Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 234 . mál.


1000. Nefndarálit



um frv. til l. um samningsveð.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið á átta fundum og fengið á sinn fund Þorgeir Örlygsson prófessor, Tryggva Gunnarsson hrl., Gunnar G. Schram prófessor, Sigurð Líndal prófessor, Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Odd Ólason frá Íslandsbanka, Björn Líndal frá Landsbanka Íslands, Kristján Ragnarsson og Jónas Haraldsson frá Landssambandi íslenskra útgerðarmanna, Þórð Ásgeirsson og Árna Múla Jónasson frá Fiskistofu, Hinrik Greipsson og Ólaf Stefánsson frá Fiskveiðasjóði, Þórunni Guðmundsdóttur hrl. og Viðar Má Matthíasson prófessor. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neytendasamtökunum, Verslunarráði Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands, Lánasýslu ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Bændasamtökum Íslands, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Landssambandi smábátaeigenda og Arnmundi Backman hrl. Einnig óskaði sjávarútvegsnefnd Alþingis eftir því að fá málið til umsagnar. Varð allsherjarnefnd við þeirri ósk og fylgir umsögn sjávarútvegsnefndar áliti þessu.
    Frumvarp til laga um samningsveð hefur áður verið til meðferðar á 116., 117., 118., og 120. löggjafarþingi en ekki hlotið afgreiðslu. Frumvarp þetta er byggt á eldri frumvörpunum, en nokkurt tillit hefur verið tekið til athugasemda sem allsherjarnefnd hafa borist þegar nefndin hefur fjallað um málið. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um samningsveðsetningar, en ákvæði um þær eru dreifðar í ýmsum lögum auk þess sem ýmis þýðingarmikil atriði eru ólögfest. Í frumvarpinu er einnig leitast við að eyða óvissu um ýmis álitaefni sem ekki er tekið á í gildandi löggjöf.
    Meðal nýmæla frumvarpsins má nefna að rýmkaðar verða heimildir þeirra sem stunda atvinnurekstur til veðsetninga og afnumin sérréttindi tiltekinna aðila við veðsetningu. Sem dæmi má nefna að heimild til veðsetningar rekstrartækja með fasteign atvinnurekstrar verður gerð almenn og mun taka til allra þeirra sem atvinnurekstur stunda en samkvæmt gildandi lögum nær þessi heimild aðeins til tiltekinna aðila. Bárust nefndinni athugasemdir um að rýmkun þessi væri of víðtæk. Meiri hlutinn getur ekki tekið undir þær ábendingar og telur að um mikið framfaraspor sé að ræða.
    Þá bárust nefndinni athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um veð í vörubirgðum og söluveð. Lýsa umsagnaraðilar þar áhyggjum sínum yfir því að lánastofnanir geti, eftir að lögin taka gildi, tekið veð í eignum og rekstrarvörum fyrirtækja, án tillits til þess hvort birgðir hafa verið greiddar eða ekki. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á að um er að ræða eitt af helstu nýmælum frumvarpsins og því verður ekki fallist á að breyta ákvæðunum. Telur meiri hlutinn að hagsmuni seljenda vöru til endursölu eða framleiðslu megi tryggja með öðrum hætti.
    Helstu breytinguna, sem gerð hefur verið á frumvarpinu síðan það var lagt fram síðast, er að finna í 4. mgr. 3. gr. Þar er fjallað um það þegar veðsett eru fjárverðmæti sem á eru skráð réttindi til nýtingar í atvinnurekstri og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt. Af þessari reglu frumvarpsins leiðir að óheimilt verður að veðsetja slík réttindi þótt aðilaskipti geti orðið að þeim með öðrum hætti. Þá leiðir ákvæðið til þess að hafi slík fjárverðmæti, t.d. veiðiskip eða lögbýli, verið veðsett verður eiganda þeirra óheimilt á gildistíma veðsetningarinnar að skilja hin úthlutuðu réttindi frá viðkomandi fjárverðmæti, nema fyrir liggi samþykki veðhafa. Hvað varðar aflahlutdeild fiskiskipa er með ákvæðinu sérstaklega verið að leggja áherslu á það viðhorf löggjafans sem fram kemur í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þeim lögum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Er 4. mgr. 3. gr. ekki ætlað að breyta þessu eðli og inntaki nýtingarréttarins. Þá er einnig rétt að leggja áherslu á að sá sem tekur veðrétt í veiðiskipi eða bújörð tekur með sama hætti og eigandi fjárverðmætanna þá áhættu að hin úthlutuðu nýtingarréttindi verði skert vegna almennra ráðstafana ríkisvaldsins eða þau jafnvel afnumin á gildistíma veðsamnings. Er ákvæðinu ekki ætlað að hefta svigrúm löggjafans til slíkra almennra ráðstafana þannig að leitt geti til bótaskyldu ríkissjóðs, hvorki gagnvart eigendum veiðiskipa og bújarða né heldur gagnvart þeim sem öðlast hafa takmörkuð réttindi yfir slíkum verðmætum. Spunnust miklar umræður um ákvæðið í nefndinni og lét nefndin vinna fyrir sig lögfræðiálit varðandi það. Voru Þórunn Guðmundsdóttir hrl. og Viðar Már Matthíasson prófessor fengin til að vinna álitin sem birt eru sem fylgiskjöl með áliti þessu. Helstu niðurstöður þeirra voru að 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins veiti ekki heimild til þess að veðsetja slík réttindi, þar á meðal aflahlutdeild fiskiskips. Þá telja þau að samþykkt frumvarpsins leiði ekki af sér skaðabótaskyldu ríkissjóðs ef Alþingi ákveður að fella úr gildi aflahlutdeildarkerfið, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða, og lögbinda sóknarmarkskerfi eða veiðileyfagjald. Einnig komust þau bæði að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði styrkti ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar.
    Loks bendir meiri hlutinn á, vegna ábendinga sem fram komu í umsögnum varðandi 2. mgr. 48. gr., að um er að ræða refsiákvæði vegna skilasvika sem lýst eru refsiverð í almennum hegningarlögum. Þykir rétt að vísa í ákvæðið hér til skýringa.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Annars vegar er um að ræða leiðréttingar á kaflaheitum, en hins vegar er lagt til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt þannig að frumvarpið taki gildi 1. janúar 1998. Er breyting þessi lögð til í ljósi þess að frumvarpið hefur það víðtækar breytingar í för með sér að nauðsynlegt er að nokkur tími líði frá samþykkt þess þar til það tekur gildi, en m.a. þarf að endurgera staðla að veðskjölum auk þess sem kynna þarf efni nýrra laga og þeirra breytinga sem þau hafa í för með sér.

Alþingi, 11. apríl 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Árni R. Árnason.


form., frsm.



Jón Kristjánsson.

Hjálmar Jónsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn sjávarútvegsnefndar.


    Á fundi sínum þriðjudaginn 18. mars sl. fjallaði sjávarútvegsnefnd um frumvarp til laga um samningsveð (234. mál), sbr. bréf allsherjarnefndar frá 13. mars síðastliðnum. Rætt var um efni 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, mætti á fund nefndarinnar.
    Ekki er samstaða í nefndinni um afstöðu til ofangreinds efnisatriðis frumvarpsins. Á fundinum kom fram það sjónarmið að rétt væri að kalla fulltrúa frá Fiskistofu fyrir út af málinu þar sem því hefur verið haldið fram að í þeim tilvikum þegar þinglýst hefur verið sérstaklega yfirlýsingu um að veðeiganda sé óheimilt að framselja aflahlutdeild án samþykkis veðhafa bæri Fiskistofu á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að ganga úr skugga um að þessa skilyrðis hefði verið gætt áður en hún staðfesti framsal. Þá veltu sumir nefndarmenn því fyrir sér hvort ákvæði 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins leiði til þess sérregla gildi um þær veðsetningar sem átt hafa sér stað frá gildistöku laga nr. 38/1990 og fram til 1. júlí 1997.


Fylgiskjal II.


Álitsgerð Viðars Más Matthíassonar prófessors.




(11 síður myndaðar.)







Fylgiskjal III.


Álitsgerð Þórunnar Guðmundsdóttur hrl.





(17 síður myndaðar.)