Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 550 . mál.


908. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Valgerður Sverrisdóttir,


Einar Oddur Kristjánsson, Pétur H. Blöndal.



1. gr.


    Í stað fjárhæðarinnar „18.915 kr.“ í 3. málsl. 2. gr. laganna kemur: 32.000 kr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð bifreiðagjalds á hverju gjaldtímabili hækki úr 18.915 kr. í 32.000 kr. Tilgangurinn með þessari breytingu er að mæta tekjutapi ríkissjóðs vegna lækkunar á vörugjaldi af ökutækjum sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, úr 30% í 15%. Slík breyting er lögð til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Gera má ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs vegna hækkunar á bifreiðagjaldi muni nema um 118 millj. kr. á ári sem samsvarar tekjutapi vegna lækkunar á vörugjaldi af ökutækjum til vöruflutninga.
    Hækkun á hámarksfjárhæð bifreiðagjalds samkvæmt því sem lagt er til í frumvarpinu leiðir til hækkunar á bifreiðagjaldi af öllum bifreiðum sem eru yfir 2.400 kg að eigin þyngd. Hækkunin eykst hlutfallslega með aukinni þyngd bifreiða og verður hlutfallslega mest á bifreiðar sem eru meira en 3.700 kg að eigin þyngd. Af þeim bifreiðum hækkar bifreiðagjald úr 37.830 í 64.000 kr, sem er um 70% hækkun. Gjaldið hækkar hins vegar ekki af bifreiðum sem eru undir 2.400 kg að eigin þyngd.