Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 407 . mál.


988. Nefndarálitum frv. til l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Þetta frumvarp er eitt af fjórum frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem fjalla um endurskipulagningu á fjármagnsmarkaði. Hin frumvörpin eru um breytingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands í hlutafélagsbanka, stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og um Lánasjóð landbúnaðarins.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór J. Kristjánsson, Pál Gunnar Pálsson og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneytinu, Bjarna Ármannsson, Sigurð Einarsson, Hilmar Þór Kristinsson og Hreiðar Má Sigurðsson frá Kaupþingi hf., Johan Bergendahl frá J.P. Morgan, Stefán Pálsson frá Búnaðarbanka Íslands, Björn Líndal frá Landsbanka Íslands, Val Valsson og Björn Björnsson frá Íslandsbanka hf., Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Ingimund Friðriksson, Yngva Örn Kristinsson og Þórð Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði Íslands, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvarð Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Ólaf B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Gunnar Felixson frá Tryggingamiðstöðinni hf., Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Smára Þórarinsson fyrir hönd starfsmanna Fiskveiðasjóðs, Sverri Geirdal fyrir hönd starfsmanna Iðnlánasjóðs, Önnu Rósu Jóhannsdóttur og Ragnheiði Dagsdóttur frá Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Þórunni Þorsteinsdóttur og Ingveldi Ingólfsdóttur frá Starfsmannafélagi Landsbanka Íslands, Harald Sumarliðason, Jón Steindór Valdimarsson og Gunnar Svavarsson frá Samtökum iðnaðarins, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurð Þórðarson og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Árna Tómasson, endurskoðanda Landsbanka Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans hf., Guðmund Malmquist frá Byggðastofnun og Hrein Jakobsson frá Þróunarfélagi Íslands. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Búnaðarbanka Íslands, Bændasamtökum Íslands, Eignarhaldsfélaginu Hofi sf., Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði Íslands, Íslandsbanka hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Landsbanka Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra bankamanna, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Sjóvá-Almennum hf., Tryggingamiðstöðinni hf., Vátryggingaeftirlitinu, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Verslunarráði Íslands.
    Þriðji minni hluti styður skynsamlegar aðgerðir til nýsköpunar í atvinnulífinu. Þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar er hins vegar ekki leið að því markmiði.

Inngangur.
    Mikilvægast varðandi nýsköpun er að skapa þá umgjörð sem nýsköpun sprettur úr. Það er m.a. fólgið í aðgerðum af opinberri hálfu í menntamálum, stuðningi við rannsóknir og þróun, stuðningi við frumkvöðla og minni fyrirtæki og með því að auðvelda aðgang að fjármagni, upplýsingum og sérhæfðum aðilum á sviði markaðsmála og vöruþróunar.
    Oft er sagt að lítill vandi sé að fá góða hugmynd, erfiðara sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd en langerfiðast að hagnast á hugmyndinni. Þetta er náskylt því sem margir frumkvöðlar og brautryðjendur á sviði nýsköpunar hafa lent í, að aðalerfiðleikarnir felast ekki í því að framleiða vöruna eða þjónustuna heldur að selja hana.
    Verkefni á sviði nýsköpunar markast fyrst og fremst af því að nýjar hugmyndir, nýjar vörur og ný þjónusta eru alltaf í samkeppni við annað sem fyrir er á markaðnum og þessi samkeppni er í auknum mæli erlendis frá. Sífellt stærri hluti verðmætasköpunar hjá flestum þjóðum er sprottinn úr viðskiptum milli landa. Utanríkisverslun hefur aukist mun meira en sem nemur framleiðsluaukningunni undanfarin ár hjá flestum þjóðum þótt Ísland sé ekki í þeim hóp.

Slök samkeppnisstaða Íslands.
    Ef staða Íslands á alþjóðamarkaði er skoðuð og samkeppnisstaða landsins greind kemur í ljós að Ísland er mjög aftarlega. Það segir okkur ekkert annað en að nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra sé mjög ábótavant miðað við önnur lönd.
    Til eru tvær alþjóðlegar úttektir yfir samkeppnisstöðu landa þar sem Ísland kemur illa út. Í annarri skýrslunni lendir Ísland í 25. sæti af 46 ríkjum og hefur fallið um eitt sæti frá árinu áður. Í hinni skýrslunni er Ísland í 27. sæti af 49 ríkjum. Í reynd er staðan enn verri ef tekin eru einungis OECD-ríki sem við berum okkur einkum saman við. Þá kemur í ljós að af 26 OECD-ríkjum erum við í 19. sæti. Öll lönd í Vestur-Evrópu eru fyrir ofan okkur, fyrir utan Grikkland, Portúgal, Tyrkland, Tékkland, Spán og Ítalíu.
    Þegar metin er samkeppnisstaða milli landa eru margvíslegir þættir skoðaðir, svo sem framboð og hæfni vinnuafls í landinu, þjóðhagslegt mat á hagkerfi landa, að hve miklu leyti landið tekur þátt í alþjóðlegum viðskiptum, umsvif vísinda og rannsóknastarfa ásamt árangri í grunnrannsóknum, að hve miklu leyti fyrirtækjum er stjórnað á ábyrgan og hagkvæman hátt, hversu vel auðlindir og þjónusta uppfylla þarfir hagkerfisins og hversu mikil áhrif stefna stjórnvalda hefur á samkeppnishæfni og frammistöðu fjármagnsmarkaða og gæði fjármálaþjónustu. Eins og ljóst er af þessari upptalningu er lagt mat á stöðu fólksins í landinu, styrkleika hagkerfisins, alþjóðavæðingu, tækni og vísindi, stjórnun, innviði þjóðfélagsins, stjórnsýslu og fjármál. Fjöldamargir þættir eru skoðaðir og lagt mat á þá.
    Þessi samanburður er vitaskuld ekki algildur en gefur vísbendingu um stöðu okkar, sérstaklega hvernig hún breytist milli ára. Ekki eru nema tvö ár síðan við hófum að taka þátt í þessum samanburði og frekar höfum við dregist aftur úr en hitt. Hins vegar er þetta stuttur tími í samanburði.
    Við skoðun á þessum skýrslum kemur margt athyglisvert í ljós sem tengist þessu frumvarpi. Til að mynda erum við mjög aftarlega í alþjóðavæðingu með þátttöku í alþjóðaviðskiptum. Sömuleiðis er fjármálakerfi okkar talið mjög ábótavant. Stjórnun, þar með talin stjórnun fyrirtækja, er slök hérlendis og tækni og vísindum er lítið sinnt miðað við aðrar þjóðir. Þessi samanburður segir okkur að það er nauðsynlegt að gera allt til að efla nýsköpun í landinu.

Nýsköpunarsjóður verður ekki í nýsköpun.
    Þriðji minni hluti hefði fagnað vel útbúnu frumvarpi um þennan málaflokk og stutt ríkisstjórnina eindregið ef sú hefði verið raunin. Svo er ekki. Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er settur á stofn gamaldags viðbótarlánasjóður sem á ekki að þróa eða fóstra hugmyndir. Það er beinlínis tekið fram í greinargerð frumvarpsins að ekki sé ætlun ríkisstjórnar að þessi sjóður starfi á vettvangi nýsköpunar á nútímalegan hátt.
    Í greinargerð kemur fram alþjóðleg flokkun á áhættufjármögnun vegna nýsköpunar. Þar er áhættufjármögnun skipt í þrjá flokka, þ.e. þróunarfjármagn eða hugmyndafé en fjármagn í þessum fasa fer aðallega í fyrstu til tilrauna til vöruþróunar, gerð frumáætlana og forkönnun markaða. Annar fasi felst í því að frumeintak vöru er fullgert og markaðsstarfsemi hafin. Þriðji fasinn felst í því að útvega fjármagn til vaxtar, þ.e. fjármagn til að víkka út starfsemina að aflokinni þróun vöru og þjónustu og öflun markaða.
    Í greinargerð með frumvarpinu er rætt um að hlutverk Nýsköpunarsjóðs í fjárfestingarverkefnum sé aðallega í þriðja fasa, þ.e. að fjármagna vöxt. Sjóðurinn á reyndar að styðja við þróun á kynningarverkefni en það er ljóst hvert er meginverksvið Nýsköpunarsjóðs af hálfu ríkisstjórnarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lætur þess getið í nefndaráliti að ekki beri að skoða starfsemi stjóðsins of þröngt en fylgir því á engan hátt eftir með breytingartillögum í frumvarpinu né breyttu skipulagi í sjóðnum.

Stjórn sjóðsins.
    Í frumvarpinu eru mjög almenn ákvæði um sjóðinn. Einungis á einu sviði eru ítarleg ákvæði og kemur þar glöggt í ljós hver sé megintilgangur ríkisstjórnarinnar við að setja á stofn Nýsköpunarsjóðinn. Þetta áhugamál ríkisstjórnarinnar kemur fram í nákvæmri útlistun í frumvarpinu á því hvernig skuli hátta stjórn sjóðsins, þ.e. hverjir eigi að sitja í stjórn sjóðsins og hverjir velji þá. Það eru einu ítarlegu ákvæðin í þessu frumvarpi og það eina sem lögð hefur verið vinna í af hálfu ríkisstjórnarinnar við undirbúning málsins.
    Í stjórn sjóðsins eiga fimm menn sæti og er einn tilnefndur sameiginlega af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva, annar af Samtökum iðnaðarins, þriðji af Alþýðusambandi Íslands, fjórði af iðnaðarráðherra og sá fimmti af sjávarútvegsráðherra. Hér er gamalkunnug uppstilling á ferðinni. Vinnuveitendafélögin hafa forgang af hálfu ríkisstjórnarinnar við að stýra sjóðum sem eru búnir til fyrir opinbert fé.
    Nú er það ekki þannig að heildarsamtök fyrirtækja á vinnumarkaði tilnefni stjórnarmenn heldur einungis tiltekin samtök, þ.e. vinnuveitendafélög í sjávarútvegi og vinnuveitendafélag iðnfyrirtækja. Þetta tengist forsögu málsins en þessir aðilar áttu aðild að fyrri fjárfestingarlánasjóðum, þ.e. Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði. Deilur voru um eignarhald á þessum sjóðum. Það er hins vegar leyst með því að settur er á stofn Fjárfestingarbanki atvinnulífsins sem ríkið á að fullu og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem er ríkisstofnun. Þessi hagsmunasamtök sem tengjast sjávarútvegi og iðnaði fá þá dúsu að forustumenn þeirra mega sitja í stjórn þessara opinberu sjóða.
    Nú eru hvorki Samtök fiskvinnslustöðva né Landssamband íslenskra útvegsmanna fulltrúar allra sjávarútvegsfyrirtækja né allrar nýsköpunar í sjávarútvegi. Því fer víðs fjarri. Verksvið þessara samtaka er annað, þ.e. að semja um kaup og kjör. Sömuleiðis eru ekki öll iðnfyrirtæki innan vébanda Samtaka iðnaðarins, síst af öllu þau sem eru að hefja starfsferil á sviði nýsköpunar og þróunar nýrra hugmynda. Þeirra verkefni er einnig fyrst og fremst að semja um kaup og kjör og mæta verkalýðsfélögunum við kjarasamningaborðið. Ekkert er hugað að því að fá til stjórnarsetu sérhæfða aðila á sviði tölvumála, ferðamála, tækniþróunar, menntamála, líftækni, verslunar og viðskipta eða á öðrum sviðum sem hægt er að nefna sem vaxtabrodda næstu árin og áratugina.
    Hér er um hefðbundna, gamaldags aðferðafræði að ræða þar sem hagsmunasamtök nátengd ríkisstjórnarflokkunum eru leidd í öndvegi. Meginstefna ríkisstjórnarinnar er ekki heilbrigð uppstokkun atvinnulífsins, fjárfestingarlánasjóðaumhverfisins eða bankanna heldur að tryggja pólitískt forræði sitt á sem víðtækastan hátt í opinberum og hálfopinberum fjármálastofnunum.
    Hér kemur skýrt fram helmingaskiptaregla Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hefur tröllriðið íslensku atvinnulífi og íslenskri pólitík um áratuga skeið. Þessi frumvörp, rétt fyrir aldamót, staðfesta meginþætti þjóðlífs okkar nær alla þessa öld, þ.e. pólitískt forræði tveggja stærstu flokkanna á sem flestum sviðum.

Álit sérfræðinga.
    Nefndin kallaði til ráðuneytis aðila sem starfa á þessum markaði, þ.e. forsvarsmenn Þróunarfélags Íslands og Eignarhaldsfélags Alþýðubankans. Þeim bar saman um að þessi uppbygging á sjóði og sú umgjörð sem honum er ætlað að starfa í er ekki heppileg til að örva nýsköpun. Aðrar umsagnir sem bárust nefndinni benda til hins sama. Þótt flestir vilji efla nýsköpun skiptir mjög miklu máli hvernig að því er staðið.
    Hér er byggður upp viðbótarlánasjóður sem hefur lítið með nýsköpun að gera og mun í besta falli reynast gagnslítill en hugsanlega vera til trafala í uppbyggingu nýrra hugmynda og nýsköpunar vegna þess að mikið fjármagn er dregið út úr öðrum lánastofnunum til þessa sjóðs. Þannig eru þrír milljarðar af eigin fé Fjárfestingarbankans, auk hluta Iðnþróunarsjóðs, settir inn í Nýsköpunarsjóðinn og er þessi sjóður fjárhagslega sterkur.
    Sjóðurinn virðist ekki breyta nokkru sem heitið getur fyrir þau fyrirtæki sem eru í mikilli þörf fyrir áhættufjármagn. Frumvarpið tryggir þvert á móti ofurvald tveggja atvinnuvega í sjóðakerfi landsmanna. Það er brýnt að fleiri aðilar komi þar að. Alþjóðavæðing atvinnulífins getur valdið því vegna lítils framboðs á áhættufjármagni hérlendis að sífellt fleiri fyrirtæki setjist að erlendis einfaldlega vegna þess að hér eru þeim allar leiðir lokaðar. Erlendis fá þau oft nauðynlega fyrirgreiðslu og aðstoð í byrjun starfs síns. Fjölmörg dæmi þekkjast um þetta úr íslensku atvinnulífi.

Hrossakaup stjórnarliða.
    Meiri hluti nefndarinnar ákvað að taka einn milljarð í viðbót út úr Fjárfestingarbankanum og setja í Nýsköpunarsjóð en eyrnamerkja hann til sérstakra verkefna á landsbyggðinni. Þetta er mjög merkileg aðferðafræði og lýsir íslenskum stjórnmálum betur en margt annað. Þarna er búinn til lítill Byggðasjóður og sú hugmyndafræði dugði til að binda saman landsbyggðarþingmenn stjórnarliðsins í hefðbundnum hrossakaupum þeirra innan þingflokka stjórnarliðsins.
    Meiri hluti nefndarinnar treysti ekki Byggðastofnun til að úthluta þessum milljarði heldur ákvað að setja hann í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og engin fyrirmæli eða drög að lánareglum fylgja áliti meiri hlutans. Hér er tekinn einn milljarður af opinberu fé og síðan á að úthluta honum til vina ríkisstjórnarflokkanna, því að kveðið er skýrt á um að útlánareglur verði settar af ráðherra.
    Eina nýmælið varðandi þennan milljarð er að vörslu hans og umsjón á að bjóða út. Þetta kallar meiri hlutinn einkavædda byggðastefnu. Þetta er fráleit orðanotkun. Hér er einungis um það að ræða að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að fela umsjón á þessum milljarði af opinberu fé vinum sínum í fjármálaheiminum. Vitaskuld má reyna slíka aðferðafræði og láta menn bjóða í vörslu sjóðsins. 3. minni hluti hefur ekkert á móti því að samkeppni sé innleidd með þessum hætti en að hér sé um eitthvert sérstakt nýmæli og einkavædda byggðastefnu að ræða er fráleitt. Meginatriðið í þessu efni er að bætt er við sérstökum útlánum til landsbyggðarinnar án þess að nokkur stefnumótun fylgi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.
    Þriðji minni hluti er alls ekki á móti auknum lánum til landsbyggðarinnar en telur að byggðamál verði að endurmeta í víðara samhengi og móta þar nýja stefnu sem miðast að því að tryggja byggð í dreifbýli með virkum hætti. Það hefur sýnt sig að lánveitingar eingöngu hafa dugað skammt til að stöðva fólksflótta frá landsbyggðinni. Hér þarf meira að koma til, svo sem uppbygging á þjónustukjörnum, sameining sveitarfélaga, stuðningur við annan atvinnuveg en sjávarútveg og margt fleira sem ríkisstjórnin beinir ekki sjónum sínum að.

Lokaorð.
    Ljóst er að eins og frumvarpið er gert úr garði fer mjög lítið fjármagn til raunverulegrar nýsköpunar því að sjóðnum eru sett mjög ströng skilyrði um ávöxtum eigin fjár. Það er augljóst af allri uppbyggingu sjóðsins að hann verður áhættufælinn og mun því miður ekki koma að gagni við nauðsynlega nýsköpun.
    Þriðji minni hluti hefði talið raunhæfara að verja auknu fjármagni til eflingar mennta, meðal annars tæknimenntunar og æðri menntunar, veita skattalegar undanþágur vegna nýsköpunar og þróunar, leggja áherslu á aðstoð við markaðssetningu erlendis, vanda undirbúning af hálfu stjórnvalda við kortlagningu nýrra sviða og stöðu á alþjóðlegum markaði og bætta ráðgjöf við einstaklinga og frumkvöðla. Þess í stað leggur ríkisstjórnin fram gamaldags frumvarp um viðbótarlánasjóð, sem kemur að litlu gagni. Breytingartillögur meiri hlutans breyta engu í því efni.
    Þriðji minni hluti telur rétt að þetta mál verði unnið betur, fleiri aðilar sem þekkja til málsins kallaðir til við undirbúning, breiðari hópur en hér er gert ráð fyrir taki þátt í stjórn væntanlegs sjóðs og að mikilvægt er að reynsla þeirra aðila sem starfa á þessu sviði hérlendis og erlendis verði nýtt.
    Þriðji minni hluti er reiðubúinn til að taka þátt í því ásamt ríkisstjórnarflokkunum að semja nýtt frumvarp og finna þessu máli betri umgjörð þannig að nýsköpun verði efld í íslensku atvinnulífi. Þetta frumvarp gerir það ekki. Þess vegna leggur 3. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 18. apríl 1997.Ágúst Einarsson,

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.