Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 189 . mál.


993. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Frumvarp það sem hér um ræðir er fylgifiskur breytinga sem ríkisstjórnin knúði fram á sl. vori um málefni vinnumarkaðarins. Frumvarp þetta, sem gengið hefur undir nafninu Starfsmannabandormurinn, er einkum og sér í lagi tengt breytingum sem þá voru gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stjórnarandstaðan lagðist mjög hart gegn þeim breytingum, bæði hvað varðar efni og innihald en einnig aðdraganda málsins og samskipti ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar. Breytingarnar voru eins og kunnugt er knúðar fram í harðri andstöðu við verkalýðshreyfinguna og hefur ríkisstjórnin með framgöngu sinni stórspillt andrúmsloftinu í samskiptum þessara aðila þannig að í raun hefur ekki ríkt jafnmikil tortryggni og úlfúð milli þessara aðila um langt árabil. Um afstöðu minni hluta nefndarinnar til þessa máls má því að nokkru leyti vísa til ítarlegra nefndarálita frá sl. vori á þskj. 912, nefndarálits frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og framhaldsnefndarálits í sama máli á þskj. 1072.
    Samkvæmt rökstuðningi ríkisstjórnarinnar í greinargerð með vinnumarkaðsfrumvörpunum á sínum tíma var tilgangurinn m.a. sá að móta nýja starfsmannastefnu, að auka sveigjanleika í starfsmannahaldi, að gera launakerfið einfaldara o.s.frv. Það má til sanns vegar færa að ríkisstjórnin sé með breytingum þessum að innleiða nýja starfsmannastefnu en hitt er öllu alvarlegra hvers eðlis sú starfsmannastefna er. Í aðalatriðum felur hún í sér stóraukna miðstýringu, aukið vald sem fjármálaráðuneytið sankar að sér varðandi stjórnsýslu ríkisins og starfsmannahald, aukið geðþóttavald stjórnenda eða toppanna í ríkiskerfinu, minna samráð við starfsfólk, meira svigrúm til geðþóttaákvarðana um launamál á vinnustað, vegið er að rótum stéttarfélaganna og samningsréttur er tekinn af fjölmörgum hópum og heilum stéttum. Breytingarnar eru tvímælalaust afturför hvað varðar allt starfsmannalýðræði og andrúmsloft á vinnustað. Fleira mætti telja.
    Í Starfsmannabandorminum sjálfum er einkum gagnrýnivert hvernig dregið er úr lögbundnu samráði stjórnenda í ríkiskerfinu og einstökum stofnunum, bæði upp á við og niður á við. Stjórnendur eru leystir undan öllum skyldum um að hafa eðlilegt samráð við samstarfsfólk sitt á vinnustað, starfsmannafélög eða einstaka samstarfsmenn. Í þeim tilvikum að ríkisstofnunum eru settar stjórnir er í mörgum tilvikum dregið úr samráðsskyldu stjórnenda og viðkomandi stjórna.
    Frumvarp þetta er, rétt eins og fyrri breytingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, lagt fram í harðri andstöðu við flest öll samtök opinberra starfsmanna sem gera nánast undantekningarlaust alvarlegar athugasemdir við ýmis atriði þess. Má í því sambandi vísa í ítarlega umsögn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins sem leggur áherslu á það að grundvöllur þess að vel takist til í stefnumörkun í starfsmannamálum sé að tekið sé tillit til sjónarmiða starfsfólks. Án þokkalegs samstarfs við þessa aðila sé ekki að vænta ávinnings af breytingum. Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins sendi nefndinni einnig mjög athyglisverð gögn erlendis frá þar sem fram kemur að umræða á erlendri grund er á allt öðrum nótum en sú úrelta frjálshyggjuforneskja sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks virðist fylgja í þessum efnum og erlendis hefur verið aflögð, sem betur fer. Nútímaleg viðhorf varðandi starfsmannamál í öðrum löndum ganga út á allt aðra hluti en þá sem hér eru á ferðinni. Fyrst og fremst er reynt að virkja starfsfólk til aukinna afkasta með bættu andrúmslofti á vinnustað og með jákvæðum samskiptum af ýmsu tagi en núverandi ríkisstjórn virðist hins vegar helst telja það til árangurs fallið að standa í endalausu stríði við starfsfólk og samtök þess.
    Í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga er farið fram á það að frumvarpinu verði vísað frá með þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að í framtíðinni verði haft samráð við starfsmenn ríkisins þegar samin eru lagafrumvörp er varða réttindi þeirra. Má segja að það endurspegli dæmigerð viðhorf sem víða koma fyrir í umsögnum frá einstökum starfsmannafélögum.
    Bandalag háskólamanna sendi ítarlega umsögn ásamt ýmsum erlendum gögnum. Bandalag háskólamanna skoraði á Alþingi að hafna þeirri stefnu sem felst í frumvarpinu. Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi en þau ættu að nægja til þess að sýna að frumvarp þetta er lagt fram, rétt eins og fyrri breytingar ríkisstjórnar á löggjöf um vinnumarkaðinn, þ.e. breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, í harðri andstöðu við þá sem við eiga að búa, starfandi fólk í landinu. Með vísan til þess sem að framan segir og enn fremur til rökstuðnings í nefndarálitum og umræðum um vinnumarkaðsmálin á síðasta vori lýsir minni hlutinn yfir andstöðu við efni þessa frumvarps og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 18. apríl 1997.Steingrímur J. Sigfússon,

Ágúst Einarsson.

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.

    Eftirtöldum nefndarálitum var útbýtt með nefndarálitinu:
    Umsögn frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga.
    Umsögn frá Bandalagi háskólamanna.
    Umsögn frá Stéttarfélagi sjúkraþjálfara.
    Umsögn frá Tollvarðafélagi Íslands.
    Umsögn frá Félagi tónlistaskólakennara.
    Umsögn frá Stéttarfélagi lögfræðinga.
    Umsögn frá Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands.
    Umsögn frá Landssambandi lögreglumanna.
    Umsögn frá Læknafélagi Íslands.
    Umsögn frá Félagi háskólakennara.
    Umsögn frá Félagi háskólakennara á Akureyri.
    Umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Umsögn frá Læknafélagi Íslands.
    Umsögn frá Dómarafélagi Íslands.
    Umsögn frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins.
    Umsögn frá Sjúkraliðafélagi Íslands.
    Umsögn frá laganefnd Lögmannafélags Íslands.