Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 189 . mál.


991. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson, deildarstjóra í forsætisráðuneyti, og Önnu Sigríði Örlygsdóttur og Gunnar Björnsson, deildarstjóra í fjármálaráðuneyti. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá allsherjarnefnd, félagsmálanefnd, forsætisnefnd, heilbrigðis- og trygginganefnd, landbúnaðarnefnd, menntamálanefnd, samgöngunefnd, sjávarútvegsnefnd, meiri hluta umhverfisnefndar og utanríkismálanefnd Alþingis. Einnig bárust umsagnir frá Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Dómarafélagi Íslands, Félagi Háskólakennara, Félagi Háskólakennara á Akureyri, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi tónlistarskólakennara, flugráði, Jafnréttisráði, Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands, Landssambandi lögreglumanna, landlækni, Læknafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, ríkissáttasemjara, Ríkisspítölum, Sjúkraliðafélagi Íslands, Stéttarfélagi lögfræðinga, Stéttarfélagi sjúkraþjálfara og Tollvarðafélagi Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögur um breytingar á frumvarpinu á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    1. gr. verði felld brott þar sem hún hefur þegar verið lögtekin sem 1. gr. laga nr. 150/1996. Nefndin tók þau ákvæði, sem brýnt var að lögtekin væru fyrir áramót, út úr bandorminum fyrir jól og lagði fram í sérstöku frumvarpi.
    Í 2. lið breytingartillagnanna er lagt til að úr lögum um Byggðastofnun verði fellt brott ákvæði um að stjórn stofnunarinnar skuli staðfesta ráðningu helstu starfsmanna.
    Fyrir Alþingi liggja nú frumvörp til laga um Ríkisendurskoðun og um umboðsmann Alþingis þar sem m.a. er mælt fyrir um breytingar á þeim greinum sem teknar eru upp í bandorminum. Nefndin fékk þau ákvæði frumvarpanna sem lúta að starfskjörum og skipun umboðsmanns og ríkisendurskoðanda til umsagnar. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að 11.–15. gr. verði felldar brott úr frumvarpinu. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að 15. gr. snýr að skipunartíma skrifstofustjóra Alþingis. Þar sem fljótlega verður lagt fram frumvarp til breytingar á ýmsum ákvæðum þingskapalaga leggur meiri hlutinn til að þetta ákvæði verði fellt brott úr því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar en tekið á málefnum skrifstofustjóra í væntanlegu frumvarpi til breytingar á þingskapalögum.
    Í frumvarpi til laga um stöðu þjóðkirkjunnar sem er til umfjöllunar í allsherjarnefnd eru m.a. ákvæði um biskupskosningu og veitingu prestakalla. Því er lagt til að 26.–29. gr. verði felldar brott úr bandorminum.


Prentað upp.

    Lagt er til að 38. gr. falli brott, þar sem hún hefur þegar verið lögtekin sem 2. gr. laga nr. 150/1996. Af sömu ástæðum og tilteknar eru í næsta lið á undan er lagt til að 39.–45. gr. verði felldar brott úr bandorminum.
    Lögð er til leiðrétting á villu í frumvarpstexta 50. gr.
    Lagt er til að úr lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði fellt brott skilyrði um að forstjóri Vinnueftirlits ríkisins þurfi að leita samþykkis stjórnar fyrir ráðningu starfsfólks.
    54. og 55. gr. verði felldar brott þar sem þær hafa þegar verið lögteknar með lögum nr. 161/1996.
    66.–68. gr. verði felldar brott þar sem þær hafa þegar verið lögteknar með lögum nr. 150/1996.
    Lagt er til að úr lögum um opinber innkaup verði fellt brott skilyrði um að forstjóri Ríkiskaupa þurfi að hafa samráð við stjórn við ráðningu starfsfólks.
    Lagt er til að lögákveðið hámark á fjölda lögfræðinga sem starfað geti við embætti ríkislögmanns falli brott í samræmi við það markmið nýju starfsmannalaganna að fela forstöðumanni að ákveða fjölda starfsmanna í samræmi við umfang starfsemi og fjárveitingar hverju sinni.
    Tollverðir teljast til embættismanna, sbr. 22. gr. starfsmannalaga. Þeir skulu því skipaðir til fimm ára í senn. Í 71. gr. bandormsins er ákvæði um að tollverðir, sem starfa hjá einstökum tollstjórum, skuli skipaðir til fimm ára í senn. Hins vegar vantar sambærilegt ákvæði í 70. gr. hvað varðar þá tollverði sem starfa hjá embætti ríkistollstjóra. Meiri hlutinn leggur til að úr því verði bætt.
    73.–75. gr. verði felldar brott þar sem þær hafa verið lögteknar í lögum nr. 150/1996.
    B-liður 76. gr. verði felldur brott. Um skýringu vísast í næsta lið á undan.
    Lagt er til að felldur verði brott síðari efnismálsliður 77. gr. þar sem ekki þykir skýrt hvaða háskólagráður mundu flokkast undir stjórnfræði.
    Lögð er til lagfæring á orðalagi 78. gr.
    Lagt er til að yfirlæknir Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra, sem jafnframt er forstöðumaður, ráði annað starfsfólk, en í gildandi lögum er gert ráð fyrir að það sé ráðið af stjórn stofnunarinnar.
    Lagt er til að fellt verði brott úr lögum skilyrði um að forstöðumaður Geislavarna ríkisins skuli hafa samráð við stjórn stofnunarinnar við ráðningu starfsfólks.
    Lögð er til breyting á ákvæði um lögbundin hæfisskilyrði fyrir skipun í stöðu landlæknis.
    Lögð er til sambærileg breyting á hæfisskilyrðum fyrir skipun héraðslækna og að framan greinir um landlækni.
    Breytingartillaga við 84. gr. miðar að því að þeir sem teljast hafa starf framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvar að aðalstarfi, sbr. 1. gr. starfsmannalaga, skuli skipaðir til fimm ára. Í frumvarpinu er eingöngu gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvar Reykjavíkur verði skipaður. Miðað við núverandi stöðu mála mun það aðeins vera framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvar Akureyrar sem bætist við embættismannahópinn við þessa breytingu.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein um breytingu á efni 22. gr. laga um heilbrigðisþjónustu til samræmis við þá breytingu sem lagt er til að gerð verði á 84. gr. frumvarpsins.
    Lögð er til leiðrétting á villu í frumvarpstexta 86. gr.
    Lagt er til að við bætist ný grein sem feli í sér heimild fyrir heilbrigðisráðherra til að staðfesta skipurit fyrir Tryggingastofnun ríkisins að fengnum tillögum tryggingaráðs og forstjóra.
    Lögð er til sú breyting á 88. gr. að auk skipunar forstjóra Tryggingastofnunar ráði ráðherra einnig forstöðumenn einstakra sviða í samráði við tryggingaráð.
    Lagt er til að ákvæði 90. gr. um að stjórn Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins skuli gera tillögu til forstjóra um ráðningu sérfræðinga verði fellt brott. Ekki er slíkt ákvæði í gildandi lögum. Stjórnin er skipuð fulltrúum hagsmunaaðila og þykir meiri hlutanum eðlilegt og í samræmi við ákvæði starfsmannalaganna að forstjóri sé óbundinn við mannaráðningar. Þá er lagt til að lögbundin hæfisskilyrði forstjóra stofnunarinnar verði rýmkuð.
    Lagt er til að almennt skilyrði um að forstjórar rannsóknastofnana atvinnuveganna verði að leita eftir áliti stjórnar viðkomandi stofnunar við ráðningu deildarstjóra, sbr. 91. gr., verði fellt brott.
    Lögð er til sambærileg breyting á 97. gr. og hér að framan hvað varðar valdsvið forstjóra Iðntæknistofnunar.
    99. og 100. gr. verði felldar brott þar sem Rafmagnseftirlit ríkisins var lagt niður með lögum nr. 60/1979.
    Lögð er til lagfæring á orðalagi 101. gr.
    Lagt er til að ákvæði 106. gr. um að stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins skuli gera tillögu til forstjóra um ráðningu sérfræðinga verði fellt brott. Um skýringu vísast í athugasemd með breytingu á 90. gr. Þá er lagt til að lögbundin hæfisskilyrði forstjóra stofnunarinnar verði rýmkuð.
    Lagt er til að úr lögum um búnaðarfræðslu verði fellt brott skilyrði um að skólastjóri þurfi að leita eftir tillögum deildarstjórnar við ráðningu kennara. Í 22. gr. laga um búnaðarfræðslu er gert ráð fyrir að sérstök dómnefnd fjalli um hæfni umsækjenda til að gegna stöðu kennara við búvísindadeild. Í dómnefndinni eiga sæti aðilar sem lokið hafa háskólaprófi í viðkomandi grein eða eru sérfræðingar á því sviði. Það ákvæði stendur áfram.
    Lagt er til að ákvæði 117. gr. um að skólastjórn Myndlista- og handíðaskóla Íslands skuli gera tillögu til skólastjóra um ráðningu kennara verði fellt brott.
    Lagt er til að 11. gr. laga nr. 38/1965, um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, verði felld brott, enda er í breytingartillögum við 117. gr. bandormsins gert ráð fyrir að efni greinarinnar verði fært yfir í 9. gr. laganna.
    Lagt er til að skilyrði 120. gr. um að skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands skuli leita umsagnar skólaráðs og skólanefndar við ráðningu kennara og fastra starfsmanna falli brott.
    Þar sem breytingartillaga við 120. gr. gerir m.a. ráð fyrir að efni 2. mgr. 10. gr. laga nr. 65/1972, um Íþróttakennaraskóla Íslands, sé flutt yfir í 9. gr. laganna er lagt til að 2. mgr. 10. gr. falli brott.
    Lagt er til að skilyrði 125. gr. um að forstjóri Stofnunar Árna Magnússonar skuli leita umsagnar stjórnarnefndar við ráðningu sérfræðinga verði fellt brott.
    Lagt er til að ákvæði 126. gr. um að skólanefnd Fósturskóla Íslands skuli gera tillögu til skólastjóra um ráðningu kennara og annarra starfsmanna sé fellt brott.
    Lagt er til að úr lögum verði fellt brott skilyrði um að skólastjóri Leiklistarskóla Íslands skuli hafa samráð við skólanefnd við ráðningu kennara.
    Lagt er til að ákvæði 133. gr. um að forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands þurfi að leita eftir tillögum stjórnar og fá samþykki menntamálaráðuneytis við ráðningu starfsfólks sé fellt brott.
    Lagt er til að úr lögum verði fellt brott skilyrði um að framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands skuli hafa samráð við stjórn sjóðsins við ráðningu starfsfólks.
    Lagt er til að skilyrði 136. gr. um að skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands þurfi að fara eftir ábendingum skólastjórnar við ráðningu kennara verði fellt brott.
    Lagt er til að skilyrði 137. gr. um að þjóðskjalavörður þurfi að leita eftir tillögum stjórnarnefndar við ráðningu skjalavarða og fastra starfsmanna verði fellt brott.
    Lagt er til að 13. gr. laga nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistaskóla, verði samræmd við þá breytingu sem lögð er til í 140. gr. bandormsins á 12. gr. laganna.
    Lagt er til að ákvæði 141. gr. um setningu erindisbréfs verði fellt brott enda almennt ákvæði um erindisbréf í 2. mgr. 8. gr. starfsmannalaganna.
    142.–144. gr. verði felldar brott þar sem þær hafa nú þegar verið lögteknar með lögum nr. 150/1996.
    Lagt er til að skilyrði 148. gr. um að þjóðminjavörður þurfi að leita eftir tillögum þjóðminjaráðs við ráðningu safnstjóra verði fellt brott.
    Lagt er til að skilyrði 149. gr. um að forstöðumaður Íslenskrar málnefndar þurfi að leita eftir tillögum málnefndar við ráðningu starfsfólks verði fellt brott.
    Lagt er til að skilyrði 153. gr. um að forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra skuli leita eftir tillögum stjórnar við ráðningu starfsfólks verði fellt brott.
    Lagt er til að orðalag 3. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, verði aðlagað að breyttum starfsmannalögum, sérstaklega í sambandi við það að prófessorar eru nú ráðnir en ekki skipaðir í starf og ekki er lengur rétt að nota orðið „kennaraembætti“. Rétt er að taka fram að 154.–156. gr. frumvarpsins, um breytingu á háskólalögunum, voru lögfestar með lögum nr. 150/1996. Hér er hins vegar verið að leggja til nokkrar viðbótarbreytingar til frekara samræmis.
    Lögð er til breyting á 4. gr. háskólalaganna. Um skýringu vísast í næsta lið hér á undan.
    Lagt er til að 1. mgr. 12. gr. háskólalaganna verði breytt þannig að ekki leiki vafi á að sérstök heimild laganna til ráðningar án undangenginnar auglýsingar nái einnig til ráðningar prófessora.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist sex nýjar greinar um breytingu á lögum um Háskóla Íslands. Í a-lið er lögð til breyting á 14. gr. laganna til samræmis við 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna eins og honum var breytt með a-lið 16. gr. laga nr. 150/1996. Sama á við um d-liðinn um breytingu á 37. gr. laganna. Breytingartillögur b-, c-, e- og f-liðar miða að því að færa orðalag laganna til samræmis við meginreglu laga nr. 70/1996.
    Lagt er til að úr lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði fellt brott skilyrði um að framkvæmdastjóri þurfi að leita samþykkis sjóðstjórnar við ráðningu starfsfólks.
    158. og 159. gr. verði felldar brott þar sem þær hafa þegar verið lögteknar með lögum nr. 150/1996.
    Lagt er til að skilyrði 13. gr. laga nr. 64/1965 um að forstjóri Hafrannsóknastofnunar þurfi að leita eftir tillögum stjórnar við ráðningu deildarstjóra verði fellt brott. Þá er lagt til að lögbundin hæfisskilyrði forstjóra stofnunarinnar verði rýmkuð.
    Lagt er til að lögbundin hæfisskilyrði forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins verði rýmkuð.
    Lagt er til að skilyrði 173. gr. um að framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins skuli leita eftir umsögn stjórnar við ráðningu forstöðumanna verkefnasviða verði fellt brott.
    Lagt er til að skilyrði 174. gr. um að forstjóri Náttúrufræðistofnunar þurfi að leita eftir tillögum stjórnar við ráðningu deildarstjóra og sérfræðinga verði fellt brott.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum.

Alþingi, 18. apríl 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.


frsm.



Pétur H. Blöndal.

Þóra Sverrisdóttir.