Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 523 . mál.


875. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.

    63. gr. laganna orðast svo:
    Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Lömb skulu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars. Skylt er að hafa plötumerki í öllu ásettu sauðfé og geitfé, með númeri lögbýlis eða eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags. Að auki er heimilt að brennimerkja sömu númer og tákn á horn.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um notkun búfjármarka, þar með talin ákvæði um liti, gerð og notkun plötumerkja eftir varnarsvæðum, framkvæmd frost- og örmerkinga og skyldu til að láta merkja stórgripi. Í fjallskilasamþykkt er heimilt að setja sérákvæði um búfjármörk.

2. gr.

    4. málsl. 64. gr. laganna orðast svo: Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta byggir á tillögum markanefndar sem skipuð er skv. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Breytingar, sem frumvarpið felur í sér, ef að lögum verður, eru á 63. og 64. gr. IX. kafla núgildandi laga sem fjallar um mörk og markaskrár.
    Á seinni árum hafa orðið töluverðar breytingar á viðhorfum til merkingar búfjár. Þau endurspeglast m.a. í viðhorfum bænda til þarfar fyrir örmerkingu hrossa og notkunar plötumerkja í eyru fyrir allt ásett sauðfé.
    Hvað varðar örmerkingu búfjár er um nýmæli að ræða, en notkun slíkra merkja eykst verulega um þessar mundir þótt hún eigi sér ekki stoð í lögum og því eru engar opinberar reglur í gildi hérlendis um þessa merkingaraðferð. Telja verður örmerkingu öruggustu aðferðina til að tryggja réttan uppruna búfjár og til að sanna eignarrétt. Einnig er um að ræða lið í gæðavottun, sérstaklega með tilliti til markaðssetningar reiðhrossa.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að örmerking verði lögfest sem búfjármark og verði rétthæsta búfjármarkið við sönnun á eign á búfé. Verði frumvarpið að lögum er áformað að fella ákvæði um örmerkingar inn í reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, nr. 579/1989, með síðari breytingum. Örmerki þurfa að uppfylla ákveðnar gæðastaðla (ISO) þannig að þau komi að fullu gagni við skráningu í viðurkenndum gagnagrunni. Jafnframt þarf að tryggja rétta framkvæmd við örmerkingar og aflestur þeirra. Nú þegar eru í notkun a.m.k. þrjár tegundir örmerkja fyrir hross og annað búfé hér á landi og því er orðið mjög brýnt að slík merki fái lögbundna viðurkenningu og reglur um notkun þeirra öðlist gildi sem fyrst. Þess ber að geta að gildi eyrnamarka fyrir hross hefur farið minnkandi og frostmerking er lakari kostur en örmerking. Búast má við að örmerking verði ríkjandi aðferð við merkingu hrossa.
    Hvað varðar plötumerki í eyru sauðfjár og geitfjár er gert ráð fyrir lögboðinni notkun litaðra plötumerkja eftir varnarsvæðum í allt ásett fé og geitur. Nú þegar er notkun slíkra merkja útbreidd um land allt en ástæða er talin til að skylda alla bændur til að nota þau, a.m.k. í það fé sem sett er á vetur. Þar með yrðu riðuvarnir og aðrar sjúkdómavarnir styrktar verulega og skil á fé gerð auðveldari og öruggari og jafnframt kæmi þessi aðgerð að gagni við gæðavottun þar sem færa skal sönnur á uppruna og eign, t.d. í lífrænum og vistrænum sauðfjárbúskap. Því má bæta við að einnig er gert ráð fyrir að unnt sé að brennimerkja sömu númer og tákn á horn.
    Fyrir liggja ályktanir frá Félagi hrossabænda og útflutnings- og markaðsnefnd hrossa um örmerkingar á hrossum þar sem hvatt er til breytinga á lögum og reglugerð sem varða merkingar búfjár þannig að örmerking geti talist til löggiltra búfjármarka. Þá hafa Landssamtök sauðfjárbænda ályktað um skyldumerkingu fullorðins fjár með lituðum eyrnamerkjum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að örmerki verði bætt við í upptalningu í núgildandi ákvæði 63. gr. laganna um tegundir búfjármarka. Þar með yrðu tegundir viðurkenndra búfjármarka fimm í stað fjögurra áður. Fyrir liggur að þegar er farið að merkja búfé með örmerkjum án þess að um slík merki gildi skráðar réttarreglur sem leiðir til þess að merkið nýtist ekki til sönnunar á uppruna og eignarrétti búfjár. Öll rök hníga í þá átt að búa þurfi slíku merki nauðsynlegan lagagrundvöll, enda er örmerking mjög örugg merkingaraðferð. Lagt er til að örmerki verði rétthæsta búfjármarkið, en samkvæmt núgildandi lögum er frostmerking rétthæst. Líta verður svo á að örmerki, sem sett er undir húð gripsins, sé tryggari merking en frostmerki, sem er áletrun á skinn, sem erfiðara getur verið að lesa úr og auðveldara er að breyta.
    Fyrir liggur að plötumerki hafa náð mikilli útbreiðslu hér á landi sem búfjármark. Í 2. mgr. 63. gr. gildandi afréttalaga er kveðið á um að skylt sé að hafa hreppsmerki á öllu fé og er sú lagaskylda uppfyllt með tvennu móti, með plötumerki í eyra sauðfjár eða með brennimarki á hyrndu fé. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að plötumerki verði notuð í allt ásett sauðfé og geitfé, en eftir sem áður verður til staðar sá möguleiki að brennimerkja númer og tákn á horn.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/1986,


um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.


    Frumvarpið felur í sér breytingu á 63. gr. gildandi laga sem fjallar um búfjármörk. Lagt er til að svokölluðum örmerkjum verði bætt við upptalningu á tegundum búfjármarka. Tilgangurinn er sá að festa í lög nýlega aðferð við að merkja búfé og tryggja þannig að um hana gildi skráðar réttarreglur. Þá er jafnframt lagt til að örmerki verði rétthæst búfjármarka við sönnun á eign á búfé.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.