Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 76 . mál.


1002. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Garðar Vilhjálmsson frá Landssambandi iðnverkafólks og Verkamannasambandinu, Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins, Þorbjörn Guðmundsson frá Samiðn, Guðmund Gunnarsson og Rúnar Bachmann frá Rafiðnaðarsambandinu og Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra. Umsagnir bárust frá Landssambandi iðnverkafólks, Samiðn, Samtökum iðnaðarins, Verkamannasambandi Íslands og Vinnumálasambandinu, auk þess sem eldri umsagnir lágu fyrir.
    Frumvarp þetta er flutt til að unnt sé að uppfylla skuldbindingar Íslands um réttindi ríkisborgara eða lögaðila í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að taka upp störf í iðnaði hér á landi. Að mati Eftirlitsstofnunar EFTA hafa ákvæði fimm EES-gerða ekki verið tekin upp í landsrétt hér til fulls. Er gerð ítarleg grein fyrir umræddum tilskipunum og efni þeirra í greinargerð með frumvarpinu en í því sjálfu er valin sú leið að fela ráðherra að kveða nánar á um rétt til að taka upp störf í iðnaði hér á landi. Gerir nefndin ekki athugasemd við þá tilhögun þar sem í þessu tilviki er um eðlilega útfærslu að ræða og skýrt kemur fram hvaða tilskipanir eru gildandi. Telur nefndin það góða reglu og nauðsynlega að í reglugerð sé skýrt kveðið á um til hvaða tilskipana hún taki og beinir því til ráðuneytisins. Hafa nefndinni verið kynnt drög að reglugerð sem setja á með stoð í þeirri heimild sem frumvarpið veitir ef samþykkt verður.
    Vandinn, sem við er að eiga, er að venjulega er átt við löggiltar iðngreinar þegar rætt er um störf í iðnaði hér á landi. Málvenjan er sú að tala hér um „iðnverkafólk“ og „iðnaðarmenn“ þar sem þeir síðarnefndu starfa í löggiltum iðngreinum. Þegar fjallað er um fólk sem starfar í iðnaði í Evrópu er að jafnaði átt við fjölbreyttari faghópa en venja er hér á landi. Að einhverju leyti mun þessi vandi valda því að málið virðist flóknara úrlausnar hér á landi en ella væri.
    Meginmarkmið með lagasetningunni er að tryggja að réttur ríkisborgara EES-landa til að starfa í iðnaði hér á landi sé viðurkenndur á grundvelli umræddra tilskipana. Ákvæðin eiga einnig við um íslenskan ríkisborgara sem aflað hefur sér starfsréttinda erlendis en ljóst er að slík réttindi ávinnast ekki nema með áralöngu starfi og búsetu í öðru EES-landi eins og tilskipanirnar áskilja.
    Við meðferð málsins kom í ljós að efni tilskipananna getur einnig náð til prófréttinda. Veltur inntak réttindanna í raun á því að umræddar tilskipanir veita ekki víðtækari rétt en fyrir hendi var í upprunalandinu. Þannig felst ekki í starfsréttinum heimild til að kalla sig meistara eða svein án nánari tilgreiningar. Þá felst heldur ekki í réttinum heimild til að veita löggiltri iðngrein forstöðu, taka nema eða vinna störf sem sérstaka löggildingu þarf til nema slíkt sé í hverju einstöku tilviki í samræmi við skuldbindingarnar. Því þykir eðlilegt að í 1. mgr. sé rætt um rétt manna til að starfa í iðnaði en ekki talin upp hin ýmsu tilvik. Þá má benda á að samkvæmt skuldbindingunum þarf að færa sönnur á starf og starfsþjálfun í öðru EES-ríki.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:



    Við 1. gr. Fyrri málsliður fyrri efnismálsgreinar orðist svo: Þrátt fyrir ákvæði laga þessara hafa ríkisborgarar eða lögaðilar aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið rétt til að starfa í iðnaði á grundvelli skuldbindinga Íslands um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki.

Alþingi, 21. apríl 1997.



Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.



Sigríður A. Þórðardóttir.

Svavar Gestsson.

Árni R. Árnason.



Pétur H. Blöndal.

Sighvatur Björgvinsson.

Hjálmar Árnason.