hagræði verður af samþykkt þessara þriggja frumvarpa. Í þeirri umsögn segir að rekstrarsparnaður geti orðið 3,1 m.kr. á fyrsta starfsári og 6,4 m.kr. á öðru ári, en á móti komi um 5 m.kr. hugbúnaðarkostnaður. Þessar fjárhæðir eiga við ef öll þrjú frumvörpin verða samþykkt í einu, þannig að ekki hlýst sérstakur kostnaður af samþykkt þessa frumvarps sem slíks.