Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 528 . mál.


880. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „30,41%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 26,41%.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
    Í stað fjárhæðarinnar „294.528“ í 1. mgr. A-liðar kemur: 286.944.
    Í stað fjárhæðarinnar „689“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 671.

3. gr.

    Í stað A- og B-liða 69. gr. laganna kemur nýr stafliður er orðast svo:

A. Barnabætur.

    Með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru skv. 1. gr., skal ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð eru skv. 63. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
    Fyrir barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu skal einungis greiða barnabætur í hlutfalli við dvalartíma þess hér á landi á því ári. Þannig skal fjárhæð barnabóta skv. 3. mgr. og skerðingarmörk vegna tekna, sbr. 4. mgr., ákvarðast í hlutfalli við dvalartímann.
    Óskertar barnabætur skulu árlega nema 102.436 kr. með fyrsta barni en 121.932 kr. með hverju barni umfram eitt. Fyrir börn yngri en sjö ára skulu barnabætur vera 30.176 kr. hærri en framangreindar fjárhæðir. Óskertar barnabætur með börnum einstæðra foreldra skulu vera 170.614 kr. með fyrsta barni. Með börnum umfram eitt skulu barnabæturnar vera 175.014 kr., en þó 30.176 kr. hærri sé barnið yngra en 7 ára. Búi framfærandi barns í óvígðri sambúð skal hann ekki teljast einstætt foreldri í þessu sambandi.
    Barnabætur skv. 3. mgr. skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 1.141.042 kr. hjá hjónum og umfram 570.521 kr. hjá einstæðu foreldri. Með tekjuskattsstofni í þessu sambandi er átt við tekjur skv. II. kafla laganna, þó ekki tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 5% með einu barni, 9% með tveimur börnum og 11% með þremur börnum eða fleiri.
    Barnabætur vegna hvers barns á framfæri hjóna skerðast um 1,5% af því sem eignarskattsstofn hvors hjóna fer fram úr 4.174.466 kr. uns þær falla niður. Á sama hátt skerðast barnabætur vegna hvers barns á framfæri einstæðra foreldra um 3% af því sem eignarskattsstofn foreldris fer fram úr 6.262.219 kr. uns þær falla niður.
    Fjárhæð barnabóta skal skerða um þær barnabætur eða hliðstæðar bætur sem framfærandi hefur fengið erlendis frá á sama ári vegna barnsins.
    Komi í ljós að maður hefur ranglega notið barnabóta eða að barnabætur hafa verið ákvarðaðar of hátt skal skattstjóri leiðrétta þær. Um slíka leiðréttingu gilda ákvæði 95. og 96. gr. eftir því sem við getur átt.
    Barnabætur skulu ákveðnar við álagningu, sbr. X. kafla. Nánari reglur, m.a. um fyrirframgreiðslu og útborgun barnabóta, innheimtu ofgreiddra barnabóta og skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerð.


4. gr.

    Við lögin bætast ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a.     (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, skal innheimtuhlutfall í staðgreiðslu vera 40,88% vegna launatímabila frá 1. maí 1997 til og með 31. desember 1997.

    b.     (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna skal tekjuskattur reiknast með eftirfarandi hætti við álagningu tekjuskatts árin 1998 og 1999 vegna tekna áranna 1997 og 1998:
    Við álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna ársins 1997 skal tekjuskattur reiknast 29,31% af tekjuskattsstofni.
    Við álagningu tekjuskatts á árinu 1999 vegna tekna ársins 1998 skal tekjuskattur reiknast 27,41% af tekjuskattsstofni.

    c.     (III.)
    Þrátt fyrir ákvæði A- og B-liða 68. gr. laganna skal persónuafsláttur vera 286.812 kr. og sjómannaafsláttur vera 671 kr., við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1998 vegna tekna og eigna árið 1997. Jafnframt skal persónuafsláttur og sjómannaafsláttur samkvæmt þessu ákvæði gilda í staðgreiðslu vegna launatímabila frá 1. maí 1997 til og með 31. desember 1997.

    d.     (IV.)
    Þrátt fyrir ákvæði A- og B-liða 68. gr. laganna skal:
    Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1998 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 1999 vegna tekna og eigna árið 1998 persónuafsláttur vera 280.320 kr. og sjómannaafsláttur vera 656 kr.
    Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1999 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2000 vegna tekna og eigna árið 1999 persónuafsláttur vera 279.948 kr. og sjómannaafsláttur vera 655 kr.

    e.     (V.)

Sérstakur tekjuskattur manna.

    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna á árunum 1998, 1999 og 2000 skal á árunum 1999, 2000 og 2001 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.120.000 kr., eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 6.240.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
    Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.120.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.120.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.

    f.     (VI.)

Fyrirframgreiðsla manna á sérstökum tekjuskatti.

    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 1999 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 1998. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 1998 vegna tekna á árinu 1997 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2000 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 1999. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 1999 vegna tekna á árinu 1998 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2001 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember árið 2000. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2000 vegna tekna á árinu 1999 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. Um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar skal kveða nánar á í reglugerð.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra er úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum á milli ára. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
    Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal við mismuninn bæta 2,5% álagi.

    g.     (VII.)

    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt bráðabirgðaákvæði V og VI skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við getur átt.

    h.     (VIII.)
    Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 17., 30., 41., 2. mgr. 67. gr., 69., 78., 83. og 84. gr. laganna, svo og ákvæðum til bráðabirgða V og VI í lögum þessum, sem hér segir:
    1. janúar 1998 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1999 vegna tekna á árinu 1998 og eigna í lok þess árs.
    1. janúar 1999 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 og eigna í lok þess árs.
    1. janúar 2000 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2001 vegna tekna á árinu 2000 og eigna í lok þess árs.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins og kveðið er á um í þessari grein.
    Ákvæði 1. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2000 vegna tekna ársins 1999 og við staðgreiðslu á því ári.
    Ákvæði 2. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2001 vegna tekna ársins 2000 og við staðgreiðslu opinberra gjalda á því ári.
    Ákvæði 3. gr. kemur til framkvæmda við ákvörðun barnabóta á árinu 1998. Skulu barnabætur skv. A-lið 69. gr., eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku þessara laga, greiddar vegna barna sem fædd eru á þriðja ársfjórðungi ársins 1997 eða fyrr eða öðluðust heimilisfesti hér á landi fyrir þann tíma og skal lokagreiðsla barnabóta þannig ákvarðaðra vera eigi síðar en 30. október 1997. Aldursmörk skulu og miðuð við umræddan ársfjórðung.
    Ákvæði til bráðabirgða í 4. gr. koma til framkvæmda eins og þar greinir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.

    Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á tekjuskatti og barnabótum í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem kynnt voru mánudaginn 10. mars síðastliðinn. Með breytingunum er stigið mikilvægt skref í þá átt að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og barnabóta sem hafa sætt vaxandi gagnrýni á undanförnum árum. Hér á eftir er gerð grein fyrir aðdraganda og meginþáttum þessara tillagna, en nánar er fjallað um þær í athugasemdum við einstakar greinar. Í fylgiskjölum eru sýnd dæmi um áhrif breytinganna á einstaklinga eftir fjölskyldustærð og hjúskaparstétt.

1. Starf jaðarskattanefndar.
    Aðdraganda þessara tillagna má rekja til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið var á um endurskoðun skattkerfisins með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum þess. Í framhaldi af þessu skipaði fjármálaráðherra í ársbyrjun 1996 nefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna, sveitarfélaga, fjármálaráðuneytisins og aðilum vinnumarkaðarins. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, Ólafur Davíðsson, var skipaður formaður nefndarinnar.
    Tilefni endurskoðunar á tekjuskattskerfinu er meðal annars umtalsverð hækkun á skatthlutfallinu frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988. Einnig hefur vægi tekjutengdra bóta verið aukið og þar með hafa jaðaráhrif þess aukist. Loks hefur verið tekinn upp sérstakur skattur á tekjur yfir tilteknum mörkum sem enn hefur aukið jaðaráhrif skattkerfisins. Allar þessar breytingar hafa breytt ýmsum grundvallarviðmiðunum í tekjuskattskerfinu og í mörgum tilvikum raskað innbyrðis hlutföllum og markmiðum þess. Þá hafa þær raddir sífellt orðið háværari sem telja að háir jaðarskattar og mikil jaðaráhrif í bótakerfunum dragi úr vinnuframlagi fólks og stuðli að skattsvikum og því sé brýn þörf á úrbótum.
    Reyndar hafa þegar verið stigin ákveðin skref í þessa átt. Annars vegar jafngilti skattfrelsi lífeyrisiðgjalda sem kom til framkvæmda í áföngum á árunum 1995 og 1996 um 1,5% lækkun tekjuskattshlutfallsins. Hins vegar voru tekjuskerðingarhlutföll í barnabótaaukakerfinu lækkuð talsvert á árinu 1996 og jafnframt var þá sett ákveðið hámark hjá fólki með þrjú börn eða fleiri. Ekkert slíkt ákvæði var í fyrri lögum heldur fóru jaðaráhrifin vaxandi með hverju barni og gátu orðið mjög mikil hjá barnmörgum fjölskyldum.
    Í nefndinni hefur verið fjallað um ýmsar leiðir til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og bótakerfanna. Einnig hefur verið horft til þróunar og megináherslna í skattlagningu annarra þjóða. Á síðustu vikum og mánuðum hefur umræðan í nefndinni einkum beinst að ákveðnum hugmyndum um lækkun á almenna tekjuskattshlutfallinu, sameiningu barnabótakerfanna í eitt tekjutengt kerfi ásamt lækkun skerðingarhlutfalla og afnámi tekjutengingar í vaxtabótakerfinu. Þótt ekki hafi verið almenn samstaða í nefndinni um þessar hugmyndir má segja að meiri hlutinn hafi verið tiltölulega sáttur við þær. Þær tillögur sem kynntar eru í þessu frumvarpi endurspegla þessar hugmyndir að verulegu leyti.

2. Tillögur ASÍ.
    
Um miðjan febrúar kynntu formenn landssambanda ASÍ sameiginlega kjarastefnu sambandanna og hugmyndir um aðgerðir stjórnvalda í skattamálum. Skattatillögur ASÍ voru í meginatriðum samhljóða þeim hugmyndum sem fulltrúar sambandsins höfðu reifað í jaðarskattanefndinni. Gerð var tillaga um að tekið yrði upp nýtt og lægra skattþrep, en þau tvö þrep sem fyrir eru héldust óbreytt. Ekki voru settar fram mótaðar tillögur um breytingar á vaxta- og barnabótum. Á fundi með forustumönnum stjórnarflokkanna lögðu formenn landssambandanna áherslu á að ríkisstjórnin tæki afstöðu til þessara tillagna sem fyrst því að aðgerðir í skattamálum voru taldar geta haft úrslitaáhrif á kjarasamningaviðræðurnar.

3. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.
    
Mánudaginn 10. mars gengu formenn þeirra landssambanda sem gengið höfðu frá kjarasamningum fyrr um daginn á fund forustumanna stjórnarflokkanna og óskuðu eftir tillögum ríkisstjórnarinnar í skattamálum þar sem þær mundu ráða úrslitum um hvort kjarasamningarnir yrðu samþykktir eða ekki. Síðar þann sama dag kynnti ríkisstjórnin hugmyndir sínar um aðgerðir í skattamálum fyrir forustumönnum ASÍ. Þær hugmyndir eru í öllum meginatriðum samhljóða tillögunum í þessu frumvarpi að öðru leyti en því að ekki er að svo stöddu gerð tillaga um breytingar á vaxtabótakerfinu. Gert er ráð fyrir að áfram verði unnið að tillögum um breytingar á vaxtabótakerfinu í því skyni að draga úr jaðaráhrifum þess.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er, eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sama dag.

4. Meginefni tillagnanna.
    
Lækkun tekjuskatts. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur lækki um 4% fram til ársins 1999. Lækkunin er í þremur áföngum:
a.    Frá 1. janúar 1997 lækkar tekjuskattur um 1,1% og kemur sú lækkun til framkvæmda í staðgreiðslu frá og með 1. maí 1997. Skattalækkun fyrir mánuðina janúar til apríl kemur til endurgreiðslu við álagningu árið 1998.
b.    1. janúar 1998 lækkar tekjuskattshlutfallið um 1,9% til viðbótar.
c.    1. janúar 1999 lækkar tekjuskattshlutfallið um 1% til viðbótar. Miðað við óbreytt útsvarshlutfall frá því sem nú er verður samanlagt skatthlutfall útsvars og tekjuskatts þá komið í 37,98%, en það er í dag 41,98%.

     Hækkun skattleysismarka. Gert er ráð fyrir að skattleysismörk verði óbreytt á þessu ári. Þar sem skatthlutfallið lækkar þegar á þessu ári verður persónu- og sjómannaafsláttur jafnframt lækkaður til þess að skattleysismörk allra framteljenda verði óbreytt. Skattleysismörkin munu síðan hækka um 2,5% 1. janúar 1998, aftur um 2,5% 1. janúar 1999 og enn um 2,5% 1. janúar árið 2000. Þessi hækkun er í samræmi við þær forsendur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið sér um verðlagsþróun í kjölfar kjarasamninganna og fulltrúar landssambandanna kynntu forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

     Hækkun annarra fjárhæðamarka. Gert er ráð fyrir að aðrar viðmiðanir í tekjuskattskerfinu taki sömu hlutfallslegu hækkunum og skattleysismörk næstu þrjú ár. Þetta tekur meðal annars til barnabóta, vaxtabóta o.fl.

     Sérstakur tekjuskattur hækkar. Gert er ráð fyrir að sérstakur tekjuskattur hækki úr 5% í 7% frá 1. janúar 1998. Jafnframt hækkar tekjuviðmiðunin úr 234.000 í 260.000 kr. hjá einstaklingi og úr 468.000 í 520.000 krónur hjá hjónum. Þessi hækkun jafngildir því að hæsta skattþrep samkvæmt gildandi lögum lækkar úr tæplega 47% í tæplega 45%.

     Barnabætur. Tillaga er gerð um að sameina almennu barnabæturnar og tekjutengda barnabótaaukann í eitt tekjutengt barnabótakerfi. Markmiðið með þessu er að skapa svigrúm til þess að geta jafnframt lækkað tekjuskerðingarhlutföll barnabótaaukans. Samkvæmt tillögunum lækkar hámark tekjuskerðingar úr 15% í 11%, eða um 4%, en það gildir um hjón og einstæða foreldra með þrjú börn eða fleiri. Skerðingarmörkin með tveimur börnum lækka úr 11% í 9% og úr 6% í 5% með einu barni.

5. Áhrif tillagnanna.
    
Áhrif á ríkissjóð. Heildaráhrif þessara tillagna eru metin til 5,2 milljarða króna lækkunar á tekjum ríkissjóðs þegar skattalækkunin er að fullu komin til framkvæmda. Á móti þessu vega nokkur atriði svo sem sú ákvörðun Alþingis við afgreiðslu síðustu fjárlaga að halda afsláttar- og bótaliðum í tekjuskattskerfinu óbreyttum á þessu ári. Einnig skilar niðurfelling hlutafjárafsláttar nokkrum tekjuauka. Þá er gert ráð fyrir að tekjur af fjármagnsskatti gangi að einhverju leyti til að mæta þessum skattalækkunum. Loks hefur sem fyrr segir verið rætt við fulltrúa sveitarfélaga um að þau taki þátt í kostnaði vegna þessara aðgerða.

     Áhrif lækkunar tekjuskatts á einstaklinga. Lækkun tekjuskatts um 4% jafngildir um 2% hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna. Skattalækkunin er hlutfallslega mest hjá fólki með lágar tekjur, en minni eftir því sem tekjurnar eru hærri. Ráðstöfunartekjurnar aukast hins vegar hlutfallslega meira hjá fólki með meðaltekjur, enda greiðir lágtekjufólk tiltölulega litla skatta, bæði í krónum talið og í hlutfalli við tekjur.

     Heildaráhrif tekjuskattslækkunar og breyttra barnabóta. Breytingin á barnabótakerfinu felur í sér tilflutning frá fólki með tiltölulega háar tekjur til fólks með tekjur um eða undir meðallagi. Samanlögð áhrif þessara breytinga eru almennt þau að ráðstöfunartekjur fólks með tekjur um eða fyrir neðan meðallag hækka hlutfallslega meira en hjá öðrum tekjuhópum. Nánari upplýsingar um áhrif tillagnanna á einstaklinga er að finna í fylgiskjölum með frumvarpinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga lækki úr 30,41% í 26,41%. Þessi breyting kemur þó til framkvæmda í áföngum, sbr. bráðabirgðaákvæði II í 5. gr. frumvarpsins. Um forsendur þessarar breytingar vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.

Um 2. gr.

    Lagt er til að fjárhæðum persónuafsláttar og sjómannaafsláttar í 68. gr. laganna verði breytt. Vakin er athygli á því að ákvæði þessarar greinar verður að skoðast í samhengi við 1. gr. frumvarpsins og bráðabirgðaákvæði II og IV í 5. gr. frumvarpsins. Um forsendur vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.

Um 3. gr.

    Í þessu ákvæði er lagt til að barnabætur og barnabótaauki verði sameinað í eitt bótakerfi sem lúti sömu grundvallarreglum og barnabótaaukinn gerir samkvæmt gildandi lögum og munu bætur þessar kallast barnabætur. Barnabætur þessar munu þannig verða reiknaðar út með hliðsjón af tekjum, eignum og fjölskyldugerð. Um forsendur fyrir þessari breytingu vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum.
    Í öllum meginatriðum er byggt á sömu reglum og gilda um barnabótaaukann. Þó eru tekjuskerðingarhlutföll lækkuð til muna eins og vikið er að í almennum athugasemdum. Um lagaskil vísast til athugasemda við 4. gr.

Um 4. gr.
Um bráðabirgðaákvæði I.

    Með hliðsjón af því að breytingar á tekjuskatti koma til framkvæmda frá og með 1. maí 1997 er nauðsynlegt að ákveða að nýju innheimtuhlutfall í staðgreiðslu, sem þá tekur mið af þessum breytingum. Gert er ráð fyrir að skattalækkun vegna mánuðanna janúar–apríl skili sér við álagningu tekjuskatts á árinu 1998.

Um bráðabirgðaákvæði II.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um hvernig lækkun tekjuskattshlutfallsins kemur til framkvæmda. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um bráðabirgðaákvæði III.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um persónuafslátt og sjómannafslátt vegna yfirstandandi árs og hvernig breytingar á þessum afsláttarliðum koma til framkvæmda við staðgreiðslu. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að við staðgreiðslu frá 1. maí verði miðað við einn tólfta hinnar nýju afsláttarfjárhæðar.

Um bráðabirgðaákvæði VI.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um hvernig persónuafsláttur og sjómannaafsláttur breytist á tekjuárunum 1998 og 1999. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um bráðabirgðaákvæði V-VII.

    Í þessum ákvæðum er gert ráð fyrir að sérstaki tekjuskatturinn verði framlengdur í þrjú ár. Lagt er til að skatthlutfall hækki úr 5% í 7%, en jafnframt að skattleysismörk hins sérstaka tekjuskatts hækki nokkuð. Að öðru leyti eru ákvæði þessi óbreytt frá gildandi lögum. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um bráðabirgðaákvæði VIII.

    Lagt er til að fjárhæðir í lögunum verði hækkaðar um 2,5% árlega til ársins 2000. Þetta á þó ekki við um persónuafslátt og sjómannaafslátt, enda eru ákvæði þar að lútandi í öðrum ákvæðum frumvarps þessa. Um forsendur vísast til umfjöllunar í einstökum greinum.

Um 5. gr.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um gildistöku. Sérstaklega er kveðið á um hvernig breytingarnar á barnabótakerfinu koma til framkvæmda. Samkvæmt gildandi lögum má segja að barnabótakerfið sé samtímakerfi en barnabótaaukinn er ákvarðaður eftir á. Hér er sett sú lagaskilaregla að barnabætur samkvæmt eldra kerfi verða ekki greiddar með börnum sem fæðast á síðasta ársfjórðungi 1997 eða síðar. Í hinu nýja barnabótaákvæði, sbr. 3. gr. frumvarpsins, er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um fyrirframgreiðslu barnabóta, eins og verið hefur um barnabótauka.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið,
efnahagsskrifstofa:

Áhrif lækkunar tekjuskatts og breyttra barnabóta
á ráðstöfunartekjur fjölskyldna.

    Í meðfylgjandi töflum er stillt upp nokkrum dæmum um áhrif af lækkun tekjuskatts og breyttum barnabótum á ráðstöfunartekjur fjölskyldna. Hér eru ráðstöfunartekjur skilgreindar sem atvinnutekjur að frádregnum tekjuskatti og útsvari en að viðbættum barnabótum. Þá er skattbyrðin skilgreind sem tekjuskattur og útsvar að frádregnum barnabótum sem % af atvinnutekjum.
    Að öðru leyti eru forsendur dæmanna sem hér segir:
    Tekjuskatthlutfallið lækkar um 4%, þ.e. úr 30,41% í 26,41%. Það þýðir að staðgreiðsluhlutfallið lækkar úr 41,98% í 37,98.
    Í dæmunum eru skattleysismörkin hækkuð um 2,5% frá því sem þau eru í dag, eða úr 60.902 krónum á mánuði (að teknu tilliti til frádráttar lífeyrisiðgjalda) fyrir einstakling í 62.425 krónur.
    Sérstakur hátekjuskattur hækkar úr 5% í 7%, jafnframt því að tekjumörkin eru hækkuð úr 234 þús.kr. á mánuði hjá einstaklingi í 260 þús.kr., og tvöföld sú fjárhæð fyrir hjón.
    Miðað er við eitt barnabótakerfi í stað þeirra tveggja sem nú eru í gildi. Bæturnar eru tekjutengdar og eru misháar eftir aldri og fjölda barna. Hlutföll tekjuskerðingar lækka, sbr. eftirfarandi:
         —     Með einu barni; úr 6% í 5%
        —     Með tveimur börnum; úr 11% í 9%
        —     Með þremur börnum og fleiri; úr 15% í 11%
        Í dæmunum eru hámarksbætur með hverju barni og tekjuviðmiðun barnabóta hækkuð um 2,5% frá gildandi fjárhæðum.

(8 síður, töflur, myndaðar.)