Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 362 . mál.


969. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti, og Svein Snorrason hrl.
    Umsagnir um málið bárust frá Landssambandi smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandinu og Stýrimannaskólanum í Reykjavík.
     Í frumvarpinu er lagt til að þeim nemendum sem voru við nám í Stýrimannaskólanum áður en lög nr. 62/1995 tóku gildi, en þau lög breyttu lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, sé heimilt að ljúka námi samkvæmt eldri lögum að nánari skilyrðum uppfylltum.
    Með hliðsjón af athugasemdum sem fram hafa komið, meðal annars um að áformað er að þann 1. september 1999 hefjist nám samkvæmt nýrri skipan skipstjórnarnáms, leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:

    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr liður, svohljóðandi:
D.         Heimilt er að gefa út atvinnuskírteini samkvæmt eldri lögum til þeirra sem hófu nám fyrir gildistöku laga nr. 62/1995, um breytingu á lögum þessum, en þó ekki lengur en til 31. ágúst 1999.

    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.
    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 1997.



Einar K. Guðfinnsson,

Stefán Guðmundsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Árni Johnsen.

Ragnar Arnalds.



Ásta R. Jóhannesdóttir.

Guðmundur Árni Stefánsson.