Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 548 . mál.


902. Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um framkvæmd björgunar- og hreinsunarstarfa vegna strands Víkartinds og um ábyrgð allra málsaðila.

Frá Margréti Frímannsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Kristni H. Gunnarssyni, Ragnari Arnalds, Sigríði Jóhannsdóttur,
Steingrími J. Sigfússyni, Svavari Gestssyni, Ögmundi Jónassyni.

    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd björgunar- og hreinsunarstarfa vegna strands flutningaskipsins Víkartinds í Háfsfjöru 6. mars sl.
    Í skýrslunni komi fram yfirlit yfir aðdraganda slyssins og björgunaraðgerðir, ákvarðanatöku og aðgerðir á slysstað hvað varðar hreinsun og mengunarhættu, hver beri ábyrgð á einstökum þáttum er lúta að björgunar- og hreinsunarstörfum, t.d. hvað varðar tímasetningu á beiðni um aðstoð Landhelgisgæslunnar, hvað varðar ábyrgð á skipsfarmi, mengunarhættu og þess hluta farmsins sem rekur á land og tjóni eigenda farmsins. Þá verði í skýrslunni greindir ábyrgðarþættir ráðuneyta og einstakra stofnana á þeirra vegum. Loks komi fram í skýrslunni mat forsætisráðherra á nauðsynlegum úrbótum á lögum, stjórnsýslu og öðrum þáttum sem æskilegt kann að vera að breyta til að land og þjóð geti betur tekist á við hliðstæð áföll framvegis.