Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 424 . mál.


1220. Nefndarálit



um frv. til l. um Lánasjóð landbúnaðarins.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Upphafið að starfrækslu sérstaks stofnlánasjóðs fyrir landbúnaðinn má rekja til Ræktunarsjóðs Íslands sem stofnaður var með lögum frá Alþingi í mars árið 1900. Ýmsar breytingar urðu síðan á fyrirkomulagi þessara mála þar til Stofnlánadeild landbúnaðarins tók til starfa 1962. Stofnlánadeildin starfar nú samkvæmt lögum nr. 45/1971, með áorðnum breytingum. Hún hefur haft tekjur úr ríkissjóði með árlegu framlagi, sérstökum sjóðagjöldum sem lögð hafa verið á framleiðsluvörur bænda og vaxtagreiðslum. Skv. 1. gr. laga nr. 45/1971 er hlutverk Stofnlánadeildarinnar að efla framleiðslu og framleiðni í íslenskum landbúnaði og treysta byggð í sveitum landsins. Því er ljóst að frumvarpinu sem hér er til meðferðar um lánasjóð landbúnaðarins er ekki ætlað að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir í þessum málum sem rekja má aftur til síðustu aldamóta. Með framlagningu frumvarpsins hefur ríkisstjórnin tekið þá pólitísku ákvörðun að viðhalda rekstri sérstaks niðurgreidds lánasjóðs fyrir landbúnaðinn þrátt fyrir að þessi stefna hafi fyrir löngu gengið sér til húðar eins og dæmin og staða greinarinnar sýna.
    Í fyrsta lagi gerir minni hluti nefndarinnar athugsemdir við þá hugmyndafræði sem birtist í frumvarpinu að áfram skuli rekinn sérstakur niðurgreiddur lánasjóður fyrir landbúnaðinn. Sú niðurgreiðsla er að mestu leyti fjármögnuð af bændum sjálfum með greiðslu sjóðagjalda. Þessi hugmyndafræði um miðstýringu í fjárfestingum greinarinnar verður enn undarlegri í ljósi þess að nú þegar er offjárfesting á ýmsum sviðum í greininni og engin hagfræðileg rök fyrir rekstri slíks niðurgreidds sjóðs. Minni hlutinn telur því að sú stefna, sem birtist í frumvarpinu, gangi gegn þeirri almennu frelsisþróun sem orðið hefur á íslenskum fjármagnsmarkaði undanfarin ár, auk þess sem frumvarpið gangi gegn veigamestu röksemdunum fyrir nauðsyn endurskipulagningar á íslenskum fjármagnsmarkaði, svo sem um formbreytingar Landsbanka og Búnaðarbanka. Því telur minni hlutinn að fara hefði átt þá leið að fella Stofnlánadeild landbúnaðarins inn í annan hvorn ríkisbankann og láta markaðinn annast almenna lánastarfsemi til landbúnaðarins eins og til annarra atvinnugreina.
    Í öðru lagi gagnrýnir minni hlutinn harðlega þá útfærslu að landbúnaðurinn skuli skattlagður sérstaklega til þess að afla tekna fyrir sjóðinn, en þær síðan notaðar til þess að endurlána fé til framleiðenda greinarinnar á niðurgreiddum vöxtum. Minni hlutinn telur að þessi miðstýrða aðferðafræði sé tímaskekkja og hefði talið mun eðlilegra að fella þessar álögur á bændur niður. Telji ríkisvaldið áfram nauðsynlegt að styðja landbúnaðinn sérstaklega sé eðlilegra að gera það með sérstökum framlögum á fjárlögum í stað þeirrar millifærslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í þriðja lagi vill minni hlutinn vekja athygli á því að þrátt fyrir tilurð þessa sjóðs og þrátt fyrir að hann sé að stórum hluta fjármagnaður af greininni sjálfri eru þau skilyrði sem sett eru fyrir lánveitingum og koma fram í 8. og 9. gr. frumvarpsins þannig úr garði gerð að það er mat minni hlutans að einungis lítill hluti bændastéttarinnar sé svo vel stæður að hann uppfylli þau skilyrði sem þar koma fram.
    Sú hugmyndafræði, sem birtist í því að á árinu 1997 ákveða stjórnvöld að viðhalda þeirri stefnu að á íslenskum lánamarkaði skuli reka sérstakan lánasjóð sem fjármagnaður sé með því að skattleggja heila atvinnugrein í því skyni að veita niðurgreidd lán til fárra útvaldra, horfir undarlega við út frá þeirri þróun sem orðið hefur á íslenskum fjármagns- og lánamarkaði.
    Þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir breytingum á tekjuöflun sjóðsins frá gildandi lögum er bændum áfram ætlað að standa undir niðurgreiðslu vaxta með sjóðagjöldum.

Alþingi, 12. maí 1997.



Lúðvík Bergvinsson,

Ágúst Einarsson.


frsm.