Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 524 . mál.


876. Frumvarp til laga



um Suðurlandsskóga.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta á Suðurlandi, þ.e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni.
    Suðurlandsskógar eru samkvæmt lögum þessum sjálfstæður aðili sem sinnir verkefnum skv, 1. mgr., þ.e. ræktun skóga og skjólbelta á jörðum á Suðurlandi samkvæmt sérstakri áætlun.

2. gr.


Skilgreiningar.


    Í lögum þessum er greint milli tveggja greina fjölnytjaskógræktar, annars vegar ræktunar timburskóga, sem hefur að markmiði að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota, og hins vegar ræktunar landbótaskóga, en þá er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi.
    Skjólbelti eru í lögum þessum greind í tvo flokka, annars vegar belti sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru og skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði, hins vegar belti sem hugsuð eru sem undanfari skógræktar á bersvæði.

3. gr.


Áætlun, tímabil og umfang.


    Gera skal sérstaka áætlun, Suðurlandsskógaáætlun, um nýtingu þess lands sem er fallið til skógræktar. Áætlunin skal vera til 40 ára og skiptast í fjögur tíu ára tímabil og taka til a.m.k. 15.000 ha lands til timburskógræktar, 10.000 km af skjólbeltum, miðað við einfalda plönturöð, og 20.000 ha lands til landbótaskógræktar.
    Gera skal samninga sem landbúnaðarráðherra staðfestir við hvern og einn þátttakanda í Suðurlandsskógum og þinglýsa þeim sem kvöð á viðkomandi jörðum. Samningar skulu taka til afmarkaðs lands sem tekið er til ræktunar í hverju tilviki og kveða á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkissjóðs í væntanlegum afrakstri skógræktarinnar og annað sem þurfa þykir.

4. gr.


Kostnaður.


    Kostnaður við starfsemi Suðurlandsskóga greiðist úr ríkissjóði með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
    Ríkissjóður greiðir kostnað við Suðurlandsskóga sem hér segir: Undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða Suðurlandsskógar samþykktan kostnað við skógrækt og skjólbeltarækt á lögbýlum, óháð búsetu, með kvöðum um endurgreiðslu til ríkissjóðs, sbr. 5. gr. Hlutfallsleg greiðsla Suðurlandsskóga af samþykktum kostnaði er ákveðin í reglugerð settri af landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum stjórnar Suðurlandsskóga.
    Landbúnaðarráðuneytið samþykkir skógræktar- og skjólbeltakostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins og Samtaka skógarbænda.

5. gr.


Skipting og binding tekna af verkefninu.


    Af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar úr skógunum skulu 5% lögð á endurnýjunarreikning í vörslu Suðurlandsskóga. Þeim fjármunum skal innan fimm ára frá lokum skógarhöggs varið til endurnýjunar skóglendis á viðkomandi jörð. Sé nýliðun skógar fullnægjandi má nýta fjármuni endurnýjunarreiknings til að hirða um nýliðunina án tímatakmarka. Til ríkissjóðs skal greiða 15% af söluverðmæti hvers rúmmetra timburs á rót og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um innheimtu, gjalddaga, álagningu gjaldanna samkvæmt áætlun og annað sem lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna.
    Undanþegin ákvæðum 1. og 2. mgr. er fyrsta grisjun, enda sé hún skóginum nauðsynleg að mati Skógræktar ríkisins, og hagnaður af henni skal renna óskiptur á endurnýjunarreikning jarðarinnar.

6. gr.


Forgangur að vinnu.


    Skógarbændur, sem hafa til umráða jarðir sem teknar eru til skógræktar samkvæmt samningi við Suðurlandsskóga, skulu hafa forgang að vinnu á vegum verkefnisins á jörðum þeim sem þeir nýta. Að þeim frágengnum hafa aðrir skógarbændur, sem aðild eiga að Suðurlandsskógum, forgang að vinnu við verkefnið.

7. gr.


Stjórn og rekstur.


    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn Suðurlandsskóga til tveggja ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af Félagi skógarbænda á Suðurlandi, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji skipaður án tilnefningar. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn Suðurlandsskóga og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir verkefnisins. Hún ræður framkvæmdastjóra og setur honum erindisbréf.
    Stjórn Suðurlandsskóga eða framkvæmdastjóri í umboði hennar annast daglegan rekstur. Skógrækt ríkisins veitir Suðurlandsskógum aðstoð og faglegar leiðbeiningar samkvæmt samstarfssamningi er viðkomandi aðilar gera þar um.

8. gr.


Ársskýrslur og ársreikningar.


    Ársskýrslur og ársreikningar Suðurlandsskóga skulu samþykktir af stjórn og staðfestir af landbúnaðarráðherra. Þar komi m.a. fram staða framkvæmda á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna.
    Reikninga Suðurlandsskóga skal birta í Stjórnartíðindum, endurskoðaða af Ríkisendurskoðun.

9. gr.


Reglugerð og almenn lagaákvæði.


    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð Suðurlandsskóga, eftir því sem við á eftir ákvæðum skógræktarlaga, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

10. gr.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    23. ágúst 1995 fól skógræktarstjóri Birni B. Jónssyni skógræktarráðunauti hjá Skógarþjónustu Skógræktar ríkisins á Suðurlandi að hefja undirbúning að átaki í skógrækt sem væri með svipuðu sniði og Héraðsskógaverkefnið. Frá upphafi hefur stærð og áætlaður kostnaður Suðurlandsskóga tekið mið af þeirri reynslu sem er af Héraðsskógum, m.a. haft áhrif á hver er lágmarksstærð áætlunarinnar með tilliti til hagkvæmni. Enn fremur er nokkur munur á aðstæðum milli þessara svæða, svo sem að skógrækt verður dreifðari á Suðurlandi og í áætlun Suðurlandsskóga eru verkefni sem ekki er gert ráð fyrir í Héraðsskógum.
    Í samvinnu við Félag skógarbænda á Suðurlandi voru haldnir kynningarfundir og óformlegar viðræður við þingmenn Suðurlands. Sótt var um ýmsa styrki og lét Framleiðnisjóður 500.000 kr í té og Bændasamtökin gáfu vorið 1996 vilyrði fyrir um 2.000.000 kr. Kostnaður við undirbúning verkefnisins hafði verið áætlaður um 2.640.000 kr. Enn fremur hefur Skógrækt ríkisins staðið undir fjármögnun og rekstri verkefnisins. Í janúar 1996 var fyrsti formlegi fundurinn haldinn með þingmönnum Suðurlands samfara því að fyrsta skýrslan með drögum að verkefninu var gefin út. Unnið var að þingsályktunartillögu um Suðurlandsskóga, en fljótlega tók landbúnaðarráðherra sjálfur málið að sér.
    Strax í upphafi undirbúningsins var gert ráð fyrir að rækta fjölnytjaskóg á Suðurlandi og koma þannig til móts við ný sjónarmið í skógrækt. Vann Loftur Jónsson skógfræðinemi með Birni B. Jónssyni að þróun hugmyndavinnunar á bak við Suðurlandsskóga. Seinni hluta janúar og fyrri hluta febrúar vann Hreinn Óskarsson skógfræðinemi að útfærslu kostnaðar- og fjármagnshlið verkefnisins. Við því verki tók Gunnar Freysteinsson skógfræðingur í lok febrúar og hefur hann síðan unnið ásamt Birni að nánari útfærslu verkefnisins. Um vorið 1996 var komin nokkuð góð mynd á Suðurlandsskógaverkefnið, en jafnframt höfðu komið upp ýmis vandamál sem þeim Birni og Gunnari fannst ekki rétt að þeir tækju einir ákvörðun um. Var því farið þess á leit við Guðmund Bjarnason landbúnaðarráðherra að skipaður yrði vinnuhópur fyrir Suðurlandsskóga sem gæti tekið á slíkum vandamálum eftir því sem þau kæmu upp á yfirborðið.
    Fyrsti fundur þessa vinnuhóps var haldinn um miðjan júni 1996. Sem fulltrúi landbúnaðarráðherra situr Jón Erlingur Jónasson í hópnum og er hann jafnframt formaður hans. Fyrir Skógrækt ríkisins situr Jón Loftsson skógræktarstjóri og sem fulltrúi Búnaðarsambands Suðurlands situr Gunnar Sverrisson, formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi. Sem ritari vinnuhópsins var skipaður Björn B. Jónsson skógræktarráðunautur. Hefur vinnuhópurinn haldið sjö fundi á tímabilinu júní til nóvember 1996.
    Í ágúst 1996 hófust fyrstu viðræður við plöntuframleiðendur á Suðurlandi um hvernig beri að hátta plöntuframleiðslu fyrir Suðurlandsskóga. Um svipað leyti kom Haukur Ragnarsson, skógarvörður á Vesturlandi norðan Hvítár, að verkefninu með yfirlestri á verkefnisskýrslu og aðstoðaði Björn og Gunnar við skilgreiningu á hugtökum og hugmyndum varðandi Suðurlandsskóga. Enn fremur hafa ýmsir fagmenn innan skógræktargeirans komið að verkefninu með yfirlestri og athugasemdum. Í október voru drög að lagafrumvarpi um Suðurlandsskóga send til fyrsta yfirlesturs í landbúnaðarráðuneytinu. Um svipað leyti gekk Daði Björnsson hjá Skógrækt ríkisins frá korti þar sem láglendi Suðurlands undir 300 m hæð yfir sjávarmáli var grófflokkað eftir gróðurfari og landslagi.
    Ekki er gert ráð fyrir að gróðursetning á vegum Suðurlandsskóga hefjist að ráði fyrr en í fyrsta lagi árið 1998 og nái síðar áætluðu magni, um 1,5 milljónum plantna á ári, um aldamótin. Árið 1997 verði hins vegar notað til að taka við umsóknum í verkefnið, í úttekt á skógræktarskilyrðum og vinnslu skógræktaráætlana, skipulagningu plöntuframleiðslu og til jarðvinnslu sem undanfara gróðursetningar árið 1998.
    Á fyrsta áratug verkefnisins verði lögð megináhersla á ræktun skjólbelta, bæði fyrir landbúnað og sem undanfara skógræktar á vindasömum svæðum. Samfara því verði unnið að uppsetningu á girðingum og undirbúningi sjálfgræðsluskóga í miklum mæli. Gróðursetning timburskóga fari hægt af stað en þegar líði á fyrsta áratug verkefnisins og í byrjun þess næsta aukist gróðursetningar til þeirra jafnt og þétt uns þeir nái hámarki á þriðja áratug verkefnisins. Á sama tíma muni draga úr skjólbeltarækt og eitthvað úr gróðursetningu landbótaskóga. Á síðasta áratug verkefnisins verður grisjun æ fyrirferðarmeiri þáttur í verkefninu auk þess sem skjólbeltarækt eykst á ný. Þá mun gróðursetning til timburskóga dragast saman.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin skýrir tilgang og markmið frumvarpsins og skilgreinir hvað Suðurlandsskógar eru.

Um 2. gr.


    Greinin skýrir tilgang og markmið þeirra skóga og skjólbelta sem Suðurlandsskógar ná yfir.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að unnin verði 40 ára áætlun um ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta á Suðurlandi, þ.e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Áætlunin skiptist í fjögur 10 ára tímabil en af hálfu sérfræðinga Skógræktar ríkisins er lögð áhersla á að heildaráætlunin nái til a.m.k. 40 ára þar sem við ræktun skóga er nauðsynlegt að eðlileg hringrás náist í ræktuninni svo að nýting timburs úr skógunum verði hagkvæm. Skógrækt ríkisins skal gera, samkvæmt samstarfssamningi, sérstaka áætlun fyrir hverja jörð sem gerist aðili að Suðurlandsskógum.
    Ræktun fjölnytjaskóganna og skjólbeltanna er ætlað að byggjast á samningum sem hver einstakur landeigandi eða ábúandi með samþykki eiganda gerir við Suðurlandsskóga og landbúnaðarráðherra staðfestir fyrir hönd ríkisins. Tekin eru fram helstu atriði sem nauðsynlegt er að fram komi í samningunum.

Um 4. gr.


    Greinin kveður á um þann kostnað við Suðurlandsskóga sem greiðast skal úr ríkissjóði. Annars vegar er um að ræða almennan rekstrarkostnað, þ.e. kostnað við undirbúning verkefnisins og rekstur og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Gera verður ráð fyrir að í upphafi verði um nokkurn undirbúningskostnað að ræða meðan verkefnið er að komast á skrið, við gagnasöfnun, þróunarvinnu og áætlanagerð. Af föstum starfsmönnum er fyrst og fremst reiknað með framkvæmdastjóra og skógfræðimenntuðum starfsmönnum til ráðgjafar og verkstjórnar ásamt skrifstofumanni. Ljóst er að þörf fyrir faglega aðstoð við bændur verður umtalsverð fyrst um sinn á meðan verkþekking í þessari nýju búgrein er að eflast. Erfiðara er að spá um framhaldið en það hlýtur að ráðast af þróun í úrvinnslu afurða skóganna.
    Greiðsla stofnkostnaðar Suðurlandsskóga við fjölnytjaskógrækt og skjólbeltarækt er ákveðin í reglugerð settri af landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum stjórnar Suðurlandsskóga. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að um sé að ræða samþykktan kostnað, þ.e. kostnað sem byggist á mati Suðurlandsskóga, Samtaka skógarbænda og Skógræktar ríkisins á eðlilegum útgjöldum við einstaka ræktunarþætti sem samþykkt hefur verið af landbúnaðarráðuneytinu. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir að vinna við skógræktina verði greidd samkvæmt kjarasamningum ASÍ. Gert er ráð fyrir að ræktunarkostnaður verði greiddur af Suðurlandsskógum þar til fyrstu grisjun hvers ræktunaráfanga er lokið.
    Ekki er gert ráð fyrir í kostnaðaráætlun að Suðurlandsskógar þurfi að greiða virðisaukaskatt af verkefninu þar eð skv. 6. gr. reglugerðar nr. 515 um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, getur skógrækt fengið virðisaukaskattsnúmer með því að leggja fram tryggingu fyrir virðisaukaskatti í formi bankatryggingar eða í öðru formi sem skattstjóri viðurkennir. Gerður verður samningur við hvern skógarbónda um fjölnytjaskógrækt sem þinglýst verður sem kvöð á jörð hans. Má túlka samninginn svo að hann sé trygging þess að afurðir til sölu verði framleiddar í viðkomandi skógi og fullnægi þar með kröfum um skráningu virðisaukaskattsnúmera. Þar með ættu inn- og útskattur að falla út á jöfnu og ekki þarf því að gera ráð fyrir þeim kostnaði hér.

Um 5. gr.


    Í greininni er sagt fyrir um hvernig skuli farið með tekjur af skógunum eftir að fyrstu grisjun er lokið. Gert er ráð fyrir að hver jörð hafi sérstakan sjóð eða endurnýjunarreikning í vörslu Suðurlandsskóga og þeim fjármunum, sem þangað koma, verði varið til endurnýjunar eða endurbóta skóglendis á viðkomandi jörð. Eins og sakir standa er ekki reiknað með að fyrsta grisjun skóganna skili tekjum umfram gjöld, en fari svo er þeim hagnaði ætlað að renna óskiptum á endurnýjunarreikning jarðarinnar. Þegar að síðari grisjunum og skógarhöggi kemur skulu 5% af heildarframleiðsluverðmæti lögð á endurnýjunarreikninginn. Þetta gjald skal nánar ákveðið í reglugerð með hliðsjón af kostnaði við endurnýjun skóglendis á hverjum tíma.
    Gert er ráð fyrir að skatthlutfall af timbursölu taki mið af styrk ríkisins til greiðslu stofnkostnaðar í skógrækt og að hlutfall þess styrks verði miðað við væntanlegt verðmæti skóga á rót, þ.e. söluverðmæti timburtrjáa á rót áður en skógarhögg og flutningar fara fram. Dæmi um útreikning skatthlutfalls er sýnt í fylgiskjali VI.
    Erfitt getur verið að segja fyrir um framtíðararðsemi væntanlegra Suðurlandsskóga, þar verður einungis byggt á líkum. Hins vegar hefur því verið spáð að eftirspurn eftir skógarafurðum í heiminum muni fimmfaldast á næstu 100 árum, eða u.þ.b. þeim tíma sem líður þar til að skógur gróðursettur nú verður felldur. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að meta arðsemi íslenskrar timburskógræktar og fylgir ein slík frumvarpinu sem fylgiskjal V.

Um 6. gr.


    Þessi grein kveður á um forgang að vinnu við Suðurlandsskóga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að skógarbændur eigi alltaf forgang að þeirri vinnu sem í boði er á þeirri jörð er þeir nýta. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að vinna, sem skógarbændur vinna ekki sjálfir, standi fyrst til boða þeim skógarbændum sem gert hafa ræktunarsamninga við Suðurlandsskóga verði því við komið. Þegar um forgang að vinnu er að ræða er gert ráð fyrir að allir þeir sem hafa sama lögheimili og búsetu og skógarbóndi falli undir forgangsákvæðin, en ekki bara skráður skógarbóndi.

Um 7. gr.


    Hér kemur fram að Suðurlandsskógar og Skógrækt ríkisins skulu gera með sér samstarfssamning þar sem aðstoð og faglegar leiðbeiningar og önnur afskipti Skógræktar ríkisins verða nánar tilteknar. Gert er ráð fyrir að Suðurlandsskógar greiði kostnað við áætlunargerð.

Um 8.–10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal I.


Greinargerð um Suðurlandsskóga.




(Repró, 8 síður.)





Fylgiskjal II.


Samningar.




(Repró, 5 síður.)






Fylgiskjal III.


Kostnaðaráætlun Suðurlandsskóga.




(Repró, 4 síður.)





Fylgiskjal IV.


Kostnaðartöflur fyrir skógrækt og skjólbeltarækt.



(Repró, 11 síður.)






Fylgiskjal V.


Greinargerð um innri vexti skógræktar.




(Repró, 3 blöð.)






Fylgiskjal VI.


Greinargerð um útreikning skatthlutfalls af timbursölu.




(Repró, 1 blað.)





Fylgiskjal VII.


Binding koldíoxíðs (CO 2 ).



(Repró, 2 síður.)



Fylgiskjal VIII.


Fjárlagaskrifstofa,
fjármálaráðuneyti:


Umsögn um frumvarp til laga um Suðurlandsskóga.


    Frumvarp þetta felur í sér tillögu um að hafin verði ræktun fjölnytjaskóga á Suðurlandi, þ.e. í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Suðurlandsskógar mundu verða sjálfstæður aðili sem tæki að sér ræktun skóga og skjólbelta á jörðum á Suðurlandi samkvæmt sérstakri áætlun og í samræmi við framlög úr ríkissjóði.
    Frumvarpið byggir á sambærilegum grundvelli og lög nr. 32/1991, um Héraðsskóga utan nokkura atriða. Þannig er ekki gert ráð fyrir því í 4. gr. frumvarpsins að ábúendur jarða greiði 3% og ríkissjóður 97% samþykkts kostnaðar við hvert verkefni heldur verði hlutfallið ákveðið með reglugerð er landbúnaðarráðherra setji. Þá er nokkur munur á þeim viðmiðunum sem gilda um skiptingu og bindingu tekna af verkefninu milli frumvarpsins og þeirra laga sem gilda um Héraðsskóga.
    Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að áætlunin um Suðurlandsskóga nái til næstu 40 ára og taki til a.m.k. 15.000 ha lands til timburskógræktar, 10.000 km af skjólbeltum og 20.000 ha lands til landbótaskógræktar. Samkvæmt kostnaðaráætlun sem fylgir frumvarpinu er talið að árlegur meðalkostnaður Suðurlandsskóga sé 92,4 m.kr. auk virðisaukaskatts, þar af 45 m.kr. vegna timburskógræktar, 18,8 m.kr. vegna skjólbeltaræktar, 8,5 m.kr. vegna landbótaskóga og 20,1 m.kr. vegna stjórnunar o.fl.
    Ríkisstjórnin samþykkti þann 18. desember 1996 að leggja til við Alþingi að á árunum 1997–2000 verði veitt 450 m.kr. viðbótarframlag til landgræðslu- og skógræktarverkefna. Þar er lagt til að 190 m.kr. af þessum fjármunum verði varið til átaks í skógrækt þannig að 25 m.kr. verði veitt til verkefnisins á árinu 1997, 40 m.kr. árið 1998, 55 m.kr. á árinu 1999 og loks 70 m.kr. á árinu 2000.
    Þó svo að öllum þessum fjármunum væri varið til verkefnisins á næstu fjórum árum er ljóst að eigi sú áætlun sem sett er fram með frumvarpinu að ná fram að ganga þá verður að veita verulega aukna fjármuni í verkefnið eftir árið 2000. Samkvæmt framansögðu verður árleg fjárþörf verkefnisins frá árinu 2001 til 2037 um 97 m.kr. að meðaltali.