Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 516 . mál.


865. Tillaga til þingsályktunar



um að draga úr losun mengandi lofttegunda.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson.



    Alþingi ályktar að draga beri úr losun mengandi lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum með því að vinna og nýta metangas frá öllum stærri sorphaugum og urðunarstöðum landsins. Enn fremur ályktar Alþingi að mótuð verði framtíðarstefna um sorpurðun sem tryggi fyllstu endurvinnslu og nýtingu verðmæta sem felast í úrgangi. Umhverfisráðherra beiti sér fyrir gerð framkvæmdaáætlunar og lagafrumvarps sem stuðli að framangreindum markmiðum.

Greinargerð.


    Hvert tonn af metangasi (CH 4 ) veldur tuttugu til tuttugu og fimm sinnum meiri gróðurhúsaáhrifum í lofthjúpi jarðar en hvert tonn af koltvísýringi (CO 2 ). Metangas fylgir allri rotnun og því streymir metangas stöðugt upp frá gömlum og nýjum sorphaugum hér á landi. Áætlað er að um verulegt magn sé að ræða á ári hverju. Metangasi er hægt að eyða og gera skaðlaust með því að brenna það við útstreymi, nýta það við stóriðju eða sem eldsneyti á bíla sem sérstaklega eru búnir til slíks. Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram um leið og sömu flutningsmenn leggja fram aðra þingsályktunartillögu um nýtingu metangass á bíla og um breytt aðflutningsgjöld til þess að stuðla að slíkri nýtingu.
    Frá urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi streyma nú um 750 tonn af metangasi á ári. Ef ekki væri að gert ylli það svipuðum gróðurhúsaáhrifum og allur koltvísýringur sem kemur frá álverinu í Straumsvík á 70 dögum. Útstreymi metangass frá Álfsnesi mun aukast um 90 tonn á ári til ársins 2008 og verður þá orðið um 1.600 tonn á ári. Til samanburðar má nefna að það jafngildir um 2 / 3 af árlegu koltvísýringsútstreymi frá væntanlegu álveri á Grundartanga. Í Álfsnesi hefur Sorpa hins vegar unnið frumkvöðulsstarf og safnar metangasi saman og brennir því. Nú er brenndur um 1 / 4 af gasinu og um næstu áramót verður öllu metangasi frá Álfsnesi brennt.
    Metangasið í Álfsnesi kemur frá um 460 þúsund tonnum af úrgangi sem þar eru urðuð en á gömlu sorphaugunum í Gufunesi eru um 2,5 milljónir tonna af úrgangi grafnar og augljóslega streymir þar út mikið metangas. Þessu metangasi þarf að safna og vinna og draga þar með úr neikvæðum gróðurhúsaáhrifum. Aðrir stórir sorphaugar liggja nú grafnir í nágrenni Akureyrar, við Selfoss og víðar og framtíðarurðunarstaður er t.d. við Kirkjuferjuhjáleigu fyrir Suðurland. Í raun eru þarna mengunarvaldar sem um leið eru ónýtt orkuforðabúr sem þarf að nýta.
    Söfnun og vinnsla metangass auðveldar Íslendingum að auka varnir gegn mengun andrúmsloftsins auk þess sem gott skipulag sorpurðunar undirbýr framkvæmd þeirra gerða (tilskipana) sem fylgja EES-samningnum um frágang urðunar og söfnun metangass.
    Mikið átak er fram undan hjá Íslendingum í að nýta betur sorp og annan úrgang sem til fellur. Engin heildarlöggjöf er til um sorphirðu (hreinsun og förgun) og má m.a. benda á að engin lög skylda almenning til þess að flokka úrgang en þó er slíkt þegar hafið að nokkru leyti með flokkun drykkjarvöruumbúða, dagblaða og mjólkurferna, auk grófara efnis, svo sem garðaúrgangs, timburs, járns og fleira. Má benda á að einstök sveitarfélög geta sett sér samþykktir um sorphirðu þar sem hægt er að kveða á um meðferð og flokkun úrgangs og hafa þó nokkur sveitarfélög nýtt sér þá heimild. Þannig gera engin lög skylt að dagblaðapappír og umbúðaefni sem skolar úr strönduðu flutningaskipi sé flutt til endurnýtingar heldur er þeim fargað á nærtækasta og ódýrasta stað.
    Tímabært er að hraða vinnu að þessum verkefnum, þ.e. vinnslu metangass, og áherslu á sjálfbæra þróun í sorpurðun og endurnýtingu verðmæta. Alþingi beinir því til umhverfisráðherra að hann móti framkvæmdaáætlun og undirbúi lagasetningu um þessi mikilvægu viðfangsefni.