Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 528 . mál.


1213. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 12. maí.)



1. gr.

    Við 1. mgr. 64. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Hafi þau samnýtt persónuafslátt þannig að annar makinn hefur nýtt persónuafslátt hins á staðgreiðsluárinu, skal telja þannig nýttan persónuafslátt þeim fyrrnefnda til góða, en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Gera skal sérstaka grein fyrir þessari nýtingu með framtali að staðgreiðsluári liðnu.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „30,41%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 26,41%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
    Í stað fjárhæðarinnar „294.528“ í 1. mgr. A-liðar kemur: 286.944.
    Í stað fjárhæðarinnar „689“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 671.

4. gr.

    Í stað A- og B-liða 69. gr. laganna kemur nýr stafliður er orðast svo:

A. Barnabætur.


    Með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru skv. 1. gr., skal ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð eru skv. 63. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
    Fyrir barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu skal einungis greiða barnabætur í hlutfalli við dvalartíma þess hér á landi á því ári. Þannig skal fjárhæð barnabóta skv. 3. mgr. og skerðingarmörk vegna tekna, sbr. 4. mgr., ákvarðast í hlutfalli við dvalartímann.
    Óskertar barnabætur skulu árlega nema 102.436 kr. með fyrsta barni en 121.932 kr. með hverju barni umfram eitt. Fyrir börn yngri en sjö ára skulu barnabætur vera 30.176 kr. hærri en framangreindar fjárhæðir. Óskertar barnabætur með börnum einstæðra foreldra skulu vera 170.614 kr. með fyrsta barni. Með börnum umfram eitt skulu barnabæturnar vera 175.014 kr., en þó 30.176 kr. hærri sé barnið yngra en 7 ára. Búi framfærandi barns í óvígðri sambúð skal hann ekki teljast einstætt foreldri í þessu sambandi.
    Barnabætur skv. 3. mgr. skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 1.141.042 kr. hjá hjónum og umfram 570.521 kr. hjá einstæðu foreldri. Með tekjuskattsstofni í þessu sambandi er átt við tekjur skv. II. kafla laganna, þó ekki tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr., að teknu tilliti til frádráttar skv. 1., 3. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar skv. 31. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 5% með einu barni, 9% með tveimur börnum og 11% með þremur börnum eða fleiri.
    Barnabætur vegna hvers barns á framfæri hjóna skerðast um 1,5% af því sem eignarskattsstofn hvors hjóna fer fram úr 4.174.466 kr. uns þær falla niður. Á sama hátt skerðast barnabætur vegna hvers barns á framfæri einstæðra foreldra um 3% af því sem eignarskattsstofn foreldris fer fram úr 6.262.219 kr. uns þær falla niður.
    Fjárhæð barnabóta skal skerða um þær barnabætur eða hliðstæðar bætur sem framfærandi hefur fengið erlendis frá á sama tekjuári vegna barnsins.
    Komi í ljós að maður hefur ranglega notið barnabóta eða að barnabætur hafa verið ákvarðaðar of hátt skal skattstjóri leiðrétta þær. Um slíka leiðréttingu gilda ákvæði 95. og 96. gr. eftir því sem við getur átt.
    Barnabætur skulu ákveðnar við álagningu, sbr. X. kafla. Nánari reglur, m.a. um fyrirframgreiðslu og útborgun barnabóta, innheimtu ofgreiddra barnabóta og skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerð.

5. gr.

    Við lögin bætast ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a.     (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna skal tekjuskattur reiknast með eftirfarandi hætti við álagningu tekjuskatts árin 1998 og 1999 vegna tekna áranna 1997 og 1998:
    Við álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna ársins 1997 skal tekjuskattur reiknast 29,31% af tekjuskattsstofni.
    Við álagningu tekjuskatts á árinu 1999 vegna tekna ársins 1998 skal tekjuskattur reiknast 27,41% af tekjuskattsstofni.

    b.     (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði A- og B-liða 68. gr. laganna skal:
    Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1998 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 1999 vegna tekna og eigna árið 1998 persónuafsláttur vera 280.320 kr. og sjómannaafsláttur vera 656 kr.
    Við staðgreiðslu tekjuskatts árið 1999 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2000 vegna tekna og eigna árið 1999 persónuafsláttur vera 279.948 kr. og sjómannaafsláttur vera 655 kr.

    c.     (III.)

Sérstakur tekjuskattur manna.


    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna á árunum 1998, 1999 og 2000 skal á árunum 1999, 2000 og 2001 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.120.000 kr., eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 6.240.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
    Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.120.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.120.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.

    d.     (IV.)

Fyrirframgreiðsla manna á sérstökum tekjuskatti.


    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 1999 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 1998. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 1998 vegna tekna á árinu 1997 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2000 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 1999. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 1999 vegna tekna á árinu 1998 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2001 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember árið 2000. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2000 vegna tekna á árinu 1999 umfram 3.120.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.240.000 kr. hjá hjónum.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. Um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar skal kveða nánar á í reglugerð.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra er úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum á milli ára. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
    Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal við mismuninn bæta 2,5% álagi.

    e.     (V.)
    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt bráðabirgðaákvæði III og IV skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við getur átt.

    f.     (VI.)
    Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í 17., 30., 41., 2. mgr. 67. gr., 69., 78., 83. og 84. gr. laganna, svo og ákvæðum til bráðabirgða III og IV í lögum þessum, sem hér segir:
    1. janúar 1998 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1999 vegna tekna á árinu 1998 og eigna í lok þess árs.
    1. janúar 1999 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 og eigna í lok þess árs.
    1. janúar 2000 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,5% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2001 vegna tekna á árinu 2000 og eigna í lok þess árs.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins og kveðið er á um í þessari grein.
    Ákvæði 2. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2000 vegna tekna ársins 1999 og við staðgreiðslu á því ári.
    Ákvæði 3. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2001 vegna tekna ársins 2000 og við staðgreiðslu opinberra gjalda á því ári.
    Ákvæði 4. gr. kemur til framkvæmda við ákvörðun barnabóta á árinu 1998. Skulu barnabætur skv. A-lið 69. gr., eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku þessara laga, greiddar vegna barna sem fædd eru á þriðja ársfjórðungi ársins 1997 eða fyrr eða öðluðust heimilisfesti hér á landi fyrir 1. október 1997 og skal lokagreiðsla barnabóta þannig ákvarðaðra vera eigi síðar en 30. október 1997. Aldursmörk skulu og miðuð við umræddan ársfjórðung.
    Ákvæði til bráðabirgða í 5. gr. koma til framkvæmda eins og þar greinir.