Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 301 . mál.


1030. Nefndarálitum frv. til l. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson, Þórhall Ólafsson og Hjalta Zóphóníasson frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Ásdísi Sigurjónsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Jón Höskuldsson frá landbúnaðarráðuneyti, Ólaf Skúlason biskup, Sigurjón Pétursson, Helga Hjálmsson, Eggert Hauksson og Auði Garðarsdóttur frá Samtökum sóknarnefnda í Reykjavíkur- og Kjalarnesprófastsdæmum, Geir Waage, Ólöfu Ólafsdóttur, Braga Skúlason og Gunnar Sigurjónsson frá Prestafélagi Íslands og Þorbjörn Hlyn Árnason frá kirkjueignanefnd. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Breiðabólsstaðarsókn, kirkjueignanefnd ríkis og kirkju, Fríkirkjunni í Reykjavík, leikmannaráði þjóðkirkjunnar, Prestafélagi Íslands, Hofssókn, Sauðárkrókssókn, Vatnsfjarðarsókn, Holtssókn, biskupi Íslands, Flateyrarsókn, Munkaþverársókn, Keflavíkursókn, Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, Samverja, Seljasókn, Nessókn, Garðssókn, Djáknafélagi Íslands, kaþólsku kirkjunni á Íslandi, Búðasókn, Siðmennt, Fellasókn, Samtökum sóknarnefnda í Reykjavíkur- og Kjalarnesprófastsdæmum, Hjallasókn, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Hafnafjarðarsókn, Grafarvogssókn, Stafafellssókn, Þverársókn, Ássókn, Gunnlaugi Finnssyni, Brjánslækjarsókn, Ljósavatnssókn, Stykkishólmssókn, Ísafjarðarsókn, Lundarbrekkusókn, Seltjarnarnessókn, Akureyrarsókn, Húsavíkursókn, Digranessókn, Grenjaðarstaðarsókn, Hallgrímssókn, Háskóla Íslands, Ásatrúarfélaginu, Bakkasókn, Kársnessókn, Melstaðarsókn, Langholtssókn, Akureyjarsókn, Prestsbakkasókn, sóknarnefnd Grafarvogskirkju, Reykjavíkurprófastsdæmi, Dómkirkjusókn og Víðistaðasókn.
    Þá óskaði allsherjarnefnd eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um 9., 28. og 36. gr. frumvarpsins, en þessi ákvæði snúa að skipun í starf biskups og presta og er umsögnin birt sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Frumvarp um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar var lagt fram á 118. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar síðan frumvarpið var síðast lagt fram. Það grundvallaratriði sem liggur að baki frumvarpinu er að þjóðkirkjan fái mun meira sjálfstæði á starfs- og stjórnunarsviði sínu en verið hefur. Frumvarpið myndar ramma utan um starf þjóðkirkjunnar, en í því er að finna ákvæði um alla helstu þætti kirkjustarfsins, þar á meðal um stöðu og starfsemi embættismanna þjóðkirkjunnar, starfseiningar hennar og um ýmsa aðra þætti starfsemi hennar. Frumvarpið felur í sér verulega breytingu á stjórn kirkjunnar og gert er ráð fyrir að draga úr lagasetningu á því sviði en fela kirkjuþingi í staðinn að setja starfsreglur um ýmsa þætti í starfsemi þjóðkirkjunnar. Er frumvarpið að hluta til byggt á samkomulagi sem íslenska ríkið og þjóðkirkjan hafa gert um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.
    Nefndin hefur rætt málið ítarlega og leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Þá vill nefndin benda á varðandi skipan kenningarnefndar að eðlilegt verður að teljast að guðfræðideild Háskóla Íslands eigi fulltrúa í nefndinni.
    Mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins með nokkrum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Helstu breytingar sem nefndin leggur til eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 2. mgr. 1. gr. verði breytt í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar, þannig að kveðið verði á um að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna.
    Í öðru lagi er lagt til að 1. mgr. 11. gr. verði að sjálfstæðri grein, en þar segir að biskup Íslands hafi yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beiti sér fyrir lausn ágreiningsefna. Þykir réttara að mæla fyrir um þetta í sérákvæði, en ekki í því ákvæði þar sem fjallað er um úrskurðarnefnd.
    Þá er lögð til breyting á 20. gr. þess efnis að þingforseti kirkjuþings verði ekki kjörinn til fjögurra ára í senn eins og kveðið er á um í frumvarpinu heldur verði kirkjuþingi falið að ákveða kjörtímabil hans.
    Þá er lagt til að felldur verði brott 2. málsl. 23. gr. þar sem kveðið er á um að biskup Íslands sé forseti kirkjuráðs. Þykir óþarft að tvítaka ákvæðið, en í 10. gr., þar sem fjallað er um starfssvið biskups Íslands, er kveðið á um að hann sé forseti kirkjuráðs.
    Einnig er lagt til að 2. mgr. 24. gr. falli brott, en þar er kveðið á um að kirkjuráð kjósi sér varaforseta en biskupsritari sé ritari kirkjuráðs. Ekki þykir nauðsynlegt að kveða á um þetta í lögum, sérstaklega þar sem um rammalöggjöf er að ræða.
    Lögð er til breyting á 28. gr. í samræmi við umsögn efnahags- og viðskiptanefndar. Gerir breytingartillagan ráð fyrir að biskup útnefni prófasta úr hópi presta, en orðalag frumvarpsins þess efnis að biskup skipaði prófasta til fimm ára í senn þótti villandi og ekki í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Þá er lögð til breyting við 30. gr. þess efnis að héraðsnefndarmenn verði kosnir til tveggja ára í senn í stað fjögurra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Lagt er til að nýr málsliður bætist við 35. gr. um að ráðningartími héraðspresta skuli vera allt að þremur árum í senn. Er breyting þessi lögð fram til skýringar, í samræmi við ábendingar efnahags- og viðskiptanefndar.
    Þá leggur nefndin til að 3. og 4. mgr. 37. gr. falli brott, en þar er kveðið á um skipun og störf stöðunefndar. Telur nefndin slíka stöðunefnd óþarfa og eðlilegra að kveðið sé á um þessi málefni í starfsreglum.
    Lögð er til breyting við 38. gr. þannig að bætt verði við ákvæði um að kirkjuþing setji m.a. reglur um skilyrði til almennra kosninga.
    Lögð er til breyting á 2. málsl. 39. gr. þar sem kveðið er á um veitingu embættis sóknarprests. Felur breytingin í sér að fallið verði frá að setja prest í eitt ár og skipa hann síðan ótímabundið. Þess í stað er lagt til að veita skuli embætti prests og sóknarprests til fimm ára í senn í samræmi við 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Kveður breytingartillagan jafnframt á um það hvernig farið skuli með ef tillaga kemur fram í söfnuðinum um að embættið skuli auglýst laust til umsóknar. Er gert ráð fyrir því að slík tillaga sé aðeins gild ef hún kemur fram a.m.k. átta mánuðum fyrir lok fimm ára skipunartímans, er þar miðað við 2. mgr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um að embættismanni skuli tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Er miðað við að ferli því, sem hér er lagt til, verði lokið á tveimur mánuðum þannig að hægt sé að tilkynna presti um hvort embættið verður auglýst eða ekki innan lögmælts frests. Skylt er að leita álits úrskurðarnefndar skv. 11. gr. með atbeina biskups Íslands áður en kjörmenn afgreiða tillögu um að embættið skuli auglýst. Ef meiri hluti kjörmanna kýs að embættið verði auglýst skal senda þá samþykkt biskupi Íslands sem leggur hana fyrir ráðherra til ákvörðunar. Telur nefndin eðlilegt að sömu reglur eigi við um skipunartíma presta og annarra embættismanna, þó að embætti presta njóti óneitanlega nokkurrar sérstöðu, en reynt er að koma til móts við þau sjónarmið í síðari hluta ákvæðisins.
    Einnig er lögð til breyting á 3. mgr. 43. gr. í samræmi við athugasemdir efnahags- og viðskiptanefndar, en í þeim kom fram að orðalag ákvæðisins gæti valdið misskilningi. Er því lagt til að orðið ráðningarbréf sé notað í stað orðsins skipunarbréf.
    Lagt er til að tilvísun í ákvæði laga um trúfélög, um skráningu óskírðra í þjóðkirkjuna, í 48. gr. falli brott.
    Lagt er til að 53. gr. falli brott, en þar er kveðið á um að sóknarmönnum sé skylt að taka við kjöri í sóknarnefnd. Óeðlilegt þykir að slík skylda sé lögfest.
    Lögð er til breyting á 54. gr. er miðar að því að skýra ákvæði frumvarpsins um umsjón og aðgang að kirkjum. Gerir breytingartillagan ráð fyrir að í stað þess að mæla fyrir um að sóknarprestur skuli ráða því hvernig afnotum af kirkju skuli háttað verði nánari ákvæði um afnot af kirkju mótuð á kirkjuþingi og sett í starfsreglur, en gæta verður þess að í kirkjum fari ekkert fram sem ekki samrýmist helgi þeirra og vígslu. Er tillagan borin fram þar sem nefndinni þykir rétt að tekið verði á þessum málum á kirkjuþingi.
    Lagt er til að 57. gr. falli brott, en þar er fjallað um samstarfsnefndir sókna. Þykir nefninni óþarfi að festa slíkt samráð í lög.
    Einnig er lögð til breyting á 58. og 59. gr. þannig að sömu reglur gildi um organista og aðra starfsmenn sókna, en að fallið verði frá þeirri sérreglu sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um organista. Voru nefndarmenn sammála um að ekki væri eðlilegt að setja í lög ákveðnar kröfur um menntun fyrir organista.
    Þá leggur nefndin til að bætt verði við frumvarpið ákvæði um leikmannastefnu þess efnis að biskup Íslands boði til almennrar leikmannastefnu til að fjalla um málefni leikmanna, safnaða, hlutverk og störf sóknarnefnda og önnur mál er lúta að þjónustu kirkjunnar við söfnuði og kristileg félagasamtök. Gert er ráð fyrir að nánari reglur um leikmannastefnu verði settar í starfsreglur.
    Loks eru lagðar til þrjár breytingar á 65. gr. Annars vegar er nauðsynlegt að fella brott ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga um veitingu prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands og ákvæði b- og c-liðar 20. gr. laga um Kristnisjóð o.fl. þar sem þau samrýmast ekki ákvæðum frumvarpsins. Hins vegar er lagt til að þeir lagabálkar sem taldir eru upp í 2. mgr. falli brott 31. desember 1998, en ekki þykir eðlilegt að Alþingi framselji vald sitt til kirkjuþings með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir, auk þess sem grundvallarreglan um að lög skuli birta væri þannig brotin.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Guðný Guðbjörnsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara, m.a. varðandi samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Þá áskilja þau sér rétt til að flytja breytingartillögur og fylgja þeim.

Alþingi, 23. apríl 1997.Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir,


form., frsm.

með fyrirvara.Hjálmar Jónsson.

Jón Kristjánsson.

Árni R. Árnason.Ögmundur Jónasson,

Kristján Pálsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.


Fylgiskjal.

Umsögn efnahags- og viðskiptanefndar.


    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að skipun í starf biskups og presta. Nefndin telur eðlilegt að um skipun presta fari eftir sömu reglu og um skipun annarra embættismanna samkvæmt lögum nr. 70/1996. Því er lögð til eftirfarandi breyting á frumvarpinu:
    „Í stað orðsins „ótímabundið“ í síðari málslið 2. mgr. 39. gr. komi: til fimm ára í senn.“
    Jafnframt bendir nefndin allsherjarnefnd á að huga að tveimur atriðum, þ.e. annars vegar hvort rétt sé að tala um „skipun“ í 1. mgr. 28. gr., sbr. einnig orðið „skipunarbréf“ í 3. mgr. 43. gr., og hins vegar að gera ákvæði 35. gr. skýrara þannig að í lögunum komi fram hvort héraðsprestar skuli ráðnir eða skipaðir til afmarkaðs tíma.