Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 453 . mál.


1042. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur skrifstofustjóra og Elínu Norðmann, lögfræðing í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Jóhönnu Fleckenstein, Láru Jensdóttur og Unni Matthíasdóttur, fulltrúa fyrirburamæðra, Guðbjörgu Gunnarsdóttur og Guðbjörgu Gunnarsdóttur, fulltrúa þríburamæðra, og Sigurð Svavarsson og Ingólf Gíslason frá karlanefnd Jafnréttisráðs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 3. og 7. gr. frumvarpsins að þegar barn sem ættleiða á er sótt til útlanda skuli ættleiðandi foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar. Í frumvarpinu er rétturinn takmarkaður við ættleiðandi móður. Þetta er lagt til þar sem sú staða getur komið upp að ættleiðandi móðir komist ekki til þess að sækja barnið, t.d. vegna sjúkleika.
    Til samræmis við breytingu skv. 1. lið er lögð til breyting á 8. gr. frumvarpsins sem felur í sér breytingar á ákvæðum 16. gr. laga um almannatryggingar. Með þeirri breytingu falla orðin „eða frumættleiðingu“ í f-lið 16. gr. brott, en óbreytt felur ákvæðið það í sér að ættleiðandi faðir geti fyrst fengið greidda fæðingardagpeninga eftir að ættleiðandi móðir hefur fengið slíka greiðslu í a.m.k. einn mánuð eftir frumættleiðingu. Þá er og lögð til orðalagsbreyting á f-lið 8. gr. frumvarpsins.
    Þá mælist nefndin til þess að við endurskoðun reglugerðar um fæðingarorlof verði sérstaklega skoðuð tilvik eins og þegar stutt er á milli fæðinga barna vegna framlengds fæðingarorlofs eða fyrirburafæðinga með það fyrir augum að greiðslur skerðist ekki.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
    Sigríður A. Þórðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 1997.



Össur Skarphéðinsson,

Siv Friðleifsdóttir.

Katrín Fjeldsted.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Guðni Ágústsson.



Margrét Frímannsdóttir.

Ásta R. Jóhannesdóttir.