Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 531 . mál.


1221. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásdísi Höllu Bragadóttur frá menntamálaráðuneytinu, Lárus Jónsson og Gísla Fannberg frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Harald Guðna Eiðsson og Vilhjálm H. Vilhjálmsson frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Þórð Kristleifsson og Stefán Jóhann Arngrímsson frá Bandalagi íslenskra sérskólanema, Drífu Snædal og Brján Jónsson frá Iðnnemasambandi Íslands, Aðalstein Leifsson frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Birgi Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamanna og Hannes Þorsteinsson frá Kennarasambandi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Bandalagi háskólamanna og samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna.
    Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað frá því sem nú er, þ.e. úr allt að 7% í 4,75%. Í öðru lagi er lagt til að teknir verði upp beinir styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkum. Þannig geta námsmenn fengið mánaðarlegar greiðslur gegnum bankakerfið frá upphafi námstíma án þess að bera af þeim fjármagnskostnað. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að við ákvörðun vaxtastyrks verði komið til móts við þá námsmenn sem ekki uppfylla skilyrði til þess að fá fullt lán ef þeim tekst að ná tilskildum árangri síðar á námsárinu. Þá er lagt til að skipan stjórnar sjóðsins verði breytt þannig að stjórnarmönnum verði fjölgað úr sex í átta. Iðnnemasamband Íslands fái aðalmann í stað áheyrnarfulltrúa og menntamálaráðherra einn fulltrúa til viðbótar. Einnig er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins verði veitt sérstök heimild til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla. Loks er lagt til að tekin verði inn í lögin ákvæði vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða þrjár breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að samþykki sjóðstjórnar þurfi þegar framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Er tillagan í samræmi við þá stefnu sem mótuð var í starfsmannamálum ríkisins með samþykkt laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á 120. löggjafarþingi. Þá er lagt til að menntamálaráðherra skipi málskotsnefnd þriggja manna sem ætlað er að skera úr um það hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Getur nefndin staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nefndinni frekari starfsreglur. Loks er lögð til breyting sem snýr að því að fellt verði brott orðið „ríflegan“ í efnismálsgrein 6. gr., en nægilegt þykir að stjórnin


Prentað upp.


hafi skyldu til að áætla útsvarsstofn án þess að sérstaklega sé tekið fram að hann skuli vera ríflegur.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 1997.Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Tómas Ingi Olrich.


form., frsm.Ólafur Örn Haraldsson.

Guðmundur Hallvarðsson.