Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 408 . mál.


957. Nefndarálitum frv. til l. um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Annar minni hluti getur ekki staðið að þeirri afgreiðslu málsins sem 1. minni hluti nefndarinnar leggur til í nefndaráliti sínu og breytingartillögum með því. Meiri hluti þeirra aðila sem tjáðu sig um málið fyrir nefndinni og sendu inn skriflegar umsagnir leggst eindregið gegn því að stofnaður verði sérstakur fjárfestingarbanki þar sem miklu hagkvæmara sé að láta starfandi viðskiptabanka yfirtaka starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Verðmæti fjárfestingarlánasjóðanna fyrir ríkissjóð og atvinnulífið væri meira ef stofnað væri sérstakt hlutafélag um hvern þeirra. Hugsanlegum kaupendum fækkar og arðsemin minnkar með samruna sjóðanna. Verðmæti eignarinnar er svo skert enn frekar með þeim hömlum að ríkið eigi meiri hluta í bankanum. Þá vill 2. minni hluti taka fram að hann lítur svo á að eðlilegt sé að einungis einn bankastjóri starfi við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins með sömu rökum og fram koma í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, 409. mál.
    Annar minni hluti bendir á eftirfarandi röksemdir gegn þeirri leið að stofna nýjan banka sem fram komu í umsögnum margra aðila til nefndarinnar:
    Í umsögn Búnaðarbanka Íslands frá 3. apríl 1997, sem undirritað er af Stefáni Pálssyni, Sóloni Sigurðssyni og Jóni Guðjónssyni, kemur fram m.a.:
    „Eins og kunnugt er hafa Búnaðarbankinn, Landsbankinn og Sparisjóðabanki Íslands hf. lýst yfir vilja sínum til viðræðna við ríkisstjórnina um kaup á eignum Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Það er skoðun bankastjórnar Búnaðarbankans að þessi leið sé vænlegust til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með breytingum á rekstrarformi og eignarhaldi þessara sjóða en bankastjórnin gerir ekki athugasemdir við einstök atriði  . . . 
     Í umsögn Íslandsbanka frá 2. apríl 1997, sem undirrituð er af Vali Valssyni og Tryggva Pálssyni, kemur fram m.a.:
    „Bankastjórn Íslandsbanka telur umrætt frumvarp vera í mótsögn við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnar sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið, en þar segir m.a. að láta beri „öðrum eftir að stunda þá starfsemi sem einkaaðilar eru tilbúnir að annast með eðlilegum hætti“. Stofnun nýs ríkisbanka með víðtækara starfssvið en fjárfestingarlánasjóðirnir höfðu hefur í för með sér að ríkið er að auka umsvif sín á þessum markaði en ekki draga úr þeim.
    Við teljum einnig að markaðsaðstæður hafi í raun gert hugmyndir af þessu tagi úreltar. Nútímafyrirtæki líta á fjármögnun starfsemi sinnar sem síbreytilegt viðfangsefni sem ræðst af markaðsvöxtum og kjörum hverju sinni. Á bak við hugmyndir um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins býr sú gamla hugsun að fyrirtæki fjármagni fjárfestingar sínar í eitt skipti fyrir öll. Það er liðin tíð.
    Loks er athygli vakin á því að Íslandsbanki á og rekur fjórða stærsta fjárfestingarlánasjóð í landinu, Verslunarlánasjóð. Hlutverk Verslunarlánasjóðs er að annast lán Íslandsbankasveitarinnar til lengri tíma, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Heildareignir sjóðsins um síðustu áramót voru 9,4 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall var 9,5% og arðsemi eigin fjár á síðasta ári var 16,1%. Vaxtamunur í Verslunarlánasjóði á síðasta ári var 1,4% og rekstrarkostnaður í hlutfalli við meðalstöðu efnahagsreiknings var rúmlega 0,2%. Helstu keppinautar Verslunarlánasjóðs eru fjárfestingarlánasjóðir ríkisins.
     . . .  Engin krafa hefur verið gerð um arð af eigin fé sjóðanna og því ekki þurft að taka tillit til þess í verðlagningu þeirra. Þá hefur eigin fé sjóðanna verið óeðlilega mikið og í raun gert þeim ókleift að skila eðlilegri arðsemi. Í umræddu frumvarpi er áfram gert ráð fyrir allt of háu eiginfjárhlutfalli.
    Með hliðsjón af framansögðu teljum við að leggja eigi hugmyndir um fjárfestingarbanka á hilluna. Þær eru hvorki í samræmi við þarfir atvinnulífsins né yfirlýsta stefnu ríkisvaldsins  . . . 
     Í umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka frá 3. apríl 1997, sem undirrituð er af Finni Sveinbjörnssyni, kemur fram m.a.:
    „SÍV telur að í frumvarpinu um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. séu færð ófullnægjandi rök fyrir stofnun hans. Því leggur SÍV til að frumvarpið verði ekki samþykkt . . . 
    Þessi niðurstaða J.P. Morgan bendir eindregið til að evrópskum viðskiptabönkum takist að reka fjárfestingarlánastarfsemi með þeim hætti að hún veiti sérhæfðum fjárfestingarlánasjóðum öfluga samkeppni, bæði hvað verð og þjónustu snertir  . . . 
    Þau rök eru m.a. færð fyrir stofnun Fjárfestingarbankans að sameinaður fjárfestingarbanki geti veitt bankakerfinu heilbrigða samkeppni. Með þessu er jafnframt verið að gefa í skyn að samkeppni á markaðnum yrði ekki nægjanleg ef fjárfestingarlánastarfsemin yrði sameinuð bankakerfinu. Þetta er augljóslega rangt því nefna má fjölmörg dæmi sem sýna að á síðustu árum hefur samkeppni milli fjármálafyrirtækja um þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki aukist verulega  . . . 
    Að mati SÍV mun innbyrðis samkeppni íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða og samkeppni þeirra við erlend fjármálafyrirtæki aukast fremur en hitt því engin ástæða er til að ætla annað en atvinnufyrirtæki muni halda áfram að etja þessum aðilum saman í því skyni að tryggja sér sem hagstæðust kjör.
    Önnur veigamikil rök sem færð eru fyrir stofnun Fjárfestingarbankans eru þau að hann geti náð hagstæðum samningum við lánveitendur og að rekstrarkostnaður verði lágur. Hvort tveggja muni síðan leiða til þess að hann geti veitt viðskiptavinum sínum lán á hagstæðum kjörum  . . . 
    Í nútímalegum bankarekstri er þjónusta verðlög eftir þeim kostnaði sem hún veldur og það gefur auga leið að fjárfestingarlán valda minni kostnaði en smálán til einstaklinga og fyrirtækja og því eru þau verðlögð með allt öðrum hætti. Þess vegna er það út í hött að bera saman heildarvaxtamun viðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóðs því þá er verið að bera saman kostnað af gerólíkri starfsemi.
    Til að samanburður milli viðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða verði raunhæfur þarf að bera saman kennitölur fyrir fjárfestingarlánastarfsemi viðskiptabankanna og starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Íslandsbanki hf. er eini viðskiptabankinn hér á landi sem aðgreinir fjárfestingarlánastarfsemina, Verslunarlánasjóð, frá annarri starfsemi. Þegar starfsemi Verslunarlánasjóðs er borin saman við starfsemi Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs sést greinilega að það hallar á fjárfestingarlánasjóðina fremur en hitt. Þannig var vaxtamunur Verslunarsjóðs 1,4% að meðaltali á árinu 1996 samkvæmt ársreikningi sjóðsins en 1,88% í árslok 1996 hjá Iðnlánasjóði samkvæmt fréttabréfi sjóðsins í mars. Svipað kemur í ljós þegar litið er á rekstrarkostnað sem hlutfall af niðurstöðutölu efnahagsreiknings og arðsemi eigin fjár. Af því má ráða að fjárfestingarlánastarfsemi innan viðskiptabanka sé í raun hagkvæmari kostur en að reka hana í sjálfstæðum fjárfestingarlánasjóðum.
    Hvað Fjárfestingarbankann varðar er sérstök ástæða til að ætla að starfsemin verði fremur óhagkvæm fyrstu árin því reynslan hér á landi og erlendis sýnir að ýmiss konar upphafskostnaður fylgir sameiningu fjármálafyrirtækja og að nokkurn tíma tekur að ná fram því hagræði sem fylgir sameiningunni  . . . 
    Þriðju meginrökin sem færð eru fyrir stofnun Fjárfestingarbankans eru þau að með þeirri skipan verði varðveitt og nýtt mikil fyrirliggjandi þekking núverandi sjóða á atvinnulífinu og náin tengsl þeirra við viðskiptafyrirtæki sín. Þetta eru einkennileg rök. SÍV bendir á að bankakerfið er í daglegum tengslum við öll atvinnufyrirtæki landsins og veitir þeim margs konar þjónustu. Innan bankakerfisins er því fyrirliggjandi geysilega mikil þekking á atvinnulífinu og ekki minni en í fjárfestingarlánasjóðunum. Jafnframt skal það fullyrt að nýjustu skipulagsbreytingar innan bankakerfisins sem felast í sameiningu fyrirtækjaþjónustu á einum stað innan hvers banka, stofnun viðskiptaborða og nánara samspili hefðbundinnar bankaþjónustu og verðbréfaþjónustu munu leiða til þess að þekking viðskiptabankanna á atvinnulífinu og þörfum þess, tengsl þeirra við atvinnulífið og geta þeirra til að bjóða fjölbreyttari þjónustu en áður mun stóraukast. Að mati SÍV leiða fyrrgreind rök því fremur til þeirrar niðurstöðu að sameina eigi fjárfestingarlánastarfsemina bankakerfinu í stað þess að halda henni aðgreindri.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur SÍV að rökin sem færð eru fyrir stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. í frumvarpinu standist ekki þegar betur er að gáð. Jafnframt skal bent á að bankar og sparisjóðir hafa á undanförnum mánuðum varpað fram hugmyndum um breytingar á fjárfestingarlánasjóðakerfinu sem að mati SÍV falla betur að þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar sem lýst er í frumvarpinu og felst í því að ríkið losi sig út úr þessari starfsemi.
    Loks telur SÍV rétt að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að verði frumvarpið um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. samþykkt þá verði gerð sú breyting á 6. grein þess að heimilt verði þegar frá stofnun bankans að selja allt hlutfé ríkissjóðs í honum en ekki eingöngu 49%.“
     Í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða frá 7. apríl 1997, sem undirrituð er af Sigurði Hafstein, kemur fram m.a.:
    „Samband ísl. sparisjóða mælir eindregið gegn því að frumvarpið nái fram að ganga  . . . 
    Öll fyrirtæki í atvinnulífi eiga viðskipti við banka og sparisjóði. Allur daglegur rekstur þeirra er því undir smásjá þessara aðila. Til að sem best verði fylgst með þörfum atvinnulífsins og stöðu einstakra fyrirtækja skiptir það lánveitendur miklu að heildarviðskipti séu sem mest á einum stað. Þess vegna sendu Landsbankinn, Búnaðarbankinn og Sparisjóðabankinn, eftir all ítarlega athugun sem Íslandsbanki tók þátt í ríkisstjórninni bréf í febrúar sl. þar sem óskað var viðræðna um kaup þessara aðila á þeim sjóðum sem með frumvarpinu er ætlað að mynda uppistöðuna í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Af viðræðum hefur ekki orðið. Hins vegar er það skoðun þessara aðila að mest hagkvæmni náist fram með sameiningu sjóðanna við bankakerfið. Að því frágengnu er það skoðun Sambands sparisjóða að breyta eigi Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði í tvo fjárfestingarsjóði í formi hlutafélaga og bjóða þá til sölu á almennum markaði þar sem bankar og sparisjóðir hefðu hliðstæða möguleika og aðrir að kaupa hlutafé þeirra og ná þannig fram hagræðingu sem af samrekstri leiddi. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu er lökust þeirra sem til álita hafa komið. Ástæðan er sú að hún leiðir ekki til hagræðingar um leið og hún er alvarlegt inngrip í samkeppnisstöðuna á íslenskum fjármálamarkaði. Fyrir á markaðinum eru bankar og sparisjóðir með 500–6000 milljóna króna eiginfjárstöðu ef frá eru skildir minni sparisjóðir. Þegar fyrir forgöngu ríkisins er síðan stofnaður nýr banki með 8000 milljóna króna eigið fé sem innan tíðar kynni af nýjum eigendum að verða breytt í almennan viðskiptabanka þá er ástæða til að staldra við. Álit Sambands sparisjóða er að hlutverk ríkisins sé að jafna samkeppnisstöðu en ekki skekkja  . . . 
    Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar byggir á þeirri forsendu að fjárfestingarlán séu eitt en önnur fjármögnun annað. Þetta er alvarleg brenglun á staðreyndum. Öll fjármögnun er hliðstæð og byggir á sömu forsendum þ.e. arðsemi fjárfestingarinnar.
    Í umræðum um Fjárfestingarbankann hefur verið talið honum til ágætis að vaxtamunur hans verði minni en viðskiptabanka og sparisjóða. Það segir í sjálfu sér ekkert um líkleg lánskjör fjárfestingarlána  . . . 
    Íslenskur fjármálamarkaður er í þróun. Sífellt er verið að leita leiða til að þróa hann áfram. Langtímafjármögnun og skammtímafjármögnun er hluti af sama meiði. Að gera jafn afgerandi mun þar á milli sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er skref afturábak í þessari þróun. Því leggur Samband sparisjóða til að frumvarpið nái ekki fram að ganga.
     Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands frá 8. apríl 1997, sem undirrituð er af Þórarni V. Þórarinssyni, kemur fram m.a.:
    „Þótt vafalaust sé að fleiri kostir hafi verið álitlegir við endurskipulagningu fjárfestingalánasjóðanna getur VSÍ fyrir sitt leyti stutt þá niðurstöðu sem felst í umræddu stjórnarfrumvarpi. VSÍ vill þó leggja þunga áherslu á að ríkið dragi sig hið allra fyrsta út úr atvinnurekstri á borð við lánastarfsemi og mælir því mjög eindregið með því að ákvæði 6. greinar frumvarpsins verði breytt þann veg að heimilt sé að selja allt hlutafé í bankanum en ekki aðeins minni hluta þess eins og frumvarpið nú miðar við. Sú takmörkun rýrir verðgildi eignarinnar og gerir ómögulegt að koma við frekari samruna eða hagræðingu í fjárfestingarlánastarfsemi þeirri sem sjóðirnir hafa hingað til sinnt. Eru enda engin rök sýnileg fyrir þessari takmörkun eða þeim vilja að ríkissjóður haldi meiri hluta eign að Fjárfestingarbankanum með þessum hætti.“
    Í umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 7. apríl 1997, sem undirrituð er af Kristjáni Ragnarssyni, kemur fram m.a.:
    „ . . .  Stjórn LÍÚ telur mikilvægt að sátt náist um framtíðarskipan fjárfestingarlána til atvinnulífsins. Fellst hún því á þá skipan mála sem í frumvörpunum felast. Hún áréttar þó þá skoðun sína að heppilegra hefði verið fyrir þróun bankamála og atvinnulífið að Fiskveiðasjóði hefði verið breytt í hlutafélag.
    Það hlutafélag hefði strax verið til sölu og er þá líklegt að lánastarfsemi sjóðsins hefði með einhverjum hætti tengst annarri fjármálastarfsemi. Sú þróun hefði orðið atvinnulífinu til hagsbóta.“
    Í umsögn Verslunarráðs Íslands frá 26. mars 1997, sem undirrituð er af Jónasi Fr. Jónssyni, kemur fram m.a.:
    „Í upphafi vill Verslunarráð Íslands láta í ljós þá skoðun sína að ráðið hefði talið heppilegast að þeir fjárfestingarsjóðir, sem steypt er saman í Fjárfestingarbankann, hefðu verið einkavæddir hver fyrir sig og seldir á almennum markaði. Ráðið vill jafnframt láta uppi efasemdir um þá fyrirætlan að stofna nýjan ríkisbanka sem mun verða í samkeppni við aðra aðila á fjármagnsmarkaði, sbr. t.d. 2. gr. frumvarpsins, einkum í ljósi þess að á nútímafjármagnsmarkaði er hólfaskipting fjármálaþjónustu fyrri tíðar horfin eða að hverfa  . . . 
    Verslunarráð Íslands telur að í 6. gr. felist of miklar hömlur á frelsi til að ráðstafa hlutum í umræddri bankastofnun og að ákvæðið gangi gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu opinberra fyrirtækja. Ákvæðið er til þess fallið að gera framkvæmd einkavæðingar erfiðari og hætt er við því að lægra verð fáist fyrir umræddan 49% hlut en ef heimild þessi væri ótakmörkuð.“
    Í umsögn Sambands íslenskra tryggingafélaga frá 4. apríl 1997, sem undirrituð er af Sigmari Ármannssyni, kemur fram m.a.:
    „Með frumvarpi þessu er að því stefnt að íslenska ríkið stofni og starfræki nýjan banka, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Skuli þessi banki stofnaður á grunni Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, Iðnlánasjóðs og Útflutningslánasjóðs. Gangi þetta eftir verður ríkissjóður orðinn eigandi þriggja banka. Yfirlýstur megintilgangur ríkisstjórnarinnar með þessum aðgerðum er samkvæmt frumvarpinu „að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á hagstæðum kjörum“. Samband íslenskra tryggingafélaga lýsir sig andsnúið hugmyndum af þessu tagi, og vill að aðrir kostir verði skoðaðir  . . . 
     . . .  Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að í kjölfar þess sem íslenska ríkið drægi sig út úr starfsemi Landsbankans og Búnaðarbankans með sölu eignarhluta sinna í þeim stofnunum, væri næsta skref að endurskoða starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna. Í því efni hefur verið bent á, og er raunar lauslega að því vikið í athugasemdum með frumvarpinu, að eðlilegast væri að annars vegar yrði Fiskveiðasjóði breytt í hlutafélag og hins vegar yrði annað hlutafélag stofnað á sameiginlegum grunni Iðnlána- og Iðnþróunarsjóðs. Ríkissjóður gæti síðan selt hluti sína í þessum sjóðum. Það færi svo eftir aðstæðum á markaði hverjir keyptu, en meðal hugsanlegra kaupenda væru að sjálfsögðu viðskiptabankar og aðrar fjármálastofnanir. Sýnist sú leið stórum eðlilegri. Leggur Samband íslenskra tryggingafélaga því til, að sú leið verði könnuð til hlítar, og frumvarpið um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. jafnframt dregið til baka á meðan á slíkri könnun stendur.“
    Í umsögn Eignarhaldsfélagsins Hofs sf. frá 1. apríl 1997, sem undirrituð er af Arnari Ragnarssyni, kemur fram m.a.:
    „Við teljum að sú leið að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög og selja þá sé mun einfaldari og hagkvæmari. Erfitt er að sjá annað en að viðskiptabankarnir geti sinnt öllum þeim hlutverkum sem Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. er ætlað að sinna. Enda er bent á, að það sé mat J.P. Morgans að ætla megi að starfsemi fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka verði í framtíðinni samþætt. Er ekki verið að setja á fót óþarfa stofnun?“

    Að síðustu má benda á viðtal við Sigurð Oddsson, framkvæmdastjóra Plastos hf., í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. apríl 1997 en þar segir m.a.:
    „Sigurður segir aðspurður að bygging hússins kosti rúmlega tvö hundruð milljónir króna en segist hafa fengið lítinn stuðning við byggingu hússins úr þeim sjóðum, sem gegna eigi því hlutverki að efla og styðja íslenskan iðnað. En hvernig líst honum á sameiningu Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs?
    „Slík sameining kemur of seint og er í raun tímaskekkja. Það ætti frekar að leggja þessa sjóði niður og það væri mér a.m.k. að sársaukalausu. Skuldir Plastos við þessa sjóði hafa ekki aukist þrátt fyrir að við séum að byggja. Ég vil sem minnst um þá segja annað en það að það er ekki þeim að þakka að við erum nú flutt í nýtt hús.“ “

    Að lokum vill 2. minni hluti þó taka fram að sú tillaga 1. minni hluta að draga úr eigin fé fjárfestingarbankans frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé til bóta og nauðsynleg til að unnt verði að ná eðlilegri arðsemi á eigið fé hins nýja banka. Eigi að síður telur 2. minni hluti málið vanbúið og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. apríl 1997.Pétur H. Blöndal,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


frsm.