Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 527 . mál.


879. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, og lögum nr. 120/1995, um breytingu á þeim lögum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    4. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóri annast álagningu olíugjalds og aðra framkvæmd laganna. Ríkisskattstjóra er heimilt að fela skattstjórum framkvæmd einstakra verkefna sem honum eru falin í lögunum.

2. gr.

    Í stað orðsins „skattskyldir“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: gjaldskyldir.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Í stað orðanna: „þess skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
    Í stað orðsins „skattstjóra“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
    Í stað orðsins „Skattstjóri“ í 4. og 5. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.

4. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Sala eða afhending á gas- eða dísilolíu, sem bætt hefur verið í litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr., er undanþegin gjaldskyldu í eftirfarandi tilvikum:
    til nota á skip og báta,
    til hitunar almenningssundlauga,
    til húshitunar,
    til iðnaðarþarfa,
    til nota á vinnuvélar,
    til nota á dráttarvélar í landbúnaði,
    til raforkuframleiðslu.
    Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilgangi en lýst er í 1. mgr. Litar- og merkiefni má hvorki fjarlægja að öllu leyti eða að hluta. Blöndun litaðrar olíu með annarri olíu eða vöru er óheimil.
    Óheimilt er að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar í landbúnaði.
    Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um skilyrði fyrir undanþágu.

5. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Þeir sem gjaldskyldir eru skv. 3. gr. og óska eftir að fá heimild til að bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds, sbr. 4. gr., skulu ótilkvaddir senda umsókn til ríkisskattstjóra. Einungis þeim aðilum, sem fengið hafa leyfi hjá ríkisskattstjóra, er heimilt að bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu samkvæmt lögum þessum. Leyfi til að framkvæma litun samkvæmt þessari grein má aðeins veita þeim aðilum sem skráðir eru skv. 3. gr.
    Litun á gas- og dísilolíu má aðeins framkvæma í búnaði sem viðurkenndur hefur verið af Löggildingarstofu.
    Ríkisskattstjóri getur afturkallað eða takmarkað leyfi aðila til litunar á olíu ef í ljós kemur að búnaður uppfyllir ekki þau nákvæmnisskilyrði sem farið er fram á, lituð olía er seld öðrum en þeim sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. eða eftirliti verður ekki við komið á viðunandi hátt.
    Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um gerð og samsetningu litar- og merkiefnis, litunarbúnað og framkvæmd litunar að öðru leyti.

6. gr.

    2.–4. tölul. 6. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
    Í stað orðanna „gjaldskylda olíu“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: olíu, gjaldskylda sem undanþegna.
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litarefni og notkun á því.
    Í stað orðanna „gjaldskylda olíu“ í 2. mgr. kemur: olíu, gjaldskylda sem undanþegna.
    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Jafnframt skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litarefni og notkun á því.
    Orðin „milli gjaldskyldra aðila eða til aðila sem um ræðir í 4., 5. eða 6. gr.“ í 3. mgr. falla brott.
    Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Við afhendingu á litaðri olíu skal tilgreina á sölureikningi að um litaða olíu sé að ræða.
    Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Við staðgreiðslusölu smásöluverslana er ekki skylt að gefa út sölureikning, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

8. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar, sem eiga rétt á endurgreiðslu olíugjalds skv. 6. gr., skulu halda í bókhaldi sínu skrá yfir akstur ökutækja sem ekið hafa á leiðum sem sérleyfi ná til eða samkvæmt leiðaráætlunum. Jafnframt skulu þeir halda í bókhaldi sínu reikninga og skrár yfir olíukaup og olíunotkun og annað sem máli skiptir varðandi sönnun á réttmæti endurgreiðslunnar.
    Vanræki aðili að skrá akstur eða færa fullnægjandi bókhald skv. 1. mgr. fellur niður réttur til endurgreiðslu fyrir það tímabil sem bókhald eða skráning er ekki fullnægjandi.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Gjaldskyldir aðilar skv. 3. gr. skulu greiða olíugjald af gjaldskyldri olíu fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við sölu eða afhendingu og eigin notkun.     
    2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    2. tölul. fellur brott.
    Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Við uppgjör á gjaldskyldri sölu á olíu er heimilt að draga frá olíugjald af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til gjaldskyldrar sölu á olíu. Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um skilyrði frádráttar samkvæmt þessari málsgrein.


11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er verður 1. málsl. og orðast svo: Ríkisskattstjóri skal ákvarða olíugjald gjaldskylds aðila á hverju uppgjörstímabili.
    Í stað orðsins „skattstjóri“ í 2. og 3. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.

12. gr.

    14. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Eftirlit, sérstakt olíugjald, kæruheimildir, upplýsingaskylda og refsiábyrgð.

    Ríkisskattstjóri annast eftirlit með því að skráningarskyld ökutæki noti ekki litaða olíu og að skráning þeirra og búnaður sé í samræmi við fyrirmæli laga þessara.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að stöðva ökutæki til að gera þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á skráningarskylt ökutæki andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr., þar á meðal að skoða eldsneytisgeymi og vél ökutækis. Eftirlitsmönnum er heimilt að taka sýni af eldsneyti sem notað er á skráningarskylt ökutæki. Sýnið skal sent rannsóknastofu sem sendir ríkisskattstjóra skriflega niðurstöðu um magn litar- og merkiefnis í því. Niðurstaða rannsóknastofunnar skal liggja til grundvallar álagningu olíugjalds skv. 4. eða 5. mgr.
    Komi í ljós við eftirlit að lituð olía hafi verið notuð á skráningarskylt ökutæki andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr. skal ríkisskattstjóri tilkynna skráðum eiganda ökutækisins skriflega um fyrirhugaða álagningu sérstaks olíugjalds skv. 4. eða 5. mgr. og skora á hann að láta sér í té skýringar og gögn a.m.k. innan fimmtán daga. Berist ríkisskattstjóra ekki fullnægjandi skýringar eða gögn innan frests leggur hann á sérstakt olíugjald skv. 4. eða 5. mgr.
    Skráður eigandi ökutækis skal greiða sérstakt olíugjald skv. 3. mgr. sem hér segir:

Skráð heildarþyngd

Sérstakt olíugjald

Skráð heildarþyngd

Sérstakt olíugjald


kg

þús. kr.

kg

þús. kr.


Undir 4.999
284 18.000–18.999 740
5.000–5.999
302 19.000–19.999 797
6.000–6.999
326 20.000–20.999 839
7.000–7.999
342 21.000–21.999 888
8.000–8.999
357 22.000–22.999 944
9.000–9.999
373 23.000–23.999 988
10.000–10.999
396 24.000–24.999 1033
11.000–11.999
411 25.000–25.999 1084
12.000–12.999
463 26.000–26.999 1132
13.000–13.999
506 27.000–27.999 1182
14.000–14.999
560 28.000–28.999 1232
15.000–15.999
603 29.000–29.999 1282
16.000–16.999
651 30.000–30.999 1333
17.000–17.999
698 31.000 og yfir 1383
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. skal sérstakt olíugjald á fólksbifreiðar sem ekki eru nýttar í atvinnurekstri og á dráttarvélar sem ekki eru nýttar til landbúnaðarnota vera 94.000 kr. af ökutækjum sem eru allt að 999 kg að eigin þyngd, 113.000 kr. af ökutækjum að eigin þyngd 1.000–1.499 kg og 132.000 kr. af ökutækjum að eigin þyngd 1.500–1.999 kg. Af ökutækjum þyngri en 2.000 kg skal gjaldið hækka um 7.500 kr. fyrir hver 200 kg.
    Við fjárhæðir skv. 4. og 5. mgr. bætist virðisaukaskattur nema skráður eigandi sé virðisaukaskattsskyldur aðili er talið getur virðisaukaskatt af rekstri ökutækis til innskatts skv. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Álagning skv. 4. og 5. mgr. skal lækka um fjórðung fyrir hvern ársfjórðung sem eignarhaldstími skráðs eiganda samkvæmt opinberri skráningu er skemmri en tólf mánuðir. Þó skal álagning aldrei fara niður fyrir fjórðung af gjaldi skv. 4. og 5. mgr. Í þessu sambandi teljast 75 dagar vera heill ársfjórðungur.
    Ef annar aðili en skráður eigandi hafði umráðarétt yfir skráningarskyldu ökutæki á þeim tíma þegar lituð olía var notuð á það andstætt ákvæði 3. mgr. 4. gr. ber hann óskipta ábyrgð með skráðum eiganda á greiðslu sérstaks olíugjalds skv. 4. og 5. mgr.
    

13. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 14. gr. A og orðast svo:
    Gjalddagi sérstaks olíugjalds skv. 14. gr. er 15 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um álagninguna. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.
    Hafi sérstakt olíugjald skv. 14. gr. ekki verið greitt á gjalddaga skal lögreglustjóri að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs stöðva ökutækið hvar sem það fer og taka skráningarmerki þess til geymslu.
    Hafi sérstakt olíugjald skv. 14. gr. ekki verið greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga og eru þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987.


14. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðun ríkisskattstjóra skv. 11. og 14. gr. er kæranleg til hans innan 30 daga frá því að hún var tilkynnt.
    Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra um kæru skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrjátíu dagar frá póstlagningu úrskurðar. Yfirskattanefnd kveður upp fullnaðarúrskurð.

15. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Brjóti skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn 3. mgr. 4. gr. laganna með því að nota litaða olíu á ökutæki sitt skal hann auk ógreidds gjalds greiða sekt er nemi allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að vangreidd hafi verið.

16. gr.

    Á eftir orðinu „olíugjaldi“ í 19. gr. laganna kemur: og sérstöku olíugjaldi.


17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. 2. gr. laga nr. 120/1995:
    Í stað orðanna „31. desember“ í 1. mgr. kemur: 10. janúar.
    Í stað orðanna „29. febrúar“ í 2. mgr. kemur: 31. janúar.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, sbr. 3. gr. laga nr. 120/1995:
    Í stað orðsins „skattstjóra“ í 1. mgr. og 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
    Orðin „og njóta ekki undanþágu skv. 1. mgr. 4. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
    Í stað orðanna „1.500 lítra“ í 2. mgr. kemur: 500 lítra
    Í stað orðsins „skattstjóri“ í 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.
    Í stað orðsins „Skattstjóri“ í 2. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri     

19. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, sem samþykkt voru á Alþingi í febrúar 1995. Lög þessi áttu fyrst að taka gildi 1. janúar 1996 en gildistöku þeirra var frestað um tvö ár í nóvember 1995. Þessi breyting var ákveðin að tillögu nefndar sem skipuð var samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögunum til að undirbúa upptöku og framkvæmd gjaldtökunnar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fresta upptöku olíugjalds um sinn meðan kannaðir væru betur möguleikar á að taka upp olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu í stað endurgreiðslukerfis eins og lögin gera ráð fyrir. Jafnframt lagði nefndin til að gildistími þungaskatts yrði framlengdur og framkvæmd hans styrkt með lagabreytingu. Lög þessa efnis voru samþykkt sem lög nr. 68/1996 í júní 1996. Meginefni þeirra var að álagning og framkvæmd skattsins var færð undir embætti ríkisskattstjóra, teknar voru upp almennar málsmeðferðarreglur skattalaga og reglur um álestra, skráningu aksturs, áætlanir o.fl. hertar. Meginástæður framangreindra lagabreytinga voru tvær. Annars vegar komu fram upplýsingar frá Danmörku um nýja tækni sem gerir litun gjaldfrjálsrar olíu að mun hagkvæmari kosti en áður lá fyrir en þar í landi hefur undirbúningur litunarkerfis staðið yfir í nokkur missiri. Hins vegar þótti endurgreiðslukerfi það, sem lögin mæla fyrir um, fela í sér hættu á undanskotum sem gerðu eftirlit og framkvæmd þess erfiða. Nú liggur fyrir að litun olíu með hinni nýju tækni verður tekin upp í Danmörku frá og með 1. júlí nk. og hefur löggjöf þar í landi verið breytt í þá veru.
    Við samningu frumvarpsins hefur verið stuðst við sambærilega löggjöf í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en skammt er síðan þessar þjóðir tóku upp olíugjald með litun. Meginefni þessa frumvarps lýtur að því að fella brott ákvæði um endurgreiðslur olíugjalds til aðila sem ekki eiga að bera það en lögfesta í stað þeirra reglur varðandi litun olíu sem seld verður sömu aðilum án gjalds. Tekin eru upp ákvæði um álagningu sérstaks olíugjalds á þá aðila sem verða uppvísir að því að nota litaða olíu á gjaldskyld ökutæki. Til samræmis við þá breytingu er lagt til að ákvæði um eftirlit og viðurlög við brotum gegn lögunum verði breytt. Gert er ráð fyrir að álagning og framkvæmd verði í höndum embættis ríkisskattstjóra. Í ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 34/1995, um olíugjald, er m.a. kveðið á um að kanna skuli þær forsendur sem liggja til grundvallar fjárhæð olíugjalds. Með frumvarpi þessu er fyrst og fremst verið að breyta þeim ákvæðum laganna er snúa að því að koma á olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu í stað endurgreiðslna. Forsendur fyrir fjárhæð gjaldsins hafa verið skoðaðar nánar, m.a. í þeim tilgangi að tryggja Vegagerðinni sambærilegar tekjur og hún hefur haft af þungaskatti. Tvær meginforsendur voru hafðar að leiðarljósi við setningu laganna um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, þ.e. að tryggja Vegagerðinni sambærilegar tekjur og hún hefur nú af þungaskatti og að greiðendur inntu af hendi sambærilegar greiðslur í olíugjaldskerfi og þeir gera nú með greiðslu þungaskatts. Skoðun á forsendum gjaldsins bendir til þess að marktækur munur verði á tekjum til vegagerðar að óbreyttum lögum sem bæta verður með einhverjum hætti. Unnið verður að því fyrir haustið að meta með meiri nákvæmni þennan mismun og að tillögur um nánari útfærslu á tekjustofnum Vegagerðarinnar verði lagðar fram á haustþingi. Um mitt ár munu liggja fyrir niðurstöður álagningar vegna annars gjaldtímabils ársins 1997 bæði hvað varðar fast gjald og kílómetragjald og verður því unnt að áætla með nokkurri vissu þungaskattstekjur ársins 1997. Þá er ljóst að leggja verður vinnu í að meta af meiri nákvæmni olíusölu til ökutækja en gert var þegar lögin voru samþykkt og verður það gert í samráði við olíufélögin. Eftirfarandi leiðir verða meðal annars skoðaðar til að tryggja að tekjur til vegagerðar verði sambærilegar og í þungaskattskerfinu:
1.     Breyting á fjárhæð olíugjaldsins.
2.     Óbreytt olíugjald að viðbættu sérstöku föstu árgjaldi á stærri bifreiðar.
3.     Óbreytt olíugjald að viðbættu sérstöku kílómetragjaldi á stærri bifreiðar.
4.    Vegagerðinni verði bættur hluti mismunarins með aukinni hlutdeild í bensínsköttum á móti auknum tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti á olíugjald.
    Til þess að koma í veg fyrir tekjumissi ríkisjóðs er gert ráð fyrir að sérstakar ráðstafanir verði gerðar í sambandi við birgðasöfnun um áramótin 1997/98. Til að mynda er lagt til í frumvarpinu að undanþágumark vegna olíu í birgðatönkum um áramót lækki úr 1.500 lítrum í 500 lítra og gengið verði á eftir og haft eftirlit með birgðatalningu um áramót, fengnar verði söluupplýsingar frá olíufélögunum, hugað verði að setningu sérstakra reglna um sölu og afhendingu olíufélaga til annarra en eigenda eða yfirráðamanna birgðatanka og skoðuð verði framkvæmd við birgðaeftirlit í Noregi og Svíþjóð og tekið mið af þeim.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að embætti ríkisskattstjóra annist álagningu og framkvæmd olíugjalds. Jafnframt er gert ráð fyrir að embættið geti falið einstökum skattstjórum ákveðin verkefni.
    Núgildandi 4. mgr. er felld brott með frumvarpinu, en hún kveður á um heimild til breytingar á fjárhæð olíugjalds til samræmis við byggingarvísitölu. Í stað greinarinnar er lagt til að ný málsgrein verði lögfest þar sem kveðið er á um að álagning og framkvæmd olíugjalds verði í höndum eins aðila, ríkisskattstjóra, í stað þess að skattstjórar hver í sínu umdæmi annist álagninguna. Ástæðan er einkum sú að gjaldskyldir aðilar skv. 3. gr. laganna verða ekki nema 4–5 og þeir allir með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Skapast hefur sérfræðiþekking hjá ríkisskattstjóra þar sem hann hefur haft með höndum álagningu og framkvæmd þungaskatts á landsvísu. Olíugjaldið mun leysa þungaskattinn af hólmi og þykir hagræði af því að aðili með reynslu og sérþekkingu annist álagningu, endurákvörðun, beitingu viðurlaga og annað sem gjaldið varðar.

Um 2. gr.

    Í greininni er verið að færa hugtakanotkun í 2. mgr. 2. gr. til samræmis við aðrar greinar laganna.

Um 3. gr.

    Breytingar í þessari grein skýra sig sjálfar, sbr. umfjöllun um 1. gr.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að núgildandi 4. gr. laganna um undanþágur verði orðuð að nýju með tilliti til litunar.
    Kveðið er á um í hvaða tilvikum er heimilt að afhenda gjaldfrjálsa litaða olíu. Meginreglan er sú að heimilt verður að afhenda slíka olíu til annarra nota en á skráningarskyld ökutæki. Þó má einnig nota slíka olíu á dráttarvélar í landbúnaði sem eru skráningarskyldar samkvæmt umferðarlögum. Í greininni eru taldar upp með tæmandi hætti tegundir notkunar sem teljast undanþegnar olíugjaldi og kveðið á um að litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilgangi. Jafnframt er kveðið á um bann við því að fjarlægja litarefni úr olíunni að hluta eða öllu leyti.
    Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra muni setja í reglugerð nánari reglur um skilyrði fyrir undanþágu o.fl.

Um 5. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að núgildandi 5. gr. laganna um endurgreiðslur falli brott í heild en í stað hennar komi ný grein sem fjallar um leyfi til litunar. Ákvæði gildandi greinar verða óþörf þar sem sömu aðilar munu geta keypt gjaldfrjálsa litaða olíu skv. 4. gr.
    Samkvæmt greininni eiga gjaldskyldir aðilar, sem óska eftir heimild til að bæta litarefnum í gjaldskylda olíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds, að sækja um það til ríkisskattstjóra. Gert er ráð fyrir að búnaður sá, sem nota á til litunar, hafi áður fengið viðurkenningu hjá Löggildingarstofu. Ekki er kveðið á um gerð eða samsetningu litarefnis, litunarbúnað eða framkvæmd litunar að öðru leyti í lagatextanum enda verði fjármálaráðherra heimilt að setja reglugerð um þetta efni líkt og gert er í nágrannalöndum okkar. Gert er ráð fyrir að settar verði svipaðar reglur og Danir hafa sett þar sem heimilt er að lita olíu með sérstökum búnaði við dælingu úr tankbifreiðum eða í birgðastöðvum.


Um 6. gr.

    Í þessari grein er lagt til að felldir verði brott þeir töluliðir sem kveða á um endurgreiðslu gjalds á olíu til húshitunar, hitunar almenningssundlauga og til nota á skip og báta. Ákvæði þessi eru óþörf þar sem að í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimilt verði að selja þessum aðilum gjaldfrjálsa litaða olíu. Ekki er því þörf fyrir endurgreiðsluheimild.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna varðandi almenn ákvæði um bókhald og útgáfu sölureikninga með tilliti til þeirra breytinga sem verða vegna litunar á olíu sem undanþegin er gjaldskyldu. Gerð er sú krafa að gjaldskyldir aðilar haldi aðgreindum í bókhaldi sínu upplýsingum er varða gjaldskylda olíu og litaða olíu. Einnig er gerð sú krafa að þeir haldi bókhald yfir aðfengið litarefni og notkun á því, svo að hægt sé að staðreyna samsvörun á milli magns litarefnis og afhentrar undanþeginnar gas- og dísilolíu á ákveðnu tímabili. Þá er kveðið á um að tilgreina skuli á reikningi þegar um sölu á gjaldfrjálsri litaðri olíu er að ræða.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að núgildandi 8. gr. laganna um bókhald þeirra sem rétt eiga á endurgreiðslu verði orðuð að nýju með tilliti til litunar og breytinga sem lagðar eru til á reglum um endurgreiðslu. Samkvæmt breytingu á 6. gr. er gert ráð fyrir að þeim sem rétt eiga á endurgreiðslu fækki frá því sem nú er samvæmt lögunum. Í frumvarpinu er lagt til að mörkin milli gjaldskyldrar olíu og undanþeginnar verði mun skýrari en áður með tilkomu litunar undanþeginnar olíu. Þeir sem rétt eiga á endurgreiðslu skv. 6. gr. ber að kaupa ólitaða gjaldskylda olíu.
    Sérleyfishafar og rekstraraðilar almenningsvagna skulu hafa yfirlit yfir hversu leiðirnar sem sérleyfin ná til og áætlunarleiðirnar séu langar og skrá fjölda kílómetra sem ökutæki í þeirra eigu hafa ekið viðkomandi leiðum. Skráningin skal grundvallast á ökumælum líkt og gilt hefur í núgildandi þungaskattskerfi. Er hér um að ræða sambærilegt fyrirkomulag og gildir um endurgreiðslu þungaskatts. Ef rekstraraðili almenningsvagna eða sérleyfisbifreiða fær endurgreidd 70% olíugjalds skal hann halda í bókhaldi sínu reikninga yfir aðkeypta olíu vegna rekstrar almenningsvagna eða sérleyfisbifreiða eingöngu og geta sýnt fram á að olían hafi ekki verið notuð á önnur ökutæki.
    Í 2. mgr. kemur fram að vanræki aðili að færa fullnægjandi bókhald skv. 1. mgr. falli niður réttur til endurgreiðslu á viðkomandi endurgreiðslutímabili. Ef sérleyfishafi eða rekstraraðili almenningsvagns skráir ekki fjölda kílómetra sem ökutæki í hans eigu hafa ekið á leið sem sérleyfi hans nær til eða þeir eru rangt skráðir fellur niður réttur til endurgreiðslu. Sama gildir ef rekstraraðili verður uppvís að því að olía sem olíugjald er endurgreitt af sé notuð á önnur ökutæki.

Um 9. gr.

    Í greininni er lögð til sú breyting að olíugjald skuli aðeins greitt af litaðri olíu fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við sölu eða afhendingu og eigin notkun. Í lögunum er kveðið á um að greiða skuli olíugjald miðað við sölu eða afhendingu og eigin not, en þar sem lagt er til í 4. gr. frumvarpsins að lituð olíu skuli vera gjaldfrjáls þykir rétt að kveða skýrt á um hvað sé stofn til útreiknings olíugjalds.

Um 10. gr.

    Í 1. tölul. er lagt til að 2. tölul. 10. gr. falli brott þar sem í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lituð olía sé undanþegin olíugjaldi. Þar sem aðeins skal lagt olíugjald á ólitaða olíu þykir rétt að kveða skýrt á um það í uppgjörsreglum laganna.
    Í 2. tölul. er bætt við nýrri málsgrein, 2. mgr., þar sem kveðið er á um heimild fyrir gjaldskylda aðila skv. 3. gr. laganna til að draga frá við uppgjör á gjaldskyldri olíu olíugjald af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til gjaldskyldrar sölu á olíu. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra muni setja í reglugerð nánari reglur um skilyrði fyrir frádrættinum.

Um 11. gr.

    Breytingar í þessari grein skýra sig sjálfar, sbr. umfjöllun um 1. gr.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um að leggja skuli sérstakt olíugjald á eigendur skráningarskyldra ökutækja ef í ljós kemur að lituð olía hefur verið notuð á ökutæki þeirra. Þar sem eigendur skráningarskyldra ökutækja eru ekki gjaldskyldir skv. 3. gr. laganna er ekki unnt að kveða á um endurákvörðun olíugjalds ef bann við notkun litaðrar olíu á ökutæki hefur verið virt að vettugi. Þess vegna er þörf á sjálfstæðu ákvæði um gjaldskyldu í þessum tilvikum. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum í lögum um þungaskatt þar sem ríkisskattstjóra er gert skylt að áætla þungaskatt þegar ekki hefur verið mætt með ökutæki í álestur. Eðli máls samkvæmt er ekki mögulegt að meta hversu lengi notkun litaðrar olíu hefur staðið yfir. Í ákvæðinu er við það miðað að ökutæki í atvinnurekstri hafi verið knúið litaðri olíu 50.000 km vegalengd sem getur svarað til árlegs meðaltalsaksturs atvinnubifreiða í reglubundnum akstri. Lagt er til að álagning á slík ökutæki miðist að öðru leyti við gildandi þungaskattstaxta þannig að álagning fer hækkandi eftir þyngd. Þar sem ekki verður skráð sérstök gjaldþyngd í opinberar skrár eftir brottfall þungaskatts er lagt til að miðað verði við skráða heildarþyngd í ökutækjaskrá, en hún er annaðhvort sama þyngd eða hærri. Gert er ráð fyrir að sérstakt olíugjald á fólksbifreiðar, sem ekki eru nýttar í atvinnurekstri og á dráttarvélar sem ekki eru nýttar til landbúnaðarnota, verði það sama og fast árgjald þungaskatts er nú. Þar sem olíugjald er innifalið í gjaldstofni til virðisaukaskatts er tekið fram í greininni að fjárhæðir samkvæmt greininni séu án virðisaukaskatts en lagt til að hann bætist við eingöngu í þeim tilvikum sem aðili getur ekki talið hann til innskatts við virðisaukaskattsskil. Þar sem álagning sérstaks olíugjalds miðast við um það bil ársakstur er lagt til í sérstöku ákvæði að álagningin skuli lækka um fjórðung fyrir hverja þrjá mánuði sem skráður eigandi hefur átt bifreið skemur en tólf mánuði. Lagt verður á samkvæmt þessari grein fyrir hvert tilvik sem aðili notar litaða olíu á ökutæki sitt og gildir þá einu hvort eða hvenær aðili hefur sætt álagningu samkvæmt greininni.
    Við álagningu sérstaks olíugjalds er ríkisskattstjóra skylt að boða fyrirhugaða álagningu vegna notkunar á litaðri olíu og skora á eiganda að láta í té skýringar og gögn a.m.k. innan fimmtán daga. Eiganda ökutækis er með þessu gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri álagningu. Ríkisskattstjóri kannar síðan framkomin gögn og leggur olíugjald á eiganda ökutækisins skv. 4. og 5. mgr . Með þessum málsmeðferðarákvæðum er tryggð skilvirkni við álagningu gjaldsins án þess að skerða réttaröryggi gjaldenda. Ríkisskattstjóra ber eftir sem áður að gæta almennra stjórnsýslureglna um rannsóknar- og rökstuðningsskyldu.
    Lagt er til að skráður eigandi ökutækis verði gjaldskyldur samkvæmt greininni, en ef annar aðili hefur umráðarétt yfir ökutækinu ber hann óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldsins með skráðum eiganda ökutækisins. Með þessari reglu er verið að tryggja kröfu ríkissjóðs. Jafnframt er verið að gera aðila, sem kaupa ökutæki á kaupleigu af fjármögnunarfyrirtækjum, ábyrga fyrir greiðslu olíugjaldsins þegar hann hefur umráð yfir ökutækinu. Árétta skal að með þessari reglu er ekki verið að fella niður ábyrgð skráðs eiganda heldur einungis verið að auka ábyrgðina hjá umráðamanni, enda verður að telja óeðlilegt að þeir séu undanskildir.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að við lögin bætist ný grein vegna álagningar sérstaks olíugjalds, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í ákvæðinu er kveðið á um gjalddaga sérstaks olíugjalds og heimild lögreglustjóra til að stöðva ökutæki og taka skráningarmerki þess af til geymslu, að kröfu innheimtumanns, hafi ekki verið staðin skil á gjaldinu. Að auki er kveðið á um greiðslu dráttarvaxta ef sérstakt olíugjald er ekki greitt á tilskildum tíma.

Um 14. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að núgildandi 15. gr. laganna um kæruheimild verði orðuð að nýju með tilliti til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu og bætt við nýrri málsgrein um kæruheimild til yfirskattanefndar.

Um 15. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði við 17. gr. laganna nýrri málsgrein sem hefur að geyma refsiákvæði í þeim tilvikum þegar skráður eigandi eða umráðamaður hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gerst brotlegur við ákvæði 3. mgr. 4. gr. eins og hún er sett fram í 4. gr. frumvarpsins. Fram kemur að skilyrði refsiábyrgðar er að eigandi eða umráðamaður hafi gerst brotlegur við ákvæðið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Um skilgreiningu á hugtökunum ásetningur og gáleysi vísast til refsiréttar. Í ákvæðinu er verknaðarlýsing sem vísar til 3. mgr. 4. gr.

Um 16. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Í 1. tölul. er lagt til að síðasta álestrartímabilið verði lengt til 10. janúar 1998 þar sem einungis fimm virkir dagar eru á tímabilinu 19. til 31. desember 1997.
    Í 2. tölul. er lagt til að eindaga 2. mgr. verði breytt til samræmis við breytinguna sem gerð var á eindaga þungaskatts með a-lið 10. gr. laga nr. 68/1996, en þar segir að eindagi sé síðasti dagur sama mánaðar og gjalddagi miðast við.

Um 18. gr.

    Lögð er til breyting á ákvæðinu þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að litun gjaldfrjálsrar olíu verði tekin upp. Með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu um litun gjaldfrjálsrar olíu verður að ætla að það samræmist ekki markmiðum laganna að aðili, sem fær afhenta litaða olíu án greiðslu olíugjalds, þurfi ekki að gera grein fyrir birgðum af gjaldskyldri olíu.

Um 19. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um beyting á lögum nr. 34/1995,
um vörugjald af olíu, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, en þau koma til framkvæmda 1. janúar 1998. Með frumvarpi þessu er verið að breyta þeim ákvæðum laganna er snúa að því að koma á olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu í stað endurgreiðslna. Fjármálaráðuneytið telur víst að kostnaður ríkissjóðs við rekstur olíugjaldskerfi með litun verði nokkuð minni en kostnaður við endurgreiðslukerfi. Erfitt er að áætla hve mikill sparnaður verður en gera má ráð fyrir að hann verði a.m.k. 10 m.kr. Byggir sú áætlun fyrst og fremst á því að ekki þurfi að verja jafnmiklu fjármagni til eftirlits eftir þessa breytingu.