Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 528 . mál.


1173. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund ýmsa sérfróða aðila auk umsagna, en þeirra er nánar getið í áliti meiri hlutans.
    Frumvarp þetta er tilkomið vegna loforða ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga, einkum gagnvart verkalýðshreyfingunni. Það er liður í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.
    Meginefni frumvarpsins eru breytingar á skattalögum þannig að skattar lækki á næstu fjórum árum um 5 milljarða kr. Það gerist með því að tekjuskattshlutfall er lækkað í áföngum um 4 prósentustig, þ.e. staðgreiðsluhlutfall lækkar úr um 42% í 38%. Barnabótakerfi er breytt þannig að ein tekjutengd greiðsla kemur í stað núverandi kerfis ótekjutengdra barnabóta og tekjutengds barnabótaauka. Jafnframt er hátekjuskattur hækkaður úr 5% í 7% sem þýðir að heildarskatturinn lækkar úr 47% í 45% þar sem almenna tekjuskattshlutfallið er lækkað um 4 prósentustig. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um að skattleysismörk hækki um 2,5% næstu þrjú árin.
    Hluti af þessu frumvarpi var lögfestur fyrir 1. maí með stuðningi stjórnarandstöðunnar, þ.e. þau ákvæði sem áttu að koma til framkvæmda í staðgreiðslu 1. maí. Stjórnarandstaðan taldi eðlilegt að launþegar yrðu ekki látnir gjalda seinagangs ríkisstjórnarinnar en málið kom seint fram á Alþingi og beið nokkurn tíma áður en mælt var fyrir því. Þau vinnubrögð eru ámælisverð.
    Í afgreiðslu frumvarpsins nú af hálfu meiri hlutans er lagt til að almenn ákvæði þess séu lögfest. Gagnrýnisvert er að skattalækkunin er látin ná upp allan tekjustigann. Þeir sem bera mest úr býtum við þessar breytingar eru því barnlaust hátekjufólk. Það þýðir að hátekjumaðurinn ber mest úr býtum við breytingarnar. Tillögur Alþýðusambandsins voru að taka upp fleiri skattþrep og láta ekki hækkunina ná til hæstu tekna. Flestar nágrannaþjóðir okkar eru með fleiri en eitt skattþrep í tekjuskatti, en við Íslendingar erum einungis með eitt þrep sem meginreglu í okkar tekjuskattskerfi.
    Ekki er hægt að gera mjög miklar breytingar á frumvarpinu þar sem það var liður í kjarasamningum og ríkisstjórnin lofaði að tryggja framgang þess. Breytingar gætu stefnt kjarasamningum í hættu, en það er ekki vilji stjórnarandstöðunnar.
    Minni hlutinn gagnrýnir hins vegar harðlega fyrirkomulag barnabóta í frumvarpinu. Engu er varið til þess að auka barnabætur, en það er brýnt. Í stað þess er alfarið tekin upp tekjutenging barnabóta sem þýðir að barnabætur lækka hjá fjölmörgum einstaklingum. Það er skoðun minni hlutans að hækka hefði þurft barnabætur og draga úr tekjutengingunni. Barnafólk hefur komið illa út úr skattabreytingum undanfarinna ára. Það er mikilvægt að sýna þeim meiri skilning við skattabreytingar. Minni hlutinn telur að til álita hefði komið að draga verulega úr eða jafnvel afnema tekjutengingu barnabóta þannig að barnabætur hefðu hækkað í áföngum á nokkrum árum. Slíkt hefði kostað um 5 milljarða kr. en verið skynsamlegt til lengri tíma.
    Frumvarpið felur ekki í sér neina uppstokkun á núverandi skattakerfi. Minni hlutinn hefur áhyggjur af millitekjuhópum í þjóðfélagi okkar sem bera þungar klyfjar af tekjuskatti. Tiltölulega fáir bera þungan hlut í tekjuskattskerfinu, en hátekjufólk hefur notið sérstakra ívilnana af hálfu núverandi ríkisstjórnar eins og sést best af því að heildarskattbyrði þess lækkar við þessar breytingar. Einnig má geta um útfærslu ríkisstjórnarinnar á svokölluðum fjármagnstekjuskatti þar sem skattar hátekjumanna sem hafa miklar vaxtatekjur voru lækkaðir verulega. Þar sýndi ríkisstjórnin hug sinn í verki.
    Minni hlutinn mun greiða þessu frumvarpi leið í gegnum þingið þar sem það tengist samningum ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna.
    Breytingartillögur meiri hlutans felast í því að felld eru úr frumvarpinu ákvæðin sem voru lögfest fyrir 1. maí. Jafnframt er gerð tillaga um að bætt verði við frumvarpið ákvæði sem er samhljóða frumvarpi á þskj. 775, þ.e. 461. máli. Það frumvarp felur í sér að hafi hjón slitið hjúskap eða samvistum á árinu og annað þeirra nýtt persónuafslátt hins við staðgreiðslu skatta skuli telja hann hinu fyrrnefnda til góða en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Þetta hefur gildi við sambúðarslit eða skilnað og hefur verið verulega íþyngjandi fyrir þann maka sem nýtt hefur persónuafslátt hins hluta tekjuárs. Minni hlutinn styður þessa breytingartillögu meiri hlutans.
    Að öðru leyti mun minni hlutinn ekki leggjast gegn frumvarpinu. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, en minni hlutinn hefði kosið aðra útfærslu á skattalækkunum til handa launafólki, einkum gagnvart millitekjufólki og barnafjölskyldum.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu.

Alþingi, 9. maí 1997.Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.