Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 519 . mál.


870. Frumvarp til laga



um breytingu á læknalögum, nr. 53/1988.

Flm.: Katrín Fjeldsted.



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    Greinin orðast svo:
                  Áður en að aðgerð eða meðferð hefst ber lækni að afla skriflegs samþykkis sjúklings sem felur í sér að hann hafi fengið upplýsingar um þá aðgerð eða meðferð sem fyrirhuguð er og að hann samþykki að hún fari fram. Ef um er að ræða barn undir 16 ára aldri eða sjúkling sem ekki er í ástandi til að veita slíkt samþykki skal það veitt af foreldri, forráðamanni eða nánasta aðstandanda. Ef um bráðatilvik er að ræða nægir munnlegt samþykki aðstandanda. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: B. Upplýsingaskylda læknis og samþykki sjúklings.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Enga almenna reglu um skriflegt samþykki sjúklinga er að finna í íslenskum lögum. Slíkt ákvæði er þó að finna í lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, en í 13. gr. þeirra er kveðið á um að kona sem óskar fóstureyðingar skuli sjálf skrifa undir umsóknina.
    Með skriflegu samþykki sjúklings er átt við að sjúklingur eða forráðamaður hans votti að hann hafi fengið útskýringar og upplýsingar um eðli og tilgang læknisaðgerðar eða meðferðar, áhættu henni tengda og hugsanlega fylgikvilla. Þá staðfesti sjúklingur einnig að hann hafi fengið upplýsingar og útskýringar á öðrum möguleikum til greiningar og meðferðar á ástandi sínu og fengið tækifæri til þess að leggja fram spurningar og fá við þeim fullnægjandi svör. Loks samþykkir sjúklingur að tiltekinn læknir eða aðrir læknar er starfa undir hans stjórn framkvæmi aðgerðina.
    Skriflegt samþykki sjúklings miðar þannig að því að veita læknum aukið aðhald og stuðlar að því að þeir sinni upplýsingaskyldu sinni betur, auk þess sem það er vettvangur sjúklings til að afla þeirra upplýsinga sem honum þykir mikilvægar og taka ábyrga afstöðu til aðgerðar eða meðferðar.
    Skriflegt samþykki sjúklings firrir lækni þó ekki lagalegri ábyrgð né sviptir sjúkling lagalegum rétti til kvörtunar eða málshöfðunar vegna meintra mistaka læknis.
    Í 10. gr. læknalaga er nú mælt fyrir um skyldur læknis til að upplýsa sjúkling um ástand, meðferð og horfur. Eðlilegt er að þær breytingar, sem hér eru lagðar til, verði felldar inn í þetta ákvæði laganna.