Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 256 . mál.


975. Nefndarálit



um frv. til l. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson og Smára Þorvaldsson frá umhverfisráðuneyti, Magnús Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stefán Thors frá Skipulagi ríkisins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Önundi Ásgeirssyni, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Veðurstofu Íslands, Slysavarnafélagi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Viðlagatryggingu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra og Sýslumannafélagi Íslands.
    Um er að ræða ný heildarlög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Frumvarpið byggist að meginstefnu til á núgildandi lögum en þó er þar að finna nokkur nýmæli. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að reglum um hættumat er nokkuð breytt þannig að skilgreint er hvað felast eigi í hættumati. Er gengið út frá því að ákveðin verði sú hætta af völdum ofanflóða sem ásættanlegt getur talist að fólk á byggðum svæðum búi við, með hliðsjón af annarri almannahættu sem fyrir hendi er í nútímaþjóðfélagi. Áfram er byggt á þeirri tilhögun að Veðurstofan skuli gefa út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsa yfir hættuástandi sem lögreglustjóra og almannavarnanefnd er skylt að bregðast við með því að rýma hús á ákveðnum svæðum. Jafnframt er hnykkt á því að lögreglustjóri geti hvenær sem er, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir af hálfu Veðurstofunnar, auk þess sem heimilt er að fyrirskipa rýmingu á öðrum og stærri svæðum en fram koma á rýmingaruppdráttum.     Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru:
    Í fyrsta lagi er lagt til að við 4. mgr. 3. gr. verði bætt ákvæði þess efnis að ráðherra geti sett nánari reglur um skyldur sveitarstjórnar við eftirlitsmenn, en samkvæmt frumvarpinu ber sveitarstjórn að leggja þeim til nauðsynlega vinnuaðstöðu og almennan búnað auk þess sem þeir eiga að sjá um og greiða fyrir rekstur á tækjum og búnaði. Þykir nefndinni rétt að ráðherra geti kveðið nánar á um þetta í reglugerð.
    Þá er lagt til að við 4. gr. verði bætt ákvæði um að meta skuli hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum, en nauðsynlegt er að til sé hættumat fyrir skíðasvæði sem nú eru í notkun auk þess sem lögð er áhersla á að slíkt mat sé unnið áður en lagt er í uppbyggingu nýs skíðasvæðis. Telur nefndin þetta mikilvægt þar sem nauðsynlegt er að tryggja öryggi þeirra sem sækja slík skipulögð svæði, en þangað er oft miklum fjölda fólks stefnt. Þá leggur nefndin áherslu á að metin verði ofanflóðahætta á svæðum áður en byggð er skipulögð þar, en nefndin telur brýnt að ekki verði skipulögð byggð á óbyggðum svæðum þar sem vitað er um ofanflóðahættu.

Prentað upp.

    Einnig er lögð til smávægileg breyting við 7. gr. sem tryggja á að skýrt komi fram í lagatexta að lögreglustjóra ber að hafa samráð við almannavarnanefnd þegar ákvörðun er tekin um að banna umferð um götur og vegi utan hættusvæða og sömuleiðis þegar fólki er bannaður aðgangur að skíðasvæðum og öðrum útivistarsvæðum vegna hættu á ofanflóðum.
    Lögð er til sú breyting við 9. gr. að ofanflóðanefnd verði skipuð til fjögurra ára í senn en ekki ótímabundið eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
    Þá er gerð tillaga um að við 10. gr. verði bætt ákvæði þess efnis að eftir að viðurkennd varnarvirki hafa verið reist verði ráðherra og sveitarstjórn heimilt að meta hvort til greina komi að þétta byggð á viðkomandi svæði og þá með hvaða skilyrðum. Telur nefndin eðlilegt að ekki verði ráðist í þéttingu byggðar nema aðstæður séu metnar áður og er eðlilegast að slíkt mat sé í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og ráðherra sem leita skal álits Veðurstofu Íslands og Skipulags ríkisins áður en ákvörðun er tekin.
    Loks er gerð tillaga varðandi ákvæði til bráðabirgða I um nýja byggð og nýbyggingar í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Gerir tillagan ráð fyrir að þar til hættumat hefur verið staðfest skuli sveitarstjórn leggja fram tillögu um skipulag nýrrar byggðar og nýbygginga og skal tillagan vera í samræmi við reglur sem umhverfisráðherra setur. Áður en umhverfisráðherra setur reglurnar skal hann hafa fengið tillögur frá Skipulagi ríkisins, Veðurstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig skal liggja fyrir bráðabirgðahættumat fyrir viðkomandi svæði. Miðar tillagan að því að heimila brýnar framkvæmdir í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu, en jafnframt leggur nefndin áherslu á að ekki verði, áður en hættumat liggur fyrir, hafnar framkvæmdir á svæðum sem ljóst þykir að séu á hættusvæði. Um framkvæmdir eftir að hættumat liggur fyrir og varnarvirki hafa verið reist gildir 10. gr.
    Gísli S. Einarsson og Tómas Ingi Olrich voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 1997.



Ólafur Örn Haraldsson,

Árni M. Mathiesen.

Katrín Fjeldsted.


form., frsm.



Guðmundur Beck,

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Kristín Halldórsdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Kristján Pálsson.