Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 233 . mál.


1121. Frumvarp til laga



um vörumerki.

(Eftir 2. umr., 7. maí.)



    Samhljóða þskj. 338 með þessum breytingum:

    16. gr. hljóðar svo:
    Vörumerki skal skrá í ákveðinn flokk eða flokka vöru og þjónustu. Óheimilt er að skrá merki fyrir heilan flokk eða flokka án tilgreiningar á þeirri vöru eða þjónustu sem merki óskast skráð fyrir.
    Greiningu í vöru- og þjónustuflokka ákveður ráðherra og auglýsir.

    22. gr. hljóðar svo:
    Heimilt er að andmæla skráningu vörumerkis eftir birtingu. Andmælum ber að skila skriflega til Einkaleyfastofunnar innan tveggja mánaða frá birtingardegi og skulu þau rökstudd.
    Ef andmæli koma fram gegn skráningu vörumerkis athugar Einkaleyfastofan skráninguna að nýju í samræmi við ákvæði 19. gr. Eiganda skráningar skal tilkynnt um andmælin og gefinn kostur á að tjá sig um þau.
    Taki Einkaleyfastofan andmæli ekki til greina skal formlegur úrskurður þess efnis kynntur andmælanda og eiganda skráningar.
    Taki Einkaleyfastofan andmæli til greina skal formlegur úrskurður um ógildingu skráningar merkis, að hluta til eða öllu leyti, kynntur andmælanda og eiganda skráningar.
    Niðurstaða úrskurðar skv. 3. og 4. mgr. skal birt í ELS-tíðindum.

    32. gr. hljóðar svo:
    Vörumerki verða afmáð úr vörumerkjaskrá:
    ef skráning er ekki endurnýjuð,
    ef eigandi merkis óskar þess,
    ef skráning er lýst ógild í kjölfar andmæla,
    ef skráning er lýst ógild skv. 23. gr.,
    samkvæmt dómi um ógildingu vörumerkis,
    samkvæmt ákvörðun Einkaleyfastofunnar ef starfsemi eiganda vörumerkis hefur sannanlega verið hætt, sbr. 30. gr.,
    samkvæmt ákvörðun Einkaleyfastofunnar ef augljós mistök hafa átt sér stað við skráningu, endurnýjun eða breytingu, sbr. 31. gr.,
    ef umboðsmaður hefur ekki verið tilnefndur, sbr. 35. gr.
    Vörumerki sem eru afmáð, sbr. 1. mgr., skal birta í ELS-tíðindum.

    43. gr. hljóðar svo:
    Þeim sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn vörumerkjarétti er skylt að greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis og skaðabætur fyrir annað tjón sem af broti hans hefur hlotist.
    Þeim sem hagnast á broti gegn vörumerkjarétti, án þess að um ásetning eða gáleysi sé að ræða, er skylt að greiða hæfilegt endurgjald. Endurgjaldið má þó aldrei vera hærra en ætla má að nemi hagnaði hans af brotinu.

    67. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1997. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 47 2. maí 1968, um vörumerki, með síðari breytingum.
    Með umsóknir sem berast Einkaleyfastofunni fyrir gildistöku laga þessara skal farið eftir eldri lögum.