Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 485 . mál.


1180. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneytinu, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Helga Þórsson og Rúnar Guðmundsson frá Vátryggingaeftirlitinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Árna Reynissyni, löggiltum vátryggingamiðlara, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Vátryggingaeftirlitinu og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til lagfæringar á skilgreiningum í 2. gr. til einföldunar og frekari skýringar.
    Lagðar eru til breytingar á 5., 12., 16. og 21. gr. varðandi hæfisskilyrði stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, aðalumboðsmanna og vátryggingamiðlara. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessir aðilar skuli vera fjár síns ráðandi. Samkvæmt gildandi lögum mega þeir hins vegar aldrei hafa misst forræði á búi sínu. Nefndin telur eðlilegt að gera nokkuð stífar kröfur til slíkra aðila eins og annarra sem starfa við fjárvörslu eða á fjármagnsmarkaði. Því er lagt til að gerð verði sú krafa að þeir hafi ekki verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðustu fimm árum áður en þeir stofna vátryggingafélag, taka sæti í stjórn eða eru ráðnir framkvæmdastjórar þess, gerast aðalumboðsmenn erlends vátryggingafélags eða fá leyfi til að stunda vátryggingamiðlun. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að mismunandi hæfisskilyrði eru í gildi varðandi hinar ýmsu starfsstéttir, bæði hvað varðar fjárforræði og önnur atriði. Mikilsvert er að slík skilyrði séu sem sambærilegust, ekki síst meðal þeirra aðila sem starfa á sama sviði, og því ljóst að huga þarf að samræmingu á hæfisskilyrðum á næstunni.
    Lögð er til breyting á orðalagi a-liðar 13. gr. þannig að greinin verði í betra samræmi við 5. gr. tilskipunar 95/26/ESB (svokölluð BCCI-tilskipun).
    Lagt er til að 14. gr. verði orðuð upp á nýtt en frumvarpsgreinin gæti talist almennari og nokkru víðtækari varðandi afhendingu trúnaðarupplýsinga en BCCI-tilskipunin. Þá er lagt til að við bætist ákvæði úr 16. gr. tilskipunar 92/49/ESB og 15. gr. tilskipunar 92/96/ESB, sem ekki hafa verið lögfest, um upplýsingar varðandi einstök vátryggingafélög.
    Lagðar eru til breytingar á 17. gr. þar sem fylgja þarf nánar ákvæðum tilskipunar 73/239 um útibú erlendra utansvæðisfélaga.
    Lagt er til að 2. mgr. 85. gr. laganna falli brott þar sem 15. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að almennt gjaldtökuákvæði fyrir eftirlit komi í 52. gr. laganna.

Alþingi, 12. maí 1997.Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.Einar Oddur Kristjánsson.

Pétur H. Blöndal.

Steingrímur J. Sigfússon.Jón Baldvin Hannibalsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Ólafur Þ. Þórðarson.