Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


121. löggjafarþing 1996–1997.
Nr. 14/121.

Þskj. 1230  —  72. mál.


Þingsályktun

um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.


    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu á grundvelli þeirra meginforsendna og markmiða sem lýst er í þingsályktun þessari. Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að framkvæma þær aðgerðir sem kveðið er á um í ályktuninni.

I. KAFLI

Meginforsendur fjölskyldustefnu.

    Fjölskyldan er hornsteinn íslensks samfélags og uppspretta lífsgilda. Ríkisstjórn og sveitarstjórnum á hverjum tíma ber að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar og búsetu.
    Opinber fjölskyldustefna hefur það markmið að efla fjölskylduna í nútímaþjóðfélagi. Verkefni hennar eru margþætt og snerta öll svið þjóðlífsins. Hún spannar því nánast öll viðfangsefni opinberrar stjórnsýslu.
    Fjölskyldustefna skal einkum taka mið af eftirfarandi meginforsendum:
     a.     að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar,
     b.     að fjölskyldan er vettvangur tilfinningatengsla,
     c.     að fjölskyldulífið veiti einstaklingum, einkum börnum, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta.

II. KAFLI

Almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu.

     1.     Að skapa skilyrði til þess að ná jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu. Að leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra í heimilishaldi og við umönnun og uppeldi barna sinna.
     2.     Að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar og leikskólar, starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldna, m.a. með fjölskylduráðgjöf.
     3.     Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.
     4.     Að gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar verði varðveitt og þess verði meðal annars gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti.
     5.     Að réttindi og skyldur sambúðarfólks verði kynnt og skilgreind í lögum.
     6.     Að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og tryggt sé að fjölskyldur geti notið stuðnings til að annast aldraða og sjúka. Öldruðum verði gert kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið er.
     7.     Að tekið verði mið af þörfum fjölskyldunnar við skipulag umhverfis, þjónustu, útivistar og umferðaröryggis.
     8.     Að fjölskyldur fatlaðra, sjúkra og annarra hópa njóti nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Grundvallarréttur þeirra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu verði virtur.
     9.     Að fjölskyldur nýbúa fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi.
     10.     Að unnið sé gegn misrétti í garð þeirra sem skera sig úr vegna kynþáttar, trúarbragða eða menningar og í garð fjölskyldna samkynhneigðra.
     11.     Að vernd gagnvart ofbeldi verði efld, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar.
     12.     Að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Þetta verði m.a. gert með auknum stuðningi við fjölskyldurannsóknir og fræðslu um fjölskylduáætlanir.

III. KAFLI

Aðgerðir í þágu fjölskyldunnar.

1.    Fjölskylduráð.
    Stofnað verði opinbert fjölskylduráð sem hafi það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar. Fjölskylduráðið verði skipað fimm mönnum. Tveir verði kosnir hlutfallskosningu af Alþingi, einn tilnefndur af skólum á háskólastigi, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga en félagsmálaráðherra skipi þann fimmta án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Fulltrúar í fjölskylduráði skulu hafa víðtæka þekkingu eða reynslu af málefnum fjölskyldunnar. Starfsemi fjölskylduráðsins skal heyra undir félagsmálaráðuneyti.
    Hlutverk fjölskylduráðs skal m.a. vera eftirfarandi:
     a.     að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum,
     b.     að annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldunnar, með hliðsjón af heildarsýn yfir viðfangsefni einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga,
     c.     að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar og veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum,
     d.     að hvetja til aðgerða á sviði fjölskyldumála í samfélaginu,
     e.     að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.

2.    Barnafjölskyldur.
    Staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar þar sem nauðsynlegt er talið.

3.    Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs.

    Að feðrum verði tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann.

4.    Tillaga um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð.
    Sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.