Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 537 . mál.


891. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Heimilt er að framselja þorskaflahámark krókabáts að hluta til eða að öllu leyti til annars krókabáts.
    Við 8. mgr. bætist nýr málsliður: Þó skulu sóknardagar ekki vera færri en 60.
    Við 10. mgr. bætist nýr málsliður: Þó skulu sóknardagar ekki vera færri en 60.
    Við greinina bætist ný málsgrein er verði 11. mgr. og orðast svo:
                  Bátum minni en 6 brl., er stunda veiðar samkvæmt aflamarki, er heimilt að stunda veiðar með handfæri eingöngu síðustu tvo mánuði fiskveiðiársins. Afli þeirra þann tíma telst ekki til aflamarks.

2. gr.

    Á eftir 6. gr. a laganna kemur ný grein er verði 6. gr. b, svohljóðandi:
    Maður, sem verið hefur sjómaður á íslensku fiskiskipi í 20 ár samtals, á rétt á að stunda veiðar með handfærum eingöngu samkvæmt ákvæðum 6. gr. og skal honum veitt veiðileyfi á bát minni en 6 brl. sem hann eignast í því skyni, hafi báturinn ekki veiðileyfi fyrir. Sameiginlegur hámarksþorskafli skv. 9. mgr. 6. gr. skal hækka fyrir hvern bát sem þannig bætist við um meðaltalsafla báts í þessum útgerðarflokki fiskveiðiárið á undan.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
    1. og 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Eigi að selja fiskiskip sem leyfi hefur til veiða í     atvinnuskyni, aflahlutdeild þess eða þorskaflahámark, að hluta eða að öllu leyti, eða hvort tveggja til útgerðar, sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi, á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu og aflahlutdeildinni eða þorskaflahámarkinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og þar tilgreint söluverð skips annars vegar og aflahlutdeildar eða þorskaflahámarks hins vegar svo og aðrir skilmálar á tæmandi hátt.
    Á eftir orðunum „kaupa skipið“ í 4. mgr. kemur: og aflahlutdeild eða þorskaflahámark.
    Á eftir orðinu „skipi“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: og aflahlutdeild eða þorskaflahámarki.
    2. málsl. 5. mgr. fellur brott.
    Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, er verði 6. mgr., svohljóðandi:
                  Ákvæði greinarinnar um forkaupsrétt sveitarfélaga ná einnig til sölu milli aðila innan sveitarfélagsins þegar bersýnilega er verið að sniðganga forkaupsrétt sveitarfélagsins, svo sem með því að stofna félag í sveitarfélaginu eða flytja félag til þess kaupa skip, aflahlutdeild eða þorskaflahámark og flytja síðan félagið burt úr sveitarfélaginu með hinu selda þegar kaupin hafa verið gerð.

4. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 50% af aflamarki sínu í einstakri tegund fellur niður aflahlutdeild þess í viðkomandi tegund.


5. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein er verði 12. gr. a og orðast svo:
    Skilyrði fyrir samþykki Fiskistofu á framsali þorskaflahámarks skv. 6. gr., aflahlutdeildar skv. 11. gr. og aflamarks skv. 12. gr. er að fram komi upplýsingar um verð sem greitt kann að vera fyrir veiðiheimildirnar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem snúa einkum að lagfæringum á gildandi lagaákvæðum. Ekki eru að sinni gerðar tillögur um róttækar breytingar enda ekki talið rétt að blanda saman í eitt frumvarp tillögum til lagfæringa á núverandi stjórnkerfi og tillögum um grundvallarbreytingar á sama kerfi.
    Meginatriði frumvarpsins eru þessi:
—    Ákvæði um rétt sjómanns til handfæraveiða eftir 20 ára starf á íslensku fiskiskipi.
—    Rýmkaðar veiðiheimildir smábáta í aflahlutdeildarkerfinu.
—    Rýmkuð heimild krókabáta sem stunda veiðar með þorskaflamarki til framsals á þorskaflahámarki sínu til annars krókabáts sem einnig hefur þorskaflahámark.
—    Hert er á ákvæðum sem takmarka framsal aflahlutdeildar og aflamarks m.a. með því að gera auknar kröfur til skipa um veiði veiðiheimilda sinna.
—    Aukinn er forkaupsréttur sveitarfélaga með því að hann nái til aflahlutdeildar, aflamarks og þorskaflahámarks auk skips og gildi einnig gagnvart opinberu uppboði.
—    Sett er ákvæði um lágmark dagafjölda sem krókabátar mega róa hvert fiskveiðiár og gildir lágmarkið bæði gagnvart krókabátum sem róa með handfæri eingöngu og þeim sem róa bæði með línu og handfæri.
    Eins og tillögurnar bera með sér miða þær að því að styrkja stöðu sveitarfélaga til þess að hafa áhrif á flutning skipa og veiðiheimilda ásamt því að treysta rekstrargrundvöll smábáta. Þá er það nýmæli að sjómönnum er veittur sjálfstæður réttur til veiða í fiskveiðilögsögunni sem þeir geta nýtt sér með því að eiga smábát og halda honum til veiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein eru lagðar til þrjár breytingar á gildandi 6. gr. laganna. Fyrsta breytingin varðar framsal á þorskaflahámarki smábáta og er lagt til að heimilt verði að framselja það að hluta eða að öllu leyti til báts í sama útgerðarflokki. Samkvæmt gildandi lögum er einungis heimilt að framselja þorskaflahámarkið í einu lagi og þá með því skilyrði að niður falli veiðileyfi bátsins sem flutt er frá og rétti til endurnýjunar afsalað. Er því um nokkra rýmkun að ræða sem er í samræmi við samþykktir Landssambands smábátaeigenda. Eftir sem áður verður leiga þorskaflahámarksins óheimil.
    Önnur breytingin lýtur að því að setja ákvæði um lágmark þess dagafjölda sem krókabátar með handfæri eða með handfæri og línu hafa til róðra hvert fiskveiðiár. Samkvæmt frumvarpsgreininni verða þeir ekki færri en 60.
    Loks er lagt til að smábátar á aflamarki fái heimild til þess að stunda veiðar með handfæri í júlí og ágúst ár hvert. Veiði þeirra þann tíma kemur til viðbótar aflamarkinu. Óþarft er að hafa mörg orð um ástæðuna fyrir þessari tillögu. Þessi útgerðarflokkur valdi aflamark fyrir tæpum sex árum í kjölfar nýrra laga á grundvelli forsendna sem tilgreindar voru í lögunum. Þær forsendur breyttust mikið þeim í óhag með síðari lagasetningu frá Alþingi, sem best er lýst með því að aflamark þeirra lækkaði ár frá ári meðan aðrir smábátar juku verulega hlutdeild sína. Afleiðingarnar urðu þær að aflamarksbátunum hefur fækkað mikið, úr 894 við upphaf fiskveiðiársins 1991/1992 í 525 við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs. Aflahlutdeild þeirra í þorski hefur lækkað úr 11,15% í 7,01% frá 1991 til 1995/1996 og úthlutað aflamark lækkaði úr 21.714 tonnum í 6.095 tonn. Til samanburðar jókst afli krókabáta úr 11.228 tonnum í 23.615 tonn af þorski á sama tíma.

Um 2. gr.

    Í greininni eru þau nýmæli að sjómaður, sem stundað hefur fiskveiðar í 20 ár samtals á íslensku fiskiskipi, fær rétt til þess að stunda handfæraveiðar á báti sem er minni en 6 brl. Rétturinn er bundinn manninum og starfi hans en ekki einvörðungu eignarhaldi á báti. Til þess að nýta þennan rétt þarf maðurinn að eignast bát og getur hann keypt bát sem hefur verið úreltur og fengið á hann veiðileyfi. Leyfið er skilyrt á þann veg að það er óframseljanlegt og bundið viðkomandi sjómanni og nær aðeins til handfæraveiða. Með tillögugreininni er viðurkennt að starf á sjó veitir rétt til sjósóknar og þannig rétt til þess að nýta fiskimiðin. Til þess að koma í veg fyrir að afli báta samkvæmt þessari grein fækki sóknardögum þeirra báta sem fyrir eru er gert ráð fyrir að sameiginlegur hámarksþorskafli útgerðarflokksins hækki fyrir hvern bát um meðaltalsafla báta í þessum útgerðarflokki árið á undan.

Um 3. gr.

    Í þessari grein eru nokkrar breytingar á 11. gr. laganna sem allar lúta að því að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga við eigendaskipti að fiskiskipi. Í fyrsta lagi nær forkaupsréttarákvæðið til aflahlutdeildar skipsins eða þorskaflahámarks í stað þess að afmarkast við skipið einvörðungu eins og nú er. Þá er fellt brott það ákvæði laganna að forkaupsréttarákvæðið nái ekki til sölu skips á opinberu uppboði og þannig er forkaupsréttur sveitarfélaganna útvíkkaður sem því nemur. Loks er bætt við lagagreinina nýrri málsgrein sem kveður á um að forkaupsrétturinn geti náð til sölu milli aðila innan sama sveitarfélags þegar bersýnilega er verið að sniðganga forkaupsrétt sveitarfélagsins. Síðustu ár hefur mjög færst í vöxt að væntanlegur kaupandi stofnar hlutafélag í sveitarfélagi seljanda eða flytur félagið þangað, síðan fer salan fram og við þessar aðstæður er forkaupsréttur sveitarfélaga ekki virkur og að sölu lokinni er félagið flutt úr sveitarfélaginu til sveitarfélags kaupanda. Þessi leikur er iðkaður í þeim tilgangi einum að komast hjá forkaupsrétti sveitarfélaga og ber löggjafanum að bæta úr þessum galla á núverandi löggjöf, að öðrum kosti er eins gott að fella brott úr lögum ákvæði um forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga. Telja verður að forkaupsréttur sveitarfélaganna hafi það gildi sem til er ætlast fyrst einstaka útgerðarmenn leggja það á sig að komast fram hjá honum og treysta því ekki að kaupin nái fram að ganga ef þau eru gerð í samkeppni við heimamenn.

Um 4. gr.

    Hér eru gerðar ríkari kröfur til þess að skip veiði sjálft aflamark sitt en er í gildandi lögum. Í stað þess að nú dugar að veiða 50% af aflamarki annað hvert fiskveiðiár er lagt til að það hlutfall þurfi að veiða ár hvert og það af aflamarki í sérhverri fisktegund í stað þess að miða við samanlagt aflamark í þorskígildum. Veiði skip ekki að lágmarki umrætt hlutfall af aflamarki í tiltekinni fisktegund eitthvert fiskveiðiár fellur aflahlutdeild þess niður í þeirri sömu fisktegund, en skipið heldur aflahlutdeild sinni í fisktegundum þar sem veiði þess er a.m.k. 50% af úthlutuðu aflamarki. Á móti er fellt úr lögunum ákvæði um að skipið missi veiðileyfi sitt, enda slík viðurlög fullþung þar sem ætla má að skipið haldi aflahlutdeild sinni í einhverjum fisktegundum. Þá er ekki gert ráð fyrir að hækka aflahlutdeild annarra fiskiskipa í viðkomandi tegund sem nemur þeirri aflahlutdeild sem skipið missir. Kemur það til móts við aukinn afla vegna ákvæða 1. og 2. gr. frumvarpsins til handa handfæraveiðismábátum á aflamarki og sjómanna með 20 ára starfsreynslu.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er það gert að skilyrði fyrir framsali milli skipa hvort heldur er um að ræða aflahlutdeild, aflamark eða þorskaflahámark að til Fiskistofu berist upplýsingar um það verð sem greitt kann að vera fyrir aflaheimildirnar. Með þessu ákvæði fá stjórnvöld ítarlegar upplýsingar um viðskipti með veiðiheimildir og umfang þeirra að magni til og í fjárhæðum. Auk þess er þess vænst að frumvarpsgreinin komi í veg fyrir þátttöku sjómanna í kaupum á veiðiheimildum.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.