Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 612 . mál.


1184. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.


    Í stað ártalsins „1998“ í 21. gr. laganna kemur: 1999.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lög um vörugjald af olíu, nr. 34/1995, áttu upphaflega að taka gildi 1. janúar 1996 en gildistökunni var með lögum nr. 120/1995 frestað til 1. janúar 1998 þar sem rétt þótti að kanna aðrar leiðir til að ná settu marki. Fjármálaráðherra mælti nú á vormánuðum fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögunum þar sem gert er ráð fyrir að horfið verði frá endurgreiðslukerfi en í staðinn tekið upp olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu. Málinu hefur verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar en sökum þess hve seint það kom fram hefur nefndinni ekki unnist tími til að fjalla ítarlega um það. Í umsögnum sem nefndinni hafa borist frá olíufélögunum kemur fram að viðamikið mál sé að koma upp slíku litunarkerfi og að frestur fram til næstu áramóta nægi þeim ekki í því sambandi. Því er hér lagt til að gildistöku laganna verði frestað um eitt ár en jafnframt gerir nefndin ráð fyrir að taka málið til umfjöllunar strax og það hefur verið lagt fram að nýju í upphafi næsta löggjafarþings þannig að lögfesta megi það fyrir áramót svo að litunarkerfi geti komist á í ársbyrjun 1999. Fjármálaráðherra mun þá, í samvinnu við hagsmunaaðila, vinnast tími til að skoða málið betur í sumar, m.a. með tilliti til þeirra umsagna sem efnahags- og viðskiptanefnd hafa borist.