Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 424 . mál.


1194. Nefndarálit



um frv. til l. um Lánasjóð landbúnaðarins.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Ara Teitsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Leif Kr. Jóhannesson og Gunnar Jónasson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Stefán Pálsson frá Búnaðarbanka Íslands, Gísla Karlsson og Þórólf Sveinsson frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Arnar Karlsson frá Landssamtökum sauðfjárbænda og Kristin Gylfa Jónsson frá Svínaræktarfélagi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Búnaðarbanka Íslands, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga, Bændasamtökum Íslands, Framleiðsluráði landbúnaðarins, Íslandsbanka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Tryggingamiðstöðinni hf., Sambandi íslenskra bankamanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Vátryggingafélagi Íslands hf. Einnig barst nefndinni umsögn frá efnahags- og viðskiptanefnd.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að tekið verði af skarið í lagatextanum sjálfum um að sjóðurinn teljist lánastofnun í skilningi laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þó verður hann undanþeginn skilyrði þeirra laga um hlutafélagsform.
    Lagt er til að sjóðnum verði veitt heimild til að afla sér fjár með skuldabréfaútgáfu eða öðrum sambærilegum hætti. Rétt er þó að taka fram að jafnframt er í 4. gr. gert ráð fyrir að sjóðurinn geti tekið lán samkvæmt heimildum í lánsfjárlögum á hverjum tíma.
    Lagt er til að orðalagi d-liðar verði breytt þannig að óyggjandi sé að ráðherra skuli staðfesta ársreikninga sjóðsins.
    Lögð er til lagfæring á orðalagi f-liðar 5. gr.
    Lagt er til að 6. gr. verði breytt með hliðsjón af því að landbúnaðarnefnd hefur lagt til, í frumvarpi til laga um búnaðargjald sem hún fjallaði um samhliða, breytingu á hlutfalli tekna búnaðarmálagjalds sem renna skulu til Lánasjóðs landbúnaðarins.
    Lagt er til að ákvæði 7. gr. verði rýmkað. Fram kom hjá fulltrúum Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem mættu á fund nefndarinnar að Stofnlánadeildin láni ekki bara til hefðbundinna búgreina heldur einnig ýmissar annarrar atvinnustarfsemi í sveitum. Sem dæmi var tekið lán sem veitt var bónda til að koma sér upp aðstöðu til verkunar á grásleppuhrognum.
    Lagt er til að fellt verði brott skilyrði um að lágmarkstími lána skuli vera 5 ár. Eðlilegt er að það sé samningsatriði milli lántakanda og sjóðsins. Ekki er hins vegar lögð til breyting á hámarkslánstíma, 12 eða 25 ár eftir lánaflokkum.
    Lagt er til að dregið verði úr afdráttarlausu skilyrði 11. gr. um að sjóðurinn skuli varðveita raungildi eigin fjár. Eðlilegra er að hafa það sem markmið til að stefna að.
    Lagt er til að við bætist ný grein um heimild bankaeftirlits Seðlabankans til eftirlits með starfsemi sjóðsins.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á gildistökuákvæði. Í fyrsta lagi að lögin taki gildi strax en komi þó ekki til framkvæmda fyrr en í upphafi næsta árs. Í því sambandi leggur meiri hlutinn jafnframt til að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins falli brott þar sem ekki sé eðlilegt að stjórn sjóðsins verði skipuð fyrr en við stofnun. Eðlilegra er að ráðherra skipi sérstaka nefnd er vinni að undirbúningi stofnunar sjóðsins. Til þess þarf hann ekki sérstaka lagaheimild. Þá er lagt til að orðinu „réttindum“ verði bætt við upptalningu 2. mgr. 12. gr. um hvað sjóðurinn skuli yfirtaka við stofnun. Með því er m.a. tryggt að Lánasjóðurinn yfirtaki öll skattaleg réttindi og skyldur Stofnlánadeildarinnar. Þá er lagt til að bætt verði við greinina ákvæði um að ekki skuli gefa út innköllun til lánardrottna Stofnlánadeildarinnar við yfirtökuna og ákvæði sem tryggir rétt starfsmanna Stofnlánadeildarinnar. Loks leggur meiri hlutinn til að lögum um Stofnlánadeildina verði breytt frá 1. júní nk. þannig að neytenda- og jöfnunargjald lækki samanlagt úr 2% af heildsöluverði í 0,8%.

Alþingi, 12. maí 1997.



Guðni Ágústsson,

Guðjón Guðmundsson.

Magnús Stefánsson.


form., frsm.



Sigríður Jóhannesdóttir,

Hjálmar Jónsson.

Árni M. Mathiesen.


með fyrirvara.