Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 364 . mál.


1084. Nefndarálit



um frv. til l. um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Bárust um það umsagnir frá Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands, Háskólanum á Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands og Rannsóknarráði Íslands.
    Frumvarpið felur í sér að komið verði á fót Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Er stofnunin skilgreind í frumvarpinu sem samstarfsvettvangur innan lands um málefni norðurslóða og jafnframt skuli hún stuðla að aukinni hlutdeild Íslendinga í alþjóðasamstarfi um norðurslóðamálefni. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að skipuð verði sérstök samvinnunefnd um málefni norðurslóða sem er ætlað það hlutverk að efla samstarf um stofnun Vilhjálms Stefánssonar, treysta samstarf innan lands og vera ráðherra til ráðgjafar. Leggur nefndin áherslu á að horft verði breitt til fræðasviða þegar skipað er í samvinnunefndina. Gert er ráð fyrir að unnið verði að markmiðum stofnunarinnar með söfnun og miðlun upplýsinga, samræmingu umhverfisrannsókna á norðurslóð, samstarfi við sambærilegar stofnanir erlendis og að sköpuð verði aðstaða fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknarstörf á fræðasviði stofnunarinnar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að stofnunin komi upp eigin rannsóknarstofum.
    Umhverfisnefnd er kunnugt um að starfandi er nefnd skipuð af umhverfisráðherra sem fjallar um endurskoðun á stjórn þeirrar náttúrufræðistarfsemi sem fellur undir umhverfisráðherra. Ekki er óeðlilegt að nefndin kanni hvernig tengslum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar við aðrar stofnanir á þessu sviði verði best fyrir komið.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Snúa breytingarnar að skipan og hlutverki stjórnar stofnunarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að formaður samvinnunefndarinnar verði formaður stjórnar en einnig er gert ráð fyrir að annar aðili úr samvinnunefnd sitji í stjórn og að sá þriðji verði skipaður án tilnefningar. Þá eru lagðar til breytingar á hlutverki stjórnar til samræmis við ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þar kemur fram sú stefna að forstjóri skuli hafa aukið vald til að fara með daglega stjórn stofnunar og ráðningu starfsmanna.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 1997.



Ólafur Örn Haraldsson,

Gísli S. Einarsson.

Tómas Ingi Olrich.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Kristín Halldórsdóttir.

Katrín Fjeldsted.



Ísólfur Gylfi Pálmason.

Hjörleifur Guttormsson.