Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 408 . mál.


984. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Halldór J. Kristjánsson, Pál Gunnar Pálsson og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneytinu, Bjarna Ármannsson, Sigurð Einarsson, Hilmar Þór Kristinsson og Hreiðar Má Sigurðsson frá Kaupþingi hf., Johan Bergendahl frá J.P. Morgan, Stefán Pálsson frá Búnaðarbanka Íslands, Björn Líndal frá Landsbanka Íslands, Val Valsson og Björn Björnsson frá Íslandsbanka hf., Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Ingimund Friðriksson, Yngva Örn Kristinsson og Þórð Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði Íslands, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvarð Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Ólaf B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Gunnar Felixson frá Tryggingamiðstöðinni hf., Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Smára Þórarinsson fyrir hönd starfsmanna Fiskveiðasjóðs, Sverri Geirdal fyrir hönd starfsmanna Iðnlánasjóðs, Önnu Rósu Jóhannsdóttur og Ragnheiði Dagsdóttur frá Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Þórunni Þorsteinsdóttur og Ingveldi Ingólfsdóttur frá Starfsmannafélagi Landsbanka Íslands, Harald Sumarliðason, Jón Steindór Valdimarsson og Gunnar Svavarsson frá Samtökum iðnaðarins, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurð Þórðarson og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Árna Tómasson, endurskoðanda Landsbanka Íslands, og Gylfa Arnbjörnsson frá Eignarhaldsfélagi Alþýðubanka Íslands. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Búnaðarbanka Íslands, Bændasamtökum Íslands, Eignarhaldsfélaginu Hofi sf., Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði Íslands, Íslandsbanka hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Landsbanka Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Sjóvá-Almennum hf., Tryggingamiðstöðinni hf., Vátryggingaeftirlitinu, Vátryggingafélagi Íslands hf., Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Þriðji minni hluti nefndarinnar leggst gegn samþykkt þessa frumvarps.

Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið er eitt af fjórum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu á fjármálamarkaði, en þau eru frumvarp um breytingu á ríkisviðskiptabönkum í hlutafélög, frumvarp um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og frumvarp um Lánasjóð landbúnaðarins auk þessa frumvarps um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Meginefni frumvarpsins er að Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnþróunarsjóður og Iðnlánasjóður verða sameinaðir í einn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í eigu ríkisins. Þrír milljarðar kr. af eigin fé sjóðanna renna í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, en samkvæmt tillögu 1. minni hluta nefndarinnar verður sú fjárhæð hækkuð í 4 milljarða kr. og 1 milljarði kr. varið til verkefna á landsbyggðinni.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fari með hlut ríkisins í bankanum og markast það af forsögu tveggja sjóðanna, þ.e. Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm manna stjórn og tilnefna samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva einn og Samtök iðnaðarins tilnefna annan stjórnarmann. Hinir þrír eru skipaðir af ráðherrunum þannig að sameiginlega tilnefna þeir einn mann en hvor ráðherra fyrir sig einn mann í stjórn. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að selja eigi 49% af hlut ríkisins.

Fjárhagslega óskynsamleg leið.
    Frumvarpið á sér þá forsögu að lengi hefur verið deila milli ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka atvinnurekenda um eignarhald á sjóðunum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er sú að ríkið eignast allan hlut í sjóðunum en í stað þess fá samtökin að tilnefna stjórnarmenn.
    Rökstuðningur ríkisstjórnarinnar er að með frumvarpinu sé fjárfestingarlánaumhverfið stokkað upp á hagkvæman hátt. Því fer víðs fjarri. Með þessu frumvarpi er stofnaður nýr ríkisbanki sem á að starfa á afmörkuðu sviði, nokkuð sem er fátítt í nágrannalöndunum. Vinnubrögð í þessu máli hafa verið með eindæmum, enda bera umsagnir það með sér að nær allir sem vit hafa á leggjast gegn frumvarpinu.
    Þriðji minni hluti telur nauðsynlegt að breyta fjárfestingarlánasjóðunum. Ekki er deilt um það að sérgreining þeirra, eins og hefur verið hérlendis, er ekki lengur æskileg. Hins vegar hefði átt að taka þessa þrjá sjóði, sem eru í eigu ríkisins, og færa þá inn í viðskiptabankakerfið. Það hefði verið skynsamleg leið í stað þess að búa til nýjan fjárfestingarbanka, einn ríkisbanka í viðbót.
    Ríkisviðskiptabankarnir, einkanlega Landsbanki Íslands, eru fjárhagslega ekki mjög sterkar stofnanir. Ef sjóðirnir hefðu komið þar til viðbótar hefðu bankarnir orðið fjárhagslega sterkar einingar sem hefðu getað tekist vel á við verkefni framtíðarinnar. Einnig hefði verið tryggð betur samkeppni milli öflugra fjármálafyrirtækja. Í stað þess verða hér þrjú fjármálafyrirtæki í meirihlutaeign ríkisins, eitt máttvana, annað þokkalega vel statt og hið þriðja starfandi á afmörkuðu sviði í skjóli tiltekinna atvinnugreina.
    Þessi útfærsla ríkisstjórnarinnar er tímaskekkja. Í Evrópu hafa fjárfestingarlánasjóðir sameinast viðskiptabönkum, enda hefur starfsemi viðskiptabanka almennt víkkað mjög á undanförnum árum. Það hefði verið mikilvægt að nýta fjárfestingarlánasjóðina til að efla innlenda bankakerfið einmitt í ljósi vaxandi samkeppni erlendis frá.
    Þriðji minni hluti telur það vera meira í takt við nútímalega stjórnarhætti að færa fjárfestingarlánastarfsemina inn í bankakerfið og búa til einingar sem væru sambærilegar við banka erlendis. Vitaskuld er mjög mikilvægt að skapaðar séu lífvænlegar einingar í þeirri uppstokkun sem hér á sér stað. Lánskjör ríkisbankanna hafa fylgt lánshæfi íslenska ríkisins en á því getur orðið breyting þegar litlir og jafnvel að hluta til veikir hlutafélagsbankar, sem nú er verið að stofna, reyna fyrir sér á erlendum mörkuðum.
    Vitaskuld er hægt að spyrja, fyrst uppstokkun varð, af hverju Stofnlánadeild landbúnaðarins var ekki tekin með í þessa uppstokkun og aðrir sjóðir eins og Byggðasjóður eða Ferðamálasjóður og ýmsir aðrir opinberir og hálfopinberir lánasjóðir sem eru starfandi. Ríkisstjórnin hefur ekki hugað að þessu í ljósi heildaruppstokkunar heldur fyrst og fremst haft að leiðarljósi hið pólitíska markmið sitt að tryggja yfirráð sinna aðila í atvinnulífinu.

Pólitísk hagsmunagæsla.
    Meginþátturinn í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, svo og í öðrum frumvörpum hennar um fjármálamarkaðinn, er ekki sá að stokka upp fjármálakerfið til framfara heldur að tryggja pólitíska hagsmuni helmingaskiptakerfis ríkisstjórnarflokkanna.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um stjórnarskipun, að iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra útnefni fimm stjórnarmenn og tveir þeirra séu sérstaklega tilnefndir af samtökum atvinnurekenda í tilteknum starfsgreinum, þ.e. sjávarútvegi og iðnaði. Þessi samtök eru ekki fagsamtök á viðkomandi sviði heldur vinnuveitendafélög atvinnugreinanna. Starfsemi þeirra felst fyrst og fremst í því að vera samningsaðili um kaup og kjör.
    Með þessari útfærslu eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að tryggja flokkslega hagsmuni í opinberum sjóðum vegna þess að forustumenn þessara vinnuveitendafélaga koma nær allir annaðhvort úr Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki.
    Hafin eru hrossakaup milli stjórnarflokkanna með það hverjir verði tilnefndir í sjóðstjórnir, svo og í bankastjórastöðu hins nýja Fjárfestingarbanka, og blandast inn í það einnig þær stöður bankastjóra sem losna í hinum nýju hlutafélagsbönkum. Hér er gamalkunnug hringekja á ferðinni, sú hringekja sem felst í því að þessir tveir flokkar skipta á milli sín valdastöðum í íslensku þjóðlífi.
    Öll fjögur frumvörp ríkisstjórnarinnar um fjármagnsmarkaðinn miða að því að tryggja pólitískt vald í viðskiptaumhverfinu. Starfsmenn og launafólk fá enga aðild að þessum fjárfestingarbanka né önnur atvinnulífssamtök. Ekki eru öll fyrirtæki félagar í Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssambandi íslenskra útvegsmanna eða Samtökum iðnaðarins. Því fer víðs fjarri. Ekki einu sinni öll iðnfyrirtæki eru í Samtökum iðnaðarins né öll sjávarútvegsfyrirtæki í fyrrgreindum samtökum í sjávarútvegi. Atvinnulífið er fjölbreytt og flest fyrirtæki og starfsgreinar standa reyndar utan þessara þriggja samtaka sem fá ráðandi hlut í hinum nýja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Blokkamyndun í atvinnulífinu.
    Fram kemur í frumvarpinu að selja eigi 49% hlutafjár ríkisins eða rétt tæpan helming hins nýja banka. Hins vegar er ekkert sagt um hvenær eigi að gera það. Ekki er gert ráð fyrir að tryggð verði dreifð eignaraðild og vaknar sá grunur að ríkisstjórnarflokkarnir séu þegar búnir að ákveða hverjum skuli hlotnast sú gæfa að verða meðeigendur í þessum nýja banka.
    Það er mikil blokkamyndun í íslensku atvinnulífi og ríkisstjórnin greiðir götu þessara tveggja viðskiptablokka með þessum frumvörpum sem hún ætlar að afgreiða á vorþingi. Það blasir við sú hætta að Fjárfestingarbankinn verði keyptur af fáum sterkum aðilum sem leiðir til enn frekari samþjöppunar valds og fjármuna í hinu örsmáa íslenska efnahagslífi.
    Þriðji minni hluti leggur mikla áherslu á að dreifa eignaraðild og koma í veg fyrir fákeppni sem er aðaleinkenni á íslensku fyrirtækjaumhverfi. Það er áberandi í íslensku athafnalífi að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja, sem ekki tilheyra þessum tveimur blokkum, óttast um hag sinna fyrirtækja ef þeir lenda í ónáð hjá ráðamönnum Kolkrabbans og Smokkfisksins.
    Það hefði verið skynsamleg leið fyrir Alþingi að nota sumarið til að skoða uppstokkun á fjármagnskerfinu í stað þess að láta knýja nú þegar fram þessi fjögur frumvörp eins og ríkisstjórnin ætlar að gera. Það er skoðun 3. minni hluta að frumvarpið um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sé illa unnið og hálfkarað og ekki sé hægt að afgreiða það eins og það liggur nú fyrir. Breytingartillögur 1. minni hluta nefndarinnar breyta þar engu um.

Klofningur í stjórnarliðinu.
    Það er athyglisvert í sambandi við þetta frumvarp að meiri hlutinn er á móti því. Tveir þingmenn stjórnarinnar, Pétur Blöndal og Gunnlaugur M. Sigmundsson, sem eru sérfræðingar flokka sinna á þessu sviði, leggjast gegn því og telja það vera tímaskekkju og að hér sé lagt inn á varasama braut. Orð þessara sérfræðinga stjórnarflokkanna hljóta vitaskuld að vega þungt, einkum innan þeirra sjálfra. Þrátt fyrir afstöðu þeirra og að þeir skuli vera valdir til trúnaðarstarfa fyrir flokka sína í efnahags- og viðskiptanefnd er ekkert gert með sjónarmið þeirra í þessu máli, enda snýst það ekki um hagkvæmni í efnahagslífinu heldur um að tryggja pólitíska hagsmuni.

Umsögn J.P. Morgan.
    Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er látið að því liggja að vönduð úttekt hafi farið fram áður en þessi leið var valin og er þar m.a. vitnað í breska ráðgjafarfyrirtækið J.P. Morgan, en skýrsla þess liggur fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd. Þegar skýrslan er hins vegar skoðuð kemur allt annað í ljós.
    Í skýrslunni kemur m.a. fram að J.P. Morgan var sérstaklega beðið um að beina athyglinni að fjárfestingarlánasjóðunum og taka ekki til athugunar starfsemi viðskiptabankanna eða íslenska fjármálastarfsemi í heild sinni. Ótvírætt er að sjónarhorn ráðgjafarfyrirtækisins var afmarkað mjög þröngt í átt að niðurstöðu frumvarpsins.
    Í skýrslu J.P. Morgan kemur skýrt fram að viðskiptabankar í Evrópu veita svipaða þjónustu og hinum nýja Fjárfestingarbanka er ætlað. Ráðgjafarfyrirtækinu tókst ekki að finna nema tvo banka sem störfuðu með svipuðum hætti og hinn nýi banki á að gera, þ.e. einn í Danmörku og annan í Hollandi. Hins vegar eru þúsundir evrópskra viðskiptabanka sem starfa á sama sviði og nýi Fjárfestingarbankinn og styður það sjónarmið 3. minni hluta að rétt hefði verið að slá saman fjárfestingarlánasjóðunum og ríkisviðskiptabönkunum og mynda þannig öflugri einingar.
    Rætt er í skýrslunni um ýmis rök í þessu sambandi, svo sem að ýmiss konar sérþekking mundi nýtast í starfi Fjárfestingarbankans, og hefðu þessir fjárfestingarlánasjóðir forskot á íslenska viðskiptabanka á því sviði. Hér er ókunnugleiki hins erlenda ráðgjafafyrirtækis augljós, en allir sem til þekkja vita vel að sérþekking gagnvart viðskiptavinum er fyrst og fremst innan íslenska viðskiptabankakerfisins en ekki í sjóðaumhverfinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að hinn nýi fjárfestingarbanki fari inn á svið viðskiptabankanna þannig að ekki er augljóst í hverju hagræðingin á að vera fólgin.
    Skýrsla J.P. Morgan er þannig á engan hátt fagleg úttekt á heildardæminu eins og nauðsynlegt hefði verið heldur lagði verkkaupinn, þ.e. viðskiptaráðuneytið, skýrar línur og gaf í reynd upp niðurstöðuna sem fumvarpið byggist síðan á.

Umsagnir um frumvarpið.
    Samband íslenskra sparisjóða leggst gegn frumvarpinu og telur „að mest hagkvæmni muni nást fram með sameiningu sjóðanna við bankakerfið. Að því frágengnu er það skoðun Sambands sparisjóða að breyta eigi Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði í tvo fjárfestingarsjóði í formi hlutafélaga og bjóða þá til sölu á almennum markaði þar sem bankar og sparisjóðir hefðu hliðstæða möguleika og aðrir á að kaupa hlutafé þeirra og ná þannig fram hagræðingu sem af samrekstri leiddi. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu er lökust allra sem til álita hafa komið.“
    Einu aðilarnir sem studdu frumvarpið voru þeir aðilar sem eiga að tilnefna stjórnarmenn, þ.e. Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök fiskvinnslustöðva og Samtök iðnaðarins.
    Önnur atvinnulífssamtök og fyrirtæki lögðust gegn frumvarpinu. Í umsögn Íslandsbanka segir m.a.: „Stofnun nýs ríkisbanka með víðtækara starfssviði en fjárfestingarlánasjóðirnir höfðu hefur í för með sér að ríkið er að auka umsvif sín á þessum markaði en ekki draga úr þeim.“ Íslandsbanki segir enn fremur að hugmyndir um fjárfestingarbanka séu ekki í samræmi við þarfir atvinnulífsins og telur að á bak við hugmyndir um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins búi gömul hugsun um að fyrirtæki fjármagni fjárfestingar sínar í eitt skipti fyrir öll. Íslandsbanki bendir á að þeir reki stóran fjárfestingarlánasjóð í tengslum við banka sinn, þ.e. Verslunarlánasjóð, og sé rekstrarkostnaður hans lítill og sjóðurinn hagkvæmur.
    Búnaðarbanki Íslands, Landsbanki Íslands og sparisjóðirnir sendu ríkisstjórn Íslands bréf þar sem þeir óskuðu eftir viðræðum um kaup þessara banka á fjárfestingarlánasjóðunum. Þessu bréfi var aldrei svarað. Í umsögn Búnaðarbankans er sú skoðun ítrekuð að það hefði verið mun færsælli leið en það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.
    Samband íslenskra viðskiptabanka sendir mjög vandaða umsögn um málið og leggur til að frumvarpið verði ekki samþykkt. Þeir gagnrýna harðlega skýrslu J.P. Morgan og benda á að niðurstaðan hafi verið allt að því gefin fyrir fram og að athygli J.P. Morgan hafi verið beint sérstaklega að þessari niðurstöðu. Þeir segja m.a. að fjárfestingarlánastarfsemi í viðskiptabönkum eða innan viðskiptabanka sé í raun hagkvæmari kostur en að reka hana í sjálfstæðum fjárfestingarlánasjóðum. Þeir gagnrýna að sérstaklega mikil þekking sé fyrir hendi innan sjóðanna og benda réttilega á að tengsl við viðskiptavinina séu hvað mest innan viðskiptabankakerfisins. Viðskiptabankarnir telja að engin þeirra raka sem færð eru fyrir stofnun Fjárfestingarbankans standist þegar betur er að gáð.
    
Lokaorð.
    Þriðji minni hluti nefndarinnar telur mjög misráðið að sameina fjárfestingarlánasjóðina með þessum hætti, eins og lagt er til í frumvarpinu. Breytingartillögur 1. minni hluta breyta engu í því efni. Það er áberandi hvað varðar frumvörp ríkisstjórnarinnar um fjármálamarkaðinn að þau breytast mjög lítið milli 1. og 2. umræðu.
    Þriðji minni hluti telur rétt að stokka upp fjárfestingarlánasjóðina en gera það þá þannig að fjárfestingarlánasjóðirnir renni inn í viðskiptabankana sem styrkir þá og bankarnir síðan endurskipulagðir til framtíðar. Sú leið er ekki farin heldur sú að tryggja pólitísk áhrif stjórnarflokkanna í fjárfestingarlánaumhverfinu. 3. minni hluti hafnar þessari leið og leggst gegn frumvarpinu og telur að það hefði þurft að vinna málið betur. 3. minni hluti mun leggja til við 2. umræðu að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 18. apríl 1997.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.