Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 244 . mál.


1240. Nefndarálitum frv. til l. um umboðsmann Alþingis.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gauk Jörundsson, umboðsmann Alþingis, Pál Hreinsson, aðstoðarmann umboðsmanns, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin óskaði eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um þær greinar frumvarpsins sem snúa að starfskjörum umboðsmanns Alþingis og fór þess á leit við skrifstofu Alþingis að framkvæmt yrði kostnaðarmat í samræmi við 2. mgr. 30. gr. þingskapalaga og fylgir kostnaðarmatið áliti þessu.
    Meginbreyting frumvarpsins á efni gildandi laga um umboðsmann Alþingis felst í að tryggja að starfssvið umboðsmanns nái til allrar opinberrar stjórnsýslu, bæði ríkis og sveitarfélaga, en ekki hefur verið fullt samræmi milli gildissviðs stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og starfssviðs umboðsmanns. Umboðsmaður hefur líka fram til þessa einungis getað fjallað um þær stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga sem kæranlegar hafa verið til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Þá er í frumvarpinu gengið út frá að starfssvið umboðsmanns nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur með lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Er sú heimild mjög brýn þar sem færst hefur í vöxt að einkaaðilum sé fengið slíkt opinbert vald í hendur. Þá eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar á efni, m.a. að greint verði betur á milli þeirra mála sem byrja að frumkvæði aðila sem telja rétt á sér brotinn og þeirra mála sem byrja að frumkvæði umboðsmanns Alþingis.
    Í 1. gr. frumvarpins er eins og í gildandi lögum gert ráð fyrir að umboðsmaður sé kosinn af Alþingi til fjögurra ára. Hins vegar er í 13. gr. gert ráð fyrir að forsætisnefnd ákveði laun umboðsmanns, en laun hans eru nú ákvörðuð af Kjaradómi. Nefndin telur ekki ástæðu til breytinga á þessum ákvæðum frumvarpsins. Í 13. gr. er jafnframt gert ráð fyrir að forsætisnefnd ákvarði biðlaun umboðsmanns er hann lætur af starfi, en samkvæmt gildandi lögum á umboðsmaður rétt á biðlaunum í þrjá mánuði. Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að ekki sé ástæða til að um biðlaunarétt umboðsmanns Alþingis fari eftir öðrum reglum en almennt gilda um embættismenn ríkisins og leggur nefndin til að í 13. gr. verði vísað í VI. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í 10. gr. er lagt til að fest verði í lög að umboðsmaður geti lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla. Var þetta nokkuð rætt í nefndinni, en slíkt ákvæði er nú að finna í reglum um störf og starfshætti umboðsmanns. Voru nefndarmenn sammála um að eðlilegt væri að umboðsmaður hefði heimild til að mæla með gjafsókn í dómsmáli á hendur viðkomandi stjórnvaldi ef stjórnvöld sinna ekki tilmælum hans. Fram kom í máli umboðsmanns að aðeins ætti að nýta heimild þessa í undantekningartilfellum.
    Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins leiði af sér 3,5 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, sbr. meðfylgjandi fylgiskjal.
    Með hliðsjón af því sem að framan greinir leggur allsherjarnefnd til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. maí 1997.Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.Árni R. Árnason.

Jón Kristjánsson.

Ögmundur Jónasson.Hjálmar Jónsson.

Kristján Pálsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.


    Fylgiskjal.

Skrifstofa Alþingis,
nefndasvið:Umsögn um frumvarp til laga um umboðsmann Alþingis.


    Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar frá núgildandi lögum. Helsta efnisbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að starfssvið umboðsmanns nái til stjórnsýslu sveitarfélaga á sama hátt og nú er um stjórnsýslu ríkis. Einnig er gert ráð fyrir að starfssvið umboðsmanns nái einnig til starfsemi einkaaðili að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald. Aðrar breytingar snúa helst að því að gera lögin um umboðsmann skýrari og er í því skyni gert ráð fyrir að ýmis ákvæði sem áður var að finna í reglum um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis verði tekin inn í lögin.
    Vegna aukins umfangs embættisins er gert ráð fyrir að bæta þurfi við einu stöðugildi lögfræðings. Áætlaður kostnaður vegna þess er 3,5 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar kalli á frekari kostnað.