Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 517 . mál.


866. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Kristín Ástgeirsdóttir,
Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir.

1. gr.


    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá getur félagsmálaráðherra ákveðið að sömu reglur gildi um annars konar sambúðarform ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem sjúkleiki, varanleg örorka eða aðrar sambærilegar aðstæður. Með annars konar sambúðarformi er átt við að sameiginlegt heimilishald hafi átt sér stað um langan tíma.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í lögum um erfðafjárskatt er kveðið á um að af arfi, sem fellur til þess hjóna sem lifir hitt, svo og arfi sambýlisfólks sem gert hefur erfðaskrá, skuli ekki greiða erfðafjárskatt. Rökin fyrir þessu eru væntanlega sameiginlegt heimilishald og sameiginlegar eignir og rekstur þeirra, auk röskunar á stöðu og högum. Þegar um er að ræða sömu aðstæður hjá til dæmis systkinum, mæðgum eða feðginum, þ.e. sama lögheimili og sameiginlegt heimilishald nær alla ævi, verður hins vegar að greiða erfðafjárskatt ef annar aðilinn í slíku sambýli fellur frá. Engin sanngirni er í því að við slíkar aðstæður verði sá sem eftir lifir að greiða erfðafjárskatt til að geta búið áfram í húsnæði sem hefur verið heimili hans alla ævi enda er hugsanlegt að framangreint sambúðarform hafi varað mun lengur en þegar um er ræða hjónaband eða óvígða sambúð.
    Í frumvarpinu er miðað við að til þess að heimilt sé að fella niður erfðafjárskatt aðila sem nýtur erfðaréttar sé ekki nægjanlegt að um sameiginlegt heimilishald hafi verið að ræða heldur þurfi að auki að koma til sérstakar aðstæður eins og sjúkleiki, varanleg örorka eða aðrar sambærilegar aðstæður.