Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


121. löggjafarþing 1996–1997.
Nr. 15/121.

Þskj. 1253  —  481. mál.


Þingsályktun

um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins.


    Alþingi ályktar að staðfesta fyrir sitt leyti stofnskrá Vestnorræna ráðsins.


Fylgiskjal.

STOFNSKRÁ


FYRIR


VESTNORRÆNA RÁÐIÐINNGANGUR


    Til viðurkenningar á

             að Færeyjar, Grænland og Ísland, vestnorrænu löndin, eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta við varðveislu á og eftirlit með nýtingu á lifandi auðlindum og öðrum auðlindum,

             að auðlindir þessar gegna veigamiklu hlutverki fyrir efnahag landanna, menningu og framtíðarþróun,

             að varðveisla og eftirlit með nýtingu á lifandi auðlindum landanna hefur auk þess þýðingu fyrir öflun matvæla almennt í heiminum,

             að löndin gera sér ljósa þýðingu þess að efla og þróa samvinnu á sviði menningar, viðskipta og samgangna, svo og samvinnu almennt, og

             að löndin, með því að efla og þróa samvinnu sín á milli, leggi sitt af mörkum til að stuðla að skilningi og friðsamlegri sambúð í heiminum

höfum við kjörnir þingmenn á Lögþingi Færeyinga, Landsþingi Grænlendinga og Alþingi Íslendinga, á grundvelli ákvarðana á Lögþingi Færeyinga þann 27. janúar 1981, Landsþingi Grænlendinga þann 23. maí 1985 og Alþingi Íslendinga þann 19. maí 1981, á fundi í Nuuk um þingræðislega samvinnu þann 24. september 1985 fundið að formleg stofnskrá, sem setur samvinnunni reglur, er nauðsynleg.
    Við samþykkjum og viðurkennum hér með stofnskrá þessa sem hefur að geyma eftirfarandi ákvæði:

1. KAFLI


1. gr.

    Vestnorræna ráðið er samstarfsaðili löggjafarþinganna á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

2. gr.

    Markmið ráðsins eru:
     a.     að starfa saman að hagsmunum Vestur-Norðurlanda,
     b.     að gæta í sameiningu auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins og greiða fyrir því að hagsmuna Vestur-Norðurlanda sé gætt af ríkisstjórnum og landsstjórnum, ekki síst þegar um alvarleg málefni er að ræða sem varða nýtingu auðlinda, mengun o.fl.,
     c.     að fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda,
     d.     að vinna með Norðurlandaráði og starfa sem tengiliður fyrir hagsmuni Vestur-Norðurlanda innan norrænnar samvinnu,
     e.     að starfa sem þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila innan Vestur-Norðurlanda og annarra alþjóðlegra sérhagsmunahópa og ríkjasamtaka, þar með talið samstarf þjóðþinga á norðurheimskautssvæðum.

3. gr.

    Markmiðum ráðsins verður náð með:
     a.     ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna,
     b.     samvinnu fagráðherra og landsstjórnarmanna,
     c.     virkri þátttöku í norrænu samstarfi,
     d.     samstarfi við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs, m.a. Vestnorræna sjóðinn og Norður- Atlantshafssamstarfsnefndina,
     e.     samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og -samtök,
     f.     skipulagningu á ráðstefnum og fundum,
     g.     dreifingu á upplýsingum.

2. KAFLI


4. gr.

    Lögþing Færeyinga, Landsþing Grænlendinga og Alþingi Íslendinga kjósa úr hópi þingmanna sex fulltrúa og sex varamenn í ráðið. Þingmenn skulu kosnir eftir hlutfallsstyrk stjórnmálaflokkanna, eftir gildandi reglum í hverju landi. Breytingar á skipan landsdeildanna skulu einnig fylgja reglum í viðkomandi landi.

5. gr.

    Ráðið telst ályktunarbært þegar meira en helmingur fulltrúa allra þriggja landsdeildanna er á fundi.

6. gr.

    Formaður ráðsins er kosinn til skiptis úr hverri landsdeild til eins árs í senn.

7. gr.

    Á hverjum aðalfundi ráðsins starfar þriggja manna forsætisnefnd. Í forsætisnefndinni eru auk formanns ráðsins einn fulltrúi tilnefndur af landsdeildum hvors hinna landanna. Forsætisnefndin hefur æðsta vald í málefnum ráðsins milli aðalfunda þess.

3. KAFLI


8. gr.

    Formaður boðar til aðalfundar ráðsins, og annarra funda, á þeim tíma og stað sem ráðið ákveður.

9. gr.

    Meiri hluti fulltrúa í ráðinu getur með milligöngu formannsins boðað til aukaaðalfundar ráðsins og velur formaður honum stað.

10. gr.

    Á fundum ráðsins má ræða sérhvert það málefni sem getur haft þýðingu fyrir samvinnu landanna.

11. gr.

    Ráðið getur samþykkt ályktanir sem beint er til eins eða fleiri af löndunum skv. a-lið 3. gr. 1. kafla. Þegar ályktanir eru sendar yfirvöldum skal gera grein fyrir því með hvaða stuðningi ráðið hefur samþykkt ályktunina.

12. gr.

    Á aðalfundi ráðsins gerir forsætisnefnd grein fyrir starfi ráðsins frá síðasta aðalfundi og leggur fram tillögur að starfsáætlun fyrir komandi ár.

13. gr.

    Á aðalfundi ráðsins leggur forsætisnefnd fram ársreikninga, ásamt fjárhagsáætlun fyrir komandi ár.

4. KAFLI


14. gr.

    Kostnaður við rekstur ráðsins skiptist þannig: Ísland greiðir 50%, Færeyjar greiða 25% og Grænland greiðir 25%.

15. gr.

    Framlög skulu greidd aðalskrifstofu fyrir 1. febrúar ár hvert.

16. gr.

    Hvert land greiðir kostnað við þátttöku fulltrúa sinna í samvinnunni. Kostnaður landsdeildanna við aðalskrifstofu greiðist einnig af hverju landi fyrir sig.

5. KAFLI


17. gr.

    Ráðið ræður sér starfsmann til allt að fjögurra ára í senn. Starfsmaðurinn skal hafa aðsetur í einu af þingum landanna samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar og vinna með þeirri skrifstofu sem hefur með málefni Norðurlandaráðs og aðrar norrænar stofnanir í löndunum að gera. Gera skal samning við það þjóðþing, þar sem skrifstofan er, um skiptingu á útgjöldum til starfsemi aðalskrifstofu.

6. KAFLI


18. gr.

    Semja skal fundarskapareglur fyrir fundi ráðsins með hliðsjón af markmiðum stofnskrárinnar. Fundarreglurnar skulu lagðar fram til samþykktar á aðalfundi ráðsins.

7. KAFLI


19. gr.

    Stofnskrá þessi er skrifuð á dönsku, færeysku, grænlensku og íslensku og eru allir textar jafnréttháir.

20. gr.

    Stofnskrána skal leggja fyrir Lögþing Færeyinga, Landsþing Grænlendinga og Alþingi Íslendinga og öðlast hún gildi er þingin hafa samþykkt hana. Sama á við um breytingar á stofnskránni.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.