Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 487 . mál.


1133. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar leggst gegn þeim tillögum meiri hlutans að fella brott ákvæði 7. og 8. gr. frumvarpsins sem fela í sér hækkanir á vátryggingarfjárhæðum umferðarlaga til samræmis við breytingar sem gerðar voru á skaðabótalögum sem tóku gildi 1. júlí 1993.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu voru bætur til einstaklings vegna alvarlegra slysa hækkaðar verulega með skaðabótalögunum. Orðrétt segir í greinargerð með frumvarpinu: „Með hækkun á margföldunarstuðli skaðabótalaganna samkvæmt lögum nr. 42/1996 geta hámarksbætur vegna slysa nú orðið um 52 millj. kr. Ekki er kunnugt um tjón í slysatryggingu ökumanns sem áætlað er að muni nema hærri fjárhæð en nemur vátryggingarfjárhæðinni. Hins vegar hafa orðið nokkur slysatjón í ábyrgðartryggingu ökutækja þar sem bætur eru áætlaðar hærri eða á bilinu 20–30 millj. kr. Án lagabreytingar er ekki unnt að hækka vátryggingarfjárhæðir umferðarlaganna umfram verðlagsbreytingar. Nauðsynlegt er hins vegar að vátryggingarfjárhæðirnar séu jafnan það háar að þær hrökkvi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni og að tillit sé tekið til vaxta og kostnaðar sem við kann að bætast.“
    Vátryggingarfjárhæð vegna slysatryggingar ökumanns er nú 20 millj. kr., en í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðin hækkin í 60 millj. kr. Vegna líkamstjóns eða missis framfæranda er vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar nú 495 millj. kr. en í frumvarpinu er lagt til að hún hækki í 800 millj. kr. Hér er í báðum tilvikum um að ræða hækkanir í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki er talið að þessar breytingar á vátryggingarfjárhæðum ökutækjatrygginganna einar sér hafi teljandi áhrif á iðgjöld fyrir vátryggingar þessar. Undir það álit tekur Vátryggingaeftirlitið sem hefur frá setningu skaðabótalaganna ítrekað bent á nauðsyn þess að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum til samræmis við ákvæði skaðabótalaga. Í kjölfar samþykktar skaðabótalaga sendi eftirlitið bréf til dómsmálaráðuneytisins 18. febrúar 1994 þar sem bent var á nauðsyn þess að hækka vátryggingarfjárhæðir í umferðarlögum og hefur eftirlitið síðan árlega ítrekað þetta álit sitt við dómsmálaráðuneytið.
    Ljóst er að án slíkrar hækkunar er ekki víst að í öllum tilvikum sé fullnægjandi vátryggingarfjárhæð fyrir hendi samkvæmt skaðabótalögunum vegna tjóna sem rekja má til ökutækja. Í alvarlegum umferðarslysum er því ekki nægjanleg vátryggingarvernd fyrir hendi í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Minni hlutinn vill ekki bera ábyrgð á því að hækkun vátryggingarfjárhæðanna bíði heildarendurskoðunar á XIII. kafla umferðarlaganna, um fébætur og vátryggingu, og telur rétt að fjárhæðirnar hækki nú þegar þótt gildissvið bótareglna bíði heildarendurskoðunar. Í umfjöllun nefndarinnar um málið ítrekaði fulltrúi Vátryggingaeftirlitsins að brýnt væri að hækka vátryggingarfjárhæðirnar og leggst eftirlitið gegn því að breytingum á þeim verði frestað þar til heildarendurskoðun á XIII. kafla umferðarlaga liggur fyrir.
    Minni hlutinn mun því greiða atkvæði gegn því að fella brott 7. og 8. gr. frumvarpsins sem fjalla um hækkun vátryggingarfjárhæða í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, en greiðir atkvæði með 1. og 2. grein sem fjalla um að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvun á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Minni hlutinn styður sömuleiðis ákvæði frumvarpsins um að settar verði almennar reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja í samráði við samtök fatlaðra og þau stjórnvöld sem fara með málefni fatlaðra.

Alþingi, 9. maí 1997.



Jóhanna Sigurðardóttir,

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ögmundur Jónasson.


frsm.